26. ágúst 2025 Umsögn: Öll atvinnuuppbygging þarf öruggt aðgengi að grænni orku og traustum veituinnviðum Í nýrri umsögn Samorku um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035 og birt hefur verið í samráðsgátt er lögð áhersla á að atvinnustefna verði aðeins raunhæf og framkvæmanleg ef hún byggir á skýrri stefnu um öflun orku og uppbyggingu veituinnviða. Samorka fagnar því að ríkisstjórnin leggi áherslu á innviðauppbyggingu, einfaldara regluverk og skilvirkari stjórnsýslu, en varar við að núverandi ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á raforkumarkaði ógni framgangi stefnunnar. Samorka kallar eftir skýrri aðgerðaáætlun um stóraukna orkuvinnslu, sem og hraðari uppbyggingu flutnings- og dreifikerfa raforku Atvinnuuppbygging – hvort heldur í hefðbundnum atvinnugreinum eða nýjum vaxtargreinum – stendur og fellur með öruggu aðgengi að grænni orku og traustum veituinnviðum. Það er grunnur verðmætasköpunar, byggðaþróunar, nýsköpunar og árangurs í loftslagsmálum. Samorka hvetur því til þess að í endanlegri atvinnustefnu verði: Skýrt kveðið á um að tryggt framboð á grænni orku sé ein af meginforsendum efnahagslegs vaxtar. Skýrt kveðið á um mikilvægi flutnings- og dreifikerfa til að jafna samkeppnisskilyrði um allt land. Öflug uppbygging allra veituinnviða fyrir vatn, hita og fráveitu sett fram sem grundvallarforsenda vaxtar og atvinnuuppbyggingar. Skilgreint að uppbygging grænnar orku og veituinnviða teljist til brýnna almannahagsmuna. Umsögn Samorku í heild sinni má finna hér: Umsögn Samorku_Breyting á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála_89.mál_Bráðab.leyfiDownload