Nýsköpunarverðlaun Samorku 2025 Nýsköpunarverðlaun Samorku verða afhent í fimmta sinn kl. 14 fimmtudaginn 6. nóvember á opnum fundi í Kaldalóni í Hörpu. Nýsköpun í orku- og veitugeiranum skiptir sköpum þegar heimurinn stendur frammi fyrir áskorunum sem loftslagsbreytingar hafa í för með sér. Nýsköpun leiðir til betri nýtingar á auðlindum, meiri skilvirkni og sjálfvirkni, en einnig til nýrra lausna og nýrrar tækni sem nauðsynlegar eru fyrir þá umbyltingu sem framundan er á orku- og veitukerfum heimsins. Er þessum fundi ætlað að varpa ljósi á þetta og sýna þá grósku nýsköpunar sem á sér stað í orku- og veitugeiranum. Fundurinn ber yfirskriftina Hugvit – Hringrás – Árangur Dagskrá: Leiðir í innlendum orkuskiptum og þróun í rafhlöðum – Daði Þorsteinn Sveinbjörnsson, nýsköpunarstjóri hjá Landsvirkjun Tendrum Glóð á heiðinni: Nýsköpun hjá Orku náttúrunnar – Ingunn Gunnarsdóttir, leiðtogi nýsköpunar hjá ON Framtíð raforkunnar er snjöll – Nína Lea Z. Jónsdóttir, sérfræðingur í stafrænum kerfum hjá Landsneti Við eigum orku en ekki einkaleyfi: Einkaleyfisumsóknir íslenskra fyrirtækja 2004 – 2024 – Eiríkur Sigurðsson, samskiptastjóri hjá Hugverkastofunni Nýsköpunarverðlaun Samorku 2025 afhent. Vinningshafar segja nokkur orð. Fundarstjóri: Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku. Léttar veitingar í boði að fundi loknum. Hér fyrir neðan er hægt að skrá sig á fundinn. Mælt er með skráningu til að tryggja sætaframboð og draga úr matarsóun, en einnig verður hægt að fylgjast með fundinum í streymi. Ekki þarf að skrá sig sérstaklega í streymið, það verður aðgengilegt á heimasíðu Samorku. Nafn Netfang Fyrirtæki Skrá mig Δ
20. október 2025 Nýr forgangslisti Íslands í ESB-hagsmunagæslu Ríkisstjórnin samþykkti 17. október s.l. nýjan forgangslista vegna hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu (ESB) að undangengnu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og opnu samráði við hagaðila í samráðsgátt stjórnvalda, þar á meðal Samorku. Margvísleg hagsmunamál á sviði orku- og veitustarfsemi er að finna í listanum. Útgáfa forgangslistans var mikið framfaraskref og hefur síðan reynst lykilverkfæri við skipulagningu hagsmunagæslunnar að því fram kemur í fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Aðferðafræðin við vinnslu listans miðar að því að greina málefni á vettvangi ESB með heildstæðum hætti og draga þannig fram á skipulegan hátt þau mál þar sem talið er að Ísland kunni að hafa sérstaka hagsmuni. Meðal hagsmunamála á forgangslistanum sem skipta máli fyrir íslenska orku- og veitugeiranum má nefna aðgerðaáætlun ESB um jarðvarma, reglugerðir um rafeldsneyti, orkugerðir ESB, stefnuáætlun ESB um viðnámsþol vatns og tilskipun ESB um hreinsun skólps frá þéttbýli. Sjá fréttatilkynningu íslenskra stjórnvalda þar sem finna má hlekk á forgangslistann í heild sinni.
17. október 2025 Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita Þingmenn á Evrópuþinginu lýstu eindregnum stuðningi við stóraukna nýtingu jarðhita í umræðum í dag 16. október. Þeir sögðu að þessi endurnýjanlega orkulind væri mjög vannýtt í álfunni en ryðja þyrfti hindrunum úr vegi til að efla vinnslu á jarðhita til húshitunar og fleiri nota. Einn þingmaður benti á Ísland sem dæmi um land þar sem hægt væri að hafa fjárhagslegan hagnað af jarðhitanýtingu. Umræðan var á vegum orkunefndar Evrópuþingsins. Þingmenn sem tóku til máls sögðu að hægt væri að finna jarðhita og nýta hann víða í Evrópu ekki síst þegar borað er dýpra þar sem hitinn er meiri. Lághitinn væri auðvitað nýtanlegur og varmadælur bar einnig á góma. Mikilvægt væri að efla rannsóknir og kortlagningu jarðhita, skýra og bæta ferli leyfisveitinga og tryggja að nærsamfélagið væri með í ráðum þegar ráðist væri í boranir og vinnslu. Í umræðunni kom líka fram að hægt væri að auka orkuöryggi og stórminnka notkun á gasi til hitunar og kælingar innan Evrópusambandsins. ESB hefur einmitt sett sér það markmið að hætta alfarið að kaupa gas af Rússlandi fyrir lok ársins 2027. Margir þingmanna bentu á mikilvægi þess að tryggja fjármögnun til jarðhitaverkefna þar sem upphafskostnaður væri gjarnan töluverður, áhætta fyrir hendi og ákveðin óvissa um árangur. Uppskeran gæti þó að sama skapi verið mikil. Ísland hefur áratugum saman verið í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðhita til húshitunar og raforkuframleiðslu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er einnig að undirbúa aðgerðaáætlun um eflingu jarðvarma sem birt verður snemma á næsta ári. Hún er hluti af víðtækari stefnu um hitun og kælingu. Samorka senti inn umsögn í samráðsgátt ESB vegna þeirra stefnumótunar og benti þar m.a. á forystuhlutverk Íslands í jarðhitanýtingu. Evrópuþingmenn binda greinilega vonir við aðgerðaáætlunina og spurðu fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar á nefndarfundinum um helstu áherslur í henni. Þau svör fengust að samráð vegna vinnslu áætlunarinnar væri í fullum gangi og athyglin beindist einmitt að leyfisveitingum og fjármögnun auk þess sem tekið yrði mið af jarðhitaverkefnum í Evrópu sem gengið hafa vel. Landsvirkjun og Orka náttúrunnar sendu einnig inn umsagnir í samráðsgáttina ásamt íslenskum stjórnvöldum. Vonir eru bundnar við að þær upplýsingar, dæmi um verkefni og almenn sjónarmið gagnist sérfræðingum framkvæmdastjórnarinnar sem voru líka þátttakendur í pallborðsumræðum á Our Climate Future-ráðstefnunni í Brussel um nýtingu jarðhita, þriðjudaginn 14. október s.l. Með fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar í pallborði voru stjórnendur íslenskra orkufyrirtækja sem eru í forystu í nýtingu jarðhita – Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar og HS Orku auk stjórnarformanns Samorku, Sólrúnar Kristjánsdóttur. Orkumálastjóri ESB, Dan Jörgensen sagði í opnunarræðu ráðstefnunnar að Ísland vísaði veginn í nýtingu jarðhita og möguleikarnir væru miklir á þessu sviði. Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, sagði að Ísland væri tilbúið til samstarfs með því að deila reynslu og þekkingu á nýtingu jarðhita. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra bauð gesti velkomna og deildi m.a. með fundargestum frásögn af hraunhitaveitunni í heimabæ sínum Vestmannaeyjum. Sjá hér að neðan upptöku af umræðum Evrópuþingmanna um jarðhita, 16. október. Umræðan stendur í um 50 mínútur og byrjar ca. 35 mínútur inn í upptökuna: Committee on Industry, Research and Energy Ordinary meeting – Multimedia Centre: Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita Hér er einnig hægt að skoða umsagnir sem Samorka, Landsvirkjun, Orka náttúrunnar og íslensk stjórnvöld sendu inn í samráðsgátt ESB vegna stefnu um hitun og kælingu – þ.á.m. jarðhita: https://ec.europa.eu/info/law/better-regulation/have-your-say/initiatives/14818-Energy-Heating-and-Cooling-Strategy/feedback_en?p_id=20290: Stuðningur á Evrópuþinginu við aukna nýtingu jarðhita
16. október 2025 Opnun Brussel-skrifstofu formlega fagnað Samorka fagnaði opnun skrifstofu sinnar í Brussel með því að bjóða til móttöku á Norrænu orkuskrifstofunni þar sem starfsmaður Samorku hefur aðsetur. Í móttökunni voru samankomnir fulltrúar íslenskra orku- og veitufyrirtækja en einnig fulltrúar systursamtaka Samorku á hinum Norðurlöndunum og fleiri. Finnur Beck framkvæmdastjóri Samorku, Sólrún Kristjánsdóttir stjórnarformaður og Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra fluttu ávörp og lögðu áherslu á mikilvægt þess að stíga þetta skref til að hafa áhrif á stefnumótun Evrópusambandsins og gæta íslenskra hagsmuna. Löggjöf og regluverk sem upprunin er hjá ESB mótar starfsumhverfi íslenskra orku- og veitufyrirtækja því hún er að stórum hluta tekin upp íslenska löggjöf í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Samorka leggur því ríka áherslu á að að vakta vel þessa hröðu þróun, skilja hana og miðla til aðildarfyrirtækja. Það er líka mikilvægt að koma sjónarmiðum orku- og veitugeirans á framfæri, t.d. um að efla nýtingu jarðhita á evrópska vísu. Ísland er í forystu á því sviði með áratuga reynslu og þekkingu í að nýta þennan orkugjafa til húshitunar og raforkuframleiðslu.
10. október 2025 Öflugt jarðhitaþing í Zürich Fulltrúi Samorku tók þátt í Evrópska Jarðhitaþinginu, European Geothermal Congress, sem haldið var Zürich í Sviss frá 6.- 10. október. Þátttakendur voru hátt í 1200 talsins frá yfir 40 löndum. Á þingið mætti öflugur hópur frá Íslandi, yfir 20 fulltrúar orku-, tækni- og ráðgjafarfyrirtækja, háskóla og fleiri til að segja frá því sem við höfum fram að færa og til að læra af öðrum þátttakendum. Þrír af fjölmörgum fulltrúum frá Íslandi á ráðstefnunni. „Ísland hefur áratugum saman verið í fremstu röð á heimsvísu í nýtingu jarðhita til húshitunar og raforkuframleiðslu og lét svo sannarlega til sín taka hér,“ sagði Sveinn Helgason, verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku, sem sat ráðstefnuna. „Það er mikilvægt til að efla enn frekar nýtingu þessarar endurnýjanlegu orkulindar á alþjóðavísu og metnaðurinn er fyrir hendi víða um heim. Þannig er Evrópusambandið t.d. að undirbúa sérstaka aðgerðaáætlun um eflingu jarðvarma sem birt verður snemma á næsta ári. Samorka senti inn umsögn í samráðsgátt ESB vegna þeirra stefnumótunar og benti þar m.a. á forystuhlutverk Íslands á þessu sviði.“ European Geothermal Energy Council – Evrópsku jarðhitasamtökin – héldu ráðstefnuna og á aðalfundi samtakanna var tilkynnt um nýja stjórn þar sem Miklos Antics er forseti. Það var athyglisvert að svissnesku gestgjafarnir ætla sér stóra hluti í jarðhita og í vettvangsferð síðasta dag þingsins kom glögglega í ljós hversu rannsóknir og vísindi gegna þar mikilvægu hlutverki. Næsta Evrópska jarðhitaþingið verður haldið í Búdapest í Ungverjalandi árið 2028. Ný stjórn EGEC – Evrópsku jarðhitasamtakanna. Sveinn tók nokkra íslenska þátttakendur tali á ráðstefnunni og má hlusta á það í spilaranum hér fyrir neðan. Podcast: Play in new window | Download (Duration: 19:07 — 14.3MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More
2. október 2025 Orku- og veitugeirinn gæti þurft að undirbúa sig fyrir ný viðmið um öryggi Árlegur fundur og námsstefna borgaralegra yfirvalda almannavarna á Norðurlöndunum fór fram dagana 10. – 12. september í Kuopio í Finnlandi. Fundinn sóttu yfirmenn og starfsmenn viðkomandi stofnana ásamt stjórnendum ýmissa samfélagslegra stofnana og lykilfólki úr atvinnulífi á Norðurlöndum. Samorku var sérstaklega boðið til fundarins og Finnur Beck, framkvæmdastjóri sótti hann. „Það er augljóst að Norðurlöndin leggja nú um mundir mikla áherslu á viðbúnað og viðnámsþrótt sinna samfélaga gagnvart hvers konar áföllum“ segir Finnur. „Meðal umfjöllunarefna var staða Norðurlandanna í núverandi öryggissamhengi Evrópu, uppbygging viðbúnaðar og samfélagslegur viðnámsþróttur sem hryggjarstykki í allsherjaröryggi.“ „Það er rík hefð fyrir miklu öryggi, bæði fyrir starfsmenn og tryggan rekstur í orku- og veitugeiranum. Undirbúningur og framkvæmd þess er hins vegar stöðugt til endurskoðunar og tekur mið af aðstæðum hverju sinni. Orku- og veitugeirinn gæti þurft að undirbúa sig fyrir ný viðmið um öryggi.“
2. október 2025 Hreint vatn er ekki heppni Podcast: Play in new window | Download (Duration: 30:42 — 28.0MB)Subscribe: Apple Podcasts | Spotify | Android | RSS | More Mikilvægt er að standa vörð um neysluvatnið okkar því það er okkar mikilvægasta auðlind. Í nútímasamfélagi verður það sífellt flóknara verkefni. Hrefna Hallgrímsdóttir, forstöðumanneskja vatnsmiðla hjá Veitum, ræðir við Lovísu Árnadóttur um vatnsveituna á höfuðborgarsvæðinu og minnir okkur rækilega á að hreint vatn er ekki heppni. Þátturinn kemur út 2. október, á afmælisdegi vatnsveitu í Reykjavík. Þennan dag árið 1909 var vatnsleiðsla frá Gvendarbrunnum fyrst tekin í notkun. Hrefna Hallgrímsdóttir er gestur Lovísu Árnadóttur í þættinum.
1. október 2025 Samorka sækir evrópskt jarðhitaþing í Sviss Fulltrúi Samorku sækir Evrópska jarðhitaþingið – European Geothermal Congress – sem fram fer í Zurich í Sviss frá 6.-10. október n.k. Samtök jarðhitageirans í álfunni – European Geothermal Energy Council (EGEC) skipuleggja þingið sem búast má við að yfir 1200 manns sæki. Þátttakendur koma úr röðum stjórnenda og sérfræðinga fyrirtækja í þessum geira, úr hópi þeirra sem móta stefnu og setja reglur um nýtingu jarðhita, vísindafólk og aðrir haghafar. Ráðstefnugestir koma ekki aðeins frá Evrópu heldur einnig víðar að úr heiminum. Samorka er meðlimur í EGEC og með ráðningu starfsmanns með aðsetur í Brussel hefur verið lögð enn frekari áhersla á að efla þátttöku í starfi samtakanna. Ísland er í fremstu röð í heiminum í nýtingu og vinnslu jarðhita til húshitunar, orkuframleiðslu og annarra nota. Mikil tækifæri eru fyrir íslensk fyrirtæki vegna vaxandi áhuga á jarðvarmanýtingu í Evrópu. Aðild að EGEC skiptir líka máli nú þegar Evrópusambandið undirbýr t.d. aðgerðaáætlun um eflingu jarðvarma. Hún á að líta dagsins ljós snemma á næsta ári framkvæmdastjórn ESB hefur opnað almenna samráðsgátt vegna málsins. Nýting jarðhita verður líka í sviðsljósinu þegar Our Climate Future ráðstefnan verður haldin í Brussel þann 14. október n.k. Þar koma saman fulltrúar íslenskra stjórnvalda, Evrópusambandsins og síðast en ekki síst öflugur hópur fólks úr íslenska jarðhitageiranum til að ræða hvernig þessi græna orkulind getur hraðað orkuskiptum, aukið samkeppnishæfni Evrópu, stuðlað að því að tryggja orkuöryggi álfunnar og síðast en ekki síst að loftslagsmarkmið náist.
30. september 2025 Fulltrúar íslenskra fráveitna á NORDIWA 2025 Dagana 23. til 25. september fór fram norræna fráveituráðstefnan, NORDIWA 2025, í Osló. Voru þar haldnar hátt í 50 mál- og verkefnastofur sem innihéldu yfir tvö hundruð erindi. Erindin beindust mörg hver að fyrirhugaðri innleiðingu fráveitutilskipunar Evrópusambandsins og þeirra tæknilegu útfærslum sem þarf að leysa úr til að uppfylla skilyrði hennar. Við er búist að stíga þurfi stór skref í greiningu og mælingum á PFAS og öðrum örmegnunarefnum og taka upp nákvæmari hreinsunaraðgerðir þegar hún hefur verið innleidd til fulls. Erindi um spálíkön fyrir hinar ýmsu tegundir mengunar voru áberandi auk erinda um hönnun hreinsunarmannvirkja sem geta staðist kröfur fjórða stigs hreinsunar. Fyrir aðildalönd Evrópusambandsins hefst innleiðing hennar seinni hluta ársins 2027 og eru fráveituaðilar, ráðgjafar og verktakar nú á fullri ferð með að finna bestu mögulegu leiðir til að standast þessar auknu kröfur. Einnig voru mörg erindi um tækifæri til verðmætasköpunar út fráveitum, t.a.m. lífgas-, áburðar- og lífkolaframleiðsla. Á ráðstefnuna mætti tíu manna hópur frá aðildafélögum Samorku og var einuhugur í hópnum að ráðstefnunni lokinni að heimsóknin hefði verið afar gagnleg enda verkefnin framundan stór.
24. september 2025 Um milljarði úthlutað í jarðhitaleit Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur tilkynnt niðurstöður úr jarðhitaleitarátaki sem opnað var í vor. Markmið átaksins er að stuðla að aukinni nýtingu jarðhita til húshitunar á svæðum þar sem nú er notast við rafmagn eða olíu. Alls bárust 48 umsóknir frá sveitarfélögum, orkufyrirtækjum og aðilum í þeirra umboði. Verkefnin voru fjölbreytt en heildarkostnaður verkefna sem sótt var um nam 6.093 m.kr. og sótt var um 4.082 m.kr. í styrki. Alls hljóta 18 verkefni styrk: 8 verkefni sem snúa að jarðhitarannsóknum 8 verkefni sem tengjast uppsetningu varmadælna 2 verkefni sem miða að uppbyggingu varmageymslna Mögulegur ávinningur af verkefnunum er verulegur. Með frekari borunum, varmadælum og varmageymslum gæti allt að 80 GWh af vetrarraforku losnað á næstu árum. Þá gæti árangur í jarðhitaleit bætt við um 40 GWh. Mat umsókna var í höndum Loftlags- og orkusjóðs í samvinnu við Umhverfis- og orkustofnun. Hér má sjá verkefnin sem fengu úthlutað úr sjóðnum. Nánari upplýsingar um úthlutunina og forsendur fyrir henni má sjá í skýrslu Umhverfis- og orkustofnunar; Jarðhiti jafnar leikinn.