Umhverfisverðlaun atvinnulífsins 2017: Tilnefningar óskast

Umhverfisverðlaun atvinnulífsins verða afhent fimmtudaginn 12. október fyrirtækjum sem staðið hafa sig vel í umhverfismálum. Athöfnin fer fram á Hilton Reykjavík Nordica á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem að þessu sinni er helgaður loftslagsmálum.

Óskað er eftir tilnefningum fyrir 12. september nk. með tölvupósti á sa@sa.is merktum: „Tilnefning til umhverfisverðlauna atvinnulífsins“.

Veitt verða tvenn verðlaun. Annars vegar verður umhverfisfyrirtæki ársins og hins vegar framtak ársins verðlaunað. Dómnefnd velur úr tilnefningum og mun meðal annars skoða eftirfarandi þætti:

Umhverfisfyrirtæki ársins

  • Hefur innleitt umhverfisstjórnunarkerfi
  • Hefur aflað viðurkenninga fyrir starfsemina/afurðirnar
  • Hefur sjálfbæra nýtingu í stefnu sinni
  • Hefur dregið úr úrgangi og nýtir aðföng vel
  • Innra umhverfi er öruggt
  • Áhættumat hefur verið gert fyrir starfsemina
  • Gengur lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á umhverfi

Framtak ársins

  • Hefur komið fram með nýjung – nýja vöru, þjónustu eða aðferð – sem hefur jákvæð umhverfisáhrif
  • Hefur efnt til athyglisverðs átaks til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni
  • Gagnast í baráttu við loftslagsbreytingar

Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Blöndustöð skarar fram úr í sjálfbærni

Starfsfólk Landsvirkjunar með Blue Planet verðlaunin

Blöndustöð Landsvirkjunar hefur hlotið Blue Planet verðlaunin, sem Alþjóða vatnsaflssamtökin (International Hydropower Association, IHA) veita verkefnum sem skara framúr í sjálfbærri nýtingu vatnsafls í heiminum. Verðlaunin voru veitt á þingi samtakanna, sem haldið var í Addis Ababa í Eþíópíu og eru mikill heiður fyrir Landsvirkjun.

Verðlaunin eru veitt á grundvelli hins alþjóðlega matslykils um sjálfbæra nýtingu vatnsafls (e. Hydropower Sustainability Assessment Protocol, HSAP), en úttekt á grundvelli hans var gerð á Blöndustöð árið 2013. Úttektin leiddi í ljós að rekstur Blöndustöðvar er framúrskarandi hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls og að á mörgum sviðum þykja starfsvenjur í Blöndustöð þær bestu sem fyrirfinnast.

Í úttektinni voru 17 flokkar teknir til nákvæmrar skoðunar og varða rekstur Blöndustöðvar, til dæmis samskipti og samráð, stjórnun á umhverfislegum og samfélagslegum þáttum, vatnsauðlindina, vinnuafl og vinnuaðstöðu, líffræðilegan fjölbreytileika og framandi tegundir ásamt rofi og setmyndun.

Niðurstöður úttektarinnar voru á þá leið að Blöndustöð uppfyllti kröfur um bestu mögulegu starfsvenjur (5 í einkunn af 5 mögulegum) í 14 flokkum af þeim 17 sem teknir voru til skoðunar. Í þremur flokkum uppfyllir Blöndustöð kröfur um góðar starfsvenjur (4 í einkunn af 5 mögulegum) og í hverjum þeirra er aðeins eitt frávik frá bestu mögulegum starfsvenjum.

Samorka og KíO undirrita samstarfssamning

Lovísa Árnadóttir upplýsingafulltrúi Samorku, Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku, Harpa Pétursdóttir formaður KíO, Auður Nanna Baldvinsdóttir gjaldkeri KíO skrifa undir samstarfssamninginn í Hofi

Samorka og Konur í orkumálum ætla í sameiningu að bæta hlutfall kvenna í orku- og veitugeiranum. Samstarfssamningur um þetta var undirritaður á Samorkuþingi, sem haldið var í Hofi á Akureyri dagana 4. – 5. maí.

Páll Erland og Harpa Pétursdóttir að lokinni undirskrift

Samstarfið getur birst á margan hátt samkvæmt samningnum, eins og til dæmis í samnýtingu gagna, upplýsingagjöf á milli aðila, sameiginlega viðburði eða sameiginlega útgáfu á efni sem varpar ljósi á stöðu kvenna innan geirans.

Samorka er einnig einn af styrktaraðilum nýrrar úttektar KíO og fyrirtækisins Ernst&Young um stöðu kvenna í íslenska orkugeiranum sem kom út á dögunum.

 

Samið um lagningu jarðstrengs

Í dag var skrifað undir samning við Steypustöð Skagafjarðar um lagningu jarðstrengs á milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur með viðeigandi greftri, slóðagerð og frágangsvinnu, Grundarfjarðarlínu 2.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnet segir að með lagningu Grundarfjarðarlínu 2, 66 kV jarðstrengs milli Ólafsvíkur og Grundarfjarðar og byggingu nýrra tengivirkja aukist afhendingaröryggi raforku á svæðinu til muna.

Vinna við undirbúning, hönnun, útboð og jarðvinnuframkvæmdir vegna byggingar tengivirkis í Grundarfirði hófst árið 2015. Framkvæmdir við Grundarfjarðartengivirki hófust árið 2016, einnig vinna við hönnun nýs tengivirkis í Ólafsvík og gengið var frá innkaupum á jarðstreng. Vinna við strenginn hefst á næstu vikum og er stefnt að því að framkvæmdum verið að fullu lokið, með yfirborðsfrágangi sumarið 2018.

Skipað í stjórn Landsvirkjunar á aðalfundi

Á aðalfundi Landsvirkjunar, sem haldinn var miðvikudaginn 26. apríl 2017, skipaði fjármála- og efnahagsráðherra aðalmenn og varamenn í stjórn Landsvirkjunar samkvæmt lögum um fyrirtækið.

Aðalmenn í stjórn Landsvirkjunar eru:
• Jónas Þór Guðmundsson
• Ragnheiður Elín Árnadóttir
• Haraldur Flosi Tryggvason
• Álfheiður Ingadóttir
• Kristín Vala Ragnarsdóttir

Þetta er í fyrsta sinn í sögu Landsvirkjunar sem konur eru í meirihluta stjórnar.

Úr stjórn fóru Jón Björn Hákonarson, Helgi Jóhannesson og Þórunn Sveinbjarnardóttir en þau hafa setið í stjórn fyrirtækisins frá árinu 2014 og var þeim þakkað fyrir vel unnin störf.

Varamenn í stjórn Landsvirkjunar eru: Ásta Björg Pálmadóttir, Páley Borgþórsdóttir, Lárus Elíasson, Ragnar Óskarsson og Albert Svan Sigurðsson.

Aðalfundurinn staðfesti skýrslu fráfarandi stjórnar og samstæðureikning fyrir liðið reikningsár, sem má finna í rafrænni ársskýrslu á landsvirkjun.is. Jafnframt var Deloitte ehf. kosið endurskoðunarfyrirtæki Landsvirkjunar að fenginni tillögu Ríkisendurskoðunar.

Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar eftir aðalfund var Jónas Þór Guðmundsson endurkjörinn formaður stjórnar og Haraldur Flosi Tryggvason var kjörinn varaformaður.

Á aðalfundinum var jafnframt samþykkt tillaga stjórnar um arðgreiðslu til eigenda að fjárhæð 1,5 milljarðar króna fyrir árið 2016.

Sólarlampaverkefnið formlega sett í gang

Samstarfsverkefni Samorku og Givewatts í tilefni af degi rafmagnsins í janúar 2017 hefur nú formlega verið hleypt af stokkunum í Mwanza í Tansaníu.

Samorka fjármagnaði gerð 160 sólarorkulampa sem koma í stað steinolíulampa við dagleg störf hjá fjölskyldum í Mwanza. Þannig verður heilsuspillandi orkugjafa skipt út fyrir hreinan, endurnýjanlegan og ódýran orkugjafa, líkt og við búum við hér á Íslandi.

Hægt er að sjá allar nánari upplýsingar um verkefnið á sérstakri síðu þess hjá Givewatts og fylgjast með framvindu þess næstu tvö árin. Upphaflega áttu lamparnir að fara á annað svæði, en eftir nánari skoðun kom í ljós að þörfin var meiri á öðrum stað einmitt nú.

Með ódýrari og heilnæmari birtugjafa verður meðal annars hægt að gefa börnum betra tækifæri til þess að stunda nám heima við eftir að skóla lýkur á daginn, sem leiðir til hærra menntunarstigs. Sólarorkulampinn getur einnig hlaðið farsíma.

Að meðaltali nýta fimm manneskjur hvern lampa á hverju heimili. Þannig breytist líf 800 manns til hins betra með þessu verkefni.

Aðalfundur JHFÍ 2017

Aðalfundur Jarðhitafélags Íslands verður haldinn í Háskóla Íslands, HT-101 á Háskólatorgi, þriðjudaginn 25. apríl kl. 14.

 

Dagskrá: sbr. 5. gr. samþykkta félagsins:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara. Samþykkt dagskrár.
2. Skýrsla stjórnar um starfsemina á liðnu ári.
3. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
4. Tillögur til breytinga á samþykktum félagsins.
5. Lögð fram fjárhagsáætlun næsta árs til samþykktar. Ákvörðun félagsgjalda.
6. Kosning stjórnar. Ennfremur skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og einn til vara.
7. Upplýsingar um inngöngu nýrra félaga.
8. Önnur mál.

Framkvæmdaleyfi Kröflulínu 4 stendur

Mastur Kröflulínu 4

Framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4 í Skútustaðahreppi stendur – úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði í dag kröfu Landverndar og Fjöreggs um að leyfið yrði fellt úr gildi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsneti í dag.

Það var mat nefndarinnar að sveitarfélagið hafi staðið rétt að útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Kröflulínu 4.

Með þessari niðurstöðu er allri óvissu um framkvæmdaleyfi Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4 eytt og öll framkvæmdaleyfi á leiðinni í gildi.

Framkvæmdir við línurnar hefjast aftur eftir páska.

Úrskurðinn má finna á heimasíðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Rekstur Norðurorku í takt við áætlanir

Ársvelta Norðurorku samstæðunnar 2016 var 3,4 milljarðar króna. Hagnaður ársins var 409 milljónir króna eftir skatta og eigið fé 8,2 milljarðar króna. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins sem haldinn var í menningarhúsinu Hofi föstudaginn 31. mars.

Rekstur samstæðunnar var nokkuð í takt við áætlanir þrátt fyrir að kostnaður við borun heitavatnsholu að Botni hafi verið afskrifaður á árinu, alls 154 milljónir króna, þar sem borun varð árangurslaus.

Aðalfundur Norðurorku 2017 – forstjóri, stjórnarformaður og fulltrúar hluthafa ásamt ritara aðalfundarins.

Í stjórn Norðurorku voru kjörin Edward Hákon Huijbens, Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Gunnar Gíslason. Í varastjórn voru kjörin, Eva Hrund Einarsdóttir, Jóhann Jónsson, Óskar Ingi Sigurðsson, Margrét Kristín Helgadóttir og Matthías Rögnvaldsson.

 

 

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um reksturinn, ársskýrslu 2016 og verkefnin framundan hjá Norðurorku á heimasíðu fyrirtækisins.

Birna Ósk Einarsdóttir til Landsvirkjunar

Birna Ósk Einarsdóttir er nýr framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar.

Birna Ósk Einarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar.

Hlutverk sviðsins er að hámarka tekjur Landsvirkjunar til langs tíma. Í því felst þróun, kynning og sala á orkuvörum og þjónustu, samskipti við núverandi og væntanlega viðskiptavini vegna samninga og reksturs þeirra auk greiningar viðskiptatækifæra.

Framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs heyrir undir forstjóra Landsvirkjunar.

Birna Ósk hefur verið framkvæmdastjóri hjá Símanum frá árinu 2011, síðast yfir sölu- og þjónustusviði. Birna Ósk hefur starfað hjá Símanum frá árinu 2001, fyrst við almannatengsl og mannauðsráðgjöf. Hún var forstöðumaður verkefnastofu Símans á árunum 2006 til 2010 og stýrði samhliða markaðsmálum 2009-2010 þar til hún tók við stöðu framkvæmdastjóra.

Birna Ósk er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík, með M.Sc. gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og hefur lokið AMP námi fyrir stjórnendur frá IESE Business School í Barcelona.