Kynning á viðtakarannsóknum fráveitu

Mánudaginn 23. nóvember kl.12:30 er haldinn áhugaverður hádegisfundur í Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem Guðjón Atli Auðunsson efnafræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun kynna niðurstöður rannsókna sinna á viðtaka fráveitu.

Rannsóknir hafa verið gerðar á viðtaka fráveitu frá því áður en hreinsistöðvarnar í Ánanaustum og Klettagörðum voru teknar í notkun og síðan með nokkurra ára millibili, skv. starfsleyfi. Niðurstöður síðustu rannsókna voru gefnar út í skýrslu nú í vor og þær sýna að losun skólps hefur lítil sem engin áhrif á gæði sjávar, hegðun og samsetningu sets og á lífríkið í kringum útrásarendana. Skýrsluna má finna á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

Tækifæri í nýsköpun í orkuiðnaði – fundur Landsvirkjunar

Landsvirkjun boðar til fundar um tækifæri í nýsköpun í orkuiðnaði fyrir íslensk fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga. Sérþekking á orkumálum hér á landi er nú með því mesta sem þekkist í heiminum og sífellt koma fram nýir aðilar sem byggja á þeirri reynslu og þekkingu sem safnast hefur á liðnum áratugum. Fundurinn verður haldinn miðvikudagsmorguninn 21. október á Hótel Natura.

Sjá dagskrá og skráningu hér á vef Landsvirkjunar.

Áttin – sameiginleg gátt starfsmenntasjóða, morgunverðarfundur

Þriðjudaginn 20. október verður haldinn morgunverðarfundur í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35, þar sem fjallað verður um sameiginlega gátt starfsmenntasjóða – Áttina. Um er að ræða hluta fundaraðar SA og aðildarfélaga um menntun og mannauð en á fundi þann 17. nóvember verður fjallað um mannauð og framleiðni.

Nánar á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.

„Tilgangslaus umræða um umhverfisvernd“

Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, hefur lengi fylgst náið með umræðum um loftslagsmál, haldið um þau fjölþjóðlegar ráðstefnur o.fl., einkum í tengslum við verkefni sitt Earth 101. Í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins fjallaði Guðni um hlýnun jarðar, súrnun sjávar, stóraukna orkunotkun mannkyns sem er langmest í formi jarðefnaeldsneyta, alltof hægt vaxandi hlut endurnýjanlegra orkugjafa o.fl. Guðni dró upp dökka mynd af stöðu og horfum í loftslagsmálum og mögulegum áhrifum yfirvofandi loftslagsbreytinga á líf jarðar.

Orkan og umhverfisumræðan
Þá fjallaði Guðni um hinu íslensku umhverfisverndarumræðu og hlutverk atvinnulífsins, ekki síst orkufyrirtækjanna. Guðni sagði íslenska umhverfisverndarumræðu hafa skilað mörgu jákvæðu í gegnum tíðina. Hins vegar væri stóra verkefnið á sviði umhverfisverndar augljóslega á vettvangi loftslagsmálanna. Guðni sagði íslenska umhverfisverndarumræðu iðulega skauta framhjá loftslagsmálunum. Sem slík væri hún því í raun tilgangslaus.

Guðni nefndi að margir talsmenn umhverfisverndar á Íslandi legðust gegn uppbyggingu orkuvera og orkukrefjandi iðnaðar. Hins vegar týndu sumir þeirra til ferðaþjónustuna sem einhvers konar valkost í staðinn, til tekjuöflunar fyrir íslenskt samfélag. Þessi umræða skautaði hins vegar framhjá losun koltvísýrings frá farþegaflugi og öðrum samgöngum og færði þannig ábyrgðina einfaldlega út í heim, náttúruverndarbaráttan þar yrði að takast á við stóra verkefnið – loftslagsmálin.

Verkefni Íslands og orkufyrirtækjanna
Loks hvatti Guðni íslensk orkufyrirtæki til að setja sér skýra stefnu, manifesto, um það hvers kyns atvinnulíf þyrfti til að hér yrðu reistar frekari virkjanir. Ísland ætti að senda þau skilaboð að hingað gæti græn atvinnustarfsemi sem lítið eða ekkert losaði af gróðurhúsalofttegundum leitað til að fá aðgang að grænni orku. Guðni sagði Ísland vera of lítið til að geta breytt heiminum, en við gætum hins vegar sent út skýr og táknræn skilaboð sem mögulega hefðu jákvæð áhrif víða, og jafnvel laðað hingað í kjölfarið allt öðru vísi og hugsanlega verðmætari fjárfesta en við værum að gera í dag.

Erindi Guðna Elíssonar, síðari hluti Erindi Guðna Elíssonar, fyrri hluti (PDF 20 MB)

Erindi Guðna Elíssonar, síðari hluti (PDF 21 MB)