Opið fyrir umsóknir um styrki til fráveituframkvæmda

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur opnað fyrir umsóknir sveitarfélaga um styrki til fráveituframkvæmda. Umsóknarfrestur vegna styrkjanna er til og með 9. febrúar 2026.

Skilyrði fyrir styrkveitingu er að fráveituframkvæmdin sé áfangi í heildarlausn á fráveitumálum sveitarfélags í samræmi við áætlun sem hlotið hefur samþykki umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

Styrkhæfar fráveituframkvæmdir eru framkvæmdir við safnkerfi fráveitna, hreinsivirki, dælustöðvar og útrásir. Einnig teljast styrkhæfar framkvæmdir við hreinsun ofanvatns, svo sem til að draga úr mengun af völdum örplasts en rannsóknir hafa sýnt að megnið af örplastmengun berst til sjávar með ofanvatni. Meðal skilyrða fyrir að fráveituframkvæmd teljist styrkhæf er að kostnaður hafi fallið til eftir 1. janúar 2020.

Umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins.

Nánari upplýsingar má nálgast hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu: urn@urn.is og á vef þeirra.

Menntadagur atvinnulífsins 2026

Framtíðin kallar. Er menntakerfið að hlusta?

Á íslenskum vinnustöðum fer fram ómetanleg menntun á hverjum degi. Þar öðlast fólk hæfni í nýrri tækni, þróar aðferðir og skapar verðmæti sem styrkja bæði fyrirtæki og samfélagið í heild. Þessi þekking er mikilvæg auðlind, en hún nýtist ekki til fulls nema með markvissu samstarfi atvinnulífs og menntakerfis.

Menntadagur atvinnulífsins fer fram á Hilton Reykjavík Nordica þann 11. febrúar frá 13:30 – 16:00, húsið opnar 13:00.

Menntadagur atvinnulífsins er vettvangur þar sem fyrirtæki, menntastofnanir, stjórnvöld og aðrir hagaðilar koma saman til að ræða hvernig menntun getur betur mætt raunverulegum þörfum framtíðarinnar.

Menntadagurinn er sameiginlegt verkefni SA og allra aðildarsamtaka þar sem fræðslu- og menntamál atvinnulífsins eru í forgrunni.

Skráning á Menntadaginn er hafin. Smelltu á slóðina og skráðu þig: Menntadagur atvinnulífsins 2026

Hafdís Helga ráðin upplýsingafulltrúi Samorku

Hafdís Helga Helgadóttir hefur verið ráðin upplýsingafulltrúi Samorku. Hafdís kemur til Samorku frá RÚV þar sem hún hefur starfað síðastliðin átta ár við fréttamennsku og fjölbreytta dagskrárgerð, nú síðast sem umsjónarmaður Morgunútvarps Rásar 2.

Hafdís Helga hefur þegar hafið störf.

Hafdís er með BA-gráðu í leiklist frá Listaháskóla Íslands. 

„Orku- og veitumálin eru stórkostlega spennandi um þessar mundir og framtíðin kallar á lifandi og ábyrgt samtal um þau. Ég er bæði glöð og spennt að fá tækifæri til að taka þátt í þeirri umræðu sem upplýsingafulltrúi Samorku. Það er mikill heiður að starfa með öllu því einstaka fagfólki sem vinnur að sjálfbærri framtíð í orku- og veitumálum landsins,“ segir Hafdís.

Samorka býður Hafdísi hjartanlega velkomna.

Ár uppbyggingar orku- og veituinnviða

Árið 2025 var viðburðaríkt og krefjandi á sviði orku- og veitumála. Óvænt áföll urðu með alvarlegri bilun í álverinu á Grundartanga, einum allra stærsta raforkunotanda landsins, stöðvun PCC á Bakka og jarðhræringum á Reykjanesi sem enn láta að sér kveða. Öflug orku- og veitufyrirtæki vinna af yfirvegun úr þessum aðstæðum til að takmarka langtímaáhrif á samfélagið og styrkja áfallaþol kerfisins í heild.

Orkuöflunarframkvæmdir fóru og af stað og aðrar kláruðust. Landsvirkjun hófst handa við byggingu fyrsta vindorkuvers landsins Vaðölduver og lokið var við stækkun jarðvarmavers í Svartsengi. Framkvæmdir sem báðar bera vott um öflugt hugvit, þor og seiglu.

Á árinu 2025 tók til starfa sameinuð Umhverfis- og orkustofnun. Öflugri stofnun er til þess fallin að styrkja vandaða stjórnsýslu og ákvarðanatöku. Með hinni nýju stofnun gefst tækifæri til enn frekara samstarfs milli stjórnvalda og orku- og veitugeirans. Hin nýja stofnun fer að þessu leyti vel af stað undir forystu forstjóra stofnunarinnar.

Breytt stjórnmál?

Árið 2025 hófst með nýrri ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Þrátt fyrir að síðasta ríkisstjórn hafi meðal annars fallið vegna ágreinings um orkuöflun, virðist nú ríkja breiðari samstaða um að ráðast í orkuframkvæmdir og innviðaframkvæmdir. Þeir flokkar sem mest höfðu talað gegn aukinni orkuvinnslu hlutu ekki brautargengi í síðustu kosningum og stjórnvöld leggja nú áherslu á orkuskipti, græna uppbyggingu og einföldun regluverks. Þessar breyttu aðstæður vekja von um hraðari framgang grænna verkefna á næsta ári.

Stjórnvöld hafa stigið nokkur mikilvæg skref á árinu. Mikil áhersla hefur verið á frekari þróun jarðhitanýtingar með fjárveitingum til rannsóknarborana og þróunar. Unnin var skýrsla um framtíðarmöguleika jarðhitanýtingar. Í framhaldinu stofnaður starfshópur um stefnumótun á þessu sviði, framtíð jarðhitanýtingar á Íslandi og eflingu samkeppnishæfis íslands sem jarðhitaríkis.

Þingið þarf að setja lög

Núverandi umgjörð orkuframkvæmda hefur leitt til óboðlegs rekstrarumhverfis sem er ófyrirsjáanlegt og vinnur gegn samkeppnishæfni landsins. Þetta birtist bæði í ómarkvissri og óskýrri stjórnsýslulegri meðferð verkefna á fyrstu stigum, til að mynda á vettvangi rammaáætlunar. En einnig í því að verkefni sem hafa hlotið umfangsmikla umfjöllun um árabil geta komist í uppnám vegna kæra og úrskurða á síðari stigum. Gildir þetta þó umfangsmiklar framkvæmdir séu hafnar. Þetta þarf að leysa með einföldun regluverks, skýrleika í löggjöf og áherslu á fjárfestingar í nýrri orkuvinnslu.

Umhverfis- orku og loftslagsráðherra hefur boðað breytingar í átt til einföldunar. Það er ekki nýlunda en virðist stranda, nú sem fyrr, á Alþingi. Óhjákvæmilegt er að Alþingi setji úrbætur í þessum málaflokki í forgang á árinu 2026 og nái raunverulegum árangri á því sviði. Frá því að lög eru samþykkt á Alþingi og þar til þau eru komin til framkvæmda að fullu leyti getur liðið talsverður tími. Tími sem við höfum ekki þegar horft er til orkutengdra framkvæmda. Samkeppnislönd Íslands hafa þegar stigið stór skref í breytingum á sínu reglum.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt fram frumvörp um einföldun regluverks og einföldun á rammaáætlun, en hvorugt hefur hlotið afgreiðslu á Alþingi. Þá eru þetta einungis lítil skref í stóru verkefni. Ýmis mál eru enn á undirbúningsstigi. Má þar nefna áform um breytta skattlagningu orkumannvirkja og frumvarp um lagaramma um vindorku. Í tengslum við skattlagningu orkumannvirkja hefur Samorka stutt þá meginhugmynd að nærsamfélög njóti meiri ávinnings af orkuframkvæmdum, en samtímis bent á að slíkt skuli gert með sanngjarnri skiptingu tekna fremur en auknum álögum sem draga úr fjárfestingagetu. Þegar kemur að lagramma um vindorku er mikilvægt að um vindorku gildi ekki flóknara, umfangsmeira og strangara regluverk en aðrar orkuframkvæmdir. Mikilvægt er að vandað verði til verka við útfærslu nýrra leikreglna – þannig má bæði efla traust almennings og koma brýnum framkvæmdum af stað án óæskilegrar tafar.

Tryggja þarf orkuöryggi

Orkuöryggi Íslands verður ekki tryggt án afgerandi aðgerða. Stjórnvöld bera meginábyrgð á að næg orka sé fyrir hendi, nú og til framtíðar. Færustu sérfræðingar hafa ítrekað sýnt fram á hættu á orkuskorti og árið 2025 undirstrikaði þá greiningu með sameiginlegri orkuspá Landsnets og Umhverfis- og orkustofnunar – Orkuspá Íslands. Nú þarf sameiginlegt átak stjórnvalda, sveitarfélaga og atvinnulífs til að bregðast við. Það er fagnaðarefni að fjárfestingaáform orku- og veitufyrirtækja nema hundruðum milljarða á komandi árum, en nauðsynlegt er að skapa þeim farveg.

Með skilvirkara regluverki – án þess þó að gefa afslátt af kröfum um umhverfisvernd og samráð – er fullkomlega raunhæft að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu mun hraðar. Reynslan sýnir að flókin ferli sem tefjast um of kosta þjóðarbúið að óþörfu og geta jafnvel ógnað orkuöryggi til lengri tíma.

Raunar má segja að orku- og veituinnviðir heyri til grundvallarþátta þjóðaröryggis. Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið líta orkumál sem öryggismál og vinna að því að efla varnir og innviði á því sviði.

Þá verður að taka upplýsta umræðu um hvernig fjármagna eigi þær fjárfestingar sem framundan eru í veitukerfum landsins. Eiga þær að lenda með þunga á núverandi kynslóð? Eða á að haga fjárfestingarumhverfinu þannig að greiðslur dreifist betur á núverandi og komandi kynslóðir. Báðar leiðir eru mögulegar, en þetta eru flóknar pólitískar spurningar sem taka þarf afstöðu til og varða leiðina á afgerandi hátt. Engin ákvörðun getur leitt til glataðra tækifæra, hik á framkvæmdum og fjárfestingum og til versnandi lífsskilyrði næstu kynslóða. Samkeppnishæfni landsins kann að vera ógnað ef við höldum ekki vöku okkar.

Mikilvægi orku- og veituinniviða

Áfallaþol og viðnámsþróttur orku- og veituinnviða er rauður þráður í umræðunni í ljósi breyttrar heimsmyndar og ólgandi náttúruafla. Aftakaveður og jarðhræringar minntu á að orka snýst ekki einvörðungu um hagkerfi heldur líka öryggi almennings. Raunar má segja að orku- og veituinnviðir heyri til grundvallarþátta þjóðaröryggis. Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið líta orkumál sem öryggismál og vinna að því að efla varnir og innviði á því sviði. Rússnesk árásarstríð hafa sýnt hversu skjótt má lama samfélög með því að ráðast á orkukerfi. Þessi alþjóðlegi veruleiki er nú nágrannaríkjum okkar hvatning til hlúa vel að öryggi orku- og veituinnviða og rekstraröryggi þeirra. Ísland býr að vísu að þeim forréttindum að vera óháð erlendri orku að mestu en við þurfum engu að síður að styrkja varnir gegn ytri áskorunum og byggja upp innviði með öflugum hætti. Þetta er samvinnuverkefni orku- og veitufyrirtækja og stjórnvalda. Orku-og veitufyrirtæki munu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi og rekstur okkar allra mikilvægustu innviða og innan þeirra er rík öryggismenning og vitund um mikilvægi ólíkra kerfa.

Stjórnvöld og almenningur verða að skilja að nýtt regluverk og framkvæmdir munu kosta bæði peninga og tíma. Kostnaðurinn birtist á einn eða annan hátt í gjaldskrám sérleyfisfyrirtækja, fyrr eða síðar. Jarðskjálftahrinurnar á Reykjanesi hafa reynt verulega á orku- og veitukerfi landsins, en í gegnum tvö gos á árinu hafa orku- og veitufyrirtæki staðið vaktina af mikilli fagmennsku og útsjónarsemi. Jafnvel þegar náttúran sýndi klærnar tryggðu þau stöðuga afhendingu rafmagns og vatns og brugðust skjótt við truflunum. Óvissan vegna jarðelds í iðrum jarðar er enn til staðar sem undirstrikar mikilvægi öflugs viðbúnaðar og seiglu innviða. Við þessar aðstæður hafa stjórnvöld líka séð að tryggja verður betri varnir, dreifa áhættu og treysta lykilinnviði gegn svona áföllum.

Verður 2026 ár innviðaframkvæmda?

Horfur fyrir árið 2026 eru í senn krefjandi og spennandi. Í stóra samhenginu er Ísland í einstakri stöðu: Við búum þegar að 100% endurnýjanlegri raforkuframleiðslu og öflugum veitukerfum og höfum getu til að vera í fremstu röð ríkja í orkuskiptum. Orku- og veitugeirinn er skipaður öflugum fyrirtækjum, stórum sem smáum, sem búa yfir mikilli getu til að þróa frekar verkefni sín og framkvæma.

Reynslan sýnir að Ísland hefur alla burði til að uppfylla jafnvel strangar kröfur á sviði orku- og umhverfismála; oft stöndum við okkur betur en flestar aðrar þjóðir þegar upp er staðið. Við eigum því að vera óhrædd við metnaðarfull markmið, svo fremi sem leiðin að þeim sé framkvæmd í samvinnu og af skynsemi.

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakkar samstarf og samtal á árinu 2025.

Höfundur: Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku. Greinin birtist fyrst á Innherja 31. desember 2025.

Stækkun orkuvers í skugga jarðhræringa

Þann 1. desember var sjöundi áfangi Svartsengis, orkuvers HS Orku, tekinn í notkun og jókst þar með framleiðslugeta þess um þriðjung. Það er í sjálfu sér fréttnæmt að við bætist uppsett afl hér á landi, en í þessu tilfelli er það ekki síður vegna þess að orkuverið var stækkað á tímum jarðhræringa og mikillar óvissu. Stóðst framkvæmdin þó allar verk- og tímaáætlanir.

Rafn Magnús Jónsson yfirverkefnisstjóri HS Orku og Yngvi Guðmundsson yfirverkfræðingur HS Orku ræða við Lovísu Árnadóttur um þetta ótrúlega verkefni í nýjasta þætti Lífæða landsins.

Þátturinn er aðgengilegur hér á heimasíðu Samorku en einnig á Spotify, bæði í hljóð og mynd.

Samorka, HS Orka, Landsvirkjun og Veitur styðja ákall EGEC til ESB um öfluga jarðhitaáætlun

Samorka, HS Orka, Landsvirkjun og Veitur eru meðal þeirra sem skrifa undir bréf EGEC , European Geothermal Energy Council, til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að stórefla nýtingu jarðhita í Evrópu með sérstakri aðgerðaáætlun sem framkvæmdastjórnin er nú með í smíðum.

Bréfið var sent 11. desember s.l. og stílað á Dan Jørgensen orkumálastjóra ESB og fleiri háttsetta embættismenn í framkvæmdastjórninni. Undir það skrifar fjöldi fyrirtækja, stofnana og samtaka um alla Evrópu. EGEC minnir á að jarðhiti hafi mikla möguleika á að styrkja orkuöryggi Evrópu, auka samkeppnishæfni álfunnar og lækka orkuverð til almennings.  Aðgerðaáætlunin um nýtingu jarðhita á að vera hluti af svokallaðri „Heating and Cooling Strategy“ sem Evrópusambandið hyggst birta á fyrsta ársfjórðungi 2026.

Í bréfinu er lögð áhersla á að með skýrri stefnumótun og pólitískum skuldbindingum ráðamanna sé hægt að auka fjárfestingar, efla nýsköpun og einfalda ferli leyfisveitinga til að jarðhiti verði ein af forsendum fyrir orkuskiptum í Evrópu og orkusjálfstæði álfunnar.

Samorka er aðili að EGEC og tekur virkan þátt í starfi samtakanna auk þess að miðla upplýsingum af þessum vettvangi til aðildarfyrirtækja sem nýta jarðhita til orkuöflunar og vinnslu. Ráðstefnan Our Climate Future í Brussel í haust beindi einnig sjónum að forystuhlutverki Íslands í jarðhitanýtingu með þátttöku fulltrúa íslenskra fyrirtækja, Jóhanns Páls Jóhannssonar umhverfis- orku- og loftslagsráðherra og Dan Jørgensen orkumálastjóra ESB, auk margra fleiri.

Sjá einnig heimasíðu EGEC: https://www.egec.org/news/ : Samorka, HS Orka, Landsvirkjun og Veitur styðja ákall EGEC til ESB um öfluga jarðhitaáætlun

Jólakveðja frá Samorku

Skrifstofa Samorku verður í hægagangi nú í aðdraganda jóla og best er að kanna hvort einhver sé á staðnum áður en komið er í heimsókn. Lokað verður hefðbundna frídaga en starfsfólk gæti unnið annars staðar frá.

Við óskum öllum gleðilegrar hátíðar!

Jólakveðjan er myndskreytt líflegri mynd frá fjölmennum hátíðarkvöldverði á Samorkuþingi í vor.

Tillaga um formlegt samstarf stjórnvalda og einkaaðila um áfallaþol í nýrri skýrslu

Formfastur samstarfsvettangur stjórnvalda og einkaaðila hér á landi um að efla áfallaþol samfélagsins er meðal tillagna í nýrri skýrslu „Áfallaþol á grundvelli viðmiða Atlantshafsbandalagsins,“ sem utanríkisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið hafa gefið út. Skýrsluhöfundar benda á að með breyttu öryggisumhverfi og nýjum ógnum auk áhrifa náttúruhamfara sé brýnt að byggja upp vettvang af þessu tagi. Skýrslan er athyglisvert innlegg í stefnumótun og umræðu um ómissandi innviði þar sem Samorka og aðildarfyrirtæki samtakanna hafa látið til sín taka.

Samstarfsvettvangurinn á m.a. að hafa það hlutverk að tryggja sameiginlega stöðuvitund og upplýsingamiðlun. Einnig að samræma forvarnir og viðbúnað, svo sem vegna neyðarbirgða, birgðakeðja og annarrar samfélagslega mikilvægrar þjónustu og starfsemi. Samstarfið verði byggt á heildrænni nálgun þar sem hlutverk hvers og eins er skýrt og miði að undirbúningi á bæði friðar- og hættutímum. Áhersla verði lögð á að móta sameiginleg viðmið og æfa samvirkni, sérstaklega á sviðum sem varða raforku, fjarskipti, samgöngur, heilbrigði og netöryggi. Horft verði til fyrirmynda Norðmanna og Finna þar sem samstarf hins opinbera og einkageirans hefur skilað árangri í að efla áfallaþol samfélaga í báðum löndum. Gert er ráð fyrir að undirbúningur að samstarfsvettvangi stjórnvalda og einkaaðila hefjist sem fyrst í samstarfi ráðuneytanna og ríkislögreglustjóra.

Ísland er meðal aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og fyrrnefnd sjö grunnviðmið eru meginundirstaða þeirrar vinnu sem NATO hefur lagt til að hvert bandalagsríki ráðist í til að efla áfallaþol. Annað grunnviðmiðið fjallar þannig um getu ríkja til að vernda orkuinnviði sína og nauðsyn þess að tryggja aðgengi að þeim en á sama tíma er einn viðkvæmasti hluti mikilvægra innviða aðgangur að stöðugum orkugjöfum, eins og komist er að orði í skýrslunni. Efnahagur nútímans byggi á stöðugu framboði á orku þar sem hvers kyns röskun getur haft skaðlegar afleiðingar fyrir samfélagið, efnahag og þjóðaröryggi hvers ríkis.

Skýrsluhöfundar benda á að varðandi mikilvæga innviði sé „ákveðið lagalegt tómarúm til staðar.“ Á þetta hafi raunar verið bent á síðustu árum, t.d. í stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum frá árinu 2021 þar sem  lagt var til að heildstæð lagaumgjörð yrði sett um rekstur og vernd mikilvægra innviða. Í skýrslu þjóðaröryggisráðs sem kom út árið 2022, sagði m.a.: „Treysta þarf lagaumgjörð um rekstur mikilvægra innviða samfélagsins, þ.m.t. að skilgreina hvaða innviðir samfélagsins eða hlutar þeirra teljist mikilvægir með tilliti til þjóðaröryggishagsmuna. Annars vegar þarf að mæla skýrar fyrir um skyldur þeirra sem sjá um rekstur slíkra innviða og öryggiskröfur sem gera verður til þeirra. Hins vegar þarf að útfæra og skilgreina betur valdheimildir stjórnvalda gagnvart þessum aðilum við sérstakar neyðaraðstæður, þar sem virkni mikilvægra innviða er stefnt í hættu.“ Í þessu sambandi benda á að fyrir Alþingi liggur nú fyrir frumvarp dómsmálaráðherra til nýrra laga um almannvarnir þar sem t.d. er fjallað um skilgreiningu ómissandi innviða.

Evrópusambandið hefur einnig unnið að eflingu áfallaþols, m.a.  með svokallaðri CER-tilskipun (e. Critical Entities Resilience Directive) sem samþykkt var í desember 2022.  Fram kemur í þessari nýju skýrslu að til skoðunar hafi verið hjá EFTA-ríkjunum að taka gerðina upp í samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES) og hafi hún verið rýnd í dómsmálaráðuneytinu. Höfundar skýrslunnar segja mikilvægt að huga að því hvernig ákjósanlegast sé að innleiða CER-gerðina í íslenskan rétt og benda á að meginmarkmið hennar sé að efla áfallaþol mikilvægra rekstrareininga til að tryggja nauðsynlega þjónustu á innri markaði EES.

Skýrsluhöfundar telja að  ýmsum lagalegu álitaefnum á þessu sviði verði best fyrir komið í löggjöf um grunnöryggi ríkisins, þar sem fjallað yrði um öryggi æðstu stjórnar, samfélagslega mikilvæga starfsemi sem og skilgreiningu á mikilvægum innviðum og þá þeim kröfum sem gera megi til slíkrar starfsemi með vísan til tilskipana ESB um ómissandi innviði  og tengd viðfangsefni. Mikilvægt sé að sú löggjöf taki mið af og sé í samhengi við aðra öryggistengda löggjöf hér á landi, líkt og lög um almannavarnir, varnarmálalög, lögreglulög, fyrirhugað frumvarp til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu og aðra tengda löggjöf. Þá mætti taka til skoðunar hvort önnur tengd atriði ættu jafnframt heima í slíkri löggjöf, s.s. meðferð trúnaðarupplýsinga ríkisins, eins og fjallað er um í norskri og sænskri öryggislöggjöf.

Skýrslan var unnin af stýrihópi sem var falið að kanna áfallaþol í íslensku samfélagi með hliðsjón af grunnviðmiðum Atlantshafsbandalagsins.  Stjórnvöld segja að hún marki einn áfanga í heildstæðri kortlagningu, stefnumótun og tillögum að aðgerðum til að efla áfallaþol samfélagsins. Í stýrihópnum áttu sæti fulltrúar dómsmálaráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og embættis ríkislögreglustjóra.

Skýrsluna í heild sinni er hægt að nálgast hér: https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2025/12/12/Afallathol-a-grundvelli-vidmida-Atlantshafsbandalagsins-Afangaskyrsla/: Tillaga um formlegt samstarf stjórnvalda og einkaaðila um áfallaþol í nýrri skýrslu Hér er einnig hægt að lesa nýja skýrslu Eurelectric um mikilvægi orkuöryggis í vörnum og almannavörnum með hliðsjón af stefnumörkun NATO https://www.eurelectric.org/publications/powering-security-the-nato-spending-and-energy-resilience-nexus/ : Tillaga um formlegt samstarf stjórnvalda og einkaaðila um áfallaþol í nýrri skýrslu

Opnað fyrir tilnefningar til Menntaverðlauna

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent á Menntadegi atvinnulífsins sem fer fram á Hilton Reykjavík Nordica 11. febrúar 2026.

Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála.
– Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.
– Einungis er hægt að tilnefna aðildarfélaga innan SA.

Tilnefningar berist eigi síðar en föstudaginn 16. janúar.

Verðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum, menntafyrirtæki ársins og menntasproti ársins.

Menntafyrirtæki ársins 2026

Við mat á umsóknum er lögð sérstök áhersla á íslenskt framlag við þróun, aðlögun og innleiðingu verkefna, sem og hvernig fræðslan innan fyrirtækja mætir þörfum íslensks vinnumarkaðar. Einnig er tekið tillit til verkefna sem byggja á alþjóðlegri fræðslu, að því gefnu að framlag Íslendinga til þróunar, aðlögunar og innleiðingar sé skýrt og að verkefnið styðji við þarfir vinnumarkaðarins hér á landi.

· Stefna og framtíðarsýn fyrirtækisins í fræðslumálum

· Aðgengi og þátttaka starfsfólks í fræðslu

· Fræðsluleiðir

· Mat á árnagri

Menntasproti ársins 2026

Leitað er eftir verkefnum sem stuðla að nýsköpun í fræðslu sem styrkir starfsfólk og fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði.

· Nýsköpun og þróun

· Aðgengi og fjölbreytt notkun

· Framtíðarsýn og áhrif

Nánari útlistun viðmiða er að finna í tilnefningarforminu

Tilnefnið hér


Menntadagur atvinnulífsins
 er sameiginlegt verkefni SA, SI, SVÞ, SAF, SFS, SFF og Samorku.

ESB kynnir viðamiklar tillögur um eflingu flutnings- og dreifikerfis raforku

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti í dag umfangsmikla stefnumótun og aðgerðir til að efla flutnings- og dreifikerfi raforku í álfunni. „European Grids Package“ er yfirskrift þessara tillagna sem m.a. fela í sér breytingar á tilskipunum ESB. „Samtengd og samtvinnað orkukerfi er grundvöllur sterkrar og sjálfstæðrar Evrópu,“ er haft eftir Dan Jørgensen orkumálastjóra ESB í fréttatilkynningu. Teresa Ribera, einn varaforseta framkvæmdastjórnarinnar segir markmiðið að allir hlutar Evrópu uppskeri ávinning af orkubyltingunni með ódýrari og hreinni orku, minna þurfi að treysta á innflutt jarðefnaeldsneyti, orkuöryggi aukist og sömuleiðis viðnám gegn verðsveiflum.

Framkvæmdastjórnin gerir ráð fyrir að fjárfesta þurfi um 1.2 trilljónir Evra í flutnings- og dreifikerfi raforku á næstu fimmtán árum, stórefla þurfi flutning á rafmagni yfir landamæri og einnig byggja upp dreifiveitur. Í því skyni eru lagðar fram tillögur um hvernig ýta megi undir fjárfestingar ásamt því að efla áfallaþol og öryggi þessara innviða. ESB leggur líka mikla áherslu á að hraða leyfisveitingum vegna uppbyggingar flutnings- og dreifikerfisins og verkefna á sviði endurnýjanlegrar orku. Markmiðið er að leyfisveitingaferlið taki almennt ekki lengri tíma en tvö ár og hámark þrjú ár í flóknari verkefnum. Þetta er áskorun sem er svo sannarlega fyrir hendi hér á landi og þannig ályktaði aðalfundur Samorku fyrr á þessu ári um nauðsyn þess að bæta stjórnsýslu, og stytta leyfisveitingaferla uppbyggingu orku- og veituinnviða. 

Framkvæmdastjórn ESB leggur til breytingar á gildandi tilskipunum m.a. um endurnýjanlega orku. Þessar löggjafartillögur fara  nú fyrir Evrópuþingið og ráðherraráð Evrópusambandsins (Council). Jafnframt ætlar framkvæmdastjórnin að vinna náið með aðildarríkjum ESB og öðrum haghöfum til að hrinda í framkvæmd orkuverkefnum sem ná yfir landamæri. Þessar aðgerðir og stefnumótun eiga einnig að styrkja aukna samvinnu við ríki utan ESB, þar á meðal á Evrópska efnahagssvæðinu. Samorka mun fylgjast grannt með þessu máli enda hafa breytingar á löggjöf og reglum ESB áhrif á starfsumhverfi íslenskra orku- og veitufyrirtækja þegar þær eru teknar upp í samninginn um Evrópska Efnahagssvæðið (EES) og innleiddar í íslenska löggjöf.

Fréttatilkynningu ESB um „European Grids Package“ og hlekkir á meðfylgjandi skjöl er að finna hér:

Commission proposes upgrade of the EU’s energy infrastructure to lower bills and boost independence: ESB kynnir viðamiklar tillögur um eflingu flutnings- og dreifikerfis raforku