Orku- og veituþjónusta langódýrust á Íslandi

Íslensk heimili greiða langminnst fyrir orku- og veituþjónustu á Norðurlöndum. Samanlagt greiða Íslendingar rúmum 400 þúsund krónum minna fyrir kalt og heitt vatn, rafmagn og fráveitu á hverju ári en þar sem þjónustan er dýrust.

Sé miðað við heildarreikning fyrir 100 fermetra íbúð og meðalnotkun á ári, greiðir íslenskt heimili aðeins um 247 þúsund krónur fyrir orku- og veituþjónustu. Í Kaupmannahöfn greiða íbúar í sams konar íbúð 655 þúsund krónur, sem er hæsta verðið á Norðurlöndunum og tæpum 34 þúsundum meira á mánuði en á Íslandi. Næstmest borga Finnar, eða um 588 þúsund á ári hverju og Svíar borga 480 þúsund. Orku- og veituþjónusta kostar næstminnst í Noregi, en þar greiðast 431 þúsund krónur árlega, sem er þó tæpum 184 þúsund krónum meira en á Íslandi.

Á heildarreikningi heimilanna munar mestu um verð á heitu vatni – Íslendingar greiða langtum minna fyrir það en aðrir íbúar Norðurlanda.

Forsendur:
Rafmagn: 4.800 kWst ársnotkun.
Heitt vatn: 100m2 íbúð, 495 tonna ársnotkun.
Kalt vatn: 100m2 íbúð, 240 tonna ársnotkun. ATH! Á Íslandi er notkun ekki mæld, heldur miðuð við stærð húsnæðis. Íslendingar nota meira magn af köldu vatni á mann en aðrir íbúar Norðurlanda.
Fráveita: 100m2 íbúð, 240 tonna ársnotkun.

Norræna vatnsveituráðstefnan í Hörpu

Helgi Jóhannesson, stjórnarformaður Samorku, setur Norrænu vatnsveituráðstefnuna í Hörpu
Helgi Jóhannesson, stjórnarformaður Samorku, setur Norrænu vatnsveituráðstefnuna í Hörpu

Fátt er mikilvægara en aðgengi að heilnæmu og góðu vatni. Til þess þarf góðar vatnsveitur, reglubundnar rannsóknir og framþróun.

Norræna vatnsveituráðstefnan, sú tíunda í röðinni, hófst í Hörpu í Reykjavík í dag, miðvikudaginn 28. september. Þar koma saman helstu vísindamenn og sérfræðingar Norðurlandanna í drykkjarvatni. Um 300 manns taka þátt í ráðstefnunni og flutt verða hátt í 100 erindi um helstu viðfangsefni vatnsveitna á Norðurlöndum.

Helgi Jóhannesson, stjórnarformaður Samorku og framkvæmdastjóri Norðurorku, setti ráðstefnuna og bauð gesti velkomna. Þá ávarpaði Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fundargesti. Hann ræddi mikilvægi drykkjarvatns og hversu mikilvægt hreint vatn er ímynd Íslands.

Aðalfyrirlesarar dagsins eru María Jóna Gunnarsdóttir frá Háskóla Íslands og Mia Bondelind hjá Chalmers Tekniske Högskola í Gautaborg í Svíþjóð.

María Jóna fjallaði um það sem huga þarf að hjá litlum vatnsveitum á Norðurlöndum (þ.m.t. á Íslandi), sem lúta oft öðrum eftirlitsreglum en þær stærri vegna þess að þær eru oft til einkanota eða þjónusta lítið landsvæði. Hins vegar sjá þær nú í auknum mæli töluvert stærri fjölda fólks fyrir vatni vegna fleiri ferðamanna. Fylgjast þurfi betur með þessu, því flest frávik sem mælast í drykkjarvatni á Norðurlöndum koma frá litlum vatnsveitum. Litlar vatnsveitur þjónusta um þrjár milljónir íbúa á Norðurlöndum.

María Jóna Gunnarsdóttir flytur erindi sitt um litlar vatnsveitur á Norðurlöndum.
María Jóna Gunnarsdóttir flytur erindi sitt um litlar vatnsveitur á Norðurlöndum.

María Jóna telur nauðsynlegt að skylda litlar vatnsveitur til að gangast undir reglubundið eftirlit og taka upp innra eftirlit, til að ganga úr skugga um að vatnið sem þær veita sé heilnæmt.

Mia Bondelind fjallaði um traust fólks á vatnsveitum, áhættumat almennings þegar kemur að drykkjarvatni og almennt um viðhorf til drykkjarvatns, þar sem Norðurlandabúar taki hreinu drykkjarvatni almennt sem sjálfsögðum hlut.

Mia Bondelind flytur erindi sitt um viðhorf til drykkjarvatns
Mia Bondelind flytur erindi sitt um viðhorf til drykkjarvatns

Bondelind sagði mikilvægt að almenningur hafi góðan aðgang að upplýsingum og að vatnsveitur leggi sig fram við að veita þær, bæði þegar allt gengur eðlilega fyrir sig og ef eitthvað fer úrskeiðis.

Norræna vatnsveituráðstefnan er haldin annað hvert ár og nú í tíunda sinn. Ráðstefnunni lýkur á föstudag. Nánari upplýsingar um dagskrá og almennar upplýsingar um ráðstefnuna má finna á heimasíðu hennar.

Skuldir lækkað um 37% frá 2009

Skuldir hjá átta stærstu orku- og veitufyrirtækjum landsins hafa lækkað um 338 milljarða, eða tæp 37%, milli 2009 og 2015 á föstu verðlagi.

Á sama tíma hefur eigið fé vaxið um 32,6% og er nú samtals um 493 milljarðar. Þessi árangur á sex árum sýnir öflugt tekjustreymi, aðhald í rekstri og sterkara gengi krónunnar.

Orkufyrirtæki landsins eru langflest í opinberri eigu og endurspegla tölurnar því einnig lægri skuldir þjóðarbúsins.

Á sama tíma greiða Íslendingar mjög samkeppnishæft verð fyrir raforku, fráveitu, vatns– og hitaveituþjónustu miðað við okkar helstu samanburðarlönd.