Múlavirkjun á Snæfellsnesi, ný virkjun

Múlavirkjun á Snæfellsnesi var tekin formlega í notkun við hátíðlega athöfn þann 24. nóv. s.l.  Það er Straumfjarðará sem hefur verið virkjuð og  gefur 3,2 MW afl. Vatni er miðlað úr Baulárvallavatni og Hraunsfjarðarvatni.

Þrír bændur í héraði standa að framkvæmdinni, þeir landeigendur Ástþór Jóhannsson í Dal og Eggert Kjartansson á Hofsstöðum, ásamt athafnamanninum Bjarna Einarssyni bónda í Tröðum.

Fjölmenni var samankomið til að fagna þessum tímamótum í stöðvarhúsinu og í félagsheimilinu Breiðabliki. Ástþór Einarsson bauð gesti velkomna og lýsti aðdraganda og byggingarsögu virkjunarinnar, sóknarpresturinn á Staðarstað Guðjón Skarphéðinsson blessaði mannvirkið og Ellert Eiríksson stjórnarformaður Hitaveitu Suðurnesja gangsetti virkjunina.

Hitaveita Suðurnesja  kaupir alla orku frá virkjuninni og er framleiðslunni fjarstýrt frá stjórnstöð hitaveitunnar í Svartsengi. Það eru hin nýju raforkulög og opnun viðskiptamarkaðarins sem eru forsendur þesss samnings sem gerður hefur verið á milli Múlavirkjunar og Hitaveitu Suðurnesja um viðskiptin, en það samkomulag varð til þess að bændur réðust í þessa myndarlegu framkvæmd.

Myndir frá vígsluathöfninni: Smellið hér