Landsvirkjun verður kolefnishlutlaus 2025

Landsvirkjun hefur sett fram nýja aðgerðaáætlun um að fyrirtækið verði kolefnishlutlaust árið 2025.

Landsvirkjun hefur um langt árabil lagt áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og unnið jafnframt að kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi. Í yfir 10 ár hefur fyrirtækið kortlagt og skrásett kolefnisspor sitt og birt árlega losunartölur í umhverfisskýrslum en góð þekking á kolefnisspori og ástæðum losunar er forsenda þess að fyrirtæki geti gripið til aðgerða.

Síðustu ár hefur verið unnið samkvæmt áætlun sem var samþykkt árið 2015 og miðaði að því að fyrirtækið yrði kolefnishlutlaust árið 2030. Eftir ítarlegri kortlagningu á kolefnisspori fyrirtækisins og greiningu á mögulegum leiðum til þess að minnka það er nú hafin vinna samkvæmt nýrri og ítarlegri aðgerðaáætlun.

Greint var frá aðgerðaáætluninni og fjallað um loftslagsmál í víðara samhengi á opnum fundi Landsvirkjunar í dag. Hægt er að horfa á fundinn hér: https://youtu.be/OkEzW6pEvDU

Allar upplýsingar um þetta metnaðarfulla markmið Landsvirkjunar má lesa hér: https://www.landsvirkjun.is/sjalfbaerni/kolefnishlutlaus

Í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun kemur eftirtalið fram um markmiðið:

„Við ætlum að gera eftirfarandi, í forgangsröð:
1. Fyrirbyggja losun
2. Draga úr núverandi losun
3. Mótvægisaðgerðir

Hvað gerum við til að fyrirbyggja losun?
Við höfum sett verðmiða á losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri fyrirtækisins, þ.e. reiknað út svokallað innra kolefnisverð. Við tökum þannig upplýstari ákvarðanir um áhrif rekstrar á loftslagið, samhliða því að taka með í reikninginn í rekstri okkar hvað það kostar fyrirtækið að verða kolefnishlutlaust. Við ætlum einnig að gera auknar kröfur til að draga úr kolefnisspori við innkaup á vörum og þjónustu.

Hvað gerum við til að draga úr losun?
Til að minnka losun ætlum við að hreinsa útblástur frá Kröflustöð og spara þannig losun upp á 22.000 tonn CO2-ígilda á ári. Við ætlum einnig að skipta yfir í hreinorku fyrir bíla og vinnuvélar á vegum fyrirtækisins og stefnum að því að hætta að kaupa jarðefnaeldsneyti árið 2030. Þá ætlum við að minnka losun vegna flugferða okkar um 30% fram til ársins 2030.

Hvað gerum við til að auka bindingu kolefnis?
Til að auka bindingu gróðurhúsalofttegunda í jarðvegi og gróðri ætlum við að auka uppgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Þannig mun binding fara úr rúmlega 30.000 tonnum CO2-ígilda 2018 í 45.000 tonn árið 2025 og 60.000 tonn 2030.“