Metár í heitavatnsnokun

Árið 2015 var metár í vatnsnotkun hjá hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu. Heildarnotkunin jókst um 10% frá árinu áður og er aukningin milli ára sú mesta sem hefur sést frá aldamótum. Vatnsnoktunin árið 2015 var tæplega 83 milljónir rúmmetra.

Guðfinnur og Lovísa ráðin til Samorku

Guðfinnur Þór Newman og Lovísa Árnadóttir hafa verið ráðin í ný störf hjá Samorku.

Guðfinnur var ráðinn í nýtt starf sérfræðings í greiningu hjá Samorku. Guðfinnur, sem er viðskiptafræðingur að mennt og hefur lokið prófi í verðbréfamiðlun, hefur áður m.a. starfað hjá Bandalagi háskólamanna, á skrifstofu borgarhagfræðings hjá Reykjavíkurborg og hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Guðfinnur hóf störf hjá Samorku í desember.

Lovísa var ráðin í nýtt starf upplýsingafulltrúa Samorku. Hún er með B.A. gráðu í bókmenntafræði og M.A. gráðu í blaða- og fréttamennsku. Lovísa hefur áður m.a. starfað sem markaðsráðgjafi hjá Birtingahúsinu og hjá RÚV ohf. sem fréttamaður, dagskrárgerðarmaður, íþróttafréttamaður o.fl. Lovísa hóf störf hjá Samorku í janúar.

Græn orka og loftslagsmál: Sérstaða og tækifæri

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Græn orka og loftslagsmál: Sérstaða og tækifæri

Parísarsamkomulaginu í loftslagsmálum er nú fagnað víða um heim. Að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er gríðarleg áskorun fyrir mannkyn, en um leið afar brýnt verkefni. Stærsta viðfangsefnið er að draga úr brennslu á jarðefnaeldsneyti á borð við olíu og kol. Að minnka orkunotkun og/eða auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa á borð við vatnsafl, jarðhita, sólarorku og vindorku. Orkugjafa sem allir hafa vissulega einhver sjónræn áhrif í för með sér, en hverfandi losun gróðurhúsalofttegunda. Þrátt fyrir háleit markmið frá París mun þessi þróun hins vegar taka mjög langan tíma og ljóst að jarðefnaeldsneyti verða áfram nýtt sem orkugjafar víða um heim um langa hríð.

Græna orkan sparar mikla losun
Ísland er sem kunnugt er í algerlega einstakri stöðu, en hér byggir nánast öll raforkuvinnsla og húshitun á endurnýjanlegum orkugjöfum – vatnsafli og jarðvarma. Orkustofnun hefur tekið saman að með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í stað olíu spörum við andrúmsloftinu um 18 milljón tonn af losun koldíoxíðs árlega (að ógleymdum gríðarlegum gjaldeyrissparnaði). Stofnunin bendir jafnframt á að með nýtingu allra orkukosta sem nú eru til umfjöllunar á vettvangi rammaáætlunar mætti þrefalda þennan sparnað í um 50 milljónir tonna á ári. Til samanburðar losa Frakkar um 320 milljónir tonna árlega í andrúmsloftið, en þar búa 66 milljónir manna. Enginn reiknar auðvitað með þessari þróun rammaáætlunar, en þetta dæmi endurspeglar jákvætt framlag vatnsafls og jarðvarma til loftslagsmála.

Tækifæri framundan
Þrátt fyrir okkar miklu sérstöðu höfum við ýmis tækifæri til að ná enn meiri árangri á þessu sviði, ekki eingöngu með aukinni nýtingu grænna orkugjafa hérlendis. Rafvæðing samgangna er augljóst dæmi, en sú spennandi þróun er sannarlega hafin. Áratugum saman hafa Íslendingar deilt þekkingu sinni af nýtingu jarðvarma með öðrum þjóðum og enn stendur til að efla þá starfsemi. Þá hefur mögulegur sæstrengur til Bretlands verið til skoðunar, en slíkur strengur hefði í för með sér tækifæri til bættrar nýtingar á okkar grænu orku og á móti mætti t.d. minnka brennslu á kolum í Bretlandi.

Við getum því bæði verið stolt af okkar græna orkukerfi og horft bjartsýn til enn aukins framlags okkar til þess til að draga úr hnattrænni losun gróðurhúsalofttegunda.

Minna straumleysi ef styrkingar flutningskerfis hefðu verið komnar til framkvæmda

Tjón Landsnets vegna fárviðrisins á dögunum nemur um 120 milljónum króna. Þar af eru um 90 milljónir vegna Vestfjarða. Notendur hefðu orðið fyrir minna straumleysi í fárviðrinu ef kerfisstyrkingar sem Landsnet vill ráðast í hefðu verið komnar til framkvæmda. Þannig voru það eingöngu eldri flutningslínur með trémöstrum sem skemmdust.

Sjá nánar á vef Landsnets.

Bein nýting jarðhita á Parísarfundinum – Upptaka af fundi, erindi og fleira

Jarðvarmaklasinn í samstarfi við utanríkisráðuneytið stóðu fyrir fundi um beina nýtingu jarðhita á Parísarfundinum um loftslagsmál. Þar fluttu erindi: Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra; Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri; Hildigunnur Thorsteinsson, framkvæmdastjóri þróunar Orkuveitu Reykjavíkur; Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar. Fundarstjóri var Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Myndband af fundinum, dagskrá hans og erindi má nálgast hér.

Nýting orkulinda Íslands dregur úr gróðurhúsalofttegundum

„Raforkan á Íslandi er nánast eingöngu unnin með vatnsafli og jarðvarma og sú vinnsla hefur í för með sér margfalt minni losun gróðurhúsalofttegunda á orkueiningu en þegar jarðefnaeldsneyti er brennt. Þannig er t.d. losun frá Fljótsdalsstöð (Kárahnjúkavirkjun) um 0,3% af losun frá kolaorkuveri og um 0,6% ef miðað er við jarðgas.“ Þetta kemur m.a. fram í Fréttablaðsgrein Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar. Hann bendir á að aukin nýting vatnsafls og jarðvarma á Íslandi, í stað orkuframleiðslu með brennslu jarðefna annars staðar, geti þannig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum og sé því ein af leiðunum sem þarf að nota til að ná lokamarkmiði loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Sjá nánar hér á vef Landsvirkjunar.

Sparnaður í losun koldíoxíðs nemur 140 milljónum tonna á einni öld með nýtingu jarðhita í stað olíu

Orkustofnun hefur unnið að því að meta sparnað í losun koldíoxíðs með nýtingu jarðhita stað olíu – í húshitun, aðra varmanotkun og raforkuframleiðslu. Tímabilið sem skoðað var frá 1914 til 2014 og nemur uppsafnaður sparnaður 140 milljónum tonna af koldíoxíði. Tveir þriðju hlutar sparnaðarins er framlag hitaveitna á Íslandi í eina öld.

Sjá nánar á vef Orkustofnunar.