Ráðherra setur vindorkukost í nýtingarflokk

Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt til að færa fyrirhugaða vindorkuvirkjun í Garpsdal í Reykhólahreppi yfir í nýtingarflokk rammaáætlunar úr biðflokki. Þar með breytir hann tillögu verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar sem lagði til við ráðherra í maí s.l. að allir 10 vindorkukostirnir í 5. áfanga rammaáætlunar færu í biðflokk.

Ráðherra rökstyður ákvörðun sína með því að virkjanakosturinn í Garpsdal hafi fengið jákvæðari umsögn frá faghópum rammaáætlunarinnar en aðrir kostir, bæði hvað varðar áhrif á náttúru og samfélag. Meiri sátt virðist ríkja um Garpsdalinn í nærsamfélaginu en um aðra vindorkukosti að því fram kemur í fréttatilkynningu ráðuneytisins.

Ásýnd á vindorkugarðinn, séð frá Saurbæ

„Við tökum eitt skref í einu í vindorkunni og gefum ekki grænt ljós á frekari framkvæmdir fyrr en skýr rammi og lagaumgjörð liggur fyrir. Þar verður lögð áhersla á að verja náttúruverðmætin sem við eigum hérna saman og tryggja sátt og samstöðu í nærsamfélaginu,“ segir Jóhann Páll í fréttatilkynningunni.

Ráðherrann  stefnir á að leggja fram þingsályktunartillögu um breytta flokkun Garpsdals samhliða kynningu á vindorkustefnu og breyttri lagaumgjörð um vindorkunýtingu á næsta löggjafarþingi. Aðrir vindorkukostir í tillögum verkefnisstjórnarinnar muni fá áframhaldandi umfjöllun hjá nýrri verkefnisstjórn rammaáætlunar sem skipuð var 12. júní sl.

Vindorkulundurinn sem áformaður er í Garpsdal er í þróun af EM Orku og var það af þeim sem óskað var eftir mati á virkjunarkostinum. Gert er ráð fyrir 21 4,2 MW vindmyllum með 88MW heildarafl. Svæðið sem rannsakað var eru 3,67km2 og af því er búist við að 0.12km2 muni raksast vegna framkvæmdanna. Hljóti tillaga ráðherra brautargengi á alþingi er þetta þriðji vindorkukosturinn í nýtingarflokki rammaáætlunar en fyrir eru Búrfellslundur, nú nefndur Vaðölduver, og Blöndulundur.

Vaðölduver verður fyrsta stóra vindorkuverið hér á landi. Reisa á 28 vindmyllur með uppsettu afli upp á 120 MW. Helmingur þeirra verður gangsettur haustið 2026 og reiknað er með að Vaðölduver verði komið í fullan rekstur fyrir lok árs 2027.