12. desember 2019 Aðalheiður til OR Aðalheiður leiðir verkefnamenningu hjá OR Aðalheiður Sigurðardóttir hefur verið ráðin í nýtt starf forstöðumanns verkefnastofu hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Hlutverk hennar og samstarfsfólks verður að veita faglega forystu um verkefnamenningu hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélögunum; Veitum, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur. Aðalheiður er viðskiptafræðingur með meistarapróf í verkefnastjórnun (MPM) og frekara nám í þeim fræðum frá Stanford Center for Professional Development. Hún hefur langa reynslu af verkefnastjórn í íslensku atvinnulífi. Frá 2011 starfaði hún sem verkefnisstjóri hjá Össuri og leiddi alþjóðlega verkefnastofu Össurar frá árinu 2016. Þá hefur Aðalheiður sinnt stundakennslu í verkefnastjórnun á meistarastigi meðfram vinnu síðustu ár. Stofnun verkefnastofu hjá OR er liður í því að innleiða aðferðir verkefnisstjórnunar þvert á alla starfsemi OR-samstæðunnar. Stýring einstakra verkefna verður hér eftir sem hingað til á ábyrgð og hendi sviða og dótturfélaga innan samstæðunnar.