Ísland sett í alþjóðlegt samhengi orkumála á uppfærðum vef

Fjölmennt var á fundi sem Samtök iðnaðarins, Samorka, Landsvirkjun, EFLA og Grænvangur stóðu fyrir í morgun í Kaldalóni í Hörpu þar sem kynntar voru nýjar upplýsingar á vefnum Orkuskipti.is

Á fundinum kom meðal annars fram eftirfarandi:

  • Ísland flytur inn olíu fyrir um 160 milljarða króna á ári og því til mikils að vinna að ná fram þriðju orkuskiptunum.
  • Ísland er í 22. sæti yfir orkuframleiðslu á mann af þeim 157 ríkjum heims sem eru með yfir 100.000 íbúa. Við stöndum þó fremst þegar kemur að framleiðslu á endurnýjanlegri orku á mann.
  • Orkunotkun á mann á Íslandi er sú 10. mesta í heiminum, við sitjum þar á milli Kanada og Bandaríkjanna en notum ekki mikið meiri orku á höfðatölu en til dæmis Noregur og Svíþjóð. Orkunotkun heimilanna er þó meiri en á hinum Norðurlöndunum.
  • Vegna landslags og legu Íslands eru vatnsafl, jarðvarmi og vindorka á landi hagkvæmir kostir hérlendis.

Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður samskipta og upplýsingamiðlunar hjá Landsvirkjun, var fundarstjóri. Fundurinn hófst á samtali Þóru við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem fór yfir hvers vegna væri verið að setja Ísland í alþjóðlegt samhengi og hvað hefði breyst frá því vefurinn var opnaður árið 2022 sem kalli á uppfærðar upplýsingar. 

Haukur Ásberg Hilmarsson, sérfræðingur í viðskiptagreiningu og þróun markaða hjá Landsvirkjun og Ágústa Loftsdóttir, sérfræðingur í orkumálaráðgjöf hjá EFLU, fóru yfir vefinn og greindu frá því hvaða nýju upplýsingar væru þar að finna og á hverju þær byggi. 

Þá var efnt til umræðu með eftirtöldum þátttakendum: Guðmundur Þorbjörnsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá EFLU, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, og Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku.

Hér má sjá upptöku af fundinum.

Ágústa frá EFLU og Haukur frá Landsvirkjun kynntu uppfærða vefinn
Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs hjá SI
Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður samskipta og upplýsingamiðlunar hjá Landsvirkjun, Guðmundur Þorbjörnsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá EFLU, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, og Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku.

Fleiri myndir eru á Facebook síðu Samorku.

Sverrir Falur ráðinn verkefnastjóri stefnumótunar og hagsmunagæslu

Sverrir Falur Björnsson hefur verið ráðinn verkefnastjóri stefnumótunar og hagsmunagæslu hjá Samorku.

Sverrir Falur hefur fjölbreytta reynslu af viðskiptaþróun, efnahagsmálum, stefnumótun og samskiptum við hagaðila. Hann hefur frá árinu 2022 starfað sem hagfræðingur Bændasamtaka Íslands.

Þar áður starfaði Sverrir Falur hjá Vodafone sem vörueigandi internets og farsímaáskrifta á einstaklingssviði og einnig starfaði hann hjá flugfélaginu WOW air í þrjú ár sem sérfræðingur á samskiptasviði.

Sverrir Falur er með MA í hagnýtri hagfræði frá Háskóla Íslands og BA í stjórnmálafræði frá sama skóla. Þá lagði hann stund á nám á meistarastigi í Strategic Public Relations við University of Stirling og Lund University.

Sverrir Falur hóf störf 8. nóvember.

Orkuskipti.is – nýjar upplýsingar settar í loftið

Hvar stendur Ísland í orkuframleiðslu og orkunotkun í alþjóðlegum samanburði?

Opinn fundur fimmtudaginn 14. nóvember kl. 9:30-10:30 í Kaldalóni í HörpuKaffi og netagerð frá kl. 9.

Oft er því fleygt fram að Ísland framleiði mesta orku á mann í heimi. En er það rétt? Og hversu mikla orku framleiðir Ísland í samanburði við Norðurlöndin ef miðað er við stærð landanna? Hvað þarf að gera til þess að ná fram fullum orkuskiptum og hvaða virkjanakostir eru samkeppnishæfir? Á uppfærðum vef orkuskipti.is verður þessum og fleiri spurningum svarað og orkuframleiðsla og orkunotkun Íslands sett í alþjóðlegt samhengi.

Verkefnið er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samorku, Landsvirkjunar, EFLU og Grænvangs.

Dagskrá:

Hvers vegna að setja Ísland í alþjóðlegt samhengi? Hvað hefur breyst síðustu tvö ár sem kallar á uppfærðan orkuskiptavef? Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, fer stuttlega yfir málið.

Hvaða nýju upplýsingar er verið að kynna og á hverju byggja þær? Haukur Ásberg Hilmarsson, sérfræðingur í viðskiptagreiningu og þróun markaða hjá Landsvirkjun og Ágústa Loftsdóttir, sérfræðingur í orkumálaráðgjöf hjá EFLU.

Umræður:

Guðmundur Þorbjörnsson, viðskiptaþróun EFLU
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar og hugverkasviðs SI
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku

Fundarstjóri: Þóra Arnórsdóttir, forstöðumaður samskipta og upplýsingamiðlunar hjá Landsvirkjun.

Hér er hægt að skrá sig á fundinn: Skráning

Kosið um græna framtíð

Orku- og veitumálin verða sennilega í brennidepli fyrir alþingiskosningarnar í lok mánaðarins, enda mörg brýn verkefni í málaflokknum á borði stjórnvalda.

Kosningabaráttan mun snúast um hver hefur grænu sýnina, sýnina sem leggur grunninn að næsta vaxtarskeiði fyrir Ísland, því orka er súrefni atvinnulífsins og forsenda allrar verðmætasköpunar. Þetta segja þau Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku og Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulifsins, sem eru viðmælendur þáttarins að þessu sinni.

BM Vallá og Kapp hlutu umhverfisviðurkenningar

Umhverfisfyrirtæki ársins er BM Vallá en framtak ársins á sviði umhverfismála á KAPP. Fyrirtækin voru verðlaunuð á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem fram fór í gær, 22. október. Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, afhenti verðlaunin ásamt verðlaunahöfum fyrra árs. 

BM Vallá framleiðir hágæða byggingarvörur fyrir mannvirkjagerð, má þar helst nefna steinsteypu, forsteyptar húseiningar, hellur og múrvörur.

Umhverfismál og sjálfbær nýting auðlinda er rauður þráður í starfsemi BM Vallá sem hefur sett sér það markmið að verða umhverfisvænasti steypuframleiðandi landsins með því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, efla hringrásarhugsun og stuðla að aukinni sjálfbærni. Markvisst er stefnt að því að starfsemi og steypuframleiðsla BM Vallár verði kolefnishlutlaus árið 2030.

KAPP er tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í kæliþjónustu, vélasmíði, innflutningi og þjónustu á tækjabúnaði fyrir sjávarútveg, fiskeldi og annan iðnað. Í 25 ár hefur fyrirtækið framleitt OptimICE® krapavélar fyrir sjávarútveg sem notaðar eru í bátum og skipum af nánast öllum stærðum við fjölbreyttar veiðar víða um heim.

OptimICE® krapakerfið kemur í staðinn fyrir hefðbundinn flöguís. Krapaísinn er framleiddur úr sjóvatni eða saltvatni bæði um borð og í landvinnslu. Fljótandi krapaísinn umlykur fiskinn og kælir hann fljótt niður fyrir frostmark og heldur hitastiginu í kringum -0.5°C. Þannig helst hitastigið meðan á veiðiferðinni stendur, við löndun, við flutning til framleiðslu og til neytanda, án þess að frjósa. Hraðkælingin, sem er um 10x hraðari en kæling með flöguís, tryggir ferskleika og hámarksgæði afurðarinnar. Hillutíminn eykst um 5-7 daga. Hraðkælingin minnkar myndum baktería umtalsvert auk þess sem OptimICE® ískrapinn er framleiddur í lokuðu kerfi án snertingar við utanaðkomandi óhreinindi.

Nú er komin ný krapavél, sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum, sem nýtir koldíoxíð sem kælimiðli í stað F-gasa með mjög háan hlýnunarmátt. Vélin er hönnuð og framleidd af KAPP ehf í höfuðstöðvum þess við Turnahvarf í Kópavogi.

Nánari upplýsingar um verðlaunahafana má sjá á vef SA.

Það er ljóst á þeim fjölda tilnefninga sem bárust inn til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins að umhverfis- og loftslagsmál eru órjúfanlegur hluti af daglegum rekstri og ákvarðanatöku fyrirtækja á Íslandi. Fjölmargar umsóknir bárust og fjöldi fyrirtækja vinna ötult starf á þessu sviði.

Í dómnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sitja formaður dómnefndar, Reynir Smári Atlason, CreditInfo, Elma Sif Einarsdóttir, Stiku umhverfislausnum og Jóna Bjarnadóttir, Landsvirkjun.

Kjósum um græna framtíð

Eftir tíðindi helgarinnar af vettvangi stjórnmálanna virðist ljóst að sýn stjórnarflokkanna á orkumál þjóðarinnar og möguleika til grænnar framtíðar hafi haft umtalsverð áhrif á málalyktir. Það er ekkert nýtt að orkumál marki skil á milli flokka og hugmyndafræðilegur ágreiningur sé um það hvernig Ísland, líkt og önnur ríki, megi best ná markmiðum sínum um efnahagslega uppbyggingu og samdrátt í losun koltvísýrings.

Orkumál eru efnahagsmál

Ítrekað hefur verið á það bent að orkumál eru efnahagsmál. Orkan er súrefni og grundvallarforsenda blómlegrar atvinnustarfsemi sem án orku fær ekki þrifist. Til þessa hefur hún fengist með samspili notkunar á grænni orku en ekki síður með brennslu á jarðefnaeldsneyti sem unnið er með ósjálfbærum hætti og til tjóns fyrir loftslagið. Ísland stefnir að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis þannig að íslenskt samfélag verði knúið og kynt með innlendri grænni orku sem unnin er með sjálfbærum og ábyrgum hætti innanlands. Þau umskipti þurfa að fara fram án þess að dregið verði úr samkeppnishæfni íslenskra atvinnuvega. Í því felst að næg græn orka þarf að vera til staðar á Íslandi á samkeppnishæfu verði til að iðnaður og heimili geti byggt upp starfsemi sína og skapað tækifæri fyrir land og þjóð.

Stórar fjárfestingar framundan

Á næstu fimm árum er gert ráð fyrir að fjárfesta þurfi fimm hundruð milljörðum króna í orkutengdum framkvæmdum. Þar á meðal er uppbygging og styrking flutningskerfisins, uppbygging dreifiveitna fyrir snjalla og notendavæna framtíð og ný orkuframleiðsla. Tryggja þarf að innlendir sem erlendir fjárfestar geti komið að þessari uppbyggingu, fjölbreytni verði í bæði framkvæmdaraðilum og orkukostum sem ráðist verður í og að öflug samkeppni verði áfram tryggð í orkuframleiðslu og orkusölu, iðnaði og heimilum til hagsbóta.

Skýrt verkefni stjórnmálanna

Markmið í orkuskiptum og loftslagsmálum byggjast á starfsemi og árangri fyrirtækja í orkugeiranum og nauðsynlegt er að sú starfsemi geti þróast í takt við nýjustu tæknibreytingar, aukna snjallvæðingu og fjölbreyttari viðskiptalausnir. Langur listi mikilvægra þingmála frá umhverfis- orku og loftslagsráðherra sem fyrir lá í haust ber vott um þessa þörf og það fjölbreytta starf sem unnið hefur verði á þessu sviði á kjörtímabilinu. Nauðsynlegt er að sú ríkisstjórn sem tekur við völdum haldi áfram á þeirri braut að einfalda leyfisveitingar og styðja við gróskumikið umhverfi innviðauppbyggingar. Þannig tryggjum við nýtingu auðlinda í þágu þjóðarinnar.

Tækifærin eru til staðar

Ísland er í einstakri stöðu meðal ríkja heims. Landið okkar býr yfir náttúruauðlindum sem hægt er með skynsamri og ábyrgri nýtingu að leggja grunn að orkusjálfstæði, orkuöryggi og samkeppnishæfu orkuframboði til orkuskipta og grænnar uppbyggingar. Við búum yfir langri og farsælli reynslu af nýtingu þeirra, vel menntuðu starfsfólki og kröftugum orku- og veitufyrirtækjum sem vinna ötullega að orkukerfi framtíðarinnar. Verkefni dagsins á þessu sviði eru grundvöllur framtíðarinnar með tilliti til loftslagsins og hagsældar þjóðarinnar. Kjósum um græna framtíð.

Umtalsverð fasteignagjöld sveitarfélaga af vindorkuverum 

Núverandi skattframkvæmd vegna fasteignagjalda gæti árlega skilað sveitarfélögum milljörðum í fasteignagjöld á líftíma vindorkuverkefna samkvæmt greiningu sem Deloitte hefur unnið fyrir Samorku, samtök orku- og veitufyrirtækja.  

Deloitte áætlar að fasteignagjöld til sveitarfélags vegna 100 MW vindorkuvers yfir 25 ára tímabil gætu numið 1,6 – 3,5 milljörðum króna. Áætluð fasteignagjöld til sveitarfélags vegna 100 MW vindorkuverks gætu numið 65-139 milljónir króna á ári. Fjárhæðarbilið helgast af því að reglur um fasteignaskatta leiða til mismunandi álagningar gagnvart ólíkum tegundum vindmylla.   

Í skýrslu Deloitte er í fjórum mismunandi dæmum áætluð árleg fasteignagjöld á hvert MW og eru þau á bilinu 700 þúsund – 1,4 milljónir króna, eftir mismundi stærð og umfangi vindmyllu 

„Greining Deloitte dregur fram að núverandi kerfi fasteignagjalda virkar, skilar fasteignagjöldum til sveitarfélaga og mun skila umtalsverðum fjárhæðum. Það er enda eðlilegt að sveitarfélag hafi efnahagslegan ávinning af framkvæmdum og grænni orkuvinnslu innan marka þeirra,“ segir Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku.  

„Niðurstaða Deloitte undirstrikar enn fremur að ekki er ástæða til að láta vinnu stjórnvalda varðandi  fasteignagjöld eða jöfnunarsjóð sveitarfélaga tefja fyrir grænum orkuverkefnum þar sem fyrirtæki telja grundvöll fyrir byggingu þeirra og sveitarfélag hafa hug á uppbyggingu.“ 

„Umræða um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga á ekki að standa í vegi fyrir stjórnsýslumeðferð og leyfisveitingum vegna vindorkuverkefna. Það er hins vegar eðlilegt að ríki og sveitarfélög, lýðræðislega kjörnir fulltrúar, eigi og leiði samtalið um fjármögnun sveitarfélaga til lykta án þess að það hafi neikvæð áhrif á uppbyggingu grænnar orkuvinnslu.“ 

Samantekt Deloitte má nálgast hér fyrir neðan.

Nýsköpunarverðlaun Samorku 2024: Óskað eftir tilnefningum

Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun.

Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á opnum fundi þann 12. desember í Grósku. Þetta verður í fjórða sinn sem verðlaunin eru afhent.

Samorka leitar að framúrskarandi nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á:

  • Orku- og/eða veitutengdum tæknilausnum eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki
  • Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar

Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum mun velja úr þeim tilnefningum sem berast. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.

Óskað er eftir að greinargerð sé skilað að hámarki tvær A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.

Orku- og veitufyrirtækin í landinu standa að Nýsköpunarverðlaununum og verða því ekki á meðal verðlaunahafa.

Tilnefningar sendist á samorka@samorka.is til og með 6. nóvember. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál.

Árið 2023 hlaut Atmonia Nýsköpunarverðlaun Samorku.

Auglýst eftir umsóknum um styrki til fráveituframkvæmda

Opnað hefur verið á ný fyrir umsóknir sveitarfélaga um styrki til fráveituframkvæmda. Umsóknarfrestur vegna styrkjanna er til og með 30. nóvember 2024.

Skilyrði fyrir styrkveitingu er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

Styrkhæfar fráveituframkvæmdir eru framkvæmdir við safnkerfi fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir. Einnig framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts en rannsóknir hafa sýnt að megnið af örplastsmengun berst til sjávar með ofanvatni. Meðal skilyrða fyrir að fráveituframkvæmd teljist styrkhæf er að kostnaður hafi fallið til eftir 1. janúar 2020.

Umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins.

Nánari upplýsingar má finna á vef Stjórnarráðsins.

Í samkeppni um vindinn

Framtíðarsýnin er samfélag knúið áfram af 100% grænni orku. Jafnt og öruggt aðgengi allra að orku á samkeppnishæfu verði á virkum orkumarkaði. Snjallt og sveigjanlegt orkukerfi þar sem engu er sóað. Þetta er bara brot af þeirri framtíðarsýn sem birtist okkur í Orkustefnu til ársins 2050. Hún er skýr, falleg og óumdeild. Leiðin þangað er hins vegar ekki bein og breið og fjölmörg mál sem þarf að leysa úr á vettvangi stjórnmála og stjórnsýslu á næstu árum. Mikil og snörp umræða hefur verið um vindorku undanfarnar vikur í tengslum við virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Búrfellslund og áform um uppbyggingu í vindorku víðar um land. Mörgum vex í augum hvaða áhrif vindorkuver munu hafa á náttúru og umhverfi á meðan aðrir hafa áhyggjur af því að erlendir aðilar komi að orkuframleiðslu á Íslandi, enn aðrir hafa áhyggjur af tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og er þá bara það helsta talið til. Þetta eru verkefni sem þarf að ræða og leysa.

Mikilvæg skref hafa nú þegar verið stigin. Nýsamþykkt Landsskipulagsstefna fyrir árin 2024-2038 leggur áherslu á orkuskiptin, kolefnishlutleysi, uppbyggingu í grænni orku og þar með talið nýtingu vindorku. Við afgreiðslu Landsskipulagsstefnu á Alþingi greiddu 45 þingmenn henni atkvæði og enginn sagði „nei“. Stjórnvöld hafa sett markmið og undirgengist skuldbindingar um kolefnishlutleysi og jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Alþingi mun á haustmánuðum taka til meðferðar í annað sinn þingsályktunartillögu um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi. Í raun má segja að Alþingi, stjórnsýslan, atvinnuvegir landsins og almenningur allur sé á fleygiferð í átt að kolefnishlutleysi – rétt eins og aðrar þjóðir í kringum okkur.

Græna byltingin

Það er vel þekkt staðreynd að virk samkeppni skilar sér í lægra verði og betri þjónustu. Virk samkeppni er einnig lykilforsenda nýsköpunar og hagvaxtar. Græna byltingin í Evrópu er keyrð áfram í öflugu markaðshagkerfi þar sem kraftar samkeppninnar fá að njóta sín. Nýjum lausnum og leiðum við orkuöflun og orkunýtni fleygir enda fram víðast hvar. Meginstef grænu byltingarinnar er að Evrópa verði alfarið knúin grænni orku og virk samkeppni á raforkumarkaði tryggi hag neytenda og samkeppnishæfni álfunnar – rétt eins og framtíðarsýnin fyrir Ísland árið 2050 birtist okkur.

Í nýútgefnum Raforkuvísum Orkustofnunar eru birtar tölur um áætlaðar fjárfestingar raforkugeirans fyrir árin 2024 – 2028. Þar kemur fram að heildarfjárfestingar fyrir þetta tímabil eru um 500 milljarðar.

Það er því full ástæða til að sjá það sem fagnaðarefni að bæði innlendir og erlendir aðilar séu tilbúnir að koma að orkuframleiðslu hér á landi á næstu árum og áratugum. Orkan sem verður framleidd mun svo nýtast til að mæta framtíðarorkuþörf þjóðarinnar, bæði heimila landsins, fyrirtækja og iðnaðar.

Það er engin ástæða til að ætla annað en að aukin samkeppni á orkumarkaði, þ.m.t. með innkomu erlendra aðila í orkuframleiðslu, muni ekki skila sér til allra þeirra fyrirtækja og neytenda sem þurfa á rafmagni að halda, dag frá degi. Rétt eins og kröftug samkeppni hefur leitt af sér nýjungar og lækkað vöruverð á öðrum mörkuðum – mun væntanlega það sama gerast á þessum markaði.

Hvað með vind á hafi?

Í umræðunni eru hugmyndir um fjölda annarra orkukosta og möguleika til orkuöflunar og orkunýtni, bæði hér heima og erlendis. Má þar nefna birtuorku, vindorku á hafi, virkjun sjávarfalla og kjarnorku. Þá fleygir fram tækni í tengslum við rafhlöðulausnir og orkunýtni. Víða í Evrópu er mikil uppbygging og þróun í gangi varðandi alla þessa orkukosti og orkutækni og væntanlega mun flest af því berast hingað til lands fyrr en síðar. Í dag er því þó þannig farið að það er langtum dýrara að framleiða rafmagn með vindorku á hafi og kjarnorku en með vind eða sól á landi. Verkefni um vindorku á hafi og kjarnorku verða því nánast eingöngu að veruleika í dag með miklum ríkisstyrkjum og stuðningi. Víðast hvar í hinum vestræna heimi hafa stjórnvöld sett skýrar áætlanir um hve mikið þurfi að auka grænorkuframleiðslu á næstu árum. Þá er bæði í Evrópu og Bandaríkjunum gríðarlegum fjármunum varið af hálfu hins opinbera til að auka grænorkuframleiðslu til að tryggja orkusjálfstæði og orkuskiptin.

Það er lykilatriði í áframhaldandi samkeppnishæfni samfélags okkar að öflugir fjárfestar og fyrirtæki sjái sér hag í að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins og það geti farið fram án umfangsmikilla ríkisstyrkja.

Katrín Helga Hallgrímsdóttir, lögfræðingur Samorku skrifaði greinina, sem birtist fyrst í Viðskiptablaðinu miðvikudaginn 11. september 2024.