Meta lægra kolefnisspor verktaka í útboðum

Veitur hafa tekið ákvörðun um að leggja meiri áherslu á umhverfismál í vali á verktökum á vegum fyrirtækisins og stuðla þannig að orkuskiptum í framkvæmdum. Skilyrði verða sett í útboðslýsingar er fá verktaka til að huga enn frekar að umhverfismálum og aðgerðum til að minnka kolefnisspor sitt. Einnig geta umhverfisþættir sem leiða af sér minna kolefnisspor framkvæmda vegið allt að 20% þegar tilboð eru metin.

Markmiðið með þessari nýjung er að lækka kolefnisspor framkvæmda á vegum Veitna og um leið verktaka á þeirra vegum. Þetta er í samræmi við umhverfisstefnu Veitna um stöðugar umbætur í umhverfismálum og því markmiði fyrirtækisins að verða kolefnishlutlaust árið 2030.

Gestur Pétursson er framkvæmdastjóri Veitna:

„Við hjá Veitum höfum sett okkur metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Þeim verður ekki náð nema fyrirtækið stýri sinni loftslagstengdu áhættu og beiti áhrifum sínum í virðiskeðjunni til ábyrgrar umgengni við umhverfið. Veitur eru fimmti stærsti framkvæmdaaðili landsins sé mið tekið af þeim fjárhæðum sem verja á í fjárfestingar á Íslandi í ár. Stærðinni fylgir ákveðinn slagkraftur sem nýta má til góðs í loftslagsmálum og það viljum við gera. Við hlökkum til að vinna eftir þessu nýja fyrirkomulagi og munum leitast við að vera í góðu samstarfi við alla þá er koma að þeim umfangsmiklu framkvæmdum sem uppbygging og rekstur veitukerfanna krefst á hverju ári.“

Nánari upplýsingar má sjá á vef Veitna.