Gott grunnvatn er forgangsmál

Verndun og gæði gunnvatns í Evrópu er eitt af forgangsmálum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagði fulltrúi hennar á fundi í Brussel þann 29. apríl. Framkvæmdastjórnin vinnur nú að „Stefnu um viðnámsþrótt vatns“ eða „European Water Resilience Strategy“. Opið samráðsferli skilaði hátt í sex hundruð umsögnum eða framlögum og haldnir voru þrír hringborðsfundir undir lok mars.

Ný stefnumótunarskýrsla „Grunnvatn í Evrópu – hornsteinn viðnámsþróttar,“ var kynnt á fundinum en að honum stóð sendinefnd þýska sambandsríkisins Hessen gagnvart Evrópusambandinu. Höfundar skýrslunnar leggja fram margvíslegar tillögur um hvernig bæta megi verndun grunnvatns og tryggja gæði þess. Taka þurfi með í reikninginn áhrif loftslagsbreytinga og styrkja fyrrnefnda stefnumótun ESB um viðnámsþrótt vatns. Skýrslan byggir á víðtækum rannsóknargögnum um vatnsból í Þýskalandi, Króatíu og Spáni. Höfundar segja að grunnvatn hafi aldrei verið mikilvægara fyrir fólk, samfélög og vistkerfi. Hinsvegar sé ólíklegt að markmið Vatnatilskipunar Evrópusambandsins (EU Water Framework Directive) náist fyrir árið 2027. 

Isaac Ojea Jimenez, sérfræðingur á umhverfissviði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði frá sjónarmiðum ESB.

Þátttakendur í pallborðsumræðum á fundinum komu úr ýmsum áttum, s.s. vísindamenn fulltrúar hagsmunasamtaka á borð við EurEeu og sérfræðingur frá umhverfissviði framkvæmdastjórnar ESB sem hefur þessi mál á sinni könnu. Hann sagði m.a. að bæta þyrfti eftirlit með grunnvatni, upplýsingamiðlun og samhæfingu auk þess að takast á við mengun. Þess væri að vænta að framkvæmdastjórnin leggi stefnuna fram nú á öðrum ársfjórðungi og að Evrópuþingið taki hana fyrir. 

Evrópustefnan um viðnámsþrótt vatns á að vernda hringrás vatnsins, tryggja nægilegt framboð af hreinu vatni á hagstæðu verði fyrir alla og samkeppnishæfni vatnsgeirans í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Stefnan leggur áherslu á fimm megin svið – stjórnsýslu og innleiðingu, innviði, fjármögnun og fjárfestingu, öryggi og loks fyrirtæki í vatnsgeiranum, nýsköpun og menntun. 

Stefna, lagasetning og reglur Evrópusambandsins á þessu sviði hafa víðtæk áhrif á hér á landi með lögum og reglum sem íslensk stjórnvöld innleiða í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Vatnatilskipun Evrópusambandsins hefur þannig verið innleidd með tilheyrandi breytingum á stjórn vatnamála og nú vinnur Evrópusambandið að uppfærslu og nánari útfærslu neysluvatnstilskipunarinnar (EU Drinking Water Directive). Aðildarfyrirtæki og félög innan Samorku hafa skýra hagsmuni af því að vita hvað er handan við hornið hjá Evrópusambandinu í vatnamálum og Samorka vill að sama skapi upplýsa þau um það sem er á döfinni. Samorka er aðili að EurEau og vinnur þannig að því að tryggja hagsmuni íslenskra vatns- og fráveitna í Brussel. 

Fanny Frick-Trzebitzky (t.v.) kynnti rannsókina og Silke Wettach (t.h.) fréttakona stýrði pallborðsumræðum.

Þá má rifja upp að í desember s.l. fékk Umhverfisstofnun ásamt 22 samstarfsaðilum um 3,5 milljarða króna styrk frá Evrópusambandinu til að vinna að fjölbreyttum verkefnum til að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi. Í þessum hópi eru m.a. fjölmörg sveitarfélög og veitufyrirtæki innan Samorku. 

Sveinn Helgason verkefnastjóri erlends samstarfs hjá Samorku með Oliver Loebel, framkvæmdastjóra EurEau, sem var meðal þátttakenda í pallborðsumræðunum.

Tenglar með frekari upplýsingum: 

Meira um „European Water Resilience Strategy.“ „Evrópustefnu um viðnámsþrótt vatns.“ 

https://environment.ec.europa.eu/news/call-evidence-begins-eu-water-resilience-strategy-2025-02-04_en

https://www.europarl.europa.eu/legislative-train/theme-sustaining-our-quality-of-life-food-security-water-and-nature/file-european-water-resilience-strategy

Stefnumótunarskýrsla ISOE – The Institute for Social-Ecological Research. „Groundwater in Europe – Cornerstone for Resilience.“ 

https://www.isoe.de/en/publication/groundwater-in-europe-cornerstone-for-resilience

Frétt um styrk sem Umhverfisstofnun fékk frá ESB til að tryggja vatnsgæði: 

https://www.ust.is/umhverfisstofnun/frettir/stok-frett/2024/12/11/3-5-milljarda-styrkur-til-ad-tryggja-vatnsgaedi-a-Islandi

Skýrsla Umhverfisstofnunar Evrópu um viðnámsþrótt vatns 

https://www.eea.europa.eu/is/highlights/mengun-ofnotkun-og-loftslagsbreytingar-ogna