Græn orka: Meiri tækifæri hér en af olíu í Noregi?

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Íslendingar framleiða nær tvöfalt meiri raforku á hvern íbúa en Norðmenn og höfum við þó gengið helmingi skemur í nýtingu okkar endurnýjanlegu orkulinda. Því vekur það athygli að Norðmenn telja jafn mikil tækifæri framundan í sölu á endurnýjanlegri orku um sæstreng og á sviði olíu- og gasútflutnings samanlagt.

Á nýliðnum ársfundi norsku Samtaka atvinnulífsins, sem forsætis- og orkumálaráðherrar Noregs tóku m.a. þátt í, ríkti mikil samstaða um áframhaldandi nýtingu orkuauðlinda − olíu, gass og vatnsafls. Fram kom að Norðmenn telja jafn mikil tækifæri framundan í sölu á endurnýjanlegri orku um sæstreng og á sviði olíu- og gasútflutnings. Þar vísast m.a. til þess að Alþjóðaorkustofnunin (IEA) telur að notkun raforku í heiminum muni aukast um 70% fram til ársins 2035, auk þess sem Evrópusambandið hyggst grípa til umfangsmikilla aðgerða í því skyni að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Þar gegna vind- og sólarorka stóru hlutverki. Þeir orkugjafar eru þó háðir miklum sveiflum og eygja Norðmenn ákveðin sóknarfæri í krafti vatnsaflsins til að tryggja meiri stöðugleika í framboði endurnýjanlegrar orku í Evrópu, með sölu á raforku um sæstrengi. Slíkir strengir hafa þegar verið lagðir til Danmerkur og Hollands og eru tveir til viðbótar, til Þýskalands og Bretlands, ráðgerðir innan fárra ára.

Græna orkan mun meiri hér, á hvern íbúa
Athygli vekur hve mikil tækifæri Norðmenn fjalla um á sviði útflutnings endurnýjanlegrar orku, en þótt þeir framleiði meira heildarmagn af raforku en Íslendingar er framleiðslan hér mun meiri á hvern íbúa talið, eða 54 megavattstundir á móti 30 í Noregi. Þá hafa Norðmenn þegar virkjað um tvo þriðju hluta af sinni orkugetu í vatnsafli, á meðan Íslendingar hafa virkjað um þriðjung af áætlaðri orkugetu landsins í vatnsafli og jarðhita.

Hlutfallslega séð verður því að ætla að tækifærin á sviði endurnýjanlegrar orku séu mun meiri hérlendis en í Noregi, þar sem þau eru nú talin jafnast á við tækifærin á sviði olíu- og gasútflutnings.