Menntafyrirtæki ársins?

Samtök atvinnulífsins (SA), Samorka og önnur aðildarfélög SA efna til Menntadags atvinnulífsins mánudaginn 3. mars 2014 á Hilton Reykjavík Nordica kl. 12.30-16.30. Menntun og fræðsla sem nýtist öllu atvinnulífinu verður þar í kastljósinu en þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar ólíkra atvinnugreina halda sameiginlegan menntadag.

Efling menntunar á öllum skólastigum og framhaldsfræðslu er brýnt hagsmunamál fyrirtækja og eykur samkeppnishæfni þeirra. Á Menntadeginum munu forsvarsmenn fjölbreyttra fyrirtækja fjalla um mikilvægi menntunar starfsfólks og nauðsynlegar breytingar á menntakerfinu. Greint verður frá könnun um viðhorf framhaldsskólanema til bóknáms og verknáms og erlendar fyrirmyndir skoðaðar.

Á menntadeginum verða Menntaverðlaun atvinnulífsins veitt í fyrsta sinn til fyrirtækja sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki til að vera tilnefnt annað hvort til verðlauna sem Menntafyrirtæki ársins eða Menntasproti ársins. Þrjú fyrirtæki verða tilnefnd í hvorum hópi.

Menntafyrirtæki ársins:
Fyrirtæki sem verða tilnefnd til verðlauna sem Menntafyrirtæki ársins þurfa að leggja áherslu á mikilvægi menntunar. Í fyrirtækinu verður að vera til staðar skýr mennta- og fræðslustefna og henni fylgt eftir. Við mat á tilnefningum verða gæði fræðslunnar metin og kannað hvort mennta- og fræðslustefnan hafi eflt menntun innan fyrirtækisins og jafnframt aukið  samkeppnisforskot þess.

Menntasproti árins:
Verkefni eða fyrirtæki sem verða tilnefnd til verðlauna sem Menntasproti ársins þurfa að hafa aukið áherslu á fræðslu- og menntamál innan fyrirtækisins. Við mat á tilnefningum verður skoðað hvort farnar hafi verið nýjar leiðir við eflingu menntunar innan fyrirtækisins og hver aukningin er í þátttöku starfsmanna.

Gerð verða stutt kynningarmyndbönd um fyrirtækin sex sem verða tilnefnd til Menntaverðlauna atvinnulífsins. Þar verður sérstaða þeirra dregin fram og fyrirmyndarstarf þeirra kynnt í aðdraganda Menntadagsins og á deginum sjálfum. Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, mun tilkynna um sigurvegara á Menntadeginum og afhenda verðlaun í hvorum flokki fyrir sig.

Vinsamlegast sendið tilnefningar í tölvupósti á sa@sa.is ekki síðar en 26. janúar 2014, merkt Menntadagur – tilnefning.