Alþjóðlegi klósettdagurinn – Klósettið er ekki ruslafata!

Þann 19. nóvember er alþjóðlegi klósettdagurinn. Þema dagsins í ár er hið gríðarlega vandamál á heimsvísu, sem er skortur á fullnægjandi aðgengi að salernisaðstöðu. Í dag hafa 2,4 milljarðar manna ekki fullnægjandi aðgang og hjá 1 milljarð er varla nokkur aðstaða til staðar og vandamálið sérstaklega ákallandi.

Frekari upplýsingar um daginn í ár, og hvað við getum gert til að taka þátt, má finna hér á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna, en það eru undirsamtök þeirra UN Water sem bera ábyrgð á alþjóðlegri skipulagningu dagsins.

Hér á Íslandi er ástandið allt annað og mun betra, en við hjá Samorku viljum nota daginn til að vekja athygli almennings á mikilvægi þess að fara vel með fráveitukerfin okkar og sérlega passa hvað er látið í klósettið. Fita, eldhúsbréf, blautþurrkur, bómullarvörur, eyrnapinnar – allt eru þetta algeng dæmi um rusl og efni sem berast hreinsistöðvum um fráveitukerfin og valda þar miklum kostnaði við hreinsun á dælum og förgun á rusli. Einnig má nefna dæmi um greiðslukort, síma og falskar tennur. Við getum lækkað samfélagslegan kostnað verulega með því að minnka magn óæskilegra efna/hluta sem við sendum í fráveituna. Klósettið er ekki ruslafata! Við bendum á góða umfjöllun um þetta mál bæði  á vef Orkuveitu Reykjavíkur og á vef Hitaveitu Egilsstaða og Fella.