Nýja Ísland?

Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Á dögunum voru kynnt drög að skýrslu sem unnið er að fyrir fjármálaráðuneytið, þar sem fjallað er um arðsemi af orkusölu til stóriðjufyrirtækja. Drögin voru kynnt í aðdraganda verslunarmannahelgar, nánast í skjóli hásumarleyfistímans, en þeim hafði þó verið skilað til ráðuneytisins í maí. Ekkert samband var haft við orku- né stóriðjufyrirtæki við gerð skýrsludraganna. Hér er ekki ætlunin að ræða efnislega um innihald skýrslunnar, það hefur þegar verið gert að hluta á öðrum vettvangi og verður gert nánar síðar, enda af nógu að taka. En það sem vekur ekki síst athygli er mönnun vinnunnar.

Afrek í takmörkun á trúverðugleika
Á Íslandi – líkt og sjálfsagt víðast hvar – tekur fjöldi hagfræðinga virkan þátt í opinberri umræðu um efnahagsmál. Segja má að í stórum hópi all kunnra hagfræðinga hérlendis séu um fimm til sex manns sem (mis)ítrekað hafa lýst verulegum efasemdum um arðsemi orkusölu til stóriðju. Að skýrslunni sem fjármálaráðuneytið bað um hafa komið heilir fjórir hagfræðingar, sem hlýtur að teljast all vel í lagt með svona vinnu. Sérstaka athygli vekur hins vegar að allir fjórir koma þeir úr fyrrnefndum fimm til sex manna hópi annars stórs mengis þjóðþekktra hagfræðinga. Þetta verður að teljast alveg sérstakt afrek í takmörkun á trúverðugleika. Allir hafa þessir fjórir skýrsluhöfundar áður ítrekað dregið sambærilegar ályktanir, í mis ítarlegum skrifum og erindum, og kynntar voru á dögunum í annars lítt frágengnum skýrsludrögum. Frá upphafi lá þar með algerlega ljóst fyrir hverjar þeirra helstu niðurstöður yrðu og því vandséð hví ákveðið var að ráðstafa opinberum fjármunum til þessarar vinnu. Verður kannski næst ákveðið að láta vinna skýrslu um kosti og galla loftrýmisgæslu á vegum NATO í íslenskri lofthelgi, og leitað til Samtaka hernaðarandstæðinga um gerð hennar? Er þetta það sem átt er við með hugtakinu „nýja Ísland“ í frösum opinberrar umræðu?

Mat á arðsemi orkusölu til stóriðju

 

 
Í júlílok var lögð fram áfangaskýrsla Sjónarrandar ehf sem unnin er að beiðni fjármálaráðuneytisins um mat á arðsemi orkusölu til stóriðju, þar er einnig fjallað um arðsemi íslenskra orkufyrirtækja og gerður samanburður við önnur fyrirtæki hérlendis og fyrirtæki í Bandaríkjunum og Evrópu. Að auki er fjallað um kostnað vegna nýtingu náttúrugæða, þjóðhagslega hagkvæmni stóriðju o.fl.
Það sem fyrst vekur athygli er að skýrslan er unnin af aðilum sem hafa áður lýst efasemdum um verkefni tengd stóriðju og verður því að skoðast sem tilraun þeirra til þess að árétta áður sagða og gerða hluti.
Skýrslan virðist við fyrsta yfirlestur vera ónákvæm, bæði hvað varðar efnistökin sjálf sem og framsetningu.
Samanburður orkufyrirtækja hér og erlendis er fráleitur, þar sem um er að ræða starfsemi í opinberri eigu annarsvegar og skráð einkafyrirtæki hinsvegar. Krafa um arðsemi orku- og veitufyrirtækja hér á landi sem þjóna almenna markaðinum er fyrst og fremst lágt verð og góð þjónusta. Einkaaðilar gera hinsvegar kröfu um að fjármagn þeirra vaxi í samræmi við ávöxtun fjár á fjármagnsmörkuðum. Þar að auki virðast  vera alvarlegar villur í efnistökum svo sem mismunandi reikningsskilaaðferðir og skörun á tímabilum. Ef verið er að óska eftir meiri ávöxtun fjár er eina sýnilega leiðin að hækka verðið.
Hvað varðar ávöxtun fjár til stóriðju er ekki tekið á því sérstakleg, heldur er gerður samanburður á ávöxtun fjár Landsvirkjunar í heild, þar sem einnig eru sömu villurnar hvað varðar aðferðir og tímabil.
Vangaveltur skýrsluhöfunda um verðmæti náttúrugæða, mengunarkvóta og ábata þjóðarbúsins af erlendri fjárfestingu eru gamalkunnar og hafa verið viðraðar áður í þeirra skrifum og athöfnum.
Samorka mun fara betur yfir innihald skýrslunnar að loknum sumarleyfum, gera athugasemdir og leggja til leiðréttingar á þeim þáttum sem ranglega er farið með.
Ef svona úttekt á að vera trúverðug og nýtanleg til stefnumótunar verður hún að vera unnin í þeirri sátt sem aðeins gagnkvæmt traust getur myndað. Það er langur vegur frá því að slíkt náist með því að fela aðilum sem þegar hafa mótað sér skoðanir um tilveru þeirrar starfsemi sem um ræðir ásamt væntanlegum niðurstöðum rannsóknarinnar. Það hefði líka verið jafn fráleitt að fela einhverju orku- eða stóriðjufyrirtæki að gera slíka úttekt.
Þá hefur Samorka sent fjármálaráðuneytinu fyrirspurn þar sem óskað er svara við spurningum sem vaknað hafa um tilurð og innihald skýrslunnar.

Skýrslan í heild er vistuð á heimasíðu fjármálaráðuneytis og má nálgast á slóðinni: http://www.fjarmalaraduneyti.is/frettir/frettatilkynningar/frettatilkynningar/nr/12348

 

Nordic Climate Solutions – ráðstefna og sölusýning í Kaupmannahöfn 8.-9. september

Dagana 8. og 9. september stendur norræna ráðherranefndin fyrir ráðstefnu og sölusýningu þar sem fjallað verður um markaðslausnir vegna hlýnunar loftslags. Fjallað verður um hlut endurnýjanlegrar orku, orkunýtingu, viðskipti með losunarkvóta, leiðir til að minnka losun í samgöngum og margt fleira, auk þess sem fjöldi fyrirtækja kynnir vörur sínar og þjónustu á þessu sviði. Erindi á ráðstefnunni flytja m.a. yfirmaður orkumála í framkvæmdastjórn ESB, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Evrópu, forstjórar Vattenfall, DONG og Danfoss, framkvæmdastjóri World Wildlife Fund, loftslags- og orkumálaráðherra Danmerkur og fjöldi annarra.

Sjá nánari upplýsingar hér á vefsíðu ráðstefnunnar.

Enn af rafsegulsviði

Í Bændablaðinu sem út kom 14. maí s.l. er grein um fósturdauða í ám og gemlingum, eftir Gunnar Björnsson bónda og fósturtalningamann í Sandfellshaga í Öxarfirði. Greinin fjallar á greinagóðan hátt um þetta mikla vandamál íslensks sauðfjárbúskapar og er athyglisverð.

Eftir afar fróðlega lýsingu á  fósturtalningu og fósturdauða er í greininni grafist fyrir um ástæður vandans.  Þar er komist að þeirri niðurstöðu að orsakanna sé helst að leita hjá framleiðendum rafmagns og dreifiveitum. Í umfjölluninni um rafmagnið í greininni er farið slíkum orðum um þennan meinta orsakavald, að fullkominni rýrð er kastað á trúverðuleika greinarinnar í heild og er það miður. Skilja má greinina svo að rafmagnið sé stórkostlega gölluð vara og að þeir sem beri ábyrgð á framleiðslu rafmagnsins, dreifingu, flutningi og sölu þess séu lítt viðræðuhæfir um gæði þessarar vöru. Þá er einnig lítið gert úr starfssemi þeirra eftirlitsstofnana ríkisins sem fylgjast eiga með gæðum og afhendingaröryggi rafmagnsins og fullyrt að þessir aðilar hafi ekki þann mælabúnað sem til þurfi til að fylgja málum eftir. Síðan er vitnað í hóp góðviljaðra manna sem reki fyrirtæki á þessu hátæknisviði og veiti þá þjónustu sem dugi, enda ráði þeir einir yfir mælitækjum sem dugi. Undirritaður leyfir sér ekki að gera lítið úr þekkingu téðra manna eða hæfileikum þeirra á þessu sviði, en fullyrðir þó að hjá veitufyrirtækjunum eru líka menn með þekkingu á sviði jarðtenginga, menn með reynslu og metnað til að  leggja sig fram við að vinna störf sín samkvæmt þeim reglum og þeim stöðlum sem í gildi eru hér á landi og eru þær sömu reglur sem gilda í okkar heimshluta.

Það er markmið með jarðtengingum neysluveitna að koma í veg fyrir slys og eignatjón. Þessu markmiði ná veiturnar með því að ganga frá jarðtengingum samkvæmt þeim ströngu reglum sem um slíkt gilda. Vissulega má lengi auka og bæta við jarðtengingar, þ.e. að ganga lengra en kröfur eru gerðar um. Þegar slíkt er gert, þá er mikilvægt að það sé gert af kunnáttumönnum og þess gætt sérstaklega að ekki sé hróflað við grundvallartengingum veitukerfanna, sem eru eins og áður segir til að verjast slysum og tjóni og eru framkvæmdar samkvæmt viðurkenndum vísindum. Umfjöllunin um rafsegulsviðið og þá hugsanlega hættu af völdum þess hefur á stundum farið fram á öðrum nótum en gengur og gerist um raunvísindi almennt. Sumsstaðar ræða menn um „rafmengun“ eins og í umræddri blaðagrein í Bændablaðinu, í öðrum skrifum og skýrslum hafa sést orðin rafskítur eða óþverri. Svona umfjöllun er ekki mjög trúverðug og rétt að taka fram að í umfjöllun um málefni sem fjalla um orsakir sjúkdóma manna og dýra, jafnvel líf eða dauða þeirra, þá er mikilvægt að ganga fram með hógværð og fullyrða ekki meira en hægt er að standa undir. Það er þekkt og eðlilegt að þeir sem berjast við erfiða sjúkdóma eru tilbúnir til að ganga langt í aðgerðum til að verja sig og sína við slíkar aðstæður. Því er það mikilvægt að þeir sem veita þjónustu og ráðgjöf á slíkum sviðum starfi samkvæmt bestu þekkingu hvers tíma. Þeir sem fara aðrar leiðir, leiðir sem flokkast undir tilraunastarfssemi eða ný vísindi, þurfa að gera viðkomandi aðilum glögga grein fyrir takmörkunum sínum og varast að kasta rýrð á þá  sem halda sig við hinar viðurkenndu aðferðir.

Hér eru hlekkir inn á aðrar greinar sem Samorka hefur áður birt á heimasíðu sinni:

Gtrein Sigurðar Guðmundssonar landlæknis.

Grein Gunnlaugs Björnssonar stjarneðlisfræðings

Grein í Morgunblaðinu eftir Sigurð Sigurðsson dýralækni, um lambadauða.

Grein í mbl. 15/6 2009 um niðurstöður rannsókna Sigurðar dýralæknis

 

 

Bilanaleitarnámskeið

Bilananámskeið Samorku var haldið dagana 7. og 8. maí sl. Ellefu manns, víðs vegar að af landinu, sóttu námskeiðið. Á fyrri degi námskeiðsins var farið yfir ýmsa fræðilega þætti bilanaleitar og vatnsmats. Á síðari degi námskeiðsins var fræðunum fylgt eftir með bilanaleit úti í dreifikerfi vatnsveitunnar í Reykjavík og leyndur leki, sem ekki var sjáanlegur á yfirborði, staðsettur.

Frekari upplýsingar með myndum: Smella hér

Ryki þyrlað upp um virkjanir

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Fréttablaðinu:

Enn og aftur eru virkjanir og stóriðja talsvert í umræðunni. Nú síðast kom hingað erlendur rithöfundur með einhvers konar kenningu um að siðblindir [svo!] erlendir bankastjórar og forstjórar álfyrirtækja hafi beinlíns haft með sér samsæri um að lána Íslendingum fjármagn til virkjanaframkvæmda, í þeim tilgangi að landið færi á hausinn samhliða fjármálakreppunni svo þeir gætu eignast hér dýrmætar náttúruauðlindir. Þessir aðilar sáu sem sagt fjármálakreppuna og bankahrunið ekki bara fyrir, þeir skipulögðu það. Ofan á allt vilja þessir vondu menn græða peninga og ef það gerist þá hljóta Íslendingar, samkvæmt kenningunni, að tapa þessum sömu peningum. Þessi uppákoma er með þeim skrautlegri, en hún er ágætt tilefni til að fara í gegnum nokkur atriði.

Fyrst ber þó að nefna að sala á náttúruauðlindum til útlendinga telst nú tæplega líkleg þróun á næstu árum. Ekki er nema tæpt ár síðan Alþingi samþykkti eins konar bandorm lagaákvæða sem leggja bann við sölu á orkuauðlindum í opinberri eigu til einkaaðila. Ennfremur er, þegar þetta er ritað, unnið að því að binda sambærilegt ákvæði um allar íslenskar náttúruauðlindir í stjórnarskrá lýðveldisins. Hugsanleg stefnubreyting í þessu efni er eingöngu fræðileg vangavelta um pólitískar ákvarðanir síðar meir en hefur nákvæmlega ekkert með rekstur íslenskra orkufyrirtækja að gera.

Lítið brot af umfangi bankaþenslunnar
Þá ber að halda til haga að þótt hér hafi á undanförnum árum verið ráðist í miklar framkvæmdir, á hefðbundinn íslenskan mælikvarða, við uppbyggingu virkjana og stóriðju, þá er umfang þeirra framkvæmda einungis um 4% af útlanaþenslu bankanna á sama tíma. Þessar fjárfestingar íslenskra orkufyrirtækja og erlendra álfyrirtækja eru í dag grundvöllur að verðmætasköpun, gjaldeyristekjum og grunnþjónustu við borgarana. Hið sama verður því miður ekki sagt um mikið af þeirri þenslu sem hér varð.

Því er oft haldið fram að hér hafi verið langt gengið í nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Miðað við nýjasta mat Orkustofnunar hafa 40% efnahagslega hagkvæmra orkukosta í vatnsafli þegar verið virkjaðir hér á landi (fyrrverandi orkumálastjóri telur þessa tölu vera 16%). Í löndum á borð við Noreg, Svíþjóð, Finnland, Frakkland, Spán, Sviss, Austurríki og Ítalíu er þessi tala á bilinu 70-90%. Hér hafa 20% orkukosta í jarðvarma verið virkjaðir og er þá ekki tekið tillit til hugsanlega stóraukinnar orkugetu með djúpborunum.

Stór hluti Íslands friðlýstur
Önnur hlið á sama peningi er sú að mjög stór hluti Íslands hefur verið friðlýstur, nú þegar um 20% af flatarmáli landsins. Hækka má þessa tölu í 30-40% ef t.d. eru talin með svæði á náttúruminjaskrá og vatnsverndarsvæði Mývatns. Á sama tíma er þessi tala um 10% í Svíþjóð og Finnlandi en stefnan í báðum löndum hefur verið tekin á 15%.

Um 80% raforkunnar hér á landi fara til stóriðju. Raforkuverð til heimila er mun lægra hérlendis en í flestum okkar nágrannalöndum. Þannig kostar meðalheimilisnotkun á rafmagni í Reykjavík einungis um fjórðung af því sem hún kostar í Kaupmannahöfn. Ennfremur hefur almennt raforkuverð árum saman farið lækkandi hér á landi, að teknu tilliti til þróunar vísitölu verðlags, samhliða aukinni raforkusölu til stóriðju. Sumt fólk nær að fá út úr þessu samhengi að almenningur greiði niður orkuna til stóriðjunnar, sem er ótrúleg niðurstaða. Stærstu viðskiptavinirnir, stóriðjufyrirtækin, greiða hins vegar lægra verð en þeir sem kaupa margfalt minna magn, líkt og gildir um flestar tegundir viðskipta. Langtímasamningar um stöðuga sölu á raforku eru afar hagstæðir fyrir orkufyrirtækin, auk þess sem stóriðjan ber sjálf kostnað við dreifingu raforkunnar, sem alla jafna er a.m.k. þriðjungur orkuverðsins. Að selja orkuna til álvera er engin stefna. Íslensk orkufyrirtæki kjósa einfaldlega hagstæðustu viðskiptin sem bjóðast hverju sinni.

Þúsundir starfa
Um þriðjungur heildarveltu álveranna verður eftir í íslensku hagkerfi, sem gerir samtals um 55 milljarða króna árið 2008 (en 83 milljarða reiknað á gengi dollars í dag). Samtals kaupa álverin vörur og þjónustu af hátt á annað þúsund íslenskra fyrirtækja, greiða há laun, stuðla að nýsköpun og skapa  hér samtals um fimm þúsund bein og afleidd störf. Hagnaður af rekstri álveranna rennur til útlanda, alveg eins og hagnaður af rekstri ýmissa íslenskra fyrirtækja erlendis rennur til Íslands. Við skulum ekki fara að senda héðan þau skilaboð að erlendir aðilar sem hér fjárfesti megi ekki hafa arð af sínum fjárfestingum. Nóg er nú orðspor Íslands samt laskað.

Á samorka.is má nálgast fleiri upplýsingar um orkumál og stóriðju, í formi stuttra og aðgengilegra punkta.

Af virkjunum og stóriðju

Á næstu vikum má gera ráð fyrir að í samfélaginu fari fram talsverðar umræður um orkumál, ekki síst í samhengi við sölu á raforku til stóriðju. Samorka vill leggja sitt af mörkum til að umræðan geti orðið vel upplýst og í því skyni eru hér sett fram nokkur efnisatriði í þessu sambandi, í stuttu og vonandi aðgengilegu máli.

Takmarkaður hluti orkunnar verið nýttur. Á Íslandi hafa um 40%* efnahagslega hagkvæmra orkukosta í vatnsafli þegar verið virkjaðir. Í löndum á borð við Noreg, Svíþjóð, Finnland, Frakkland, Spán, Sviss, Austurríki og Ítalíu er þessi tala á bilinu 70-90%. Hér hafa 20% orkukosta í jarðvarma verið virkjaðir og er þá ekki tekið tillit til hugsanlega stóraukinnar orkugetu með djúpborunum.
   * M.v. nýjasta mat Orkustofnunar. Talan væri 30% m.v. eldra mat stofnunarinnar og er raunar 16% að mati Jakobs Björnssonar, fyrrverandi orkumálastjóra.

Mjög stór hluti Íslands verndaður. Nú þegar hafa um 20% af flatarmáli Íslands verið friðlýst. Hækka má þessa tölu í 30-40% ef t.d. eru talin með svæði á náttúruminjaskrá og vatnsverndarsvæði Mývatns. Á sama tíma er þessi tala um 10% í Svíþjóð og Finnlandi en stefnan í báðum löndum hefur verið tekin á 15%.

Hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa. Hér á landi teljast um 80% allrar frumorkunotkunar til endurnýjanlegrar orku. Til samanburðar má nefna að meðaltalið innan ESB eru 8,5%, en markmiðið er að ná þeirri tölu upp í 20% árið 2020. Ný ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur sett stefnuna á að þar verði þetta hlutfall 10% árið 2012, en nú er hlutfallið þar um 5%.

Ágæt arðsemi. Flest undanfarin ár hefur arðsemi af orkusölu til stóriðju verið góð. Árið 2008 er hins vegar, hjá orkufyrirtækjum líkt og flestum öðrum fyrirtækjum, mjög sérstakt í þessu sambandi. Mikil gengislækkun krónunnar hefur haft mikil áhrif á efnahagsreikninga margra fyrirtækjannna og þá lækkaði álverð mikið á alþjóðlegum mörkuðum síðari hluta ársins, líkt og margar aðrar afurðir og vörur (svo sem olía, fiskur, stál…). Afkoman var því yfirleitt ekki góð árið 2008 en þrátt fyrir áföllin eru þessi fyrirtæki, orkufyrirtækin og stóriðjan, enn að framleiða verðmæti fyrir íslenskt þjóðarbú.
 
Lágt raforkuverð til heimila. Um 80% raforkunnar hér á landi fara til stóriðju. Raforkuverð til heimila er mun lægra hérlendis en í flestum okkar nágrannalöndum. Þannig kostar meðalheimilisnotkun á rafmagni í Reykjavík einungis um fjórðung af því sem hún kostar í Kaupmannahöfn. Ennfremur hefur almennt raforkuverð árum saman farið lækkandi hér á landi, að teknu tilliti til þróunar vísitölu verðlags, samhliða aukinni raforkusölu til stóriðju.

Lægra verð til stærstu viðskiptavinanna. Stærstu viðskiptavinirnir, stóriðjufyrirtækin, greiða að sjálfsögðu lægra verð en þeir sem kaupa margfalt minna magn, líkt og gildir um flestar tegundir viðskipta. Raforka er ekki geymd á lager, hana þarf að nýta samtímis framleiðslu. Fyrirtæki í stóriðju eru skuldbundin til að kaupa sama mikla magnið allan sólarhringinn alla daga ársins. Slíkir samningar eru afar mikils virði fyrir raforkufyrirtækin og forsenda fjárfestinga og uppbyggingar sem nýtist öðrum viðskiptavinum. Þá taka þessi fyrirtæki við raforkunni beint af flutningskerfinu og greiða því sjálf eigin dreifingarkostnað, sem annars er alla jafna a.m.k. þriðjungur raforkuverðs.

Erlend fjárfesting einkum í stóriðju. Bein erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi hefur að langmestu leyti verið í stóriðju. Þetta kemur skýrt fram í gögnum Seðlabankans. Bankinn heldur yfirlit yfir fjármunaeign erlendra aðila í íslensku atvinnulífi (hlutabréfaeign erlendra aðila í íslenskum félögum meðtalin þar) og þar er stóriðjan langumfangsmest, ef undan eru skildar fjárfestingar eignarhaldsfélaga, sem skráð voru erlendis, í íslenskum bönkum á árunum 2005-2007 (nýjustu tölur Seðlabankans). Sú þróun mun hafa haldið eitthvað áfram árið 2008, en því miður stendur ekki mikið eftir í dag af þeim fjárhæðum sem þarna mældust af hálfu fjármálaþjónustunnar. Í árslok 2007 var hlutur stóriðju um 50% af erlendri fjármunaeign í íslensku atvinnulífi, ef hlutur fjármálaþjónustu er ekki með talinn.

Lítið brot af veltu bankanna. Við fall bankanna sl. haust námu erlendar skuldir þeirra um 9.500 milljörðum króna. Á árunum 2001-2008 námu fjárfestingar í stóriðju um 185 milljörðum króna en fjárfestingar orku- og veitufyrirtækja (að vatns-, hita- og fráveitum meðtöldum) alls 354 milljörðum. Í dag eru síðarnefndu fjárfestingarnar grundvöllur að verðmætasköpun og grunnþjónustu við borgarana. Því miður verður það ekki sagt um mikið af þessu lánsfé bankanna.

Um þriðjungur heildarveltu álveranna verður eftir í íslensku hagkerfi, 55 milljarðar árið 2008. Á Íslandi starfa þrjú álver. Samtals nam velta þeirra árið 2008 um 2.050 milljónum Bandaríkjadala, eða rúmlega 164 milljörðum króna miðað við meðalgengi dollars árið 2008 (sem var 80,07 krónur). Iðnaðarráðuneytið hefur áætlað að um þriðjungur af heildarveltunni verði eftir í íslensku hagkerfi (en a.m.k. sum álfyrirtækjanna telja hlutfallið um 40%). Fyrir árið 2008 væru það þá 683 milljónir dala, eða tæpir 55 milljarðar íslenskra króna. Þess má geta að þegar þetta er ritað, 3. apríl 2009, er gengi dollars kr. 119.

Hagstæðustu viðskiptin. Þótt hér sé fjallað um sölu á raforku til stóriðju þá er það að sjálfsögðu ekkert markmið í sjálfu sér að selja raforku til þeirra fyrirtækja. Þetta eru hins vegar lang stærstu viðskiptavinir íslenskra orkufyrirtækja, sem skoða auðvitað alla kosti við töku ákvarðana um sölu á raforku hverju sinni og velja þá hagkvæmustu.

Hagnaður til útlanda? Hagnaður af rekstri álvera á Íslandi rennur til útlanda, með sama hætti og við Íslendingar fáum verulegan virðisauka af starfsemi ýmissa fyrirtækja okkar erlendis. Má þar í gegnum tíðina nefna ýmis iðnfyrirtæki og fyrirtæki í sölu sjávarafurða og í fiskvinnslu erlendis. Þetta byggist á fjárfestingum okkar í útlöndum. Alls staðar í heiminum eru stjórnvöld að reyna að laða til sín erlenda fjárfestingu enda bein tengsl á milli hennar og hagvaxtar. Álfyrirtækin hafa kosið að fjárfesta á Íslandi og grundvallast þær ákvarðanir á sameiginlegum hagsmunum okkar Íslendinga og þeirra. Þessar fjárfestingar hafa gert okkur kleift að nýta áður ónýttar orkuauðlindir. Í formi áls erum við að flytja út vistvæna orku.

Eignamyndun og fjárfestingagrundvöllur. Bygging ál- og orkuvera hefur að verulegu leyti verið fjármagnaður með erlendu lánsfé. Á bakvið vaxtagreiðslur og afborganir af erlendum lánum er hins vegar eignamyndun á Íslandi. Þegar greitt hefur verið af lánunum standa eftir skuldlausar eignir sem mala gull. Innlendir fjárfestar hafa verið tregir til að fjármagna þessa uppbyggingu og hafa t.d. fremur kosið að fjárfesta í bönkum og eignarhaldsfélögum.

Tæp 5.000 störf vegna áliðnaðar. Samtals starfa nú um 1.450 manns hjá álfyrirtækjum á Íslandi. Áætlað hefur verið (af Nýsi hf.) að hverju slíku starfi fylgi um 2,4 afleidd störf, sem gerir tæp 3.500 afleidd störf, eða samtals tæp 5.000 störf. Samtals kaupa álfyrirtækin á Íslandi vörur og þjónustu af hátt á annað þúsund íslenskra fyrirtækja. Gróflega áætlað kaupir hvert álver þjónustu af fyrirtækjum fyrir 6-10 milljarða á ári eða ríflega 20 milljarða samtals. Að stærstum hluta fer þessi upphæð í laun til starfsmanna hjá umræddum fyrirtækjum.

Vel launuð störf og forysta í öryggismálum. Fyrir liggur að meðallaun hjá hvoru tveggja stóriðjufyrirtækjum og orkufyrirtækjum eru mun hærri en meðallaun í samfélaginu almennt. Orku- og veitufyrirtæki leggja mjög mikla áherslu á öryggismál og eiga m.a. gott samstarf um þau á vettvangi Samorku. Á engan er þó hallað þegar fullyrt er að stóriðjufyrirtækin hafi lengi verið í fararbroddi á þessu sviði á íslenskum vinnumarkaði og innleitt hér vinnubrögð sem verið hafa öðrum til eftirbreytni.

Hátt þekkingarstig. Árið 2006 voru unnin 730 ársverk háskóla- og tæknimenntaðra hjá íslenskum orku- og veitufyrirtækjum, þar af 500 ársverk verk- og tæknifræðinga, og tæp 500 ársverk iðnmenntaðra. Í stóriðju er svipaða sögu að segja, þar sem um 40% starfsfólksins er með háskóla- eða tæknimenntun. Loks starfa hundruðir sérfræðinga í verkfræðistofum og víðar m.a. við að þjónusta þessi fyrirtæki.

Forsenda glæstrar nýsköpunar og frumkvöðlastarfa. Kraftmikil nýsköpun og frumkvöðlastarf hafa risið hér á landi í tengslum við hvoru tveggja orku- og áliðnaðinn og má nefna fjölda þekkingarfyrirtækja í því sambandi, verkfræðiráðgjafar-, hönnunar- og framleiðslufyrirtæki sem jafnvel hafa markaðssett sínar afurðir og þjónustu víða um heim.

Traust fyrirtæki, fara ekki langt. Mikil fjárfesting liggur að baki álfyrirtækjum. Hér á landi eru þau gjarnan skuldbundin til að kaupa tiltekið magn af raforku um árabil og yrðu að standa við þá samninga þótt framleiðsla stöðvaðist af öðrum orsökum. Þessi fyrirtæki taka sig ekki svo auðveldlega upp og færa sig um set.

Umhverfismálin í fyrirrúmi hjá veitum og orkufyrirtækjum. Umhverfismálin skipa stóran sess í rekstri orku- og veitufyrirtækja, hvort sem um er að ræða virkjanir vegna nýtingar endurnýjanlegra orkulinda eða framkvæmdir vegna vatnsveitna og fráveitna. Áhersla er jafnan lögð á að umgangast landið með virðingu, að öllu raski sé haldið í lágmarki, frágangur í verklok sé til fyrirmyndar og raunar að tekið sé tillit til náttúru og umhverfis í allri starfseminni. Ennfremur hafa mörg orku- og veitufyrirtæki lagt áherslu á að bæta innviði ferðamennsku og útivistar á virkjunarsvæðum. Þá hafa fyrirtækin oft lagst í hreinsunarátak á einstökum svæðum áður en hafist hefur verið handa við framkvæmdir. Loks hafa sumar fráveitur gert stórátak í hreinsun strandlengjunnar og vatnsveitur sjá landsmönnum öllum fyrir vistvænu neysluvatni.

Yfir milljarður til sérstakra umhverfisverkefna. Kostnaður vegna slíkra umhverfisverkefna er ekki alltaf sundurgreinanlegur og umframkostnað vegna almennra áherslna á umhverfismál – svo sem að vinnuflokkar fari helst fótgangandi um viðkvæm svæði – er útilokað að taka saman. Að beiðni Samorku tóku orku- og veitufyrirtæki hins vegar saman (í ársbyrjun 2007) hversu miklum fjármunum þau hafa verið að verja með beinum hætti til sérstakra verkefna á sviði umhverfismála. Niðurstaðan er sú að á árunum 2001-2006 greiddu orku- og veitufyrirtæki á Íslandi samtals um 1.050 milljónir króna vegna sérstakra verkefna á eigin vegum á sviði umhverfismála, svo sem vegna landbætingar, göngustígagerðar og hreinsunarverkefna. Á sama tíma greiddu þessi fyrirtæki yfir 500 milljónir króna í styrki til annarra aðila vegna rannsókna og vísinda sem meðal annars hafa tengst umhverfismálum.

Yfir hundrað þúsund ferðamenn? Loks má nefna það hér að miklar vonir eru bundnar við ferðaþjónustu sem vaxtargrein í íslensku atvinnulífi. Óhætt er að fullyrða að orkufyrirtækin leggi þar sitt af mörkum. Sum þeirra hafa lagt mikinn kostnað í gerð göngustíga, uppgræðslu og kortagerð af svæðum í nágrenni sinna virkjana, að ógleymdri aðstöðu sem beinlínis er reist til að taka á móti gestum. Gera má ráð fyrir að á annað hundrað þúsund ferðamanna muni heimsækja virkjanir á Íslandi í sumar, enda endurnýjanleg orka því miður af skornum skammti víða annars staðar. Ef horft er til stærstu orkusölufyrirtækjanna hafa árlega um 20 til 30 þúsund ferðamenn heimsótt virkjanir og upplýsingamiðstöðvar Landsvirkjunar, í byrjun árs 2009 heimsóttu um fimm þúsund manns Hellisheiðarvirkjun á mánuði og mun sú tala hækka verulega í sumar, og þá fer gestum Hitaveitu Suðurnesja ört fjölgandi eftir opnun Orkuversins Jarðar í Reykjanesvirkjun.

Ennfremur má geta þess að vinsælir ferðamannastaðir á borð við Bláa lónið og Perluna eru beintengdir orkuiðnaði eða afsprengi hans. Þannig er Bláa lónið hluti af Auðlindagarðinum í Svartsengi en lónið sóttu 407 þúsund manns árið 2008. Perlan er byggð á heitavatnstönkum Orkuveitu Reykjavíkur. 570 þúsund manns komu í Perluna árið 2008.

 

Mikil þátttaka á öryggisnámskeiði Samorku

Hátt í eitt hundrað manns sóttu öryggisnámskeið fyrir rafiðnaðarmenn sem Samorka hélt í húsakynnum Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls dagana 1. og 2. apríl. Fjallað var um öryggismál rafvirkja og er það liður í því að fyrirbyggja vinnuslys hjá veitunum. Sérhvert slys er einu slysi of mikið. Við viljum að sjálfsögðu að allt starfsfólk komi heilt heim frá vinnu að loknum vinnudegi. Þessi fundur er viðleitni í átt til þess að svo megi verða.. Sjá dagskrá námskeiðsins hér. Með því að smella á ljómaða hlekki á dagskránni, má sjá fyrirlestrarglærurnar.