Hagfræðin hennar ömmu og auðlindanýting í Svartsengi

Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi eru lykilorð í orku- og veitugeiranum um allan heim um þessar mundir, en fyrir Alberti Albertssyni eru þetta einfaldlega ný orð yfir hagfræðina hennar ömmu. Að bera nægilegan kærleik í brjósti fyrir því sem jörðin gefur okkur að ekkert fari til spillis. Þessa hugmyndafræði drakk Albert í sig frá blautu barnsbeini og nýtti í gegnum áratuga starfsferil á Suðurnesjunum, fyrst hjá Hitaveitu Suðurnesja og síðar hjá HS Orku, þar sem þetta leiðarljós var virkjað í Auðlindagarðinum sem gengur út á þekkingarmiðlun og fullnýtingu auðlindastrauma.

Albert, sem er nýsestur í helgan stein, er gestur þáttarins að þessu sinni og við ræðum um hvernig veganestið frá ömmu hefur verið lykilatriði í auðlindanýtingu í Svartsengi.