Af raforku og „stóriðjustefnu“

Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Davíð Þorláksson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, skrifar grein í Morgunblaðið 7. maí þar sem hann hvetur hægrimenn til að hætta svokallaðri stóriðjustefnu. Hér er ekki ætlunin að svara fyrir hönd annarra hægrimanna. Hins vegar er rétt að benda á ákveðin atriði varðandi raforkuverð og svokallaða stóriðjustefnu.

Ábyrgðargjald til eigenda
Davíð segir hið opinbera sjá stóriðjunni fyrir ódýrri orku sem hann rekur til opinberra ábyrgða á lánsfjármögnun orkufyrirtækja. Þær skili lágum fjármagnskostnaði sem aftur skili sér svo í lægra orkuverði til stóriðjunnar. Nú er það hins vegar svo að samkvæmt lögum nr. 144/2010 og lögum nr. 21/2011 greiða Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun ábyrgðargjald af þeim lánaskuldbindingum sem ábyrgð eigenda er á, gjald sem svarar að fullu til þeirrar ívilnunar sem fyrirtækin eru talin (af óháðum aðilum) njóta á grunni ábyrgða eigenda. Þriðja fyrirtækið sem selur raforku til stóriðju, HS Orka hf., er í eigu einkaaðila og nýtur engra opinberra ábyrgða á sínum lánasamningum. Ekki þarf því að óttast að orkufyrirtæki séu að bjóða lágt orkuverð á þessum grundvelli.

Tækifæri með sæstreng
Hins vegar er það rétt að stóriðjufyrirtæki hafa (líkt og allir aðrir) getað nálgast samkeppnishæf verð fyrir raforku hér á landi, enda landið lítill og einangraður raforkumarkaður. Sú staða gæti reyndar breyst með lagningu sæstrengs til Evrópu sem nú er til ítarlegrar skoðunar. Með tilkomu slíkrar tengingar væri hægt að afla mun hærri orkuverða en núverandi markaðsaðstæður bjóða upp á.  Þannig vekur athygli að Norðmenn telja sín tækifæri af sölu endurnýjanlegrar orku jafn verðmæt og af sölu á olíu. Hérlendis er orkugetan í endurnýjanlegri orku þreföld á hvern íbúa miðað við Noreg og því ljóst að Íslendingar búa að gríðarlegum tækifærum á þessu sviði.

Íslensk orkufyrirtæki halda ekki uppi því sem oft er nefnt stóriðjustefna. Það er ekkert markmið orkufyrirtækja að hér sé ráðist í tilteknar tegundir fjárfestinga í atvinnulífinu. Framleiðendur raforku vilja einfaldlega hámarka arðsemi og verðmætasköpun af sölu endurnýjanlegrar orku, að sjálfsögðu að uppfylltum öllum skilyrðum um umhverfiskröfur og leyfisveitingar. Fjölmargir aðrir hafa hins vegar kallað eftir aukinni fjárfestingu í íslensku atvinnulífi, en hún mun vera í lágmarki þessi árin. Samningar um kaup á miklu magni af raforku eru oft nauðsynleg forsenda slíkra fjárfestinga, en hagsmunir orkuframleiðenda snúast í þessu samhengi einfaldlega um arðsemi umræddra orkusölusamninga.
 

Brennisteinsvetni og förgun affallsvatns á aðalfundi Jarðhitafélagsins 30. apríl

Jarðhitafélag Íslands heldur aðalfund sinn þriðjudaginn 30. apríl í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum fjallar Bjarni Már Júlíusson, verkefnastjóri, um brennisteinsvetni og Þráinn Friðriksson, jarðefnafræðingur hjá ÍSOR, fjallar um förgun affallsvatns frá jarðhitavirkjunum. Sjá nánar á vef Jarðhitafélags Íslands.

ESB og auðlindirnar

Stefán Már Stefánsson prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands fjallar um íslenskar lagareglur, þjóðréttarsamninga, reglur ESB og EES-samningsins, eignarétt og stjórnunarrétt að auðlindum landsins o.fl. á fundi Lagastofnunar miðvikudaginn 20. mars. Sjá nánar á vef HÍ.

Breytingar á skrifstofu Samorku

Gústaf Adolf Skúlason hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra Samorku af Eiríki Bogasyni, sem látið hefur af störfum að eigin ósk. Gústaf hefur gegnt stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra samtakanna frá ársbyrjun 2007, en starfaði áður m.a. sem forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins, sérfræðingur á skrifstofu Alþingis og sem stundakennari við Háskóla Íslands. Gústaf er stjórnmálafræðingur að mennt, með BA gráðu frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu frá London School of Economics.

Eiríkur mun áfram sinna verkefnum fyrir Samorku næstu misseri, einkum er varða málefni hita-, vatns- og fráveitna. Hann er rafmagnstæknifræðingur að mennt og hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Samorku frá stofnun samtakanna árið 1995. Áður gegndi hann m.a. starfi veitustjóra í Vestmannaeyjum og sat í stjórn annars tveggja forvera Samorku, Sambands íslenskra rafveitna. Eiríkur er 66 ára gamall og lætur alfarið af störfum fyrir Samorku í byrjun næsta árs.

Flutningskerfi raforku mætir ekki eðlilegum kröfum

Styrkja þarf flutningkerfið verulega á komandi árum ef það á að vera í stakk búið til þess að mæta kröfum nútíma samfélags og ekki hamla þróun byggðar. Meðal annars er byggðalínan fulllestuð og framleiðslugeta sumra virkjana því vannýtt. Takmörkuð flutningsgeta gerir flutningskerfið vanbúið til að takast á við meiriháttar áföll. Gæði og öryggi orkuflutnings fullnægja ekki stöðlum og þessi staða hamlar þróun sumra byggða. Þetta kom fram í erindi Guðmundar Inga Ásmundssonar, aðstoðarforstjóra Landsnets, á aðalfundi Samorku. Hann segir uppbyggingu kerfisins hafa tafist, m.a. vegna andstöðu við háspennulínur. Gera þurfi úrbætur á skipulags- og leyfisferlinu þannig að það verði skilvirkara og tekið verði tillit til markmiða raforkulaga á öllum stigum skipulags- og leyfisferla.

Fiskimjölsverksmiðjur rafvæðast, ef flutningskerfið annar því
Að líkindum verða allar fiskimjölsverksmiðjur landsins rafvæddar á næstu árum að sögn Guðmundar Inga, ef flutningskerfi raforku annar því. Olíukostnaður myndi þá minnka um fimm milljarða á ári og útblástur CO2 um 120 þúsund tonn. Mögulegt er að tveir þriðju þessa magns verði  að raunveruleika á næstu þremur árum ef tekst að auka flutningsgetuna til verksmiðjanna.

77 milljarða fjárfesting
Fram kom í erindi Guðmundar Inga að gríðarleg endurnýjun er nauðsynleg við uppbyggingu kerfisins og áætlun gerir ráð fyrir fjárfestingu sem nemur 77 milljörðum króna næstu tíu árin. Þar er miðað við uppbyggingu á loftlínum. Verði farin leið jarðstrengja verður kostnaðurinn mun meiri.

Sjá erindi Guðmundar Inga Ásmundssonar.