17. janúar 2018 Hversu verðmætt er vatnið okkar? Hversu verðmætt er vatnið okkar? Þessari spurningu var leitast við að svara í víðu samhengi á opnum morgunverðarfundi Samorku í morgun, sem haldinn var á Icelandair Hótel Natura með yfirskriftinni Verðmætin í vatninu. Fjallað var um kaldavatnsauðlindina á Íslandi, vatnsvernd og samstarf við hagsmunaaðila um umgengni á vatnsverndarsvæðum og þegar slys verða við vatnsból, vatnið sem undirstöðu í allri matvælaframleiðslu og ný greining á virði vatnsins fyrir samfélagið var kynnt. Niðurstaðan var sú að virði hreins vatns er langt umfram bókhaldslegt virði vatnsveitna. Virðið felst ekki síst í þeim kostnaði sem við sleppum við vegna þess hversu auðlindin er ríkuleg hér á landi og að við þurfum hvorki að bæta neinu við vatnið né hreinsa úr. Neikvæð áhrif mengaðs vatns á heilsufar landsmanna væri mælt í milljörðum króna. Það er því ákaflega mikilvægt að sameinast um vernda auðlindina hér á landi og bera virðingu fyrir henni. Fundurinn var vel sóttur, enda umræðuefnið hvað hæst á baugi í samfélagsumræðunni um þessar mundir. Fundurinn í heild sinni: Kristján Geirsson, verkefnastjóri hjá Orkustofnun, fjallaði um vernd og nýtingu vatns á Íslandi Jón Skafti Gestsson, orku- og umhverfishagfræðingur hjá Lotu, kynnti greiningu sína á virði vatns Gunnur Ýr Stefánsdóttir, verkefnastjóri Norðurorku, fjallaði um samstarf fyrirtækisins við Neyðarlínuna þegar slys koma upp á vatnsverndarsvæði Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Veitna og Hlín Benediktsdóttir, rekstrarstjóri vatnsveitu Veitna, fjölluðu um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu Stefán Magnússon, markaðsstjóri Coca-Cola á Íslandi, talaði um mikilvægi vatnsins fyrir framleiðslu fyrirtækisins
16. janúar 2018 Neysluvatn á höfuðborgarsvæðinu öruggt Ekki er talin hætta á heilsufarslegum afleiðingum við neyslu vatns í Reykjavík. Niðurstaða fundar í samstarfsnefnd um sóttvarnir í morgun var sú að mengun sem mældist í neysluvatni víða í Reykjavík og á Seltjarnarnesi sé einangrað fyrirbæri í kjölfar mikilla vatnavaxta. Samstarfsnefndin telur ekki þörf á að almenningur á svæðum þar sem mengunin hefur mælst sjóði vatn fyrir neyslu og ekki sé þörf á sérstökum varúðarráðstöfunum. Einnig er óhætt að nota neysluvatnið í matvæla- og drykkjarframleiðslu. Veitur og heilbrigðiseftirlitin á höfuðborgarsvæðinu munu áfram fylgjast með gæðum neysluvatns og mun birta niðurstöður mælinga á sínum vefsíðum. Samstarfsnefndin mun áfram fylgjast náið með ofangreindri mengun og mun birta leiðbeiningar til almennings þegar tilefni gefst til. Hægt er að lesa tilkynningu frá sóttvarnalækni í heild sinni á heimasíðu embættisins.
16. janúar 2018 Hvað eru jarðvegsgerlar? Á vef Veitna má finna svör við ýmsum spurningum sem kunna að brenna á fólki eftir að fjölgun jarðvegsgerla mældist í kalda vatninu í Reykjavík. Hætta er ekki á ferðum fyrir almenning, en í varúðarskyni mælir Heilbrigðiseftirlitið að neysluvatn í vissum hverfum borgarinnar sé soðið ef um neytendur er að ræða sem eru viðkvæmir t.d. með lélegt ónæmiskerfi, ungabörn, aldraðir eða fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Þetta á við um öll hverfi borgarinnar nema Grafarvog, Norðlingaholt, Úlfarsárdal, Kjalarnes auk Mosfellsbæjar, sem fá vatn frá öðrum svæðum í Heiðmörk þar sem ekki hefur mælst gerlafjöldi yfir viðmiðunarmörkum. Fátítt er að óæskilegir gerlar finnist í neysluvatni úr Heiðmörk. Í hlákutíð er þó meiri hætta á að gerlar frá yfirborði berist í grunnvatn. Unnið er eftir skráðu verklagi til að bregðast við þessari hættu. Hér koma spurningarnar og svörin: Eru jarðvegsgerlar hættulegir? Ekki í litlu magni. Nota má vatnið eins og vanalega. Heilbrigðiseftirlitið hefur í varúðarskyni gefið út að viðkvæmt/veikt fólk, ungbörn og aldraðir ættu að drekka soðið vatn. Jarðvegsgerlar er heiti yfir fjölmarga gerla (bakteríur) sem finnast í umhverfi okkar og eru nauðsynlegir fyrir lífríkið og yfirleitt alveg skaðlausir. Hafa fundist E.coli gerlar (saurkólígerlar)? Í síðustu viku fundust E.coli gerlar í þremur sýnum, einn í hverju. Þær holur voru teknar strax úr rekstri. Í staðfestum niðurstöðum nýjustu sýna fundust 2 gerlar í sýni úr holu sem ekki er verið að nota. Má elda úr vatninu? Já, suða drepur jarðvegsgerlana. Hvaðan koma þessi gerlar? Gerlarnir berast með úrkomu af yfirborði ofan í grunnvatn og þaðan í borholurnar. Hláka eykur líkur á að slíkt gerist. Borholur sem safna grunnvatni af litlu dýpi eru viðkvæmari fyrir þessu. Af hverju gerist þetta núna? Það hafa verið sérstakar veðuraðstæður undanfarið. Mikil hláka í kjölfarið á löngum frostakafla. Við slíkar aðstæður kemst yfirborðsvatn auðveldar ofan í grunnvatnið sem við erum svo að dæla úr borholunum. Hversu lengi má búast við að aukið gerlamagn finnist í vatninu? Við teljum líklegt að þar sem hlákuveðrið er búið og komið frost þá séum við að sjá fyrir endann á þessu. Við reynum að staðfesta það með niðurstöðum úr sýnatökum á næstu dögum. Hvernig ætla Veitur að bregðast við? Viðbragðsáætlun vegna hláku er í gildi allan veturinn (borholur í Gvendarbrunnum eru t.d. viðkvæmar fyrir auknu gerlamagni vegna hláku og því ekki í notkun frá október fram til loka mars, samkvæmt áætluninni). Við tökum líka holur úr rekstri í hláku sem eru viðkvæmar fyrir ofanvatninu sem ber gerlana. Viðbragðsáætlunin verður yfirfarin. Sýnatökum verður fjölgað og fyrirbyggjandi aðgerðir skoðaðar. Hversu oft eru tekin sýni? Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekur sýni úr dreifikerfinu tvisvar í viku. Veitur taka taka að auki sýni í hlákutíð í öllum borholum sem eru í notkun. Það var við slíkt eftirlit sem þessi frávik komu í ljós. Sýnataka hefur verið aukin mjög í ljósi þessara tíðinda. Hversu oft mælast gerlar yfir mörkum í neysluvatninu? Árið 2011 komu síðast staðfestar niðurstöður um frávik í gerlamagni í borholu í Heiðmörk. Af og til gerist það að sýnataka misheppnast þannig að hún sýni aukið gerlamagn sem frekari sýnataka hefur ekki staðfest. Hverjir fá vatnið frá borholum Veitna í Heiðmörk? Vatn frá vatnstökusvæðum Veitna í Heiðmörk fer til íbúa og fyrirtækja í Reykjavík, Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ. Aukinn fjöldi gerla fannst í vatni sem fer til íbúa í Reykjavík NEMA þeirra sem búa í Grafarvogi, Norðlingaholti, Úlfarsárdal, Kjalarnesi auk Mosfellsbæjar, sem fá vatn frá öðrum svæðum í Heiðmörk. Á morgun, miðvikudaginn 17. janúar, býður Samorka á opinn morgunverðarfund sem ber yfirskriftina Verðmætin í vatninu. Á fundinum verður fjallað um mikilvægi vatnsverndar og hversu mikils virði það er okkur. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir, en skráningar er óskað.
29. desember 2017 Hlöðum fjölgar hratt – tvær opnaðar á Austurlandi Nýja hlaðan í Freysnesi Orka náttúrunnar hefur tekið tvær hlöður fyrir rafbílaeigendur í notkun, á Egilsstöðum og í Freysnesi í Öræfum. Hlaðan á Egilsstöðum er við þjónustustöð N1, sem er miðsvæðis í bænum og liggur vel við samgöngum í landshlutanum. Báðar hlöðurnar eru búnar hraðhleðslum sem geta þjónað flestum gerðum rafbíla auk hefðbundinna hleðsla. Að auki segir Bjarni Már Júlísson, framkvæmdastjóri ON, segir undirbúning vegna nýrrar hlöðu ON á Stöðvarfirði langt kominn og á næsta ári verði hringveginum lokað með hlöðum á leiðinni milli Austurlands og Norðurlands og við Hornafjörð. Nú í desember hafa fjórar hlöður bæst við þetta net innviða sem ON hefur byggt upp til að þjóna rafbílaeigendum. Markmið orkufyrirtækisins er að ýta undir og flýta orkuskiptum í samgöngum sem eru í senn umhverfisvænar og hagkvæmar. Auk þeirra tveggja sem opnaðar voru í gær, voru hlöður á Djúpavogi og við Jökulsárlón teknar í notkun fyrr í mánuðinum. Samstarfsaðilar ON í uppbyggingu þessa mikilvægu innviða eru N1 og Skeljungur, auk þess sem ON hefur notið fjárstyrks úr Orkusjóði.
21. desember 2017 Jólakveðja frá Samorku Samorka óskar landsmönnum öllum hlýlegra jóla með birtu og yl og þakkar gott samstarf á árinu sem er að líða.
24. nóvember 2017 Lokaáfanganum náð í skólphreinsun á höfuðborgarsvæðinu Nýja stöðin var tekin í notkun fimmtudaginn 23. nóvember 2017. Ný hreinsistöð skólps á Kjalarnesi hefur tekin í notkun. Þar með er allt þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu tengt við hreinsistöðva og því risavaxna verkefni, sem uppbyggingarátak fráveitu höfuðborgarinnar hefur verið frá árinu 1995, er lokið. Hreinsun strandlengjunnar í kjölfarið hefur verið nefnd stærsta skref í umhverfishreinsun sem stigið hefur verið hér á landi. Hönnun hreinsistöðvarinnar á Kjalarnesi hófst 2006 og var smíði hennar boðin út í áföngum 2007 og 2008. Á árunum 2008-2010 voru mannvirkin byggð, dælubrunnar settir niður og megnið af lagnavinnu klárað. Hrunið og slæm fjárhagsleg staða Orkuveitu Reykjavíkur á þessum tíma varð svo til þess að framkvæmdum var frestað. Þær hófust svo aftur með lagningu sjólagnar árið 2015. Stöðin þjónar íbúum Grundahverfis þar sem búa á sjötta hundrað manns. Hreinsistöðin hreinsar öll gróf efni úr skólpinu auk þess að sía frá sand og fitu. Skólpinu er því næst dælt um kílómetra út í sjó. Veitur buðu Kjalnesingum og öðrum Reykvíkingum að skoða nýju stöðina þegar hún var tekin í notkun og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, ávarpaði gesti ásamt Ingu Dóru Hrólfsdóttur, framkvæmdastjóra Veitna. Borgarstjóri óskaði Kjalnesingum til hamingju með nýju hreinsistöðina Inga Dóra kynnir nýju trektina frá Veitum, sem ætlað er að auðvelda fólki að safna og endurvinna olíu frá matargerð í stað þess að hella henni í fráveituna Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu hjá Veitum
21. nóvember 2017 Stórt stökk framundan í fráveitumálum Fundurinn var vel sóttur Skólp verður hreinsað hjá 90% landsmanna eftir fimm ár nái þær framkvæmdir sem áætlaðar eru fram að ganga. Í dag er hlutfallið 77%. Á þessu ári bætast hátt í 10.000 landsmenn í þann hóp að búa við skólphreinsun þegar nýjar hreinsistöðvar í Borgarnesi, á Akranesi og á Kjalarnesi verða teknar í notkun. Þetta kom fram í nýrri greiningu EFLU um framtíðarhorfur í fráveitumálum og kynnt var á opnum fundi Samorku, Hlúum að fráveitunni, sem haldinn var í tilefni af alþjóðlegum degi klósettsins. Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna hjá EFLU, kynnir greiningu sína á fundinum Reynir Sævarsson, fagstjóri vatns- og fráveitna hjá verkfræðistofunni EFLU rýndi í nýlega skýrslu Samtaka iðnaðarins um stöðu innviða í landinu þar sem kom fram að fjárfestinga væri sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Reynir segir þurfa að bæta ástand lagnakerfanna, klára að hreinsa skólp, hreinsa meira ofanvatn og að styrkja þurfi kerfið til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða, þar af kosti skólphreinsunin um 20 milljarða. Á næstu fimm árum er fyrirséð að fjárfest verði í skólphreinsistöðvum fyrir um fimm milljarða og mun það hífa hlutfall landsmanna sem tengdir eru slíkum stöðvum úr 77% í 90%. Síðustu 10% séu alltaf erfiðust að mati Reynis, en þar eru um að ræða minnstu byggðir landsins og rotþrær við sumarhús. Helgi Jóhannesson ásamt Jóhönnu B. Hansen fundarstjóra Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku, kallaði eftir því að staða og sjálfstæði fráveitna yrði tryggð, þannig að fjármunir sem ætlaðir væru fráveitumálum færu raunverulega í uppbyggingu og rekstur fráveitna hjá sveitarfélögum. Helgi sagði kostnað við framkvæmdir mikinn og fráveitugjöld nái oft á tíðum ekki upp í þann kostnað nema að litlum hluta, þar sem þau miðast við fasteignamat sem oft á tíðum er lágt í litlum bæjarfélögum. Það ætti einnig að skoða frekari aðkomu ríkisins að kostnaði við fráveituframkvæmdir, til dæmis með endurgreiðslu virðisaukaskatts. Þá fjallaði Íris Þórarinsdóttir um fjölbreytt viðfangsefni fráveitu í nútímasamfélagi og martröðina í pípunum; blautþurrkur og önnur efni eða hluti sem fólk setur í klósettið í stað ruslatunnunnar. Nefndi hún til dæmis efni, sem hafa endilega áhrif á kerfin hjá fráveitunum heldur á viðtakann svo sem lyf og fíkniefni. Einnig fjallaði Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, um það grettistak sem lyft hefur verið í fráveitumálum hér á landi undanfarna áratugi. Á árunum 1992-2005 fór hlutfall landsmanna sem tengdir eru skólphreinistöð úr 6% í 68% og nú árið 2017 er hlutfallið orðið 77%. Gríðarlegt rask fylgi slíkum framkvæmdum sem standi yfir mánuðum saman þannig að ekki mætti gleyma þessu mikla átaki sem ráðist var í þrátt fyrir að gera mætti enn betur eins og staðan er í dag. Hér má sjá fyrirlestrana í heild sinni:
20. nóvember 2017 Rekstrarstaða OR eftir 9 mánuði prýðileg Rekstrarkostnaður Orkuveitu Reykjavíkur fyrstu níu mánuði ársins 2017 var lægri en sömu mánuði í fyrra. Ytri rekstrarskilyrði hafa um margt verið hagstæð það sem af er ári og nam hagnaður fyrstu níu mánaðanna 10,5 milljörðum króna. Innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur eru, auk móðurfélagsins; Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur. Samanlagður rekstrarkostnaður fyrirtækjanna lækkaði frá fyrra ári. Í fjárhagsspá fyrir næsta ár, sem birt var 20. október síðastliðinn, er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður haldi áfram að lækka. Þetta skilar sér til viðskiptavina því á þessu ári hefur gjaldskrá fyrir kalt vatn lækkað og gjaldskrá fyrir dreifingu rafmagns lækkað tvisvar. Verulegur hluti raforkusölu ON, dótturfyrirtækis OR, er tengdur álverði, sem hefur hækkað nokkuð frá áramótum. Þetta hefur skilað auknum tekjum á árinu. árshlutauppgjörum hefur Orkuveita Reykjavíkur gefið út lykiltölur fjármála. Þær eru nú á vef OR. Á vefnum er einnig að finna árshluta- og ársreikninga OR og dótturfyrirtækja fyrir síðustu ár. Nánari upplýsingar má sjá á vef OR.
18. nóvember 2017 Þeistareykjavirkjun gangsett Ráðherrarnir gagnsetja virkjunina með samskiptum við stjórnstöð Landsnets og vaktmann á Þeistareykjum í gegnum TETRA-kerfið. 17. aflstöð Landsvirkjunar að Þeistareykjum var gangsett í dag við hátíðlega athöfn. Um er að ræða þriðju jarðvarmastöð fyrirtækisins, en fyrir eru Kröflustöð og gamla gufustöðin í Bjarnarflagi. Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöð sem Landsvirkjun byggir frá grunni. Þeistareykjastöð verður 90 MW. Hún er reist í tveimur 45 MW áföngum og var vélasamstæða 1 gangsett í dag og tengd við flutningskerfi Landsnets. Fjármála- og efnahagsráðherra, Benedikt Jóhannesson, og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, gangsettu virkjunina í sameiningu. Hörður Arnarson forstjóri sagði í ávarpi sínu að framkvæmdin hefði tekist vel og lögð hefði verið mikil áhersla á samskipti og samráð og umhverfis- og öryggismál. Í ávarpi sínu sagði Þórdís Kolbrún iðnaðarráðherra að um þjóðhagslega hagkvæman virkjunarkost væri að ræða, sem myndi auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa og hafa jákvæð áhrif í víðtækum skilningi. Mikil áhersla er lögð á varfærna uppbyggingu og nýtingu jarðvarmans á svæðinu, en fyrir liggur mat á umhverfisáhrifum fyrir allt að 200 MW virkjun á svæðinu. Uppsetning á vélasamstæðu 2 er nú í fullum gangi og er stefnt að því að orkuvinnsla hennar hefjist í apríl 2018. Nánari upplýsingar um sögu virkjunarinnar má sjá á vef Landsvirkjunar.
14. október 2017 Sérfræðingur í upplýsingaöflun og greiningum Samorka óskar eftir að ráða drífandi einstakling sem býr yfir miklu frumkvæði, skipulögðum vinnubrögðum og getu til að sinna mikilvægum og spennandi verkefnum á sviði greininga. Um er að ræða skemmtilegt starf fyrir einstakling sem hefur áhuga og getu til að safna saman og greina hagtölur og ýmsar áhugaverðar upplýsingar sem varða orku- og veitustarfsemi á Íslandi og í nágrannalöndum okkar, og koma því til skila á mannamáli. HELSTU VERKEFNI: Söfnun, greining og miðlun upplýsinga sem varða orku og veitustarfsemi, þ.m.t. umhverfis- og loftslagsmál. Greining á áhrifum breytinga á rekstrarumhverfi orku- og veitufyrirtækja. Skýr og greinargóð framsetning gagna og upplýsinga. Skipulagning og umsjón með framkvæmd opinna funda um málefni orku- og veitugeirans. Faglegur stuðningur við ýmis verkefni sem unnið er að hverju sinni. Eftirfylgni með nýrri stefnu samtakanna. MENNTUNAR- OG HÆFNISKRÖFUR: Háskólamenntun sem nýtist í starfi s.s. hagfræði eða verkfræði. Hæfni og áhugi á að greina upplýsingar og hagstærðir sem varða orku- og veitustarfsemi hér á landi og í nágrannalöndum. Færni í markvissri framsetningu upplýsinga jafnt skriflega, myndrænt og munnlega. Jákvæðni og mikil samskipta- og samstarfsfærni. Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku. Bæði konur og karlmenn eru hvött til að sækja um starfið. Nánari upplýsingar um starfið veita Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku (pall@samorka.is), og Ari Eyberg (ari@intellecta.is) í síma 511-1225. Umsókn óskast fyllt út á heimasíðu Intellecta og þarf henni að fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf. Umsóknarfrestur er til og með 24. október. Farið er með allar umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál. Samorka eru samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Aðildarfélög Samorku eru um 50 talsins og með starfsemi um allt land. Hlutverk samtakanna er að starfrækja trúverðugan, fræðandi og jákvæðan vettvang um starfsemi orku- og veitufyrirtækja og styrkja þannig stöðu þeirra og rekstur. Samtökin eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins og eru staðsett í Húsi atvinnulífsins að Borgartúni 35. Í starfinu felst tækifæri til að vinna náið með ýmsum sérfræðingum aðildarfyrirtækja Samorku auk sérfræðinga annarra samtaka í Húsi atvinnulífsins. Auglýsingin eins og hún birtist í Fréttablaðinu 14. október 2017