Bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið!

Á hverju ári koma um 120 tonn af ýmsum óæskilegum úrgangi í hreinsistöðvar Klettagarða og Ánanaust í Reykjavík. Það þýðir að hálft kíló af rusli fer í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu! Þá er óupptalið hvað safnast í fráveitukerfi annars staðar á landinu.

Í dag, 19. nóvember er alþjóðlegur dagur klósettsins, World Toilet Day. Honum er ætlað að vekja athygli á og vinna að sjálfbærnimarkmiði númer 6 hjá Sameinuðu þjóðunum; Hreint vatn og hreinlætisaðstaða.  Í ár er þema dagsins „Sjálfbært hreinlæti og loftslagsbreytingar“.

Á Íslandi er gott aðgengi að klósetti. Hins vegar er úrgangur í fráveitu vandamál um allt land. Hann skaðar lífríkið, þyngir rekstur fráveitukerfa og eykur kostnað sveitarfélaga vegna hreinsunar og förgunar á úrgangi um tugi milljóna króna á ári. Blautþurrkur, sótthreinsiklútar, tannþráður, smokkar, eyrnapinnar, bómullahnoðrar, hár og annar úrgangur á ekki heima í fráveitukerfinu okkar.

Samorka og Umhverfisstofnun hafa í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðiseftirlitin látið gera kynningarefni sem allir geta nýtt sér og deilt áfram að vild. Með jákvæðum og einföldum skilaboðum hvetjum við alla til að setja bara piss, kúk og klósettpappír í klósettin.

Hér má sjá lag með þessum einföldu skilaboðum:

Kynningarefni ásamt nánari upplýsingum um verkefnið má finna á heimasíðunni klosettvinir.is.

Nýr upplýsingavefur um rafbíla

Stöðug fjölgun rafbíla kallar á ýmsar áskoranir, s.s. varðandi drægni, búnað, leyfismál, öryggi og heimahleðslu, ekki síst í fjölbýli. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HSM, hefur opnað nýjan upplýsingavef um rafbíla og hleðslu þeirra.

Á síðunni má finna yfirgripsmiklan fróðleik um drægni, búnað, leyfismál, öryggi og heimahleðslu, sér í lagi í fjölbýli og hægt er að horfa á fræðslumyndbönd um hleðsluaðferðir, hleðslutíma, drægni, aflþörf, hleðslu í nýjum og eldri byggingum, leyfismál, kröfur og öryggismál.

 

Kallað eftir erindum á NORDIWA 2021

Óskað er eftir tillögum að erindum fyrir norrænu fráveituráðstefnuna 2021, NORDIWA. Ráðstefnan er stærsti viðburður í fráveitumálum á Norðurlöndum og að þessu sinni haldin í Gautaborg í Svíþjóð dagana 28. – 30. september 2021.

Á ráðstefnunni koma saman helstu sérfræðingar Norðurlandanna í fráveitumálum; framkvæmdastjórar, framkvæmdaaðilar, skipulagssérfræðingar, rannsakendur, verkfræðingar, ráðgjafar og fleiri sem áhuga og þekkingu hafa á málaflokknum og loftslagsmálum á Norðurlöndum.

Skilafrestur fyrir tillögur að erindi er til 28. janúar 2021. Nánari upplýsingar um helstu umfjöllunarefni ráðstefnunnar og hvernig eigi að senda inn tillögu að erindi eru að finna á heimasíðu ráðstefnunnar.

Samorka hvetur alla áhugasama um fráveitumál að senda inn erindi.

Tveir nýir framkvæmdastjórar hjá Landsvirkjun

Landsvirkjun hefur ráðið þau Tinnu Traustadóttur og Ríkarð S. Ríkarðsson í stöðu framkvæmdastjóra Orkusölusviðs og Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs. Á sama tíma er svið Markaðs- og viðskiptaþróunar lagt niður.

Nýtt Orkusölusvið mun annast samningsgerð og rekstur orkusölusamninga við núverandi viðskiptavini Landsvirkjunar, með áherslu á að vinna náið með þeim viðskiptavinum, til að tryggja samkeppnishæfni þeirra. Þá eru fyrirsjáanlegar miklar breytingar á heildsölumarkaði fyrir raforku og markað fyrir kerfisþjónustu.

Tinna Traustadóttir er framkvæmdastjóri Orkusölusviðs. Tinna útskrifaðist frá Háskólanum í Reykjavík árið 2017 með meistaragráðu í stjórnun og viðskiptum (MBA) og er einnig með MSc. í lyfjafræði frá Háskóla Íslands. Í tæplega 14 ár starfaði hún hjá Actavis og hlaut þar víðtæka reynslu af viðskiptaþróun og samningagerð í alþjóðlegu umhverfi. Á árunum 2005-2014 starfaði Tinna hjá Actavis í Bandaríkjunum, sem er stærsti lyfjamarkaður í heimi.

Tinna hóf störf hjá Landsvirkjun haustið 2017 í viðskiptaþróun og starfaði þar m.a. að fjölnýtingu og nýsköpun. Árið 2018 fluttist hún yfir í viðskiptastýringu, en frá maí á síðasta ári hefur hún verið forstöðumaður viðskiptastýringar.

 

Hlutverk Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs er að þróa ný viðskiptatækifæri og stýra þátttöku Landsvirkjunar í orkutengdri nýsköpun. Á sviðið flytjast einnig þau verkefni Þróunarsviðs sem snúa að nýsköpun og fjölnýtingu. Þau viðskiptatækifæri sem fram undan eru krefjast víðtæks samráðs við fjölbreytta hagsmunaaðila, sem og frumkvæðis og drifkrafts Landsvirkjunar, til að verkefnin njóti brautargengis og árangur náist.

Ríkarður S. Ríkarðsson er framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs. Ríkarður útskrifaðist með BSc. gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá University of Denver árið 2000 og MSc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá Stanford University árið 2002. Þá lauk hann námi í stjórnunarfræðum við IMD Business School árið 2017.

Að loknu námi í Stanford starfaði Ríkarður í nokkur ár hjá fjármálafyrirtækjum á Íslandi og um tveggja ára skeið hjá McKinsey & Co. í Kaupmannahöfn. Hann hóf störf hjá Landsvirkjun við markaðs- og viðskiptaþróun árið 2011. Frá júlí 2017 hefur Ríkarður verið framkvæmdastjóri dótturfyrirtækis Landsvirkjunar, Landsvirkjun Power, en hlutverk fyrirtækisins er að veita ráðgjöf og taka þátt í þróun endurnýjanlegrar orkuvinnslu erlendis. Ríkarður mun gegna því starfi áfram, samhliða framkvæmdastjórastöðu Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs.

Nánar á landsvirkjun.is.

Terra og Netpartar verðlaunuð á Umhverfisdegi atvinnulífsins

Umhverfisfyrirtæki ársins er Terra en framtak ársins á sviði umhverfismála eiga Netpartar. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti þeim verðlaunin á Umhverfisdegi atvinnulífsins sem haldinn var hátíðlegur í dag.

Terra hefur starfað við flokkun og söfnun endurvinnsluefna frá árinu 1984 og vinnur með fyrirtækjum, sveitarfélögum og einstaklingum í endurvinnslu og umhverfisvænni úrgangsstjórnun með áherslu á að koma öllum þeim efnum sem falla til í viðeigandi farveg og aftur inn í hringrásarhagkerfið.  Terra rekur meðal annars jarðgerðarbúnað til endurnýtingar á lífrænum efnum og gerir viðskiptavinum sínum kleift að fylgjast með úrgangstölum og endurvinnsluhlutfalli í rauntíma. Gunnar Bragason, forstjóri Terra tók við verðlaununum fyrir hönd Terra.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Líf Lárusdóttir, markaðsstjóri Terra, Gunnar Bragason, forstjóri Terra, Jónína G. Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og viðskiptasviðs Terra, Freyr Eyjólfsson, samskiptastjóri Terra og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

„Þessi verðlaun eru mikil viðurkenning fyrir okkar starf og góð hvatning fyrir starfsfólk Terra. En við höfum metnað til að gera enn betur. Með nýjum markmiðum, nýjum starfrænum leiðum, grænum fjárfestingum og íslensku hugviti viljum við stíga mikilvæg og græn skref inn í framtíðina, innleiða hringrásarhagkerfi og efla mikið flokkun og endurvinnslu. Þetta viljum við gera í samvinnu við fólkið í landinu, stjórnvöld og íslensk fyrirtæki, til að draga úr mengun og gróðurhúsaáhrifum og skapa um leið hagkvæmara og betra þjóðfélag.

Ég skora á okkur öll að taka umhverfis- og endurvinnslumál föstum tökum og gefa þeim það vægi sem þau þarfnast. Vörur eru framleiddar til að anna eftirspurn. Ef við sem búum þessa jörð förum að hugsa og framkvæma með það að leiðarljósi að varan sem við notum sé hluti af hringrásarhagkerfinu, að það sé búið við hönnun að gera ráð fyrir því hvað gert er við vöruna að loknum líftíma hennar, þá getum við breytt miklu. Ísland er ekki stórt land en öll skref í þessa átt eru til bóta. Við skiptum því máli. Skiljum jörðina eftir á betri stað en við tókum við henni.”

Kynntu þér umhverfisstarf og stefnu Terra

 

Netpartar eiga framtak ársins

Netpartar fengu verðlaun á Umhverfisdegi atvinnulífsins í dag fyrir framtak ársins á sviði umhverfismála. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, tilkynnti verðlaunin en viðurkenninguna fá Netpartar fyrir að vera leiðandi í umhverfismálum við niðurrif bíla og sölu varahluta.

Markmið Netparta hefur frá upphafi verið að stuðla að frekari nýtingu notaðra varahluta úr bifreiðum sem og að endurvinna þær með umhverfisvænum hætti til annarra hlutverka. Það leiðir af sér betri nýtingu verðmæta, stuðlar að minni sóun, minni urðun, betra umhverfi og loftslagi. Þannig gegna Netpartar hlutverki í hringrásarhagkerfinu.

Framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins er Aðalheiður Jacobsen, viðskiptafræðingur og frumkvöðull.

„Ég og við öll hjá Netpörtum erum yfir okkur stolt og þakklát að hafa hlotið þessa viðurkenningu frá atvinnulífinu sem er okkur sannarlega mikil hvatning. Alveg frá stofnun Netparta hafa umhverfismál og samfélagsábyrgð verið okkar leiðarljós, þar sem markmiðið er að sem mest af ónýtum bíl fari aftur í annað hvort nýtilega bílavarahluti eða í önnur hlutverk í hringrásarkerfinu. Við lítum á það sem okkar skyldu að stuðla að minni sóun og urðun fyrir betra umhverfi og loftslagi og við erum þakklát fyrir þann meðbyr sem finnum, frá bæði viðskiptavinum og öðrum.“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Kristín Jóhannsdóttir, almannatengill Netparta, Aðalheiður Jacobsen, framkvæmdastjóri Netparta og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

 

 

Kynntu þér umhverfisstarf og stefnu Netparta

Í valnefnd Umhverfisverðlauna atvinnulífsins sátu Bryndís Skúladóttir, formaður dómnefndar, Sigurður M. Harðarson og Gréta María Grétarsdóttir.

Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður en að honum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Streymi af erindum dagsins má finna hér.

108 milljarðar til fjárfestinga og viðhalds næstu 6 árin

Fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur gerir ráð fyrir að næstu sex árin verði 108 milljörðum króna varið í viðhald og nýjar fjárfestingar á vegum samstæðunnar. Fjárhagsspá samstæðu OR fyrir árabilið 2021-2026 var samþykkt af stjórn OR í dag. Í samstæðu OR eru, auk móðurfélagsins; Veitur, Orka náttúrunnar, Gagnaveita Reykjavíkur og Carbfix.

Mannaflafrekar viðspyrnufjárfestingar

Fjárhagur Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjanna er traustur og engra stórra breytinga að vænta í tekjum eða gjöldum á næstu árum samkvæmt spánni. Nú í vor var frá því greint að Veitur hygðust ráðast í sérstakar viðspyrnufjárfestingar vegna Covid-19 faraldursins. Áformin koma nú inn í opinbera fjárhagsspá OR-samstæðunnar og nema um fjórum milljörðum króna á árinu 2021. Talið er að 200 störf á sunnan- og vestanverðu landinu skapist hjá verktökum við þetta átak, án þess að starfsfólki Veitna fjölgi. Allsherjaruppfærsla á orkumælum Veitna er stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið á tímabilinu. Undirbúningur þess hefur staðið um hríð en skiptin yfir í snjallmæla munu taka tvö til þrjú ár. Um 25 iðnaðarmenn munu að jafnaði starfa við útskiptin sjálf auk fleira fólks í ýmsum stuðningi við verkefnið.

Nánari upplýsingar um fjárhagsspá OR má sjá á heimasíðu þeirra.

Íslenskt – láttu það ganga!

Frá bakara til forritara. Frá forritara til hönnunar. Frá hönnun til bænda. Frá bónda til bakara. Frá þér til þín. Þannig gengur þetta – frá þér til þín í í stöðugri hringrás. Þetta er á meðal þess sem atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið ásamt Samtökum iðnaðarins, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samorku og Bændasamtökum Íslands, vilja minna landsmenn á í kynningarátakinu Íslenskt – láttu það ganga sem hefur verið sett af stað.

Tilgangur átaksins sé að hvetja landsmenn, almenning og fyrirtæki til viðskipta við innlenda aðila á fjölbreyttum sviðum, við val á framleiðslu, vörum og þjónustu. Um leið á að efla vitund landsmanna um neysluhegðun og útskýra þau keðjuverkandi áhrif sem verða þegar við veljum innlenda þjónustu og skiptum við innlend fyrirtæki.

Hér má sjá sjónvarpsauglýsinguna:

Ársfundur Samorku 2020 í máli og myndum

Orkuskipti í samgöngum voru í brennidepli á ársfundi Samorku, sem fram fór þriðjudaginn 8. september í Norðurljósasal Hörpu. Dagskráin innihélt erindi um allar hliðar orkuskipta; á landi, í lofti og á legi og innlendir sem erlendir sérfræðingar fluttu erindi. Á fundinum voru kynntar niðurstöður úr nýrri greiningu Samorku um nauðsynlegar aðgerðir svo ná megi markmiðum stjórnvalda um orkuskipti í samgöngum árið 203o.

Fundurinn var heldur óvenjulegur í ár því engir voru gestirnir í salnum í ljósi aðstæðna, en hins vegar var metfjöldi sem fylgdist með í gegnum netið.

Ditlev Engel, framkvæmdastjóri DNV-GL, flytur erindi sitt um rafvæðingu hafna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér fyrir neðan má sjá ljósmyndir og upptökur af erindum fundarins.

Fundurinn hófst á stuttu myndbandi um orkuskipti í samgöngum og um hvað þau snúast.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ávarpaði fundinn og ræddi um mikilvægi orkuskipta í samgöngum í því markmiði að Ísland verði kolefnishlutlaust land.

 

Íslendingar hafa áður gengið í gegnum orkuskipti; fyrst með rafvæðingu atvinnu- og heimilislífs og svo þegar við nýttum jarðhitann til hitaveitu. Helgi Jóhannesson, formaður stjórnar Samorku, fór yfir ávinninginn sem þessi fyrri orkuskipti hafa fært okkur í erindi sínu.

Orkuskipti í samgöngum innanlands gegna lykilhlutverki í því að Ísland standist alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Auður Nanna Baldvinsdóttir, formaður orkuskiptahóps Samorku og viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun og Sigurjón Kjærnested, forstöðumaður fagsviða hjá Samorku, greindu frá niðurstöðum nýrrar greiningar á hvað þurfi til svo orkuskipti geti orðið að veruleika, til dæmis hvað varðar innviða- og orkuþörf.

Hér eru helstu niðurstöður greiningarinnar settar fram á einni mynd:

 

Colin McKerrecher, sérfræðingur hjá Bloomberg New Energy Finance (BNEF), kynnti nýja skýrslu um þróun orkuskipta í bílum.

Rafbílavæðing hefur jákvæð áhrif í heild þegar til lengri tíma er litið, þegar litið er til helstu þjóðhagslegra stærða og fjárhagslegra hagsmuna neytenda. Auk þess skilar hún umtalsverðum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta eru helstu niðurstöður greiningar sem unnin var af HR og HÍ fyrir Samorku, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Grænu orkuna, Íslenska Nýorku og Orkusetur. Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Samorku, fór yfir niðurstöður rannsóknarinnar í erindi sínu.

Með aukinni rafbílavæðingu og orkuskiptum í samgöngum þarf að tryggja að innviðir raforkukerfis á Íslandi séu undirbúnir fyrir aukið álag sem fylgir í kjölfarið. Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, ásamt nokkrum af aðildarfyrirtækjum sínum, stóð fyrir nýrri rannsókn á fyrirkomulagi hleðslu raf- og tengiltvinnbíla á Íslandi sem ekki verið framkvæmd hérlendis áður. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa mikilvægar upplýsingar um áhrif rafbíla á raforkukerfið, hvernig fyrirkomulagi á hleðslu þeirra er háttað og þar með á ákvarðanir um uppbyggingu innviða, svo rafbílaeigendur fái sem besta þjónustu um leið og þeim fjölgar. Scott Lepold, frá GeoTab/FleetCarma og Kjartan Rolf Árnason, orkuskiptahópi Samorku og forstöðumaður kerfisstýringar hjá RARIK, fóru yfir niðurstöður rannsóknarinnar í erindi sínu.

Hafnir geta gegnt lykilhlutverki í því að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda í framtíðinni og hjálpað til við að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir græna orku. Ditlev Engel, framkvæmdastjóri DNV-GL, kynnti niðurstöður nýrrar skýrslu fyrirtækisins sem unnin var í samstarfi við Eurelectric.

Olav Mosvold Larsen, sérfræðingur hjá Avinor, sagði frá rafvæðingu flugs í Noregi og framtíðarsýn Avinor um orkuskipti í flugrekstri.

Danir horfa til þess að grænt eldsneyti sem framleitt er úr grænni orku muni spila lykilhlutverk í umskiptum frá jarðefnaeldsneyti og muni skipta verulegu máli í þeirri vegferð að uppfylla markmið Danmerkur í loftslagsmálum. Í erindinu fór Morten Stryg, aðalráðgjafi hjá Dansk Energi, yfir niðurstöður greiningar Energinet og Dansk Energi um hvernig grænt eldsneyti getur orðið einn af hornsteinum danska orkugeirans til framtíðar og hvaða atriði skipta sköpum til að tryggt sé að þessi orkuskipti geti átt sér stað í Danmörku.

Ljósmyndarinn Eyþór Árnason festi stemninguna á mynd.

 

 

 

Á fullu að undirbúa orkuskipti í samgöngum

Orku- og veitufyrirtækin hafa undirbúið sig um þó nokkurt skeið undir orkuskipti í samgöngum, þar sem þróunin er hröð og hreinorkubílum fjölgar stöðugt á götum landsins.

Fyrirtækin hafa stóru hlutverki að gegna í orkuskiptunum og þau hafa unnið að undirbúningi þeirra um langt skeið og staðið að öflugum greiningum, rannsóknum og fjárfestingum til að leggja sitt af mörkum.. Orku- og veitufyrirtækin hafa nú þegar lagt grunninn að nauðsynlegum hleðsluinnviðum um allt land fyrir rafbíla og hafa auk þess tekið þátt í að þróa og koma á fót innlendri framleiðslu á öðrum hreinorkugjöfum í formi rafeldsneytis og lífeldsneytis s.s. vetni, metanóli, metan og lífdísel fyrir hreinorkufarartæki framtíðarinnar.

Til að greina möguleg áhrif umfangsmikilla orkuskipta á flutnings- og dreifikerfi raforku stóð Samorka fyrir rannsókn með þátttöku 200 rafbílaeigenda um allt land. Bíleigendurnir komu fyrir mælikubb í bíl sínum sem skráði hvar, hvenær og hversu oft bíllinn var hlaðinn, hversu langt var keyrt og svo framvegis.

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku ræddi orkuskipti í samgöngum við þá Heimi Karlsson og Gunnlaug Helgason í þættinum Í bítið á Bylgunni. Hér má hlusta á viðtalið.

 

Nýtum hreina, innlenda orkugjafa á samgöngutæki

Orkuskipti í samgöngum eru mikilvægur hluti alþjóðlegra skuldbindinga í loftslagsmálum á Íslandi. Orkuskipti í samgöngum snúast um að draga úr notkun á innfluttu jarðefnaeldsneyti og nota í staðinn innlenda hreina orkugjafa á bíla, skip og flugvélar.

Orkan sem nýtt er innanlands kemur að langmestu leyti frá endurnýjanlegum orkugjöfum, jarðhita og vatnsafli, eða 91%. Hlutfallið er 85% ef eldsneyti á millilandaflug og farskip eru tekin með. Þessu má þakka þeim orkuskiptum sem á sínum tíma var ráðist í á öðrum sviðum samfélagsins. Aðeins 9% prósent orkunnar sem notuð er innanlands er innflutt eldsneyti, sem nýtt er á samgöngutæki; á bíla, fiskiskip og sjósamgöngur innanlands auk innanlandsflugs.

Samkvæmt aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum til að uppfylla Parísarsamninginn á að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum á landi um 21% miðað við árið 2005, en vegna þess hversu mikið útblástur hefur aukist frá árinu 2005 er talan nú 37%, sem þarf að draga úr, miðað við stöðuna árið 2018. Með því að draga úr þessum útblæstri  getur Ísland lagt enn frekar af mörkum til loftslagsmála, til viðbótar við að hafa húshitun og rafmagnsframleiðslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum, og um leið sparað gjaldeyri og aukið orkuöryggi þjóðarinnar, sem þá verður ekki lengur eins háð innflutningi á eldsneyti.

Orku- og veitufyrirtæki landsins hafa hér stóru hlutverki að gegna og þau hafa unnið að undirbúningi orkuskipta um langt skeið og staðið að öflugum greiningum, rannsóknum og fjárfestingum til að leggja sitt af mörkum.. Þau hafa nú þegar lagt grunninn að nauðsynlegum hleðsluinnviðum um allt land fyrir rafbíla. Auk þess hafa fyrirtækin tekið þátt í að þróa og koma á fót innlendri framleiðslu á öðrum hreinorkugjöfum í formi rafeldsneytis og lífeldsneytis s.s. vetni, metanóli, metan og lífdísel fyrir hreinorkufarartæki framtíðarinnar.

Uppbygging hleðsluinnviða fyrir rafbíla, fjárhagslegir hvatar sem stjórnvöld hafa komið á og stóraukið úrval rafbíla og tengiltvinnbíla hafa nú þegar skilað Íslandi í fremstu röð á heimsvísu í rafbílavæðingu, næst á eftir Noregi sem er í fyrsta sæti. Þá hefur orðið hröð þróun í farartækjum sem nýta rafeldsneyti eða lífeldsneyti s.s. vöru- og hópferðabílum, ferjum, skipum og flugvélum.

Samorka kynnti á ársfundi sínum í gær niðurstöður greininga um orkuskipti í samgöngum á Íslandi. Greiningin byggir meðal annars á niðurstöðum úr nýrri, umfangsmikilli hleðslurannsókn sem staðið hefur yfir í eitt ár með þátttöku tvö hundruð rafbílaeigenda um allt land. Niðurstöðurnar gefa mikilvægar upplýsingar um við hverju megi búast þegar rafbílum fjölgar til muna með tilheyrandi álagi á raforkuframleiðslu-, flutnings- og dreifikerfi landsins.

 

Markmið stjórnvalda um orkuskipti í vegasamgöngum samkvæmt Parísarsamningnum kalla á um 300 MW (1,4 TWh á ári) samkvæmt greiningunni. Fjárfesta þarf um 15 milljarða árlega til ársins 2030 í uppbyggingu flutnings- og dreifikerfis, meðal annars fyrir orkuskipti. Til þess þarf að gera regluverk um þá skilvirkari. Þjóðarbúið sparar um 20-30 milljarða króna á ári vegna minni eldsneytiskaupa og heimilin spara einnig um 400.000 krónur árlega með því að skipta yfir í rafbíl og sleppa við að kaupa eldsneyti. Tveir af hverjum þremur bílum á götunni þurfa að vera orðnir rafbílar fyrir árið 2030. Útblástur myndi minnka um 37% frá samgöngum, eða um 365.000 tonn.

Ef skipta ætti alveg út jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda hreina orkugjafa í öllum bílum, skipum og flugvélum innanlands fyrir árið 2030 þyrfti um 1200 MW (9TWh á ári). Þar með væri orkunotkun innanlands orðin nær 100% græn.

Rannsókn HR og HÍ, sem unnin var fyrir Samorku árið 2018, sýnir að rafbílavæðing er þjóðhagslega hagkvæm. Orkuskipti í samgöngum fela einnig í sér mikil sóknarfæri fyrir Ísland til verðmætasköpunar, atvinnusköpunar og nýsköpunar.

Horfa á ársfund Samorku 2020, Orkuskipti: Hvað þarf til?