16. júní 2021 Óvissu um rekstrargrundvöll vatnsveitna verði eytt Hreint neysluvatn er einn af hornsteinum heilbrigðis og lífsgæða. Vatnið okkar er ein helsta auðlind landsins og aðgengi að því hér á landi er afar gott og gæði þess mikil. Vatnsveitur á Íslandi sinna því mikilvæga hlutverki að tryggja heimilum og fyrirtækjum aðgengi að hágæða drykkjarvatni á sanngjörnu verði. Þrátt fyrir að heimili og fyrirtæki noti mikið vatn er kostnaður vegna kaldavatnsnotkunar langlægstur hér á landi þegar höfuðborgir á Norðurlöndum eru bornar saman. Sterkir og öruggir innviðir eru okkur mikilvægir og mikil sátt ríkir um uppbyggingu þeirra og rekstur. Til þess að vatnsveitur geti áfram sinnt hlutverki sínu til framtíðar þarf að tryggja vatnsveitum nægilegt fjármagn svo þær geti staðið undir rekstrinum og fjárfestingum til framtíðar. Það er meðal annars gert með því að innheimta þjónustugjald og mikilvægt er að það gjald endurspegli raunverulegan kostnað við að veita þjónustuna. Samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga skal vatnsgjald hverrar vatnsveitu miðast við að það „standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar“. Eins og kunnugt er hefur komið upp ágreiningur um túlkun hugtaksins fjármagnskostnaður samkvæmt 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga og í úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins gengið út frá því að hann taki eingöngu til vaxtakostnaðar af lánum. Þetta er sérstakt í ljósi þess að enginn ágreiningur hefur verið um það hingað til að fjármagnskostnaður tekur bæði til kostnaðar við lántöku og kostnaðar vegna bundins eigin fjár. Samorka telur ljóst eftir ítarlega skoðun að úrskurður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um ólögmæti núverandi vatnsgjalds byggist á ákveðnum misskilningi. Í lögskýringargögnum (greinargerð með frumvarpi til vatnsveitulaga, nefndaráliti með frumvarpinu og í greinargerð með frumvarpi til sveitarstjórnarlaga) koma fram mikilvægar upplýsingar sem gefa svör um það hvað átt er við með fjármagnskostnaði í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Þegar þessi gögn eru rýnd er augljóst að vilji Alþingis stendur til þess að sveitarfélögin, sem eigendur vatnsveitna, geta áskilið sér hæfilegan kostnað vegna eiginfjár sem bundið er í veitunni, þ.e. hæfilegan arð. Í þeim löndum sem við berum okkur saman við, s.s. í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Bretlandi og Hollandi svo einhver dæmi séu nefnd, er einnig gert ráð fyrir arði af rekstri í gjaldskrám vatnsveitna. Mikilvægt er að eigendum vatnsveitna sé tryggð eðlileg arðsemi þess eigin fjár sem sett er í veitukerfin þannig að ekki sé hikað við að ráðast í fjárfestingar og úrbætur. Slíkir hagrænir hvatar til fjárfestingar tryggja að fyrirtækjum séu búin þau skilyrði að geta fjármagnað sig á eðlilegum forsendum til lengri tíma. Reglugerð um þessi atriði hefur ekki verið sett og því skort á leiðbeiningum um með hvaða hætti skuli reikna út þennan kostnað, þ.e. hver sé leyfilegur arður. Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samorku hafa lengi átt í viðræðum við fulltrúa ráðuneytisins um gerð leiðbeininga um forsendur við gerð gjaldskrár vatnsveitna þannig að þær séu skýrar og þar með að þessi grundvallar skilningur á hugtakinu fjármagnskostnaður sé viðurkenndur og þeirri óvissu sem nú er uppi í rekstri vatnsveitna sé eytt.
10. maí 2021 Almar ráðinn fagsviðsstjóri Samorku Almar Barja hefur verið ráðinn fagsviðsstjóri hjá Samorku. Almar útskrifaðist með M.Sc. í sjálfbærum orkufræðum frá Iceland School of Energy árið 2015 og er einnig með B.Sc. í jarðfræði frá Háskóla Íslands. Undanfarin fimm ár hefur Almar unnið sem hagfræðiráðgjafi hjá bresku ráðgjafastofunni Economic Consulting Associates. Þar vann hann með alþjóðastofnunum eins og World Bank, EBRD og fjölda ríkisstjórna að verkefnum tengdum orku- og veitumálum. Almar kom til starfa í dag og bjóðum við hann hjartanlega velkominn til Samorku.
5. maí 2021 Gróðureldar á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk Nokkur viðbúnaður var hjá Veitum vegna gróðureldanna í Heiðmörk í gærkvöldi. Vatnsból höfuðborgarinnar, og vatnsverndarsvæðið í kringum þau, eru staðsett í Heiðmörk og afar mikilvægt að þau mengist ekki, t.d. af olíu eða öðrum efnum sem geta komist af yfirborði í gegnum jarðlögin og í grunnvatnsstraumana. Haft var samráð við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vegna aukinnar hættu á mengunarslysum, sem skapast getur vegna mikillar umferðar stórra ökutækja er bera með sér töluvert magn eldsneytis inn á vatnsverndarsvæðið. Auk vatnsverndar var gripið til annarra varúðarráðstafana svo verja mætti mannvirki og búnað vatnsbólanna. Vatnstankar voru settir á yfirfall til að bleyta upp í yfirborði í nágrenni vatnstökumannvirkja og sett var upp brunanhanatenging sem slökkvilið gæti notað í Vatnsendakrikum, einum af þremur vatnstökustöðum Veitna í Heiðmörk, sem slökkvilið gat notað við slökkvistarf. Fyrir voru nokkrir brunahanar í Heiðmörk sem settir voru upp fyrir nokkrum árum vegna hættu á gróðureldum. Mönnun í stjórnstöð var aukin ef færa þyrfti vatnstöku á milli svæða og/eða stýra framleiðslunni handvirkt. Snör handtök viðbragðsaðila komu í veg fyrir að nýta þyrfti þessar ráðstafanir. Neysluvatn höfuðborgarbúa er tekið úr borholum á vatnstökusvæðunum í Heiðmörk og er ekki talið að gróðureldar á yfirborði af þessari stærðargráðu og á þessum stað hafi mælanleg áhrif á vatnsgæði. Veitur hafa nýverið sett upp efnavöktunarbúnað á báðum aðalvatnslögnum frá Heiðmörk til að vakta í rauntíma möguleg áhrif eldgoss á Reykjanesi á efnasamsetningu vatns. Sá búnaður getur einnig nýst til að meta hugsanlegar breytingar, á þeim þáttum er hann mælir, af öðrum völdum, t.d. gróðurelda. Eins og ávallt verður fylgst vel með gæðum vatnsins og ef talin er ástæða til verður sýnataka aukin frá reglubundu eftirliti. Frétt frá Veitum.
26. apríl 2021 Sara Björk og HM í endurnýjanlegri orku Sara Björk, landsliðskona í knattspyrnu, tekur þátt í heimsmeistarakeppninni í endurnýjanlegri orku. Fetar hún í fótspor samherja síns hjá frönsku meisturunum Lyon, Ada Hegerberg, sem setti keppnina á vegum Energi Norge. Keppnin var sett af stað til að minna á mikilvægi þess að auka hlut endurnýjanlegrar orku í heiminum og gera úr því góðlátlega keppni á milli landa. Samorka ákvað að taka áskorun Energi Norge og taka þátt. Ísland stendur vel að vígi í þessari heimsmeistarakeppni. Ísland framleiðir eingöngu endurnýjanlega orku, en jarðefnaeldsneyti er enn notað í samgöngur. Alls er 83% af allri orku sem notuð er innanlands endurnýjanleg. Það er hins vegar hægt að fara alla leið. Orkuskipti í samgöngum eru grundvallaratriði þess að Ísland standist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum og um leið er það tækifæri til að verða 100% sjálfbær í orkunotkun. Það myndi spara háar upphæðir sem fara annars í innkaup á innfluttri olíu og loftslaginu hlíft við milljónum tonna af gróðurhúsalofttegundum. Frekari upplýsingar um hvar Ísland stendur í orkumálum má sjá hér.
12. apríl 2021 Fráveituauglýsing tilnefnd til Lúðursins Verkefnið Piss, kúkur, klósettpappír, sem unnið var fyrir Samorku og Umhverfisstofnun í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitin var á dögunum tilnefnt til Lúðursins, íslensku auglýsingaverðlaunanna. Hér má sjá tilnefningarnar. Verkefnið er tilnefnt í flokknum Almannaheill, enda öllum til bóta ef við göngum vel um veitukerfin. Það var auglýsingastofan Hvíta húsið sem vann efnið og er öllum aðgengilegt á vefnum klosettvinir.is.
12. apríl 2021 Meta lægra kolefnisspor verktaka í útboðum Veitur hafa tekið ákvörðun um að leggja meiri áherslu á umhverfismál í vali á verktökum á vegum fyrirtækisins og stuðla þannig að orkuskiptum í framkvæmdum. Skilyrði verða sett í útboðslýsingar er fá verktaka til að huga enn frekar að umhverfismálum og aðgerðum til að minnka kolefnisspor sitt. Einnig geta umhverfisþættir sem leiða af sér minna kolefnisspor framkvæmda vegið allt að 20% þegar tilboð eru metin. Markmiðið með þessari nýjung er að lækka kolefnisspor framkvæmda á vegum Veitna og um leið verktaka á þeirra vegum. Þetta er í samræmi við umhverfisstefnu Veitna um stöðugar umbætur í umhverfismálum og því markmiði fyrirtækisins að verða kolefnishlutlaust árið 2030. Gestur Pétursson er framkvæmdastjóri Veitna: „Við hjá Veitum höfum sett okkur metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Þeim verður ekki náð nema fyrirtækið stýri sinni loftslagstengdu áhættu og beiti áhrifum sínum í virðiskeðjunni til ábyrgrar umgengni við umhverfið. Veitur eru fimmti stærsti framkvæmdaaðili landsins sé mið tekið af þeim fjárhæðum sem verja á í fjárfestingar á Íslandi í ár. Stærðinni fylgir ákveðinn slagkraftur sem nýta má til góðs í loftslagsmálum og það viljum við gera. Við hlökkum til að vinna eftir þessu nýja fyrirkomulagi og munum leitast við að vera í góðu samstarfi við alla þá er koma að þeim umfangsmiklu framkvæmdum sem uppbygging og rekstur veitukerfanna krefst á hverju ári.“ Nánari upplýsingar má sjá á vef Veitna.
8. apríl 2021 Umsóknarfrestur um fráveitustyrki framlengdur Frestur fyrir sveitarfélög til að skila inn umsóknum um styrki til fráveituframkvæmda hefur verið framlengdur til 15. apríl. Skila skal inn umsóknum á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins. Skilyrði er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Styrkhæfar fráveituframkvæmdir eru framkvæmdir við safnkerfi fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir og framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts. Einnig er meðal skilyrða er að kostnaður hafi fallið til eftir 1. janúar 2020. Nánari upplýsingar má sjá á vef Stjórnarráðsins.
Laki Power hlýtur Nýsköpunarverðlaun Samorku Nýsköpunarfyrirtækið Laki Power hlaut Nýsköpunarverðlaun Samorku á ársfundi samtakanna í dag. Á fundinum var fjallað um nýsköpun í orku- og veitugeiranum og voru verðlaunin ætluð framúrskarandi sprota- og nýsköpunarfyrirtæki. Frá vinstri: Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, Berglind Rán Ólafsdóttir stjórnarformaður Samorku, Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Laka Power, Óskar Valtýsson, stofnandi Laka Power, Ósvaldur Knudsen, framkvæmdastjóri Laka Power og Einar Pétursson, rafmagnsverkfræðingur hjá Laka Power. Laki Power var stofnað árið 2015 til að þróa tæknibúnað sem er hengdur upp á háspennulínur og fylgist nákvæmlega með ástandi þeirra. Tæknin gerir fyrirtækjum sem annast flutning og dreifingu raforku kleift að hafa nákvæmt eftirlit með ísingu, eldi og umferð fólks við línurnar í rauntíma. Úrvinnsla gagnanna fer fram í skýjalausnum sem Laki Power hefur hannað og mun nú leggja áherslu á að þróa enn frekar með tilkomu styrks frá ESB upp á 335 milljónir króna, auk áherslu á að efla sölu- og markaðsstarf. Sex fyrirtæki hlutu tilnefningu til verðlaunanna sem öll eiga það sameiginlegt að byggja á tæknilausnum eða þjónustu fyrir orku- og veitugeirann eða nýta orku, heitt vatn, neysluvatn, fráveitu eða aðra auðlindastrauma til nýsköpunar. Auk Laka Power voru það fyrirtækin Atmonia, GeoSilica, Icelandic Glacial, Pure North Recycling og Sidewind sem tilnefnd voru. Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum fór yfir tilnefningarnar og útnefndi Laka Power sigurvegara. Í viðhengi er mynd frá afhendingu verðlaunanna. Frá vinstri: Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, Berglind Rán Ólafsdóttir stjórnarformaður Samorku, Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, stjórnarformaður Laka Power, Óskar Valtýsson, stofnandi Laka Power, Ósvaldur Knudsen, framkvæmdastjóri Laka Power og Einar Pétursson, rafmagnsverkfræðingur hjá Laka Power. Hér er skemmtilegt myndband um tæknilausn Laka Power, sem hefur þegar fengið staðfestingu á að sé einstök í heiminum með einkaleyfi.
Þessi fyrirtæki eru tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna Samorku Nýsköpunarverðlaun Samorku verða afhent í fyrsta sinn á ársfundi samtakanna föstudaginn 26. mars. Nýsköpun í orku- og veitugeiranum er í forgrunni ársfundarins að þessu sinni og ber hann yfirskriftina Sprotar vaxa í frjóum jarðvegi. Óskað var fyrirtækjum sem byggja á: Tæknilausnum fyrir orku- og veitugeirann eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum hefur valið úr þeim tilnefningum sem bárust og alls eru sex fyrirtæki tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna Samorku 2021. Þetta eru í stafrófsröð: Atmonia, GeoSilica, Icelandic Glacial, Laki Power, Pure North Recycling og Sidewind. Hér má sjá umfjöllun um hvert fyrirtæki fyrir sig.
10. mars 2021 Ályktun aðalfundar 2021 Eftirfarandi ályktun var samþykkt á aðalfundi Samorku 10. mars 2021: Ísland óháð jarðefnaeldsneyti Samorka fagnar því að fram sé komin ný orkustefna fyrir Ísland til ársins 2050 sem unnin var í þverpólitísku samstarfi. Stefnan er framsýn og verður leiðarljós í orkumálum þjóðarinnar. Í henni er meðal annars lögð áhersla á orkuöryggi, orkuskipti, að lágmarka sóun, fullnýtingu auðlindastrauma og að hámarka verðmætasköpun, um leið og gætt er að náttúru og umhverfi. Með markvissum aðgerðum skal því takmarki náð að Ísland verði jarðefnaeldsneytislaust. Að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti er markmið sem sjálfsagt er að stefna á í landi sem er í fararbroddi á heimsvísu í nýtingu endurnýjanlegrar orku. Í dag stendur endurnýjanleg orka undir raforku- og húshitunarþörf í landinu og það er bæði spennandi og nauðsynlegt verkefni að skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir græna orku á öðrum sviðum samfélagsins, s.s. í samgöngum, svo við getum sjálf staðið undir allri orkuþörf landsins. Samorka fagnar því að áhersla sé sett á jafnt aðgengi að orku um allt land og öfluga innviði svo af þessu markmiði megi verða. Græn endurreisn framundan Samorka tekur undir að mikilvægt sé að leggja áherslu á græna endurreisn í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Með því að styðja við nýjar, grænar lausnir leggjum við enn okkar af mörkum til loftslagsmála í heiminum auk þess að búa til tækifæri til aukinnar gjaldeyrissköpunar. Á sama tíma þarf að hlúa áfram að þeirri verðmætasköpun sem fyrir er í landinu og byggir á nýtingu endurnýjanlegrar orku. Til að fylgja grænni endurreisn úr hlaði þurfa sterkir innviðir að vera til staðar fyrir raforkuflutning og dreifingu. Einnig þarf hreint og heilnæmt drykkjarvatn og góða fráveitu. Ekki síst þarf hagkvæma græna orku í formi rafmagns og heits vatns til að knýja nýjar lausnir og atvinnuuppbyggingu um allt land. Án grænnar orku næst ekki græn endurreisn. Orku- og veitufyrirtækin í landinu leika lykilhlutverk í grænni endurreisn samfélagsins. Innan fyrirtækjanna hefur árum saman verið lögð áhersla á nýsköpun og þróun sem hefur skilað sér í nýjum tæknilausnum og ávinningi fyrir samfélagið og loftslagið. Þessi þekking er mikilvæg þegar kemur að því að leysa þau verkefni sem orku- og veitufyrirtækjunum er ætlað í þeirri vegferð sem framundan er. Græn orka er lausnin Á sama tíma og sett eru markmið um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti og þörfin fyrir græna endurreisn blasir við, liggja fyrir Alþingi tillögur um umsvifamiklar takmarkanir á stórum hluta landsins sem draga verulega úr möguleikum til að uppfylla framtíðarþarfir þjóðarinnar fyrir græna orku og uppbyggingu grænna innviða fyrir alla landsmenn. Ekki má gleyma því að græn orka er lausnin við þeim viðfangsefnum sem við glímum við hér á landi sem og í heiminum öllum. Það er mjög mikilvægt að orkuþörf þjóðarinnar til langs tíma sé metin og mið tekið af orkuskiptum, alþjóðlegum markmiðum í loftslagsmálum, áherslu á græna nýsköpun, áframhaldandi atvinnuuppbyggingu, verðmætasköpun og fjölgun landsmanna. Komandi kynslóðir þurfa að hafa sjálfsákvörðunarrétt og sveigjanleika hvað varðar nýtingu jarðvarma, vindorku, vatnsafls og annarrar grænnar orku til hagsbóta fyrir samfélagið og til að stuðla að sjálfbærni. Áður en frekari ákvarðanir sem hamla vinnslu, flutningi og dreifingu grænnar orku eru teknar er nauðsynlegt að því sé svarað hvaðan hreina orkan, sem uppfylla á þarfir samfélagsins nú og til framtíðar, eigi að koma. Einfaldara og skilvirkara regluverk nauðsynlegt Góð lagaumgjörð er forsenda þess að orku- og veitufyrirtæki landsins geti sinnt þeirri grunnþjónustu sem samfélagið allt byggir á. Núverandi regluverk framkvæmda styður ekki við nauðsynlegt viðhald og styrkingu orkuinnviða. Nauðsynlegt er að bæta úr því. Samorka leggur til að fram fari heildarendurskoðun á ferli rammaáætlunar eða hún lögð niður, þannig að fram komi nýtt skilvirkt fyrirkomulag sem tryggi að ákvarðanir um nýtingu eða vernd orkuauðlinda séu teknar með heildarhagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Samorka kallar eftir samráði við endurskoðun rammaáætlunarferlisins eða annars fyrirkomulags sem komið yrði á, og er tilbúin til að taka þátt í slíkri vinnu. Einnig er mikilvægt að um vindorku sé gott lagaumhverfi sem liðki fyrir hagnýtingu vinds í þágu samfélagsins en horfi um leið til umhverfisins. Fyrirliggjandi frumvarp um vindorku gengur ekki nógu langt í þeim efnum.