Orkuþing á fimm ára fresti

Orkuþing er nú nýafstaðið og var það stærsta Orkuþing sem haldið hefur verið. Um 440 manns sóttu þingið og er það helmingi fleiri en tóku þátt á þinginu fyrir tíu árum. Mun fleiri aðilar stóðu að þinginu nú en áður. Einnig var nýmæli að á laugardeginum eftir var haldinn Orkudagur fyrir almenning. Þar voru fluttir fyrirlestrar um orkumál og orkusparnað. Alls voru fluttir yfir eitthundrað fyrirlestrar og var það mál manna að þeir hefður verðið vandaðir og mikið hefði verið af áhugaverðu efni. Gefin var út vegleg bók með efni fyrirlestranna og eru þeir nú komnir á vefsíðu Samorku. Málþing skólanema í grunnskólum var haldið þar sem nemendur komu og tjáðu sig um orkumál framtíðarinnar. Samkeppni var í skólum um orkuverk og voru átta skólar valdir til að taka þátt í henni. Það var síðan Klébergsskóli á Kjalarnesi sem fékk verðlaun fyrir besta orkuverkið. Verkefni skólans fjallaði um orkugjafana, bæði hefðbundna og framtíðar. Það var bæði í formi myndverka og sem líkön. Einnig var á Orkuþingi samkeppni um orkumannvirki sem fellur best að umhverfinu. Verðlaun voru veitt í þremur flokkum. í fyrsta flokknum voru bensínstöðvar og þar fékk Olíuverslun Íslands verðlaun fyrir ÓB Bæjarlind. Í flokki smárra orkuveitna fékk Orkustöðin á Húsavík verðlaun og í þriðja flokknum voru orkumannvirki Landsvirkjunar og þar fékk tengivirki við Búrfell sem áhugavert dæmi um tækniumbætur til bóta fyrir umhverfið. Vegna almennrar ánægju og mikillar þátttöku í Orkuþingi var rætt um hvort ekki ætti að stefna að Orkuþingi á fimm ára fresti í stað tíu. Það er einnig í ljósi þess að mikið er að gerast í orkumálum og mikilla breytinga að vænta á næstu fimm árum.

Ný neysluvatnreglugerð hefur tekið gildi

Í sumar tók gildi nýja neysluvatnsreglugerðin nr. 536/2001. Reglugerðin er skv. EB tilskipun. Samorka tók þátt í yfirlestri og gerði athugasemdir við hana sem sumar hverja komust í gegn. Hún þýðir auknar sýnatökur fyrir sumar vatnsveitur, sérstaklega hvað varðar heildarúttekt. Allar vatnsveitur landsins sem hafa fleiri en 50 manns eða þjóna 20 heimilum skulu háðar reglubundnu eftirliti og sýnatöku. Fjöldi sýna fer eftir íbúafjölda. Eftirlitið felst í reglubundnu eftirlit með nokkrum atriðum sambærilegt C1 í gömlu reglugerðinni og heildarúttekt. Frá því er hægt að fá undanþágu ef hægt er að sýna fram á óbreytt ástand í þrjú ár. Í reglugerðinni er einnig gerð krafa um upplýsingar til notenda ef neysluvatn mengast. Viðbrögðum er flokkað í A, B og C eftir alvarleika frávika og eru þau tilgreind í töflunum hvernær þau eiga við. Reglugerðina er að finna á vef Hollustuverndar www.hollver.is og einnig í reglugerðarsafni stjórnarráðsins, slóðin er www.reglugerd.is og þar undir leit með orðinu neysluvatn.

Leitað að jarðhita í Svíþjóð

Nú er dælt upp 20 gráðu heitt vatn af 700 metra dýpi en áform eru um að bora á yfir 3 km og fá 125 gráðu heitt vatn. Það er hitaveitan í Lundi sem stendur fyrir rannsóknarborunninni, sem mun kosta um 35 milljónir sænskra króna. Hugmyndin er, ef vel tekst til, að leiða vatnið í gegnum varmaskipta og nýta fyrst niður að 50 gráðum og síðan í varmadælu í 10 gráður. Síðan verður vatnið leitt aftur niður í bergið. Frá þessu segir í nýjasta fréttablaði sænsku hitaveitusamtakanna Fjärrvärmetidningen.

Sydkraft í Svíþjóð býður breiðbandið í haust

Sydkraft er ekki lengur orkufyrirtæki sem býður rafmagn, gas og hitaveitu. Með því að setja á stofn dótturfyrirtækið Sydkraft Bredband ætlar fyrirtækið að hasla sér völl fjarskiptamarkaðinum og bjóða internetáskrift með PLC tækni „Power Line Communication“ og það nú þegar í haust. Og fleiri fylgja fast á eftir. Stærsta rafmagnsveita Þýskalands, RWE AG hefur gefið út að þeir reikni með að 20 þúsund raforkunotendur þeirra muni verða tengdir við internetið fyrir árslok, Energie Baden Würtemberg AG gerir ráð fyrir 7500 viðskiptavinum í ár og MVV Energie AB reiknar með að byrja í Mannheim og markmiðið er að 30 þúsund verði tengdir þar á þremur árum. (MJG/heimild: Ingeniören/net 22.6.2001)

Norræn vatnsveituráðstefna í Gautaborg á næsta ári

Norræn vatnsveitusamtöku hafa með sér óformlegt samstarf. Fundað var hér á landi 1. júní sl. Samtökin hafa m.a. haft samstarf um tvær norrænar vatnsveituráðstefnur. Sú síðasta í Helsingör í Danmörku í fyrra. Félagar í Samorku tóku þar virkan þátt. Byrjað er að undirbúa ráðstefnu í Gautaborg á næsta ári. Meðal efnis þar verður viðbrögð við vá, tilskipanir EB og skipulag í vatnsveitugeiranum. Í framhaldi af ráðstefnunni verður „VA-messan“ í Gautaborg. Annað efni sem rætt var um á fundinum 1. júní sl. var ný tilskipun EB um verndun vatns. Þessi tilskipun var samþykkt í Brussel 22. des.2000 og verða löndin að hafa tekið hana upp 22. des. 2003. Í þessari tilskipun er sagt að hvert land þurfi að skipta landinu upp í vatnsstjórnar-svæði, skilgreina síðan vatnasvæðin og ástand þeirra. Einnig þarf að skrá verndarsvæði og neysluvatnssvæði, gera áætlun um verndaraðgerðir og vögtunaráætlun. Norsku samtökin NORVAR hafa unnið skýrslu þar sem reynt er að rýna í framtíðina fyrir vatnsveitugeirann og þá er horft til ársins 2010. Gert er ráð fyrir að þróun mál geti verið á fjóra vegu; að áhrif opinberra aðila haldist mikil í vatnsveitum, að vatnsveitur verði í einkaeigu, gerðar verði miklar umhverfiskröfur til veitna og að vatnsveitur verði í fjárhagssvelti þ.e.engin uppbygging eigi sér stað. Út frá þessum fjórum leiðum og samblandi af þeim er gerð áætlum um hvernig bregðast skuli við. Danska sambandið DVF hefur yfirfært þessa skýrslu yfir á danskar aðstæður. Öll norrænu vatnsveitusamtökin, nema þau íslensku eru sjálfstæð samtök sem hafa innan sinna vébanda vatnsveitur og fráveitur. DVF flutti í nýtt hús 1. maí sl. í Skanderborg á Jótlandi. Þau hafa keypt stórt hús sem nefnt er Vandhuset. Þar verða stöðugt sýningar af ýmsu tagi sem tengjast vatni. Dönsku samtökin verða 75 ára á þessu ári og sænsku samtökin verða 40 ára á næsta ári. Mikil starfsemi er á fráveitusviði og hafa m.a. sjö sinnum verið norræn þing um fráveituhreinsun, það síðasta í janúar sl. Þar mættu 245 manns. Á alþjóðavettvangi s.s. í EUREAU og IWA hafa norrænu fulltrúarnir með sér gott samstarf og hafa þannig meiri áhrif. Voru þátttakendur sammála um mikilvægi norræns samstarfs.

Nýr stöðvarstjóri í Blönduvirkjun

Rán Jónsdóttir, rafmagnsverkfræðingur, hefur verið ráðin stöðvarstjóri í Blöndustöð. Hún tekur við af Guðmundi Hagalín sem farinn er til starfa í Búrfelli. Rán hefur starfað um 6 ára skeið hjá Landsvirkjun, fyrst í kerfisáætlunardeild en hún er nú í markaðsdeild orkusviðs. Með ráðningu Ránar er brotið blað hjá Landsvirkjun því kona hefur ekki áður unnið við tæknistörf í aflstöðvum Landvirkjunar. Til hamingju Rán.

Orkubú Vestfjarða hf stofnað 1. júní 2001

Á Ísafirði var haldinn stofnfundur Orkubús Vestfjarða hf hinn 1.6.01 en það er annað hlutafélagið í orkuveiturekstri á Íslandi. Það var hátíðleg stund þegar lýst var yfir stofnuninni. Í ræðu stjórnarformanns Orkubús Vestfjarða lét hann í ljósi væntingar til að hlutafélagið yrði grunnurinn að landshlutaveitu Norðvestlendinga. Að hlutafélagið verði sóknarfæri Vesfirðinga í orkumálum í komandi breytingum í raforkugeiranum. Það er þó ljóst að verulegur hluti skýringarinnar á stofnun hlutafélagsins er kauptilboð ríkisins í hlut ákveðinna sveitarfélaga. Að neðan er mynd frá undirritun stofnssamnings Orkubús Vestfjarða hf

Frábær fagfundur á Ísafirði

Raforkulagafrumvarpið var kynnt á fagfundi Samorku á Ísafirði og um það var fjallað frá ýmsum hliðum. Í setningarræðu formanns stjórnar Samorku kom fram að þótt hagsmunir raforkufyrirtækja fari ekki alltaf saman verður unnið að sameiginlegum hagsmunamálum við frumvarpsgerðina innan Samorku. Á fundinn sem haldinn var í Tónlistarskólanum á Ísafirði mættu 112 manns. Alls voru flutt 24 erindi á fundinum sem skiptist í umfjöllun um raforkulagafrumvarpið og afleiðingar þess fyrri daginn og Tæknimál, Fjármál og stjórnsýslu síðari daginn. Kynnt var starfssemi ýmissa sprotafyrirtæka raforkufyrirtækjanna sem og þau viðskiptakerfi sem stærri raforkufyrirtækin hafa verið að þróa og aðlaga að sér. Hjálmar Árnason formaður iðnaðarnefndar Alþingis ávarpaði fundinn og fór yfir þau verkefni sem löggjafinn, sérstaklega iðnaðarnefnd, raforkufyrirtækin og aðrir hagsmunaaðilar eiga fyrir höndum við að koma saman raforkulagafrumvarpinu. Ennfremur taldi hann víst að iðnaðarnefnd muni vinna að málinu í sumar. Hann boðaði að fjölmargir yrðu kallaðar til og að iðnaðarnefnd standi fyrir seminar 19. september n.k. um raforkulagafrumvarpið. Fagfundur á Ísafirði var sérlega vel heppnaður fundur. Skipulag hans gekk upp að öllu leyti þótt stundum væri naumt skammtaður tíminn. Mesta nýjungin á fundinum var framsetning fundargagnanna. En Guðmundur Valsson hannaði fundargögnin svo hægt væri að fá yfirsýn yfir erindin áður en þau hefjist, hægt væri að skrifa glósur án þess að vera við borð, þau geymist í hillu eins og árbækur Samorku og tölvuglærur og skifleg erindi fylgi glósum sem geisladiskur þótt prentun væri í lágmarki. Þetta heppnaðist ágætlega og var gerður góður rómur að framsetningunni. Það setti mark sitt á fundinn að hvorki skrifstofustjóri né ráðuneytisstjóri iðnaðarráðuneytisins mættu til að flytja erindi. Þess í stað tók Kristín Haraldsdóttir heldur lengri tíma í sína ágætu yfirferð yfir raforkulagafrumvarpið. En í pallborð í lok fundardags sat Jón Vilhjálmsson til að aðstoða Kristínu við að svara spurningum. Það erindi sem mest kom á óvart var án efa erindi sem Auðbjörg Friðgeirsdóttir framkvæmdastjóri innra eftirlits hjá Baugi hélt en hún hljóp í skarðið fyrir Jón Scheving Thorsteinsson framkvæmdastjóra þróunarsviðs Baugs. Hjá henni kom m.a. fram að stórir viðskiptavinir orkufyrirtækjanna sækjast eftir því að geta keypt bæði hita og rafmagn af sama aðila. Ennfremur að leggja þeir upp úr því að geta samið um sín orkumál við faglega hæfa aðila. Þá nefndi Auðbjörg hugtök sem tengjast verðbréfaviðskiptum s.s. stöðutöku en þá hváði salurinn. Eiríkur Bogason sleit fundinum. Hann sagðist margs vísari og ljóst að Samorku biði mikið starf við gerð reglugerða smíði sameiginlegra athugasemda við raforkulagafrumvarpið.

Vel heppnað samsetninganámskeið á Selfossi

Þátttakendur og leiðbeinendur, frá vinstri: Elías Örn Einarsson SET, Gísli Þór Guðmundsson Ræktunarsamband Flóa og Skeiða, Eyþór Björnsson Ræktunarsamband Flóa og Skeiða, Frímann Helgason Ræktunarsamband Flóa og Skeiða, Davíð Frank Jensson Orkuveitu Reykjavíkur, Gunnar Ísberg Hannesson Orkuveitu Reykjavíkur, Örn Geir Jensson leiðbeinandi, Kristján Ö. Jónsson leiðbeinandi, Ægir Jónsson Guðmundi Skúlasyni ehf., Hjálmar Rögnvaldsson Dagana 10. og 11. maí fór fram námskeið á vegum Iðntæknistofnunar og Samorku í frágangi samskeyta á hitaveiturörum. Fyrri dagurinn fór í bóklega kennslu en sá síðari var verklegur. Námskeiðið var haldið í SET á Selfossi og sóttu það þrettán manns víðsvegar að af landinu. Leiðbeinendur voru sem fyrr þeir Kristján Ö. Jónsson og Örn Geir Jensson frá Orkuveitu Reykjavíkur.

Sænska hitaveitusambandið áfram sem sér samband

Á auka aðalfundi sænska hitaveitusambandsins 7. maí sl. var tillaga um að leggja niður sambandið og stofna nýtt með rafveitusambandinu felld. Til að leysa upp sambandið þurfti 75% atkvæða, en tillagan fékk 63,4 atkvæða en 36,6% voru á móti. Fyrir nokkru fóru rafveitusambandið og samtök raforkuframleiðenda í eina sæng og stofnuðu Svensk energi. Á síðustu mánuðum hefur stjórn hitaveitusambandsins verið í viðræðum um að koma inn líka og fundað vítt og breitt um landið með sínum félögum um málið. Boðað var til auka aðalfundar um málið þar sem tillagan um að leggja niður sambandið og ganga í hin nýju samtök var lögð fram en hún var eins og áður sagði felld. MJG