30. september 2019 Algaennovation opnar í Jarðhitagarðinum Algaennovation Iceland hefur opnað smáþörungaverksmiðju í Jarðhitagarðinum við Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar. Þetta er fyrsta fyrirtækið sem hefur starfsemi í Jarðhitagarði ON í Ölfusi. Markmiðið með Jarðhitagarðinum er einmitt að breyta fjölbreyttum auðlindastraumum á jarðhitasvæðinu í verðmæti til framtíðar. Frá opnun í Jarðhitagarðinum. Mynd:Algaennovation Algaennovation er alþjóðlegt hátæknifyrirtæki sem þróað hefur aðferð til að breyta orku í fæðu og nýtir til þess rafmagn, kalt- og heitt vatn beint frá ON Hellisheiðarvirkjun. Verkefnið er í raun það fyrsta sinnar tegundar í heiminum þar sem þessi umbreyting á sér stað með skilvirkari hætti en áður hefur þekkst. Þá er stefnt að því að starfsemin verði kolefnisneikvæð. Það byggist á því að meira koldíoxíð er notað til að næra þörungana í ræktuninni en framleiðslan í heild losar. Þá er tæknin hér á landi klæðskerasniðin utan um jarðhitaauðlindirnar sem eru til staðar á Íslandi. Jarðhitagarður ON var settur á laggirnar með það að leiðarljósi að byggja upp samfélag fyrirtækja sem leggja áherslu á umhverfið, nýsköpun og tækniþróun. Jarðhitaauðlindin og nýting hennar í Hellisheiðarvirkjun gefa af sér marga strauma, ekki bara rafmagn heldur líka kalt og heitt ferskvatn, steinefnaríkt vatn og gastegundir. Þessir straumar eru ekki fullnýttir í dag og gefa mikla möguleika á framtíðarverðmætum.
23. september 2019 Stofnfundur Samstarfsvettvangs um loftslagsmál og grænar lausnir Samorka er stolt af því að vera eitt stofnfélaga að Samstarfsvettvangi um loftslagsmál og grænar lausnir, sem vinnur að því markmiði að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að kolefnishlutleysi árið 2040. Auk þess verður unnið með fyrirtækjum að markaðssetningu grænna lausna á alþjóðamarkaði og einnig á samráðsvettvangurinn að styðja við orðspor Íslands sem leiðandi lands á sviði sjálfbærni. Húsfyllir var á stofnfundinum. Stofnfundur Samstarfsvettvangsins var haldinn 19. september og var húsfyllir á Grand hótel, eða um 200 manns. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði fundinn og sagði meðal annars: „Í samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda þurfum við að lágmarka kolefnisspor þeirrar vöru og þjónustu sem við bjóðum upp á, bæði hér heima fyrir og á erlendum mörkuðum. Samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um grænar lausnir er innblásinn af bjartsýnis- og sóknaranda gagnvart stórri áskorun og trú á nýsköpun.” Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpar fundinn. Mikil áhersla hefur verið lögð á loftslagsmál hjá orku- og veitufyrirtækjum landsins og hefur nýsköpun á því sviði vakið heimsathygli. Árið 2018 settu fyrirtækin fram sameiginlega yfirlýsingu á ársfundi Samorku um kolefnishlutlausa orku- og veitustarfsemi árið 2040, fyrst allra stórra atvinnugreina. Þekkingin, reynslan og metnaðurinn innan orku- og veitufyrirtækjanna koma því til með að nýtast vel innan Samstarfsvettvangsins. Yfirlýsing um kolefnishlutlausa orku- og veitustarfsemi árið 2040 afhent ráðherrum á ársfundi Samorku 2018 Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði meðal annars í ávarpi sínu á stofnfundinum: „Grænar lausnir spretta upp í fyrirtækjum landsins og skapa ómæld útflutningsverðmæti. Atvinnulífið styður eindregið markmið um kolefnishlutleysi hér á landi bæði með því að draga úr losun kolefnis og að auka bindingu þess í jarðlögum og gróðri.” Að samstarfsvettvanginum standa forsætisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, utanríkisráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samorka, Orkuklasinn, Viðskiptaráð Íslands, Bændasamtök Íslands, háskólar og Íslandsstofa, auk fjölda fyrirtækja. Forstöðumaður vettvangsins er Eggert Benedikt Guðmundsson.
28. ágúst 2019 Heitt vatn fundið í Súgandafirði Leit á vegum Orkubús Vestfjarða að auknum jarðhita að Laugum í Súgandafirði hefur nú borið árangur. Talsvert magn af heitu vatni streymir inn í borholuna á 940 metra dýpi og er það yfir væntingum. Holan er orðin 971 metra djúp, en ekki liggur fyrir enn hvert lokadýpið verður, þar sem reiknað er með að bora eitthvað dýpra. Þetta kemur fram á vef Orkubús Vestfjarða. Mynd frá Orkubúi Vestfjarða af loftdælingu þann 25. ágúst. 30 seklítrar af 63 gráðu heitu vatni Mælingar og prófanir á næstu tveimur mánuðum munu leiða í ljós hvers vænta má af holunni til lengri tíma litið. Skammtímamælingar gefa þó til kynna talsvert meira magn en úr eldri vinnsluholu Orkubúsins. Fullsnemmt er að fullyrði nákvæmlega um magnið, en fyrstu vísbendingar gefa til kynna að um geti verið að ræða a.m.k. 30 l/sek. eða þrefalt til fjórfalt það magn sem eldri holan gaf. Hitastigið er núna 63°C og er reiknað með að það fari í a.m.k 67°C. Allt bendir því til að hægt verði að nota jarðhitavatn eingöngu til að hita húsnæði á Súgandafirði, en í dag er þar rekin rafkynt hitaveita sem nýtir jarðhitaorku að hluta til. Kostnaður á þriðja hundrað milljóna Ellefu rannsóknarholur voru boraðar á árunum 2016 til 2018, til að ákveða staðsetningu á vinnsluholunni, en áður höfðu farið fram rannsóknir og rýni á eldri gögnum. Vænta má að heildarkostnaður við verkefnið verði á þriðja hundrað milljónir króna. Þar er um að ræða kostnað við rannsóknir, borun á rannsóknarholum, úrvinnslu gagna og undirbúning og borun vinnsluholu. Það er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sem sér um borun vinnsluholunnar og notar til verksins borinn „NASA“.
20. ágúst 2019 Veitur leiðrétta vatnsgjöld ársins 2016 Veitur hafa leiðrétt vatnsgjöld ársins 2016 í kjölfar úrskurðar í vor. Leiðréttingin nær til vatnsveitnanna í Reykjavík, á Akranesi, í Grundarfirði og Stykkishólmi. Í flestum tilvikum gengur leiðréttingin til lækkunar á vatnsgjöldum með gjalddaga nú í september. Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga skal vatnsgjald hverrar vatnsveitu miðast við að það „…standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar.“ Í vor komst samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að þeirri niðurstöðu að vatnsgjald á tiltekna íbúð í Reykjavík vegna ársins 2016, sem kært var til ráðuneytisins, hafi verið of hátt. Þótt Veitum þyki úrskurðurinn óljós um sumt var ákveðið að una niðurstöðunni og voru vatnsgjöldin því endurreiknuð með tilliti til hennar. Það leiddi til þess að gjaldið hefur verið leiðrétt hjá öllum viðskiptavinum áðurnefndra vatnsveitna. Nánari upplýsingar um tilhögun leiðréttingarinnar má finna á heimasíðu Veitna.
23. júlí 2019 Sumarlokun skrifstofu Samorku Skrifstofa Samorku verður lokuð frá 22. júlí og fram yfir verslunarmannahelgi vegna sumarlokunar Húss atvinnulífsins. Hægt er að ná í einstaka starfsfólk ef þarf með því að hringja og senda tölvupóst. Skrifstofan opnar aftur þriðjudaginn 6. ágúst. Starfsfólk Samorku óskar öllum gleðilegs sumars.
23. júlí 2019 Gestur Pétursson ráðinn framkvæmdastjóri Veitna Gestur Pétursson er nýráðinn framkvæmdastjóri Veitna. Stjórn Veitna ohf. hefur ráðið Gest Pétursson forstjóra Elkem Ísland sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Veitur eru stærsta veitufyrirtæki landsins og dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur. Það skýrist á næstunni hvenær Gestur hefur störf. Gestur var framkvæmdastjóri öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismála hjá Elkem Ísland frá því í árslok 2010 og forstjóri fyrirtækisins síðustu liðlega fimm árin. Í störfum sínum fyrir Elkem Ísland hefur hann unnið að innleiðingu og samþættingu nýsköpunar í fyrirtækjamenningu félagsins til að takast á við þau tækifæri sem orkuskiptin í heiminum fela í sér, vöruþróun gagnvart viðskiptavinum og umbótum á kostnaðargrunni verksmiðjunnar á Grundartanga. Samhliða störfum fyrir Elkem Ísland hefur Gestur setið í stjórnum félaga á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi, meðal annars í stjórn samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs um loftslagsmál og grænar lausnir og í stjórn Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð. Gestur lauk meistaragráðu í iðnaðar- og rekstrarverkfræði með áherslu á orkumál og áhættustýringu frá Oklahoma State University í Bandaríkjunum árið 1998. „Það er mikil tilhlökkun að tilheyra öflugu teymi hjá traustu fyrirtæki með skýra og metnaðarfulla framtíðarsýn um þá mikilvægu lífsgæðaþjónustu sem fyrirtækið veitir einstaklingum, fjölskyldum, fyrirtækjum og stofnunum. Orkuskiptin framundan, orkusparnaður, orkuframboð hverju sinni, hreinleiki vatnsins, gæði fráveitunnar og alls kyns áskoranir í umhverfismálum eru og verða daglegt viðfangsefni þess öfluga teymis sem starfsfólk Veitna myndar“ segir Gestur Pétursson, nýráðinn framkvæmdastjóri Veitna.
22. júlí 2019 Ingvar Freyr ráðinn hagfræðingur Samorku Ingvar Freyr hefur störf hjá Samorku í september. Ingvar Freyr Ingvarsson hefur verið ráðinn í starf hagfræðings hjá Samorku. Ingvar lauk M.Sc. gráðu í hagfræði með áherslu á orku- og loftslagshagfræði frá norska umhverfis – og lífvísindaháskólanum (Norges miljø- og biovitenskapelige unversitet (NMBU)) í september 2016, kennsluréttindum frá HÍ árið 2012 og B.S. gráðu í hagfræði frá sama skóla árið 2011. Samhliða námi starfaði hann sem sérfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans og við tölfræðilega greiningu hjá Seðlabanka Íslands. Þá hefur hann kennt hagfræði og skyldar greinar, bæði í menntaskóla og við Opna háskólann í Reykjavík, sem kennari í HÍ og við NMBU. Ingvar hefur verið hagfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu frá árinu 2016. Ingvar Freyr hefur störf í september.
28. júní 2019 Gyða Mjöll ráðin til Samorku Gyða Mjöll Ingólfsdóttir hefur verið ráðin fagsviðsstjóri hjá Samorku. Gyða er með M.Sc. í umhverfisverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet í Kaupmannahöfn þar sem sérsvið hennar voru vatns- og fráveitur. Áður starfaði hún hjá verkfræðistofunni EFLU sem verkefnastjóri á Umhverfissviði. Gyða Mjöll kom til starfa hjá Samorku í maí.
29. maí 2019 Lið RARIK Fagmeistari Samorku 2019 Það var lið RARIK sem stóð uppi sem sigurvegari í Fagkeppni Samorku eftir æsispennandi keppni á milli níu liða! Framkvæmda- og tæknidagurinn er fyrsti dagur fagþings rafmagns sem haldið var í Reykjanesbæ dagana 22. – 24. maí. Dagurinn er sérstaklega ætlaður fagfólki í framkvæmdum. Eftir fyrirlestra um tækniþróun, öryggismál og fleira var keppt í ýmsum greinum, góðri blöndu af gamni og alvöru, eins og samsetningu á heimlagnarkapli, uppsetningu á búnaði í götuskáp, mælaskiptum og auðvitað stígvélakasti. Alls tóku níu lið þátt frá Norðurorku, HS Veitum, Veitum, RARIK, Landsneti og Orkubúi Vestfjarða og Gunnar Sigurðarson, eða Gunnar á völlum, lýsti því sem fram fór. Bestum samanlögðum árangri náði lið RARIK, sem hlýtur því titilinn Fagmeistari Samorku 2019.
8. maí 2019 Fjármagnskostnaður taki bæði til lánsfjár og bundins eigin fjár Þann 15. mars s.l. kvað Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið upp úrskurð um að álagning Veitna ohf. á vatnsgjaldi væri ólögmæt. Ágreiningsefnið í málinu er fyrst og fremst um það hvaða felst í hugtakinu fjármagnskostnaður samkvæmt 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga. Lögin sjálf skilgreina hugtakið ekki, en hins vegar er almennur skilningur sá að fjármagnskostnaður taki bæði til kostnaðar við lántöku og kostnaðar vegna bundins eigi fjár. Samorka telur ljóst eftir ítarlega skoðun að niðurstaða ráðuneytisins byggist á ákveðnum misskilningi. Í lögskýringargögnum (greinargerð með frumvarpi til vatnsveitulaga, nefndaráliti með frumvarpinu og einnig í greinargerð með frumvarpi til sveitarstjórnarlaga) koma fram mikilvægar upplýsingar sem gefa svör um það hvað átt er við með fjármagnskostnaði í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Þegar þessi gögn eru rýnd er augljóst að vilji Alþingis stendur til þess að sveitarfélögin, sem eigendur vatnsveitna, geta áskilið sér hæfilegan kostnað vegna eiginfjár sem bundið er í veitunni, þ.e. hæfilegan arð. Ekki er dregið í efa að þessum rétti til arðs eru settar ákveðnar skorður og þess vegna gert ráð fyrir því í vatnsveitulögunum að ráðherra setji reglugerð hér að lútandi. Reglugerð um þessi atriði hefur ekki verið sett og því skort á leiðbeiningum um með hvaða hætti skuli reikna út þennan kostnað, þ.e. hver sé leyfilegur arður. Reglur hér að lútandi hafa hins vegar verið settar um raforkudreifingu og því ákváðu Veitur að hafa hliðsjón af þeim reglum í tilfelli gjaldskrár vatnsveitunnar. Er þá á því byggt að gera megi ráð fyrir því að svipuð sjónarmið liggi til grundvallar um ákvörðun arðs í sérleyfisstarfssemi hvort sem um raforkudreifingu er að ræða eða rekstur vatnsveitu. Mikilvægt er að hafa í huga að í umfjöllun fræðimanna um hæfilegan arð af bundnu eigin fé í fyrirtækjum sveitarfélaga er lögð áhersla á mikilvægi þess að um er að ræða raunverulegan kostnað og að með skilyrðingu um arð komi hvatar sem tryggi skynsamlegt eigið fé á móti lánsfé. Slíkt auki jafnfram líkur á fjárfestingu í nauðsynlegum innviðum og þeim sé haldið við af ábyrgð. Stjórn Samorku og ráðgjafaráð veitufyrirtækja hafa fjallað um málið og er niðurstaðan sú að óska eftir því við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að þegar í stað verði sett reglugerð um forsendur arðs af bundnu eigin fé og þar með viðurkennt að fjármagnskostnaður taki til bæði lánsfjár og bundins eigin fjár í vatnsveitum sveitarfélaga. Telji ráðuneytið að ástæða sé til þess að jafnframt séu gerðar breytingar á lögum um vatnsveitur sveitarfélag þá verði það gert hið fyrsta. Stjórn Samorku óskar einnig eftir því að ráðuneytið fari að svo stöddu ekki í boðaða frumkvæðisathugun á gjaldskrám allra vatnsveitna sveitarfélaga í landinu. Áður en til þess kemur er mikilvægt að tekin sé afstaða til þeirra röksemda sem Samorka hefur sett fram í málinu og þar með að forsendur séu nú þegar fyrir hendi fyrir ráðherra að gefa út reglugerð sem veitir leiðsögn um hvað sé hæfilegur arður af bundnu eigni frá, enda ljóst að löggjafarviljinn stendur til þeirrar heimildar.