Ný skýrsla staðfestir takmörkun jarðstrengja

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið birtu í gær í samráðsgátt stjórnvalda skýrslu dr. Hjartar Jóhannssonar um mat á möguleikum þess að nýta jarðstrengi við uppbyggingu flutningskerfis raforku. Ráðuneytin kölluðu eftir þessari úttekt í samræmi við þingsályktun 26/148, frá júní 2018, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Helstu niðurstöður í skýrslunni eru samhljóða niðurstöðum sem Landsnet hefur birt um sömu mál. Skýrslan staðfestir að jarðstrengir á hærri spennu (132 kV og 220 kV) í flutningskerfinu eru takmörkuð auðlind.

Í skýrslu dr. Hjartar segir orðrétt:

“Út frá samanburði þeirra niðurstaðna sem kynntar eru í þessum kafla og niðurstaðna annarra sambærilegra greiningarverkefna, þar sem lengdatakmarkanir jarðstrengskafla innan íslenska flutningskerfisins eru greindar, má sjá að góður samhljómur er á milli niðurstaðnanna. Rennir það frekari stoðum undir áreiðanleika fyrri greininga og þessarar greiningar hvað varðar lengdatakmarkanir háspenntra jarðstrengja”.

Meginniðurstaða verkefnisins eru þær að takmarkanir á lengd jarðstrengja á hæstu spennustigum flutningskerfisins leiðir það af sér að notkun svo stuttra jarðstrengskafla muni ekki hafa veruleg áhrif á afhendingaröryggi, raforkuverð, umhverfiskostnað eða byggðaþróun.

Skýrslu dr. Hjartar má sjá í heild sinni hér: Jardstrengir

Hlúum að innviðunum okkar

Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku

Hlúum að innviðunum okkar

Enn og aftur höfum við verið minnt á hvað orkuinnviðirnir okkar eru mikilvægir heilsu, öryggi og lífsviðurværi fólks.

Aftakaveður gekk yfir landið í vikunni og þrátt fyrir umfangsmikinn undirbúning og viðbúnað þeirra sem stuðla að öryggi og velferð landsmanna varð víðtækt og fordæmalaust rafmagnsleysi með tilheyrandi tjóni og óþægindum.

Starfsfólk veitufyrirtækjanna, ásamt björgunarsveitum, lögreglu, slökkviliði og fleirum, hefur unnið sleitulaust að því undanfarna sólarhringa að koma rafmagni og hita aftur á í þeim landshlutum sem verst urðu úti. Aðstæður hafa verið erfiðar og reynt hefur á samstarf, þekkingarmiðlun og fagmennsku allra aðila sem að málinu hafa komið. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, vill þakka starfsfólki veitufyrirtækjanna og öðrum viðbragðsaðilum sem hafa lagt sig fram við að koma samfélaginu í samt horf en því verkefni er hvergi nærri lokið, þar sem nokkurn tíma mun taka að gera að fullu við skemmdir af völdum veðurofsans.

Góðir innviðir eru undirstaða samfélagsins. Við megum hins vegar aldrei taka þeim sem sjálfsögðum hlut. Hlúa þarf að þeim; endurnýja þegar við á og styrkja þá, svo allir geti notið sömu lífsgæða og tækifæra og draga úr líkum á samsvarandi tjóni sem varð nú. Það þarf einnig að horfa til framtíðar þegar kemur að innviðauppbyggingu svo hægt verði að mæta þörfum samfélagsins í öllum landshlutum.

Orku- og veitugeirinn byggir á öflugu starfsfólki, því kerfin okkar virka ekki bara af sjálfu sér. Að baki er vel menntað fagfólk sem vinnur að mikilvægum samfélagslegum verkefnum á hverjum degi. Enn og aftur minnir það okkur á hversu brýnt er að hlúa vel að iðn- og tæknimenntun í landinu, svo hægt verði um ókomna framtíð að sinna þessum grunnstoðum samfélagsins.

Ríkisstjórnin hefur tilkynnt að til standi að stofna starfshóp um raforkuinnviði og fagnar Samorka því. Nú reynir á að orkuinnviðir fái þann framgang í skipulags- og leyfisveitingamálum sem til þarf svo þau standi að minnsta kosti ekki í vegi fyrir því að innviðirnir séu á hverjum tíma eins og best verður á kosið fyrir samfélagið.

Aðsend grein eftir Pál Erland, framkvæmdastjóra Samorku.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is laugardaginn 14. desember.

Menntadagur atvinnulífsins 2020: Tilnefningar óskast

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent í Hörpu fimmtudaginn 14. febrúar 2019. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála.

Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.

Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum. Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:

  • að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins
  • að sem flest starfsfólk taki virkan þátt
  • að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum
  • að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflun

Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:

  • að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja,
  • samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja.

Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta tilnefningar.

Vinsamlega skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar. Ekki þarf að senda eða prenta fylgiskjöl.

Tilnefningar sendist í tölvupósti til Samtaka atvinnulífsins á verdlaun@sa.is, eigi síðar en mánudaginn 23. desember.

Aðalheiður til OR

Aðalheiður leiðir verkefnamenningu hjá OR

Aðalheiður Sigurðardóttir hefur verið ráðin í nýtt starf forstöðumanns verkefnastofu hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Hlutverk hennar og samstarfsfólks verður að veita faglega forystu um verkefnamenningu hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögunum; Veitum, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur.

Aðalheiður er viðskiptafræðingur með meistarapróf í verkefnastjórnun (MPM) og frekara nám í þeim fræðum frá Stanford Center for Professional Development. Hún hefur langa reynslu af verkefnastjórn í íslensku atvinnulífi. Frá 2011 starfaði hún sem verkefnisstjóri hjá Össuri og leiddi alþjóðlega verkefnastofu Össurar frá árinu 2016. Þá hefur Aðalheiður sinnt stundakennslu í verkefnastjórnun á meistarastigi meðfram vinnu síðustu ár.

Stofnun verkefnastofu hjá OR er liður í því að innleiða aðferðir verkefnisstjórnunar þvert á alla starfsemi OR-samstæðunnar. Stýring einstakra verkefna verður hér eftir sem hingað til á ábyrgð og hendi sviða og dótturfélaga innan samstæðunnar.

Landsvirkjun verður kolefnishlutlaus 2025

Landsvirkjun hefur sett fram nýja aðgerðaáætlun um að fyrirtækið verði kolefnishlutlaust árið 2025.

Landsvirkjun hefur um langt árabil lagt áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og unnið jafnframt að kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi. Í yfir 10 ár hefur fyrirtækið kortlagt og skrásett kolefnisspor sitt og birt árlega losunartölur í umhverfisskýrslum en góð þekking á kolefnisspori og ástæðum losunar er forsenda þess að fyrirtæki geti gripið til aðgerða.

Síðustu ár hefur verið unnið samkvæmt áætlun sem var samþykkt árið 2015 og miðaði að því að fyrirtækið yrði kolefnishlutlaust árið 2030. Eftir ítarlegri kortlagningu á kolefnisspori fyrirtækisins og greiningu á mögulegum leiðum til þess að minnka það er nú hafin vinna samkvæmt nýrri og ítarlegri aðgerðaáætlun.

Greint var frá aðgerðaáætluninni og fjallað um loftslagsmál í víðara samhengi á opnum fundi Landsvirkjunar í dag. Hægt er að horfa á fundinn hér: https://youtu.be/OkEzW6pEvDU

Allar upplýsingar um þetta metnaðarfulla markmið Landsvirkjunar má lesa hér: https://www.landsvirkjun.is/sjalfbaerni/kolefnishlutlaus

Í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun kemur eftirtalið fram um markmiðið:

„Við ætlum að gera eftirfarandi, í forgangsröð:
1. Fyrirbyggja losun
2. Draga úr núverandi losun
3. Mótvægisaðgerðir

Hvað gerum við til að fyrirbyggja losun?
Við höfum sett verðmiða á losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri fyrirtækisins, þ.e. reiknað út svokallað innra kolefnisverð. Við tökum þannig upplýstari ákvarðanir um áhrif rekstrar á loftslagið, samhliða því að taka með í reikninginn í rekstri okkar hvað það kostar fyrirtækið að verða kolefnishlutlaust. Við ætlum einnig að gera auknar kröfur til að draga úr kolefnisspori við innkaup á vörum og þjónustu.

Hvað gerum við til að draga úr losun?
Til að minnka losun ætlum við að hreinsa útblástur frá Kröflustöð og spara þannig losun upp á 22.000 tonn CO2-ígilda á ári. Við ætlum einnig að skipta yfir í hreinorku fyrir bíla og vinnuvélar á vegum fyrirtækisins og stefnum að því að hætta að kaupa jarðefnaeldsneyti árið 2030. Þá ætlum við að minnka losun vegna flugferða okkar um 30% fram til ársins 2030.

Hvað gerum við til að auka bindingu kolefnis?
Til að auka bindingu gróðurhúsalofttegunda í jarðvegi og gróðri ætlum við að auka uppgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Þannig mun binding fara úr rúmlega 30.000 tonnum CO2-ígilda 2018 í 45.000 tonn árið 2025 og 60.000 tonn 2030.“

Fráveitan er málið

Grein eftir Pál Erland, framkvæmdastjóra Samorku.

Fráveitan er málið
Fráveitumál eru eitt mikilvægasta umhverfismálið og snýr bæði að lýðheilsu og góðri umgengni við náttúruna. Á undanförnum áratugum hafa sveitarfélög og veitufyrirtæki í þeirra eigu lyft grettistaki í að bæta fráveitukerfi og fjölga skólphreinsistöðvum víða um land. Á árunum 1992-2005 fór hlutfall landsmanna sem búa við skólphreinsun úr 6% í 68%. Árið 2018 var hlutfallið komið í 79%, þegar uppbyggingu skólphreinsunar lauk á Akranesi og í Borgarnesi og hefur hlutfallið haldist nær óbreytt síðan.

Þrátt fyrir úrbætur síðustu ára þarf enn gera betur í fráveitumálum víða. Í skýrslu Samtaka iðnaðarins um stöðu innviða í landinu, sem kom út í október 2017, kom fram að fjárfestinga væri hvað sárast þörf í fráveitu og vegakerfi. Bæta þurfi ástand fráveitulagna, koma upp skólphreinsun og styrkja kerfin til að draga úr flóðahættu. Þetta kosti á bilinu 50-80 milljarða. Þar af kostar aukin skólphreinsun til samræmis við núgildandi reglur um 20 milljarða.

Stórar framkvæmdir í fráveitum eru þung fjárhagsleg byrði fyrir sveitarfélög og er það steinn í götu þess að allir landsmenn búi við góða fráveitu. Samorka hefur bent á að skoða þurfi aðkomu ríkisins að kostnaði við fráveituframkvæmdir, til dæmis með því að taka upp að nýju endurgreiðslu virðisaukaskatts við slíkar framkvæmdir. Mikið hefur áunnist á síðustu áratugum í uppbyggingu fráveitna og urðu framfarir mestar á þeim tíma sem slíkt endurgreiðslukerfi var í gildi, frá árinu 1995 til 2008.

Á Alþingi hefur nú verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt til þess að styðja við úrbætur í þessum mikilvæga málaflokki. Einnig er starfshópur ráðuneyta umhverfis-, fjármála-, og sveitarstjórnarmála að skoða mögulegar leiðir til frekari stuðnings við fráveituframkvæmdir. Samorka hvetur alþingismenn til að styðja við hið nýja frumvarp og aðrar aðgerðir sem stuðla að uppbyggingu hreinsimannvirkja og úrbótum í fráveitumálum um allt land. Verkefnið er brýnt og snýst um að koma hlutfallinu úr 79% í 100% – í þágu umhverfisins og allra landsmanna.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. nóvember 2019.

Landsvirkjun hlýtur Hvatningarverðlaun jafnréttismála

 

Landsvirkjun hlaut í dag Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2019. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, afhenti Herði Arnarsyni forstjóra og Selmu Svavarsdóttur, forstöðumanni á starfsmannasviði, verðlaunin á fundi um jafnréttismál í hátíðarsal Háskóla Íslands í morgun.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, Selma Svavarsdóttir, forstöðumaður á starfsmannasviði Landsvirkjunar og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.Í rökstuðningi dómnefndar kemur meðal annars fram:

„Landsvirkjun hefur lagt ríka áherslu á að skapa góða fyrirtækjamenningu þar sem jafnrétti og virðing fyrir fjölbreytileika samfélagsins liggja til grundvallar. Tekið er mið af jafnréttismálum í heildarstefnu fyrirtækisins og er ávinningurinn er áþreifanlegur. Grasrót fyrirtækisins hefur verið mjög öflug og var aðgerðaáætlun jafnréttismála mynduð úr umbótatillögum starfsfólks. Umfjöllun um jafnréttismál hefur verið tekin upp með fjölbreyttum hætti og er forstjóri eigandi verkefnisins og formaður jafnréttisnefndar.

Breið nálgun við greiningu á stöðu jafnréttis í fyrirtækinu er í forgrunni. Áður fyrr var lagður fremur þröngur skilningur á jafnréttishugtakinu og lítið horft til veigamikilla atriða svo sem menningar, sýnileika kvenna og ákvörðunar- og áhrifavalds þeirra innan fyrirtækisins. Landsvirkjun hefur farið framsæknar leiðir í innri markaðssetningu á jafnrétti. Í allri jafnréttisvinnunni hefur verið haft að leiðarljósi að hjálpast að við að skilja jafnrétti og þróa vinnustaðamenninguna saman sem heild.

Hjá Landsvirkjun er vilji til að hafa áhrif og miðla jafnréttisvinnu og hugmyndum í samfélaginu. Í þeirra hugum eru jafnréttismál ekki átak, það er komið til að vera. Þau eru meðvituð um hvar þau standa, hvert þau vilja komast og gera sér grein fyrir mikilvægi jafnréttis í sjálfbærum heimi.“

Hörður Arnarson forstjóri:
„Jafnréttismál hafa verið í forgangi hjá okkur í Landsvirkjun undanfarin ár. Þegar lagt hefur verið af stað í slíka vegferð verður ekki aftur snúið. Með því að vinna markvisst að jafnrétti á öllum sviðum fyrirtækisins og gera breytingar á stóru og smáu erum við að sjá árangur og fyrirtækið er að þróast hraðar en áður. Það er okkur mikilvægt, því við viljum vera eftirsóknarverður vinnustaður fyrir framúrskarandi fólk af öllum kynjum. Verðlaunin eru okkur mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut.“

Markmið með Hvatningarverðlaunum jafnréttismála er að vekja athygli á fyrirtækjum sem hafa jafnrétti að leiðarljósi í starfsemi sinni og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki sem hefur stuðlað að jöfnum möguleikum kynjanna til starfsframa, jöfnum launum, jafnvægi í kynjahlutföllum og aukinni vitund um þann ávinning sem jafnrétti hefur fyrir fyrirtækið og samfélagið.

Að Hvatningarverðlaunum jafnréttismála standa Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð, Háskóli Íslands, Samtök atvinnulífsins og UN Women á Íslandi.

Hér má lesa samantekt á aðgerðum og áherslum Landsvirkjunar í jafnréttismálum til 2021.

 

Hvers virði er góð salernisaðstaða?

Alþjóðlegi klósettdagurinn er í dag, 19. nóvember.

Fjórir og hálfur milljarður manna í heiminum í dag hefur ekki aðgengi að salerni sem tengt er öruggu fráveitukerfi og hátt í 700 þúsund manns þurfa að gera þarfir sínar utandyra á degi hverjum. Afleiðingin er meðal annars sú að um tveir milljarðar jarðarbúa nýta drykkjarvatnsuppsprettur sem eru mengaðar af saur og hátt í hálf milljón manna deyr árlega vegna niðurgangspesta.

Sameinuðu þjóðirnar halda alþjóðlegan dag klósettsins hátíðalegan á hverju ári og vilja þar með minna á þær úrbætur sem þarf til í þessum málaflokki. Sjálfbærnimarkmið þeirra miða meðal annars að því að allir geti búið við viðunandi hreinlæti  og að ómeðhöndlað skólp verði minnkað um helming.

Góð fráveita bjargar mannslífum, veitir fólki reisn og veitir betri tækifæri til að rífa sig upp úr sárri fátækt.

Nánari upplýsingar um alþjóðlega klósettdaginn má finna á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna.

Veitur hafa einnig minnt á daginn í dag, til dæmis með því að minna á að klósettið er ekki ruslafata.

Hvað er fráveita?

Fráveitan veitir mikilvæga þjónustu sem enginn getur verið án en fæstir leiða hugann að í amstri dagsins. Fráveitan flytur frárennsli heimila og fyrirtækja, regnvatn frá götum og lóðum, og í sumum hverfum bakrás hitaveitu í sjó með viðkomu í hreinsistöð. Hreinsunarferli skólpsins skapar náttúrunni sjálfri skilyrði til að taka við næringarríku skólpinu og farga því án þess að skaða vistkerfið. Það sýna ítarlegar rannsóknir á Faxaflóa meðal annars; að losunin hefur lítil sem engin áhrif á gæði sjávar.

Upprunaábyrgðir: Lóð á loftslagsvogarskálar

Aðsend grein í Morgunblaðið eftir Lovísu Árnadóttur, upplýsingafulltrúa Samorku:

UPPRUNAÁBYRGÐIR: LÓÐ Á LOFTSLAGSVOGARSKÁLAR

Á Íslandi er rafmagn framleitt með endurnýjanlegum hætti. Þetta er staðreynd, sem þó skolast stundum til þegar uppgjör vegna upprunaábyrgða raforku, stundum kölluð græn skírteini, er birt einu sinni á ári. Því er rétt að skerpa aðeins á hvað upprunaábyrgðir eru, hver tilgangur þeirra sé og af hverju Ísland tekur þátt í kerfinu um þær.

Hvað eru upprunaábyrgðir og hvernig virka þær?

Upprunaábyrgðir raforku eru liður í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í Evrópu hefur verið gripið til ýmissa ráða til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og auka hlut endurnýjanlegrar orku. Til dæmis ívilnanir og skattlagning, langtíma tvíhliða samningar við raforkuframleiðendur og svo vottunarkerfi um uppruna raforku, eða upprunaábyrgðir. Með upprunaábyrgðum er græni þáttur framleiðslunnar gerður að sjálfstæðri söluvöru óháð því hvort kaupandinn fái þetta tiltekna græna rafmagn í innstungurnar sínar. Það er til þess að hægt sé umbuna þeim sem framleiða græna orku óháð því hvar þeir eru staðsettir því það skiptir ekki máli í samhengi loftslagmála; það er sama hvaðan gott kemur.

Fjárhagsleg umbun = arðbærari hrein orka

Með því að beina fjármagninu til þeirra sem framleiða orku með endurnýjanlegum hætti verður sú orka arðbærari og getur frekar keppt við orku sem framleidd er með jarðefnaeldsneyti, sem hingað til hefur verið ódýrari í framleiðslu. Raforkunotendur í Evrópu hafa kannski takmarkaðan aðgang að endurnýjanlegri orku í sínu heimalandi en geta þá stutt við framleiðslu á hreinni orku með því að borga aukalega í hverjum mánuði. Hér fara því saman hagsmunir græna raforkuframleiðandans og græna raforkukaupands.

Sjái raforkunotandi ávinning í því að vísa í að hann noti rafmagn sem framleitt er á umhverfisvænan hátt getur hann vottað það með opinberum hætti með því að kaupa upprunaábyrgð. Rétt eins og með aðrar umhverfisvottanir þarf að greiða sérstaklega fyrir vottun á uppruna raforku. Engin kvöð er að kaupa slíka vottun; kerfið er valfrjálst fyrir fyrirtæki og einstaklinga.

Verðmæti orkunnar hámörkuð

Hreinleiki orkunnar okkar eru verðmæti og auðlind út af fyrir sig. Kerfið um upprunaábyrgðir setur verðmiða á það. Ísland hefur augljósa hagsmuni af því að hámarka verðmæti hreinu orkunnar sem hér er framleidd og það markmið næst betur með því að selja þær upprunaábyrgðir, sem ekki seljast hér á landi, á alþjóðlegum markaði.
Það skiptir máli fyrir heiminn allan að á Íslandi sé framleidd græn orka og því eðlilegt að við njótum ávinnings af því.

Fjárhagslegur ávinningur Íslands er töluverður í þessu kerfi. Út frá markaðsvirði skírteinanna getur upphæðin sem íslenskir raforkuframleiðendur fá numið frá 0,5 – 5,5 milljörðum á ári. Árið 2018 voru hreinar tekjur af sölu íslenskra upprunaábyrgða í kringum 800 – 850 milljónir króna. Þar sem raforkuframleiðendur hér á landi eru að langstærstum hluta í eigu ríkisins hefur íslenskt samfélag beinan ávinning af sölu upprunaábyrgða og þessar umtalsverðu tekjur geta hjálpað til við að halda orkuverði hér lágu.

Ávinningur fyrir íslensk fyrirtæki

Upprunaábyrgðir fylgja með í raforkuverði til heimila á Íslandi og fyrirtækja á almennum markaði og ættu fleiri fyrirtæki að skoða hvers konar ávinning það gæti fært þeim á alþjóðlegum markaði. Vegna þátttöku okkar í kerfinu fá íslensk fyrirtæki aðgang að innlendum upprunavottunum, sem getur gefið samkeppnisforskot í heimi þar sem krafan um sjálfbæra virðiskeðju verður sífellt háværari. Fyrirtæki á Íslandi gætu ekki nýtt sér hreinleika orkunnar til að vekja athygli á sinni vöru nema með þátttöku í kerfinu um upprunaábyrgðir, því vottunina þarf til.

Ávinningur fyrir loftslagið

Kerfið um upprunaábyrgðir hefur engin áhrif á loftslagsmarkmið Íslands eða annarra landa, enda einungis hugsað til þess að búa til auka fjármagn til þeirra sem framleiða endurnýjanlega orku. Þetta fjármagn getur skipt sköpum fyrir fjárfestingar í nýjum umhverfisvænum orkukostum og hjálpar því til við að koma fleiri slíkum á koppinn. Og það skilar árangri. Upprunaábyrgðir eiga þátt í því að hlutfall endurnýjanlegrar orku í Evrópu fer hækkandi. Það eru góðar fréttir fyrir okkur öll.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2019

Græn skírteini tækifæri til að hámarka virði orkunnar

Fræðslufundur Samorku um upprunaábyrgðir, eða græn skírteini, var haldinn á Icelandair Hótel Natura mánudaginn 4. nóvember. Upptökur af erindum má finna í þessari frétt.

Upprunaábyrgðir raforku urðu til sem liður í því að vinna á móti loftslagsbreytingum með því að vera fjárhagslegur hvati til að byggja upp græna orkukosti í Evrópu. Þau ganga út á það að gera hreinleika orku að sérstökum verðmætum og sjái einstaklingar eða fyrirtæki ávinning í því að segjast nota hreina orku þurfi að borga markaðsvirði fyrir það. Upprunaábyrgðir eru innifaldar í raforkuverði til heimila og fyrirtækja á almennum markaði á Íslandi og getur það verið tækifæri til samkeppnisforskots á markaði, vegna þess að viðskiptavinir verða sífellt meðvitaðri um virðiskeðju framleiðslunnar.

Á fundinum tóku til máls Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, Eyrún Guðjónsdóttir, sérfræðingur hjá Dóttir Consulting, Lovísa Árnadóttir upplýsingafulltrúi Samorku og Alexandra Münzer framkvæmdastjóri Greenfact. Fundarstjóri var Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greininga hjá Íslandsbanka.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, var meðal framsögumanna á fundinum. Mynd: Eyþór Árnason

Halldór fór yfir loftslagsmál og loftslagsaðgerðir í stóru myndinni í upphafi fundar. Hann sagði meðal annars í erindi sínu að þörf væri á að verðleggja aðgang að andrúmsloftinu m.a. með viðskiptum með losunarheimildir, kolefnisbindingar og skattlagningu losunar. Þá væri mikilvægt að ná fram beinum aðgerðum til að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku og grænu skírteinin séu liður í því. ,,Öll vegferðin fram að 2050 skiptir máli. Að gera ekkert er dýrasti valkosturinn. Við þurfum alla verkfærakistuna til að endurskapa orkukerfi,“ sagði Halldór.

Eyrún Guðjónsdóttir hjá Dóttir Consulting Mynd: Eyþór Árnason

Eyrún talaði um þátttakendur og virkni kerfisins upp­runa­ábyrgðir raf­orku þar sem kom fram að kaupendur grænna skírteina séu heimili og fyrirtæki í Evrópu, sem sækist eftir því að nota græna raforku. Eft­ir­spurn eft­ir end­ur­nýj­an­legri orku hefði auk­ist mikið, og þar með viðskipti með græn skír­teini.

Sagði hún að sí­fellt fleiri lönd taki þátt í kerf­inu um upp­runa­ábyrgðir og hlut­fall end­ur­nýj­an­legr­ar orku­vinnslu væri hærra í þeim lönd­um, sem sýn­ir að kerfið virk­ar. „Það er mik­il­vægt fyr­ir fyr­ir­tæki að vera með grænu skír­tein­in til að geta sýnt fram á stuðning sinn við upp­bygg­ingu end­ur­nýj­an­legr­ar orku og geta notað það í sitt græna bók­hald,“ sagði Eyrún á fund­in­um. Þá sagði hún að fyr­ir­tæki í fjöl­mörg­um geir­um kaupi græn skír­teini, bæði beint frá raf­orku­fram­leiðend­um og í gegn­um miðlara.

Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi á Samorku, fjallaði um upprunaábyrgðir í íslensku samhengi. Mynd: Eyþór Árnason

Lovísa talaði meðal ann­ars um fjár­hags­leg­an  ávinn­ing­ Íslands sem væri tölu­verður í þessu kerfi og að líta eigi á það sem tæki­færi til að há­marka verðmæti þeirra orku sem hér er fram­leidd. ,,Það skipt­ir máli fyr­ir heim­inn all­an að á Íslandi sé fram­leidd græn orka og því eðli­legt að við njót­um ávinn­ings af því.“

Út frá markaðsvirði skír­tein­anna get­ur upp­hæðin sem ís­lensk­ir raf­orku­fram­leiðend­ur fá numið frá 0,5 – 5,5 millj­örðum á ári, en árið 2018 voru tekj­urn­ar af söl­unni í kring­um 800 – 850 millj­ón­ir króna. Í erindi hennar kom fram að sala grænna skírteina á Íslandi hefði engin áhrif á skuldbindingar Íslands eða annarra landa í loftslagsmálum og á Íslandi sé áfram framleidd raforka með endurnýjanlegum hætti.

Alexandra Münzer frá Greenfact, greiningafyrirtæki sem sérhæfir sig í markaði um upprunábyrgðir í Evrópu, fór yfir hvernig markaðurinn virkar og hvernig verð grænna skírteina hefur þróast í gegnum tíðina.

Alexandra Münzer frá Greenfact greiningarfyrirtækinu fjallaði um markaðinn með upprunaábyrgðir

 

Upptökur:

Alþjóðlegar loftslagsaðgerðir og græn skírteini – Halldór Þorgeirsson from Samorka on Vimeo.

Kerfið um græn skírteini: Virkni og þátttakendur – Eyrún Guðjónsdóttir from Samorka on Vimeo.

The Wholesale Market for Guarantees of Origin – Alexandra Münzer from Samorka on Vimeo.

 

 

 

Eggert Benedikt Guðmundsson og Kamma Thordarson frá Grænvangi.
Fundurinn var vel sóttur.
Birta Kristín Helgadóttir
Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri Greininga Íslandsbanka stýrði fundinum.
Gestir fundarins, meðal annars Páll Erland framkvæmdastjórji Samorku.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar
Halldór Þorgeirsson og Eggert Benedikt Guðmundsson á spjalli í lok fundar.

 

Upptaka af fundinum í heild sinni:

 

Dafnandi græn orka – fræðslufundur um upprunaábyrgðir raforku from Samorka on Vimeo.