14. júlí 2023 Lokun vegna sumarleyfa Skrifstofa Samorku verður lokuð dagana 17. júlí – 7. ágúst. Hægt er að ná í starfsfólk með því að senda póst á samorka@samorka.is. Skrifstofan opnar að nýju þriðjudaginn 8. ágúst.
11. júlí 2023 Tilnefningar óskast til Nýsköpunarverðlauna Samorku 2023 Nýsköpun hefur ávallt verið stór hluti af orku- og veitugeiranum á Íslandi og hefur ný þekking og framsýni lagt grunninn að lífsgæðum í landinu og verðmætasköpun. Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á sérstökum nýsköpunarviðburði í haust og verður dagsetning kynnt innan skamms. Þetta er í þriðja sinn sem verðlaunin verða afhent. Samorka leitar að framúrskarandi nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á: Orku- og/eða veitutengdum tæknilausnum eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar Dómnefnd fagfólks úr orku- og veitugeiranum mun velja úr þeim tilnefningum sem berast. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf. Óskað er eftir að greinargerð sé skilað að hámarki tvær A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar. Orku- og veitufyrirtækin í landinu standa að Nýsköpunarverðlaununum og verða því ekki á meðal verðlaunahafa. Tilnefningar sendist á samorka@samorka.is fyrir 20. ágúst. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál. Alor hlaut Nýsköpunarverðlaun Samorku árið 2022.
15. júní 2023 Samorka leitar að metnaðarfullum og kraftmiklum lögfræðingi Samorka óskar eftir að ráða öflugan einstakling í starf lögfræðings samtakanna. Um er að ræða spennandi starf fyrir einstakling sem hefur áhuga á að leiða lögfræðitengd verkefni samtakanna á sviði orku- og veitumála, taka þátt í mótun starfsumhverfis orku- og veitugeirans, leiða mótun málefnastefnu Samorku og að eiga í miklum samskiptum við aðildarfélög, stjórnvöld og hagsmunaaðila samtakanna. Helstu verkefni: Yfirumsjón með lögfræðitengdum málefnum í starfsemi samtakanna Lögfræðileg ráðgjöf um innra starf samtakanna og eftir atvikum til aðildarfélaga Umsjón og eftirfylgni með samkeppnisréttaryfirlýsingu samtakanna Ritari stjórnar Ritun umsagna um orku- og veitutengd málefni til Alþingis og annarra stjórnsýslustofnana Ritun og umsjón með samningum samtakanna Vöktun á þróun Evrópulöggjafar um orku- og veitutengd málefni og fræðsla til aðildarfélaga Þátttaka í mótun málefnastefnu Samorku ásamt framkvæmd og eftirfylgni með henni Greinaskrif og framkoma á fundum og ráðstefnum Samstarf við hagsmunaaðila, ráðuneyti og opinberar stofnanir Umsjón með tilteknum fag- og málefnahópum sem starfa á vettvangi samtakanna Menntunar- og hæfniskröfur: Embættispróf eða grunn- og meistarapróf í lögfræði. Lögfræðileg starfsreynsla á sviði orku- og veitumála, stjórnsýsluréttar, EES réttar, samkeppnisréttar eða umhverfis- og loftslagsréttar er kostur Þekking og innsýn í lagaumhverfi og starfsemi orku- og veitugeirans er kostur Frumkvæði, sjálfstæð og öguð vinnubrögð Færni og lipurð í mannlegum samskiptum Mjög góð hæfni í textagerð og reynsla af miðlun upplýsinga Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti, bæði á íslensku og ensku Umsóknarfrestur er til og með 26. júní 2023. Umsókn óskast fyllt út á www.intellecta.is og þarf henni að fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf. Áhugasamir einstaklingar, óháð kyni, eru hvattir til að sækja um starfið. Farið verður með allar fyrirspurnir og umsóknir sem trúnaðarmál og þeim svarað að ráðningu lokinni. Nánari upplýsingar um starfið veita Sigríður Svava Sandholt (sigridur@intellecta.is), Thelma Kristín Kvaran (thelma@intellecta.is) og Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku (finnur@samorka.is). Auglýsingin á Alfreð Auglýsingin á heimasíðu Intellecta Um Samorku: Hjá Samorku starfar metnaðarfullur og samhentur hópur starfsmanna með brennandi áhuga á orku- og veitumálum. Aðildarfélög Samorku eru um 50 orku- og veitufyrirtæki um allt land og samtökin eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins. Stefna Samorku er að starfrækja trúverðugan, fræðandi og jákvæðan vettvang um starfsemi og hagsmuni aðildarfyrirtækja og að samtökin njóti trausts almennings og stjórnvalda sem leiði til farsællar þróunar í orku- og veitumálum á Íslandi. Samorka er samstarfsvettvangur aðildarfyrirtækja og faglegur vettvangur þeirra í félags-, kynningar- og fræðslumálum. Það eru spennandi tímar framundan í orku- og veitumálum við að tryggja áfram heilnæmt drykkjarvatn, umhverfisvænar fráveitur, heitt vatn og rafmagn fyrir heimilin, atvinnulífið og orkuskiptin.
14. júní 2023 Auglýst eftir umsóknum um styrki til fráveituframkvæmda Opnað hefur verið fyrir umsóknir sveitarfélaga um styrki til fráveituframkvæmda. Umsóknarfrestur vegna styrkjanna er til 1. september 2023. Þetta er í þriðja skipti sem fráveitustyrkir eru auglýstir til umsóknar. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Í fjárlögum vegna ársins 2023 er gert ráð fyrir að 600 m.kr. verði varið til þess að styrkja sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda. Styrkhæfar fráveituframkvæmdir eru framkvæmdir við safnkerfi fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir. Einnig framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts. Meðal skilyrða fyrir að fráveituframkvæmd teljist styrkhæf er að kostnaður hafi fallið til eftir 1. janúar 2020. Kostnaður við útboð, fjármagns- og lántökukostnaður og kaup á löndum og lóðum vegna framkvæmda í fráveitumálum teljast ekki styrkhæf. Sama gildir um hefðbundið viðhald og endurbætur á eldri fráveitukerfum. Þó eru endurbætur á eldri kerfum styrkhæfar ef tilgangurinn með endurbótunum er að kerfin standist gildandi kröfur laga og reglugerða. Styrkir Styrkfjárhæð nemur að jafnaði 20% af staðfestum heildarkostnaði styrkhæfrar fráveituframkvæmdar. Styrkfjárhæð skal þó aldrei verða hærri en 30% af heildarkostnaði og að jafnaði aldrei lægri en 15%. Umsóknir á eyðublaðavef Stjórnarráðsins Umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins. Nánari upplýsingar um umsóknarferlið og skilyrði má finna á heimasíðu Stjórnarráðsins.
9. júní 2023 Loftslagsvegvísir orku og veitna Orku- og veitugeirinn hefur sett fram metnaðarfullar aðgerðir sem styðja við markmið stjórnvalda í umhverfis- og loftslagsmálum. Aðgerðirnar eru meðal þeirra 332 sem afhentar voru Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra á Grænþingi í Hörpu í gær. Orku- og veitugeirinn gegnir lykilhlutverki þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmarkmiðum Íslands. Áframhaldandi aðgengi heimila og atvinnulífs að endurnýjanlegri orku og traustum innviðum er forsenda þriðju orkuskiptanna. Í Loftslagsvegvísi orku og veitna eru lagðar fram fimm úrbótatillögur: Laga- og regluverk þarf að styðja við orkuskiptin Auka þarf samráð í málefnum tengdum geiranum Tryggja þarf fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi orku- og veitugeirans Hvata þarf fyrir almenning til að auka orkunýtni Auka þarf aðgengi að gögnum hjá opinberum stofnunum Hægt er að lesa nánar um úrbótatillögur og aðgerðir sem stuðla að samdrætti í losun GHL í ítarefni á heimasíðu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins.
8. júní 2023 332 tillögur um samdrátt í losun atvinnugreina Ellefu atvinnugreinar hafa nú afhent Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra 332 tillögur að aðgerðum sem stuðla eiga að auknum samdrætti í losun atvinnugreina. Afhendingin fór fram á Grænþingi í Hörpu í gær, í tengslum við útgáfu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins (LVA). LVA er samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda og var vinnan unnin á forsendum fyrirtækja í íslensku atvinnulífi með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Guðlaugur Þór Þórðarsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Til að metnaðarfull markmið stjórnvalda í loftslagsmálum náist þurfa allir að leggjast á eitt — stjórnvöld, atvinnulíf, sveitarfélög og almenningur í landinu. Það er ánægjulegt að sjá að atvinnulífið hefur stigið þetta skref til þátttöku í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og upplifa þann metnað og áhuga sem þessar 11 atvinnugreinar sýna með vegvísum sínum. Vegvísarnir verða innlegg í uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem stjórnvöld ætla að kynna fyrir lok árs og hlakka ég til að halda verkefninu áfram.” Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 og hefur lögfest markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2040. Aðkoma íslensks atvinnulífs skiptir sköpum í þeim umskiptum sem nauðsynleg eru til að sett markmið náist. Ennfremur er aðkoma stjórnvalda nauðsynleg á þessari vegferð hvað varðar regluverk, innviði, hvata til grænna fjárfestinga og stuðning við nýsköpun, tækniþróun og orkuskipti. Í því skyni var ákveðið að koma Loftslagsvegvísum atvinnulífsins á legg, en markmið verkefnisins er að auka samstarf og samtal á milli atvinnulífs og stjórnvalda um tækifæri til samdráttar í losun í þeim tilgangi að hraða aðgerðum í þágu loftslagsmarkmiða Íslands og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Ein af grunnforsendum skilvirkrar vinnu að loftslagsmarkmiðum er að orkuspá og opinber gögn endurspegli þá áskorun sem staðið er frammi fyrir. Á Grænþingi í Hröpu í gær kynntu fulltrúar atvinnugreinanna vegvísa sína, þar sem rauði þráðurinn var: Uppbygging orkuinnviða og aðgangur að hreinni orku Skilvirkt regluverk og skýr markmið stjórnvalda Fjárfesting í nýjum búnaði og tækni Hvatar vegna loftslagstengdra fjárfestinga og framleiðslu Nýsköpun og rannsóknir Bætt hringrás Loftslagsvegvísar atvinnulífsins innihalda atvinnugreinaskipta vegvísa, sem hafa margir hverjir mælanleg markmið . Þeir geyma einnig sértækar aðgerðir og úrbótatillögur sem snúa bæði að atvinnulífinu og stjórnvöldum um umbætur í loftslagsmálum. Vegvísarnir eru lifandi skjöl sem verða uppfærð reglulega og mun þeim fjölga með uppfærslu aðgerða og fjölgun atvinnugreina. Hægt er að nálgast vegvísana inn á www.loftslagsvegvisar.is.
2. júní 2023 Styrkir til jarðhitaleitar Ákveðið hefur verið að ráðast í átak í jarðhitaleit og frekari nýtingu jarðhita til húshitunar á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía til húshitunar. Átakinu er ætlað að styðja viðloftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar, sem og markmið í orkumálum í fjármálaáætlun 2024-2028; um tryggt orkuöryggi fyrir alla landsmenn, aukið hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa íorkubúskap Íslands og jöfnun orkukostnaðar á landsvísu. Átakið miðar að því að veita stuðning við verkefni sem hafa það að markmiði að hefja nýtingujarðhita til almennrar húshitunar, á svæðum þar sem nú er notuð raforka og/eða olía tilhúshitunar. Einkum er horft til svæða þar sem vísbendingar eru um að finna megi heitt vatnsem nýta megi beint inn á hitaveitu eða volgt vatn í nægilegu magni sem nýta megi á miðlægavarmadælu á svæðum þar sem innviðir fyrir veitu eru þegar til staðar. Áhersla er lögð á að styrkja verkefni þar sem nokkur þekking á jarðhita viðkomandi svæðis erfyrir hendi og snúa þá að því að hefja nýtingu eða frekari rannsóknum með vísan í fyrriniðurstöður. Umsóknafrestur er til 3. júlí 2023. Til ráðstöfunar eru 450 m.kr. Orkusjóði hefur verið falin umsjón með auglýsingu og umsýslu styrkjanna. Umsóknir skulusendar til Orkusjóðs í gegnum þjónustugátt Orkustofnunar: https://gattin.os.is Hér má finna reglur um Jarðhitaleitarstyrki
2. júní 2023 Agnes Ástvaldsdóttir ráðin verkefnastjóri faghópa Agnes Ástvaldsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri faghópa hjá Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. Agnes hefur frá 2017 starfað sem verkefnastjóri þróunar og nýsköpunarverkefna í þróunardeild Össur. Þar áður vann hún í fimm ár sem verkefnastjóri fjárfestingaverkefna hjá Norðuráli og á framkvæmdasviði Ljósleiðarans. Agnes hefur yfir 10 ára reynslu sem verkefnastjóri og er með IPMA vottun í verkefnastjórnun. Hún er MSc. gráðu í Nýsköpunarverkfræði frá Technical University of Denmark (DTU) og leggur stund á EMBA við Háskólann í Reykjavík. Agnes hóf störf 1. júní.
11. maí 2023 Lið RARIK Fagmeistari Samorku 2023 Lið RARIK varð hlutskarpast í veitukeppninni 2023 sem haldin var á Selfossi í tengslum við Fagþing hita-, vatns- og fráveitna. Lið RARIK fagnar sigri. Alls kepptu sex lið frá jafnmörgum veitum í stórskemmtilegum þrautum þar sem reyndi bæði á fagleg og skjót vinnubrögð. Greinarnar voru gott bland af faglegum keppnisgreinum og greinum þar sem bolta- og stígvélaleikni voru í aðalhlutverki. Keppnin var hluti af framkvæmda- og tæknideginum sem er fyrsti dagur Fagþings Samorku og tileinkaður fag- og framlínufólki í orku- og veitugeiranum. Fleiri myndir frá deginum má sjá á Facebooksíðu Samorku.
25. apríl 2023 Skráning á Fagþing í fullum gangi Fagþing hita-, vatns- og fráveitna verður haldið á Hótel Selfossi dagana 4.-5. maí. Á dagskrá eru metnaðarfull erindi um allt sem efst er á baugi í veitumálum frá sérfræðingum í hita-, vatns- og fráveitu auk annarra sem að málaflokknum koma. Miðvikudaginn 3. maí er verður Framkvæmda- og tæknidagurinn haldinn í þriðja sinn. Dagurinn er sérstaklega ætlaður fagfólki í framkvæmdum og má búast við skemmtilegum degi með blöndu af fyrirlestrum og keppni í hinum ýmsu veitutengdu greinum þar sem eitt lið stendur uppi sem Fagmeistari Samorku 2023. 16 fyrirtæki taka þátt í vöru- og þjónustusýningu á þinginu og að auki verður hátíðarkvöldverður og skemmtun. Skráning á þingið stendur yfir út þessa viku. Nafn Fyrirtæki Netfang (required) Vinsamlegast hakið í þá liði sem þið hyggist taka þátt í: Ég mæti á Fagþing 2023 4.-5. maí - 49.900 kr. Ég mæti á Framkvæmda- og tæknidaginn 3. maí (ætlað starfsfólki veitu- og orkufyrirtækja) – 12.900 kr. Ég mæti á hátíðarkvöldverð og skemmtun 4. maí – 15.900 kr. Ég vil grænkeramatseðil. Hátíðarkvöldverður og skemmtun fyrir maka/gest – 15.900 kr. Maki/gestur vill grænkeramatseðil. Ég mæti í skemmti- og vísindaferð (skráning nauðsynleg til að áætla sæti í rútu). Δ