19. nóvember 2015 Alþjóðlegi klósettdagurinn – Klósettið er ekki ruslafata! Þann 19. nóvember er alþjóðlegi klósettdagurinn. Þema dagsins í ár er hið gríðarlega vandamál á heimsvísu, sem er skortur á fullnægjandi aðgengi að salernisaðstöðu. Í dag hafa 2,4 milljarðar manna ekki fullnægjandi aðgang og hjá 1 milljarð er varla nokkur aðstaða til staðar og vandamálið sérstaklega ákallandi. Frekari upplýsingar um daginn í ár, og hvað við getum gert til að taka þátt, má finna hér á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna, en það eru undirsamtök þeirra UN Water sem bera ábyrgð á alþjóðlegri skipulagningu dagsins. Hér á Íslandi er ástandið allt annað og mun betra, en við hjá Samorku viljum nota daginn til að vekja athygli almennings á mikilvægi þess að fara vel með fráveitukerfin okkar og sérlega passa hvað er látið í klósettið. Fita, eldhúsbréf, blautþurrkur, bómullarvörur, eyrnapinnar – allt eru þetta algeng dæmi um rusl og efni sem berast hreinsistöðvum um fráveitukerfin og valda þar miklum kostnaði við hreinsun á dælum og förgun á rusli. Einnig má nefna dæmi um greiðslukort, síma og falskar tennur. Við getum lækkað samfélagslegan kostnað verulega með því að minnka magn óæskilegra efna/hluta sem við sendum í fráveituna. Klósettið er ekki ruslafata! Við bendum á góða umfjöllun um þetta mál bæði á vef Orkuveitu Reykjavíkur og á vef Hitaveitu Egilsstaða og Fella.
5. október 2015 Skráning stendur yfir á norrænu fráveituráðstefnuna – Nordiwa 2015 Nú er í fullum gangi skráning á norrænu fráveituráðstefnuna – Nordiwa 2015. Samorka tekur þátt í skipulagningu ráðstefnunnar, sem verður haldin dagana 4.-6. nóvember næstkomandi í Bergen. Frekari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar, skráningu og fleira, má finna hér á heimasíðu ráðstefnunnar.
31. ágúst 2015 Námskeið: Blágrænar ofanvatnslausnir í byggð – Frá hugmynd að veruleika Þann 2. október næstkomandi verður haldið á vegum Endurmenntunar HÍ námskeiðið: Blágrænar ofanvatnslausnir í byggð – Frá hugmynd að veruleika. Námskeiðið mun fjalla um „nýjar leiðir við meðferð ofanvatns sem hafa verið innleiddar víða um heim. Þetta eru svokallaðar blágrænar eða sjálfbærar ofanvatnslausnir. Kostir þeirra eru öruggara veitukerfi, betra umhverfi í þéttbýli og heilbrigðari og sjálfbærari vatnsbúskapur“.
7. júní 2015 Erindi Fagfundar veitusviðs Samorku Samanlagt tóku um 180 manns þátt í vel heppnuðum Fagfundi veitusviðs Samorku sem haldinn var á Hótel Borgarnesi dagana 28.-29. maí. Flutt voru rúmlega 40 erindi um málefni hita-, vatns- og fráveitna, auk þess sem fjallað var um öryggismál, umhverfismál, jarðhita, laga- og regluumhverfi veitufyrirtækja og fleira. Farið var í vettvangs- og vísindaferð þar sem m.a. var skoðuð lífræn hreinsistöð á Hvanneyri og Deildartunguhver, þar sem Orkuveita Reykjavíkur bauð upp á hressingu. Hátíðarkvöldverður var haldinn í Hjálmakletti. Tengla á öll erindi fundarins má nálgast hér á vef Samorku.