Litið um öxl um áramót

Fráfarandi framkvæmdastjóri skrifar:

Þegar við lítum yfirárið 2022 er ljóst að orku- og veitumál hafa verið í brennidepli. Válynd veður í byrjun árs, vatnsskortur í lónum og skortur á heitu vatni minnir á hve mikilvægt er að hafa orkuöryggi í forgangi og hve langt er frá því að lagaumgjörðin eins og hún hefur þróast síðustu árin stuðli að því.

Í byrjun mars var kynnt skýrsla um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lét vinna með það að markmiði að draga fram staðreyndir á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsingar um lykilþætti á sviði orkumála. Skýrslan varpar mjög skýru ljósi á stöðuna í þessum mikilvæga málaflokki, bæði hvað varðar orku og innviði. Eitt af því sem þar kom fram er að raforkuþörf heimila, atvinnulífs og orkuskipta til ársins 2040 geti kallað á rúmlega tvöföldun á núverandi raforkuframleiðslu.

Markmið stjórnvalda um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 setur orku- og veitufyrirtækjum landsins fyrir ærið verkefni því það er hlutverk þeirra að sinna þörfum samfélagsins fyrir orku og orkuinnviði. Uppbygging orku- og veituinnviða tekur langan tíma og því þarf að sýna mikla framsýni og fyrirhyggju í þessum efnum. Þótt skiptar skoðanir séu um hvað framtíðin beri í skauti sér er ljóst að vaxandi samfélag, þróttmikið atvinnulíf og árangur í loftslagsmálum kallar á stóraukna eftirspurn eftir grænni orku og innviðauppbyggingu sem huga þarf að strax í dag. Ef eitthvað er þá er hraðinn í orkuskiptum nú þegar þannig að veiturnar þurfa að hafa sig allar við og enn er ekki fyrirséð hvaðan græna orkan í orkuskiptin á að koma. Stóra spurningin er hvort stjórnvöld og Alþingi ætla að gera það sem þarf til að fylgja metnaðarfullum markmiðum sínum eftir, meðal annars með því að gera orku- og veitufyrirtækjunum kleift að sinna sínu hlutverki nógu hratt og vel.

Nýting vindorku á Íslandi var mikið í sviðsljósinu á árinu og von er á tillögum að lagaumgjörð um hana í febrúar. Samorka hefur talað fyrir því að umgjörðin hér á landi greiði fyrir nýtingu hennar sem eðlilegri viðbót við græna orkuframleiðslu í þágu loftslagsmarkmiða, orkuskipta og orkusjálfstæðis. Umgjörðin þurfi að taka tillit til eiginleika vindorkunýtingar án þess að veittur sé afsláttur af því að taka tillit til náttúrunnar.

Nú undir lok ársins vakti Samorka athygli á stöðu hitaveitna um allt land sem margar hverjar eru komnar að þolmörkum með að anna eftirspurn eftir heitu vatni. Gangi eftirspurnarspá Orkustofnunar til ársins 2060 eftir er hætta á að heitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru til rannsóknar. Hitaveiturnar hafa í gegnum árin unnið sleitulaust að aukinni heitavatnsöflun en þar hefur regluverkið um háhitasvæðin tafið mjög fyrir nauðsynlegum rannsóknum á nýjum svæðum. Þá er mikilvægt að stuðningur við jarðhitaleit á svonefndum köldum svæðum verði aukinn til muna.

Ekki er hægt að gera upp árið án þess að minnast á orkukrísuna sem skapast hefur í orkumálum í Evrópu. Af henni þurfum við að draga lærdóm því orkuöryggi, orkusjálfstæði og hagstætt orkuverð er ekki sjálfgefið, ekki heldur hér á landi. Lykilatriðið er að tryggja nægt framboð af innlendri grænni orku (heitu vatni, rafmagni og rafeldsneyti) og byggja upp trausta innviði til að mæta þörfum samfélagsins á hverjum tíma.

Við hjá Samorku treystum því að samtalið um orku- og veitumálin haldi áfram af krafti á nýju ári og að niðurstaða fáist í ýmis stór mál sem snerta allt samfélagið. Þar á meðal þarf að halda áfram stuðningi við uppbyggingu fráveitna um allt land ásamt því að eyða óvissu um rekstrargrundvöll vatnsveitna og þeim heimiluð eðlileg arðsemi eigin fjár svo þær geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

Eitt brýnasta verkefnið að mati Samorku er uppbygging og viðhald flutnings- og dreifikerfis raforku því aðeins með sterku, áfallaþolnu kerfi sem lágmarkar töp skilar græna orkan sér þangað sem hennar er þörf. Þar hefur flókin lagaumgjörð á ýmsan hátt staðið í vegi fyrir raunverulegum umbótum. Úr þessu þarf að bæta til þess að metnaðarfull markmið um orkuöryggi og árangur í loftslagsmálum verði að veruleika.

Í vetrarhörkum nú um hátíðarnar er rétt að minnast þess að í orku- og veitugeiranum vinnur öflugt starfsfólk sem vinnur hörðum höndum að því á hverjum einasta degi að færa fólki lífsgæðin sem felast í heita vatninu, heilnæmu drykkjarvatni, góðri fráveitu og grænu rafmagni. Oft eru verkefnin unnin við erfiðar aðstæður úti í óblíðri náttúru. Þrátt fyrir krefjandi vinnu og ýmsar áskoranir er 90% starfsfólks ánægt í vinnunni samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar félagsins Kvenna í orkumálum, sem er töluvert meiri starfsánægja en gengur og gerist á vinnumarkaðnum. Þetta eru ánægjulegar niðurstöður sem staðfesta svo sannarlega að það er gott að vinna í orku- og veitugeiranum enda horfum við björtum augum til framtíðar.

Greinin birtist fyrst í Innherja 2. janúar 2023.

Hugum að hitaveitunni: Er alltaf nóg til?

Grein eftir Pál Erland, framkvæmdastjóra Samorku:

Jarðhitinn er stærsti orkugjafi á Íslandi. Um 60% af allri orku sem notuð er hér á landi er heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu. Það eru alls 43 TWst sem er tvöfalt meiri orka en framleidd er af rafmagni. Á meðan nágrannalönd okkar kynda húsin sín að stórum hluta með innfluttu jarðefnaeldsneyti notum við heita vatnið okkar, sem er stór liður í því hversu langt við erum komin í að vera óháð öðrum þjóðum um orku.

Mikilvægi jarðhitans fyrir íslenskt samfélag lá ekki alltaf í augum uppi. Árhundruðum saman grunaði engan hversu mikill auður væri fólginn djúpt í jarðlögum undir landinu. Fyrst um sinn var jarðhitinn nýttur á stöku stað til þvotta og baða en eftir að við byrjuðum að leiða heitt vatn inn í húsin okkar fyrir um 100 árum varð efnahagslegur og samfélagslegur ávinningur fljótt ljós.

Á Íslandi njótum þeirra forréttinda að hafa góðan aðgang að heitu vatni sem hitaveitur landsins sjá um að færa okkur. Í dag eru vel yfir 90% húsa á Íslandi hituð með hitaveitu og allir þekkja lífsgæðin sem fylgja því að fara í góða sturtu, í heitt bað eða skella sér í sund.

Nú vitum við einnig hversu mikill ávinningurinn fyrir loftslagið er. Vegna nýtingu jarðhita til húshitunar höfum við komið í veg fyrir árlega losun 20 milljón tonna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið, sem er rúmlega fjórfalt það sem Ísland losar í dag.

Það er ekki sjálfgefið að búa að slíkri auðlind og geta nýtt hana. Það var mikið frumkvöðlastarf á sínum tíma og krafðist mikillar framsýni. Það krefst ekki síður mikillar vinnu að viðhalda þeim mikla árangri og ávinningi sem hitaveitan hefur fært okkur. Því þó að orkuskiptum í húshitun sé formlega lokið, þá þarf að viðhalda þeim í takt við vöxt samfélagsins.

Gert er ráð fyrir að íbúum á Íslandi hafi fjölgað um 22% árið 2050 miðað við árið 2021 samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar og verði yfir 450.000. Hæsta spá Hagstofunnar gerir svo ráð fyrir að aukningin frá 2021 verði um 70% til ársins 2070 og verði þá rúmlega 625.000.

Þessi aukni mannfjöldi mun kalla á samsvarandi aukningu í notkun heits vatns. Samkvæmt jarðhitaspá Orkustofnunar hefur meðalnotkun heimila aukist jafnt og þétt síðustu ár, þrátt fyrir miklar framfarir í einangrun húsa og aukinnar notkunar gólfhita.

Hlutur atvinnulífs í eftirspurn eftir jarðvarma mun einnig aukast töluvert miðað við spá Orkustofnunar. Til dæmis er gert ráð fyrir talsverðri fjölgun baðlóna og ylstranda og að eftirspurn vegna fiskeldis muni þrefaldast. Spáin gerir ráð fyrir að þarfir atvinnulífsins taki fram úr jarðvarmanotkun heimila þegar fram líða stundir.

Gangi þetta eftir er hætta á að hitavatnsnotkun aukist langt umfram getu þeirra vinnslusvæða sem nú eru í rannsókn. Hitaveiturnar neyðist því til að leita sífellt lengra að nýjum vinnslusvæðum með tilheyrandi kostnaði fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Auk þess er jarðhitaauðlindin viðkvæm og jarðhitasvæði sem henta til nýtingar eru ekki óþrjótandi. Það tekur ár og stundum áratugi að finna heppileg svæði til nýtingar, bora rannsóknarholur og rannsaka hver afkastageta svæðisins er. Eins og staðan er í dag eiga hitaveiturnar fullt í fangi með að anna núverandi heitavatnsnotkun og við blasir að til skerðinga getur komið í kuldaköstum þegar borholur hafa ekki undan.

Hitaveiturnar starfa í þágu viðskiptavina sinna og er því umhugað að nýta þær auðlindir og fjármuni sem þeim hefur verið treyst fyrir á sem bestan hátt. Við getum öll tekið þátt í því að fara vel með heita vatnið og þar með lágmarka umhverfisáhrif og kostnað. Ennfremur þurfa stjórnvöld að styðja við jarðhitaleit um allt land svo við getum haldið áfram að njóta þeirra forréttinda sem heita vatnið okkar er.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 17. nóvember 2022.

Tölum um orkuþörf

Páll Erland skrifar:

Samkvæmt orkustefnu sem unnin var í þverpólitísku samstarfi á Ísland að verða jarðefnaeldsneytislaust árið 2050. Það er metnaðarfullt markmið sem myndi halda okkur fremst í röð þjóða heims í loftslagsmálum. Umræðan um orkuskipti snýst því ekki eingöngu um að skipta bílaflota landsmanna út fyrir rafbíla, heldur um að við hættum alfarið að nota jarðefnaeldsneyti á öllum sviðum samfélagsins.

Það væru góðar fréttir fyrir umhverfið og loftslagið að ná þessu markmiði. Jarðefnaeldsneytislaust Ísland sparar mikinn útblástur sem svo býr til betri lífsskilyrði fyrir fólk, dýr og náttúru. Að auki er það eftirsóknarvert því það sparar mikinn gjaldeyri sem myndi annars fara í að borga fyrir eldsneytið sem við flytjum inn. Þá eru ótalin tækifærin til að búa til nýjar tekjur fyrir þjóðarbúið með því að framleiða grænt rafeldsneyti til útflutnings.

Óhjákvæmilegt er að ræða hver orkuþörfin er fyrir orkuskipti og jarðefnaeldsneytislaust Ísland og hvaðan græna orkan sem á að koma í stað jarðefnaeldsneytis eigi að koma. Markmiðin hafa verið sett og nú er tíminn fyrir málefnalega umræðu um hvernig þeim verður náð.

Það er jákvætt að forsvarsfólk í orku- og veitumálum, sem þekkir vel til málaflokksins og stýrir fyrirtækjum sem leggja sig fram við að þjóna samfélaginu öllu, setji fram sjónarmið um samspil markmiða stjórnvalda og orkuþarfar. Á það jafnt við um tölulegar staðreyndir, reynslu af því laga- og reglugerðarumhverfi sem gildir um orkumál og hvernig unnt sé að ná markmiðunum innan þess tímaramma sem settur hefur verið. Um er að ræða mikilvægt innlegg í upplýsta samfélagsumræðu.

Orku- og veitufyrirtæki landsins hafa það hlutverk, ásamt stjórnvöldum, að stuðla að orkuöryggi og þar með nægu framboði af rafmagni og heitu vatni fyrir samfélagið – ekki bara núna, heldur til allrar framtíðar. Þau viðfangsefni sem blasa við eru fjölmörg; dafnandi samfélag sem kallar á sífellt meiri orku fyrir heimili og fyrirtæki, vaxandi þörf fyrir útflutningstekjur og vel launuð störf, græna nýsköpun, orkuskipti í samgöngum til að uppfylla Parísarsamninginn fyrir 2030 og svo jarðefnaeldsneytislaust Ísland fyrir 2050. Verkefnið er að uppfylla þörf fyrir græna orku sem þetta kallar á með sem minnstum áhrifum á landið okkar. Lausnin felst í orkusparnaði, bættri orkunýtni, öflugri orku- og veituinnviðum og aukinni framleiðslu grænnar orku.

Vinnum þetta saman.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samorku. Greinin birtist fyrst á visir.is þann 13. október 2021. 

Grænn hagvöxtur

Vel heppnuð endurreisn íslensks efnahagslífs að heimsfaraldri COVID-19 afstöðnum er eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Störfum hefur fækkað verulega en skráð atvinnuleysi nam tæpum 11% í desember sl. Afkoma þjóðarinnar er verulega háð útflutningstekjum og því er fjölgun atvinnutækifæra óhjákvæmilega háð vexti og afkomu útflutningsfyrirtækja. Undir núverandi kringumstæðum er því nauðsynlegt að huga að umhverfi atvinnulífsins í því skyni að hlúa að útflutningsframleiðslu. Reynslan kennir okkur að með þeim hætti er unnt að skapa fyrirtækjum forsendur til skapa ný og fjölbreytt störf sem eru vel launuð. Það er m.ö.o. tímabært að stuðla að gjaldeyrissköpun og byggja upp samkeppnishæfni innlendra fyrirtækja. Að heimsfaraldrinum frátöldum blasa við fleiri áskoranir sem einnig geta talist til tækifæra. Það færist í aukana að mengun og losun koltvísýrings hafi kostnað í för með sér í rekstri fyrirtækja, t.d. vegna reglubyrði, skatta og annarrar verðlagningar. Stærsta sjáanlega tækifæri íslenskra fyrirtækja felst því óhjákvæmilega í uppbyggingu á grænum grunni þar sem áhersla er lögð á atvinnustarfsemi byggða á grænum fjárfestingum. Á það við um fjárfestingar einkaaðila, hins opinbera og fyrirtækja í þess eigu. Með því að leggja rækt við að draga úr mengun og losun batnar nýting orku og auðlinda. Slík viðleitni kallar á mannvit og skapar þannig atvinnutækifæri. Með reynslunni eykst hæfni manna og fyrirtækja sem aftur bætir samkeppnisstöðu þeirra. Í því ljósi verður að teljast hyggilegt að stefnumótun beinist að tækifærum til grænnar atvinnusköpunar í öllum atvinnugreinum. Nýsköpun og þróun tæknilausna draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og lágmarka kolefnisspor fyrirtækja. Hagur allra batnar.

Með tímanum hefur orkuframleiðsla orðið æ mikilvægari þáttur. Orka leikur lykilhlutverk í samfélagi nútímans og hagvöxtur er samofinn beislun og nýtingu hennar. Í alþjóðlegum samanburði er sérstaða Íslands mikil þegar kemur að hlutfalli endurnýjanlegra orkugjafa í frumorkunotkun. Þökk sé því að hér á landi eru rafmagnið og heita vatnið af endurnýjanlegum uppruna. Þegar framangreint hlutfall árið 2019 er skoðað kemur í ljósi að á Íslandi nam það 85% en einvörðungu 19,7% í Evrópu og 26,6% í heiminum öllum. Íslendingar hafa náð eftirtektarverðum árangri við útskipti jarðefnaeldsneytis fyrir hreina orkugjafa. Við erum því í einstakri stöðu til að ganga lengra með því að auka nýtingu innlendra, hagkvæmra og hreinna orkugjafa í samgöngum. Ef við höldum rétt á spilunum getum við Íslendingar raunverulega orðið fyrirmynd annarra þjóða og slík ásýnd eykur ein og sér seljanleika innlendra vara og þjónustu.

Stjórnvöld í gjörvöllum heiminum leggja áherslu á orkuskipti og gera ráð fyrir að orkuskipti muni fyrr en varir ná til allra samgangna, á landi, á sjó og í lofti. Á þessum tímapunkti virðist sýnt að framleiðsla á svonefndu rafeldsneyti, orkugjöfum eða orkuberum, muni gegna lykilhlutverki. Eru þá ótalin önnur tækifæri svo sem framleiðsla á orkugeymslum, grænmeti og öðrum matvælum, þörungum o.fl. sem mun kalla á framboð sjálfbærrar og grænnar orku. Við eygjum tækifæri til útflutnings á bæði orkuþekkingu og orku í formi rafeldsneytis. Fari svo sem horfir gæti hér sprottið upp nýr og spennandi iðnaður sem mundi grundvallast á öflugri atvinnusköpun, nýsköpun, gjaldeyrissparnaði og ávinningi í loftslagsmálum.

Á Norðurlöndunum er gert ráð fyrir að grænn vöxtur muni auka eftirspurn eftir raforku. Í Danmörku er áætlað að eftirspurnin muni tvöfaldast til ársins 2030, aukast um 35% í Noregi til ársins 2050, um þriðjung til ársins 2045 í Svíþjóð og um tæp 60% í Finnlandi til 2050. Samkvæmt sviðsmyndum raforkuspár 2020–2060 þarf að auka orkuframleiðslu til að mæta þörfum samfélagsins hér á landi. Sviðsmyndin „græn framtíð“ gerir ráð fyrir að orkuþörfin aukist um 37% en allt að 69% samkvæmt sviðsmyndinni „aukin stórnotkun“ 2019–2060.

Raforkukerfið er því forsenda efnahagslegra framfara. Ætla má að framtíðarnotendur verði virkir þátttakendur í orkuskiptum og þar með örlagavaldar þegar kemur að markmiðum í loftslagsmálum. Fjórða iðnbyltingin verður fyrst og fremst raforkudrifin, þar sem gagnaver, snjallvæðing og gervigreind munu leika lykilhlutverkin. Í þessu samhengi er því mikilvægt að horfa til framtíðar, leggja áherslu á orkuskipti og fullnýta þau tækifæri sem Íslandi standa til boða.

Ingvar Freyr Ingvarsson, hagfræðingur Samorku. Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 18. febrúar 2021 og hana má finna á vb.is

Orkuskiptin minnka kolefnisspor Íslendinga

Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, umhverfisverkfræðingur hjá Samorku skrifar:

Þriðjungur af losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda árið 2018 var frá vegasamgöngum og er því stærsti einstaki losunarflokkurinn. Góður árangur í orkuskiptum í vegasamgöngum er því lykilatriði til að við stöndumst þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undir gengist.

Ávinningur orkuskiptanna einskorðast þó ekki við loftslagsmálin. Á ársfundi Samorku í september kom fram að miðað við að við uppfyllum markmið stjórnvalda um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 fela þau einnig í sér gjaldeyrissparnað upp á 20-30 milljarða. Óhætt er að fullyrða að ný og metnaðarfyllri markmið sem nú hafa verið kynnt auka þennan sparnað umtalsvert. Enn fremur er sparnaður heimilis við að aka á rafmagni í stað bensíns er um 400.000 kr. á ári sé tekið mið af kostnaði vegna orkunotkunar og viðhalds. Orkuskiptin hafa í för með sér minni staðbundna mengun frá útblæstri og minni losun sótagna, sem eru hættuleg umhverfinu og heilsu manna og dýra, auk þess sem neysludrifið kolefnisspor minnkar.

En hvað er neysludrifið kolefnisspor einstaklinga og af hverju skiptir máli að minnka það?

Til að útskýra málið frekar má taka sem dæmi brauðrist. Raforkunotkunin við að rista sér brauð, sem og förgun umbúða og brauðristarinnar sjálfrar í lok líftíma hennar, er það sem telur í kolefnisfótspori hennar ef við teljum á samsvarandi hátt og gert er í loftslagsbókhaldi Íslands. Semsagt, eingöngu það kolefnisfótspor sem hún veldur innan landamæra Íslands. Neysludrifið kolefnisfótspor er hins vegar heildarfótsporið; frá öflun hráefna og framleiðslu brauðristarinnar, hvar sem hún á sér stað í heiminum, auk flutninga hennar til landsins sem og notkun hennar hérlendis. Því er neysludrifna kolefnissporið oft á tíðum töluvert hærra en þegar aðeins er talið það sem gerist innan landamæranna.

Komið hefur fram að neysludrifið kolefnisspor meðal Íslendings er hátt, en hver einstaklingur er valdur að losun á rúmlega 10 tonnum af gróðurhúsaloftegundum árlega. Meirihluta þessarar losunar frá íslenskum heimilum má rekja til innfluttrar neysluvöru og spila innkaup og bruni jarðefnaeldsneytis þar stórt hlutverk. Orkuskiptin, ásamt breyttum ferðavenjum, eru tækifæri til að minnka neysludrifið kolefnisspor Íslendinga um allt að þriðjung og verða með því lægsta sem gerist í iðnríkjum . Það er vegna þess að umhverfisáhrif þeirrar orku sem nýtt er til að knýja ökutæki minnka verulega þegar framleiðsla orkunnar er með endurnýjanlegum hætti eins og á Íslandi. Með orkuskiptunum er því komið í veg fyrir mengun vegna framleiðslu jarðefnaeldsneytis erlendis sem og útblásturs við bruna þess í ökutækjum hérlendis. Þá er vert að draga það fram, að rannsóknir hafa leitt í ljós að notkun rafbíla hérlendis dregur verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda samanborið við notkun bensín- og dísilbíla vegna innlendu grænu orkunnar okkar, þrátt fyrir að framleiðsla ökutækjanna sé tekin með inn í jöfnuna .

Loftslagsbreytingar eru hnattrænn vandi og því skiptir máli að allir kappkosti við að leggja sitt af mörkum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hvar sem sú losun á sér stað.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. desember 2020. 

 

[1] Jack Clarke, Jukka Heinonen, Juudit Ottelin. 2017. Emissions in a decarbonised economy? Global lessons from a carbon footprint analysis of Iceland. Journal of Cleaner Production Volume 166, 10 November 2017, Pages 1175-1186

[1] Jack Challis Clarke. 2017. The carbon footprint of an Icelander: A consumption based assessment using the Eora MRIO database. Master’s thesis, Faculty of Civil and Environmental Engineering, University of Iceland, pp. 112

[1] Kevin Joseph Dillman, Áróra Árnadóttir, Jukka Heinonen, Michał Czepkiewicz and Brynhildur Davíðsdóttir. 2020. Review and Meta-Analysis of EVs: Embodied Emissions and Environmental Breakeven. Sustainability, 12(22), 9390.

112.765.594 ástæður til að elska hitaveitur

„Pabbi, það kemur ekkert heitt vatn úr krananum!“ sagði sonur minn við mig í töluverðri geðshræringu þegar hann átti að þvo hendurnar fyrir svefninn, fyrsta kvöldið sitt í heimsókn til heimalands móður sinnar. Þar vorum við stödd í Perú, landi þar sem heimsklassa jarðvarmaauðlind er til staðar – en skrefið hefur ekki verið tekið að fara í stórfellda nýtingu á henni.

Besta tæknilega lausnin

Fyrir okkur sem lifum og hrærumst í orku- og veitumálum er það oft sérstakt að upplifa hversu litla athygli og umræðu það fær núorðið hversu mikil lífsgæði nýting jarðvarmaauðlindarinnar færir Íslendingum. Hérlendis eru rúmlega 90% híbýla á Íslandi kynt með hitaveitu sem byggir á beinni nýtingu jarðhita, en einnig eru starfræktar nokkrar sem nota raforku sem orkugjafa. Þannig er nær öll húshitun á Íslandi byggð á endurnýjanlegum orkugjöfum. Þessi staða sem við búum við á Íslandi er e-ð sem aðrar þjóðir dreymir um að ná. Í Hollandi er til dæmis framundan risastórt átak í að byggja upp nýtingu jarðhita til húshitunar. Þegar Hollendingar leita sér fyrirmyndar, sérþekkingar og almennt aðstoðar við verkefnið, þá leita þeir hingað – til okkar.

Hagstæða lausnin fyrir heimili og fyrirtæki

Húshitun með jarðhita er ekki bara almennt viðurkennt sem besta verkfræðilega lausnin í þeim geira, heldur er hún líka ákaflega hagstæð fyrir heimili og fyrirtæki. Ef við berum til dæmis saman húshitunarkostnað í höfuðborgum á Norðurlöndum kemur í ljós að hann er afgerandi lægstur á Íslandi. Þar er kostnaðurinn hérlendis að meðaltali þrefalt lægri en í öðrum höfuðborgum á Norðurlöndum.

Lífsgæði og atvinnusköpun

Annað umkvörtunarefni barnanna minna þegar við vorum í Suður-Ameríku var að komast ekki í sund, því börnin eru vön því að geta valið úr 10 frábærum og heitum sundlaugum um helgar. Þegar heim var komið var það eitt fyrsta verkið að fara í Lágafellslaugina. Auk sundlauganna okkar frægu hefur undanfarin ár verið mikil uppbygging hringinn í kringum landið hjá ferðaþjónustufyrirtækjum sem byggja á nýtingu heita vatnsins. Má þar t.d. nefna Bláa lónið, Sjóböðin á Húsavík, Bjórböðin á Árskógssandi, Vök Baths í Fljótsdalshéraði og Fontana í Bláskógabyggð. Þá má ekki gleyma hátæknifyrirtækjunum okkar sem nýta heita vatnið til ræktunar í gróðurhúsum, fiskeldis, framleiðslu á hátækni lækninga og snyrtivörum og alls kyns atvinnusköpunar.

Risastórt framlag í loftslagsmálum

Mér telst til að ég sé kominn með sjö ástæður til að elska hitaveitur. Sem þýðir að mig vantar 112.765.587 ástæður, erf ég ætla að ná því sem boðað var í titli greinar minnar. Það næst með því að skoða hversu mikið hitaveiturnar spara okkur í losun gróðurhúsalofttegunda. Húshitun (og rafmagnsframleiðsla) með endurnýjanlegum orkuauðlindum er langstærsta framlag Íslands í loftslagsmálum. Samkvæmt tölum frá Orkustofnun er uppsafnaður sparnaður Íslendinga í losun gróðurhúsalofttegunda í gegnum árin, með því að notast við endurnýjanlega orku til húshitunar í stað jarðefnaeldsneyta, 112.765.587 tonn. Til samanburðar við þessi 112 milljón tonn, þá má nefna að árlega losun frá landbúnaði á Íslandi er 0,6 milljón tonn.

Förum vel með auðlindina

Þessi árangur er ekki sjálfsagður. Það var og er gríðarlega kostnaðarsamt og flókið verkefni að byggja upp og viðhalda íslenska hitaveitukerfinu. Sú staðreynd kallar á að við kunnum að meta heita vatnið og hitaveiturnar og förum sparlega með þessa verðmætu auðlind. Þar er margt sem við getum öll gert. Á heimasíðu Veitna má t.d finna mörg góð hollráð um heitt vatn:

– Berum saman okkar notkun við meðalnotkun sambærilegs heimili og skoðum hvernig við getum nýtt heita vatnið sem best.
– Látum fagmann stilla hitakerfið.
– Notum lofthitastýrða ofnloka til að jafna innihitann.
– Förum yfir þéttleika og einangrun glugga og hurða.
– Lokum gluggum þegar kalt er úti.
– Förum yfir hitakerfi hússins og jafnvægisstillum þegar kólna fer í veðri.

Ég lofaði 112.765.594 ástæðum til að elska hitaveitur og vona að ég hafi sýnt fram á það. Þær eru samt miklu fleiri. Ef þið höfðuð nb. gaman af þessari grein minni þá bendi ég á næstu grein mína: 320.680.342 ástæður til að elska endurnýjanlega raforku!

 

Eftir Sigurjón Norberg Kjærnested, forstöðumann fagsviða hjá Samorku. Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 29. júlí 2020.

Lykillinn að árangri í loftslagsmálum

Á dögunum kynntu stjórnvöld uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þar má sjá metnaðarfullar og fjölbreyttar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum.

Orku- og veitufyrirtæki landsins láta sig þessi mál mikið varða enda er hrein orka og traustir orkuinnviðir um allt land lykillinn að árangri í loftslagsmálum. Á aðalfundi Samorku var eftirfarandi ályktun samþykkt.

Í fremstu röð í orkuskiptum

Samorka fagnar markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum og þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum er lykilatriði í því að Ísland geti staðið við þau markmið og þar með alþjóðlegar skuldbindingar í loftslagsmálum. Til þess þarf öfluga innviði og nægt framboð af innlendri, grænni orku sem ætlunin er að komi í stað jarðefnaeldsneytis. Orkuskipti í samgöngum eru þjóðhagslega hagkvæm og ávinningur fyrir loftslagið er mikill. Ísland á að vera í fremstu röð í þessari þróun og ráðast í orkuskipti af fullum þunga. Í því felast tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki.

Styrking innviða nauðsynleg

Atburðir síðustu mánaða hafa minnt á mikilvægi rafmagns og hitaveitu í okkar daglega lífi og starfi. Mikilvægið fer vaxandi með aukinni rafvæðingu samfélagsins auk þess sem þörf fyrir heitt vatn eykst eftir því sem þjóðin vex og dafnar. Það sama á við um þörfina fyrir heilnæmt drykkjarvatn og uppbyggingu fráveitu. Sterkir innviðir með nægilegri afkastagetu þjóna íbúum og atvinnulífi um allt land og eru hornsteinn þjóðaröryggis og lífsgæða. Núverandi regluverk framkvæmda styður ekki við nauðsynlegt viðhald og styrkingu orkuinnviða. Nauðsynlegt er að bæta úr því.

Græn orka til framtíðar

Í dag er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi með því hæsta sem gerist í heiminum og hagnýting grænna orkuauðlinda hefur lagt grunninn að lífsgæðum og verðmætasköpun í landinu síðustu hundrað árin. Til að svo megi áfram vera þarf að skapa samstöðu um aðgengi þjóðarinnar að orkulindum sínum enda nauðsynlegt að horfa áratugi fram í tímann og geta mætt orkuþörf og orkuöryggi heimila og atvinnulífs til framtíðar.

Tækniþróun og nýsköpun mun leiða af sér betri orkunýtingu og nýjar lausnir til sparnaðar, en því til viðbótar mun þurfa aukna endurnýjanlega orku til að uppfylla þarfir heimila og atvinnulífs auk markmiða um græna framtíð fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Samorka lýsir yfir áhyggjum af því að markvisst er unnið að því að takmarka orkunýtingu á sífellt stærra landsvæði sem ríkt er af endurnýjanlegum orkulindum. Áður en frekari ákvarðanir um slíkar takmarkanir eru teknar er nauðsynlegt að því sé svarað hvaðan hreina orkan, sem uppfylla á þarfir samfélagsins nú og til framtíðar, eigi að koma.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 10. júlí 2020.

Ekkert nema tækifæri!

Rafbílavæðingin er á fleygiferð! Í janúar síðastliðnum voru nýskráðir fólksbílar sem knúnir eru áfram af rafmagni í fyrsta sinn fleiri en bensín- og díselbílar samanlagt. Þetta þýðir að við Íslendingar erum í 2. sæti í heiminum í hlutfalli hreinna rafbíla af nýskráðum bílum. Þá er uppbygging innviða fyrir hreinorkubíla í fullum gangi og það stefnir í að Ísland verði þar í forystuhlutverki.

Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 29% fyrir 2030, m.v. losun 2005. Samorka hefur undanfarið unnið að greiningum á því hvað þessar skuldbindingar þýða fyrir orku- og veitufyrirtækin; hversu mikla hleðsluinnviði þarf að byggja upp, hvaða áhrif þetta hefur á flutnings- og dreifikerfin og hversu mikla nýja orkuframleiðslu þarf til. Þá hefur þróun orkuskiptanna verið mikilvægur þáttur í greiningum okkar, þ.e.a.s. hversu margir hreinorkubílar þurfa að koma í staðinn fyrir bensín- og díselbíla. Niðurstaðan er sú að síðasti jarðefnaeldsneytisbíllinn þarf helst að hafa verið seldur í gær. Við erum á fleygiferð, en þurfum að auka hraðann.

Að við þurfum að auka hraðann eru góðar fréttir. Ávinningurinn í loftslagsmálum er augljós, en það sem hefur vantað í umræðuna hérlendis er hversu jákvæð rafbílavæðingin er fyrir aðra þætti íslensks samfélags, sérlega þegar kemur að atvinnusköpun og styrk efnahagslífsins. Þannig sýndi nýleg greining frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík að rafbílavæðingin er:

  • Þjóðhagslega hagkvæm
  • Hagkvæm fyrir íslenska neytendur
  • Lykilatriði til að árangur náist hérlendis í loftslagsmálum
  • Kostnaðarhlutlaus fyrir íslenska ríkið ef rétt er staðið að málum

Í nýlegri yfirferð Bloomberg NEF um stöðu rafbílavæðingar á alþjóðavettvangi vöktu meginskilaboð þeirra athygli: Í rafbílavæðingunni felast ekkert nema tækifæri – og þau ríki sem grípa þetta tækifæri munu sjá sprengingu í fjölda nýrra fyrirtækja og nýrra hálaunastarfa. Þessi fyrirtæki munu meðal annars starfa að uppbyggingu hleðsluinnviða, snjallvæðingu, sinna ýmis konar þjónustu og hanna nýjar þjónustuleiðir í kringum gerbreyttar ferðavenjur.

Nú þegar mikil umræða er hérlendis um efnahagslega viðspyrnu í kjölfar Covid-19 þá hlýtur þetta að verða ein megináhersla stjórnvalda og þjóðarinnar: Nýtum tækifærin og förum úr öðru sæti rafbílavæðingarinnar í það fyrsta!

 

Grein eftir Sigurjón Norberg Kjærnested. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí 2020.

Sala upprunaábyrgða skaðar ekki ímynd Íslands

Upprunaábyrgðir raforku hafa verið til umræðu í fjölmiðlum upp á síðkastið. Eðlilegt er að skiptar skoðanir séu um þær, en hins vegar hefur borið á grundvallar misskilningi um grunnatriði þeirra. Hér eru nokkrar staðreyndir um upprunaábyrgðir raforku og ástæður þess að Ísland tekur þátt.

Kerfið er hluti af evrópskum loftslagsaðgerðum. Kerfið var sett á laggirnar til þess að stuðla að auknu vægi endurnýjanlegrar orku í Evrópu. Síðan þá hefur hlutfall vottaðrar endurnýjanlegrar orku í Evrópu fjórfaldast. Hlutfall grænnar orku er miklu hærra í þeim löndum sem taka þátt í kerfinu en standa utan þess og þeim fjölgar stöðugt. Upprunaábyrgðir eiga sinn þátt í þessari þróun. Það má teljast ábyrgt að taka þátt í slíkum loftslagsaðgerðum og myndi eflaust vekja athygli víða ef Ísland ákveddi að hætta þátttöku.

Þær umbuna framleiðendum endurnýjanlegrar orku fjárhagslega. Til þess að stuðla að auknu vægi endurnýjanlegrar orku var framleiðsla hennar gerð eftirsóknarverðari með því að búa til opinbera vottun á hreinleika orku, upprunaábyrgðir, sem þyrfti að greiða aukalega fyrir. Upprunaábyrgð er staðfesting á því að ákveðið magn af grænni raforku hafi verið framleidd. Með kaupum á upprunaábyrgð hafi kaupandinn styrkt framleiðslu grænnar raforku. Um leið fær hann rétt á að segja að hann noti umrætt hlutfall grænnar orku. Án þess væri enginn hvati fyrir hann að kaupa upprunaábyrgðir. Tekjurnar af sölu upprunaábyrgða renna til framleiðanda orkunnar, þ.m.t. á Íslandi, í þeim tilgangi að umbuna fyrir framleiðslu grænnar raforku.

Kaupendur upprunaábyrgða eru ekki að kaupa sér syndaaflausn. Helstu kaupendur upprunaábyrgða í Evrópu eru einstaklingar og fyrirtæki, ekki framleiðendur orku úr jarðefnaeldsneyti. Kaup á upprunaábyrgð breytir ekki neinu um kolefnisspor ákveðinnar framleiðslu eða gerir fyrirtækjum kleift að halda áfram að menga óáreitt. Þau þurfa enn að standa skil á minnkun útblásturs samkvæmt öðrum loftslagsaðgerðum í Evrópu. Ennfremur hafa upprunaábyrgðir engin áhrif á loftslagsmarkmið Íslands eða annarra landa, enda einungis hugsaðar til þess að búa til aukin verðmæti fyrir þá sem framleiða endurnýjanlega orku og stuðla þannig til hærra hlutfalli grænnar orku í heiminum.

Mikill ávinningur fyrir íslenskt samfélag. Tekjur af sölu upprunaábyrgða voru meiri en einn milljarður árið 2019. Þessi upphæð er hrein viðbót við almennar tekjur af því að selja rafmagn. Það er því beinn ávinningur fyrir íslenskt samfélag að fá þessar gjaldeyristekjur. Árlegar tekjur af sölu upprunaábyrgða ráðast af markaðsvirði hverju sinni og því gæti þessi upphæð farið upp í allt að fimm milljarða.

Mikill ávinningur fyrir fyrirtæki sem starfa á Íslandi. Öll heimili og langflest íslensk fyrirtæki fá upprunaábyrgð innifalda í sínum raforkukaupum. Þannig eru þær upprunaábyrgðir ekki seldar úr landi. Fyrir fyrirtæki sem starfa í útflutningi getur þetta gefið samkeppnisforskot á þeirra vörur í heimi þar sem krafa neytenda um sjálfbærni og umhverfisvitund verður sífellt háværari. Þau fyrirtæki sem ekki fá upprunaábyrgðir innifaldar í sínum raforkukaupum eru stórnotendur og þeim stendur til boða að semja um að kaupa þær sjái þeir ávinning í því. Ef Ísland hætti þátttöku í kerfinu um upprunaábyrgðir gætu íslensk fyrirtæki ekki sýnt fram á grænan uppruna raforku sinnar, nema með því að kaupa upprunaábyrgð erlendis frá.

Sala upprunaábyrgða úr landi skaðar ekki ímynd Íslands. Ekkert bendir til þess að þátttaka í kerfinu um upprunaábyrgðir skaði ímynd Íslands. Þvert á móti sýnir kerfið fram á að hér á landi er framleidd græn orka og það er staðfest með alþjóðlegri vottun. Kerfið um upprunaábyrgðir breytir engu um þá staðreynd að á Íslandi er eingöngu framleidd orka með endurnýjanlegum hætti. Þetta á við þrátt fyrir að við þurfum að sýna samsetningu orkuframleiðslu innan evrópska raforkumarkaðarins í uppgjöri sölu á upprunaábyrgðum, en sú samsetning hefur eingöngu þýðingu innan kerfisins um upprunaábyrgðir.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu föstudaginn 21. febrúar 2020. 

Algengar spurningar um upprunaábyrgðir og svör

Dafnandi græn orka: Fræðslufundur um upprunaábyrgðir, upptökur af fyrirlestrum

Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Orku náttúrunnar

Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Landsvirkjunar

Upplýsingar um upprunaábyrgðir á vef Orkusölunnar

 

Hálendisþjóðgarður og orkuauðlindir þjóðarinnar

Grein eftir Ingibjörgu Ólöfu Ísaksen og Helga Jóhannesson:

Í grein sem umhverfisráðherra skrifar í Vikudag þann 16. janúar sl. fjallar hann um drög að frumvarpi um hálendisþjóðgarð og setur m.a. fram spurninguna „Hvað með virkjanir?“.

Þar kemur ráðherra inn á að virkjanir hafi verið bitbein stjórnmála og samfélagslegrar umræðu og nú sé reynt að sætta þau sjónarmið með því að virða leikreglur laga um vernd- og orkunýtingu, svokallaðar rammaáætlanir. Hér á ráðherrann við rammaáætlun þrjú sem að líkindum mun koma fram á Alþingi á þessum vetri. Í rammaáætlun þrjú er aðeins einn orkunýtingarkostur innan vænts hálendisþjóðgarðs sem er í nýtingarflokki. Um er að ræða orkukostinn Skrokköldu með um 45 MW afl, af orkukostum upp á rúmlega 2000 MW sem voru til umfjöllunar í rammaáætlun þrjú og falla innan marka hálendisþjóðgarðs. Aðrir kostir eru í bið- eða verndarflokki. Það kemur fram í skrifum umhverfisráðherra að eigi að færa verkefni úr biðflokki í nýtingarflokk rammaáætlunar þrjú, verði það gert á forsendum þjóðgarðsins. Því er ekki hægt að búast við miklu, ef einhverju, til viðbótar síðar í nýtingarflokk ef rammaáætlun þrjú verður samþykkt óbreytt. Í verkferli er nú rammaáætlun fjögur og í framtíðinni var, og er gert ráð fyrir, að fleiri áfangar komi fram. Því er enn ekki komin fram nein endanleg sýn á hversu stór orkuauðlind Íslendinga er á hálendinu en vafalítið er það orkuríkasta svæði landsins

Það er í hæsta máta einföldun að tala um virkjanir sem hlutlægan og sérstæðan hlut. Virkjun er bara birtingarmynd þess að þjóðfélagið er að nýta orkuauðlind í efnahagslegu samhengi, til að að þjóna þörfum heimila og atvinnulífs í landinu. Í stóru myndinni, fyrir okkur Íslendinga, snýst málið um það hvort breyta eigi landnotkun hálendisins þannig að lokað verði fyrir aðgengi þjóðarinnar að orkuauðlindum sínum um alla framtíð. Það er einnig í hæsta máta óeðlilegt og óráðlegt að lokað sé á mögulega orkunýtingu á hálendi Íslands áður en lokið er gerð orku- og orkuöryggisstefnu fyrir Ísland. Ljóst er að þörfin fyrir orku fer vaxandi eftir því sem samfélagið stækkar, auk þess sem huga þarf að nægu framboði af innlendri grænni orku fyrir orkuskiptin sem stefnt er að. Við sem störfum í orku- og veitugeiranum teljum okkur skylt að draga ofangreinda staðreynd fram. Við erum ekki að virkja virkjananna vegna, heldur vegna þeirra samfélagslegu og efnahagslegu áhrifa sem nýting orkuauðlinda skapar fyrir þjóðarbúið. Enda hefur hagnýting okkar endurnýjanlegu orkuauðlinda lagt grunninn að lífsgæðum og verðmætasköpun í landinu síðustu hundrað árin. Það koma kynslóðir á eftir okkur sem þurfa og vilja hafa tækifæri til að nýta landið á sinn hátt m.a. af efnahagslegum ástæðum. Þá er rétt að minna á það framlag sem orkuauðlindir í vatnsafli og jarðvarma skapa til hnattrænna loftlagsmála.

Annað er að umræðan um hálendisþjóðgarð hefur ekki náð að þróast og er keyrð fram í flýti. Það er þekkt erlendis að þjóðgarðar eru flokkaðir í svæði þar sem mismikil friðun á sér stað, allt eftir verðmætamati þeirrar náttúru sem friða á og þörfum viðkomandi þjóða fyrir atvinnustarfsemi og hagnýtingu auðlinda á þeim svæðum. Í fyrstu umræðum um þjóðgarð var þess alltaf getið að svo myndi einnig verða innan vænts þjóðgarðs en eins og fram kemur í grein ráðherrans er hér verið að draga línu í sandinn gegn mögulegri framtíðarnýtingu orkuauðlinda. Hér er um veigamikla stefnubreytingu í landnotkun að ræða því hátt í 70% af raforkuframleiðslu þjóðarinnar í dag eru upprunnin innan marka fyrirhugaðs hálendisþjóðgarðs. Ekki er rétt að draga þá mynd upp að þetta sé barátta á milli þeirra sem vilja friða, eða breyta landnotkun hálendisins, og þeirra sem vilja virkja. Það er of mikil einföldun því öll viljum við náttúrunni hið besta. Það er réttmætt og eðlilegt, þegar svo mikið er í húfi sem hér, að benda löggjafanum á ofangreint svo þingmenn taki ákvörðun um breytta landnotkun hálendisins með „opin augu“ og með framtíðarkynslóðir Íslendinga í huga.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. febrúar.