Enn um orkuauðlindir og erlent eignarhald á orkufyrirtækjum

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarna mánuði um orkuauðlindir á Íslandi, ekki síst í tengslum við kaup Magma Energy Sweden á meirihluta í HS Orku. Því miður er iðulega misfarið með ýmis atriði í þessari umræðu, þótt réttum upplýsingum hafi margoft verið komið áleiðis. Enn er ástæða til að árétta nokkur atriði í þessu sambandi.

Orkuauðlindin áfram í opinberri eigu
Fyrst ber að nefna að Magma hefur ekki keypt neinar orkuauðlindir á Íslandi, heldur leigir fyrirtækið afnotarétt af auðlindum í eigu sveitarfélaga.

HS Orka greiðir auðlindagjald
Þá ber að nefna að HS Orka greiðir umræddum sveitarfélögum – Grindavíkurbæ og Reykjanesbæ – auðlindagjald fyrir aðgang að nýtingu jarðhitaauðlinda á Reykjanesskaga. Gjaldið er reiknað skv. erlendum fyrirmyndum og tekur m.a. mið af því verðmæti sem auðlindirnar voru metnar á í fyrri viðskiptum með hluti í Hitaveitu Suðurnesja.

Lögleg viðskipti
Opinberir aðilar hafa nú ítekað úrskurðað að um lögmæt viðskipti var að ræða, þ.e. kaup Magma í HS Orku. Vandséð er hins vegar að hinn erlendi fjárfestir, sem hér batt fjármuni í góðri trú, hafi getað séð fyrir sér þá óvægnu gagnrýni sem þessi lögmætu viðskipti hafa sætt. Óskandi er að þessi reynsla verði ekki öðrum hugsanlegum fjárfestum tilefni til að leita annað.

Undarlegt tal um meintar verðhækkanir til neytenda
Þá er því iðulega haldið fram að þessi erlendi eigandi muni stuðla að hærra raforkuverði til neytenda hérlendis. Þar virðist gæta ýmiss konar misskilnings. Fyrir það fyrsta eru flutningur og dreifing raforku sérleyfisstarfsemi á hendi opinberra aðila, sem jafnframt sæta ströngu eftirliti Orkustofnunar. Alla jafna mynda flutningur og dreifing u.þ.b. helming raforkukostnaðar hins almenna neytanda. Framleiðsla og sala á raforku mynda alla jafna u.þ.b. helming kostnaðarins á móti. Þar er aftur um að ræða samkeppnissvið og eingöngu á þeim sviðum starfar HS Orka. Almennir neytendur geta skipt um orkusala með einu símtali. Vandséð er hvernig fyrirtæki með um 8% af heildarraforkuframleiðslunni í landinu ætti að geta stýrt verði slíks markaðar uppávið.

Sjálfbær nýting
Loks er því iðulega haldið fram að verið sé að ganga um of á jarðhitaauðlindina á Reykjanesskaga og nýtingin því ekki sjálfbær, þ.e. að jarðhitasvæðin nái ekki að endurnýja sig nægilega hratt miðað við þá nýtingu sem stunduð sé. Þessu er raunar iðulega haldið fram um jarðhitanýtingu hérlendis í stærra samhengi. Í þessu sambandi ber í fyrsta lagi að nefna að nýtingin er háð opinberu eftirliti, óháð eignarhaldi á umræddu orkufyrirtæki. Orkustofnun fylgist með því að fylgt sé skilmálum virkjunarleyfis og hefur stofnunin víðtækar heimildir til að bregðast við hugsanlegum frávikum ef þurfa þykir. Ef horft er til HS Orku og Reykjanesskaga sérstaklega ber einnig að nefna hjá fyrirtækinu starfa nokkrir af landsins færustu jarðhitasérfræðingum, sérfræðingar sem gjörþekkja þetta svæði, auk þess sem starfað er með ráðgjöfum annars staðar frá. Færi hins vegar allt á versta veg (sem Samorka sér ekki að hætta sé á) þannig að hvíla þyrfti auðlindina svo að fyrirtækið gæti ekki skilað umsaminni orku, þá væri það einkafyrirtækið HS Orka sem þyrfti að leysa úr þeirri stöðu. Orkustofnun myndi tryggja tilhlýðilega hvíld á auðlindinni til að hún fengi að jafna sig. Hagsmunir fyrirtækisins af því að ganga vel um auðlindina og ástunda þar sjálfbæra nýtingu eru þess vegna borðleggjandi, líkt og gildir um öll önnur orkufyrirtæki.

Húshitun með jarðhita: 67 milljarða króna sparnaður árið 2009

Þjóðhagslegur sparnaður af notkun jarðvarma í stað gasolíu til húshitunar nam 67 milljörðum króna árið 2009. Uppsafnaður núvirtur sparnaður nam 1.330 milljörðum króna yfir tímabilið 1970-2009. Mestur var hann 77 milljarðar króna árið 2008. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Orkustofnunar um efnahagslegan samanburð húshitunar með jarðhita og olíu árin 1970-2009. Sjá skýrsluna á vef Orkustofnunar.

Styttri aðgangur – hærra orkuverð

 

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar í Fréttablaðinu:

Um þessar mundir er unnið að gerð stjórnarfrumvarps þar sem meðal annars mun vera lagt upp með að stytta leyfilegan samningstíma varðandi afnotarétt af náttúruauðlindum í jarðhita og vatnsafli, í opinberri eigu. Samkvæmt lögum frá árinu 2008 er hámarkstími slíkra samninga nú 65 ár, en semja má um framlengingu að samningstímanum hálfnuðum (og þá aftur mest til 65 ára, heildarsamningstíminn getur því mestur orðið samtals 97,5 ár). Vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir hafa langan líftíma sem lengja má með reglulegu viðhaldi. Fjárfestingin er hins vegar mikil í upphafi. Ljóst er að styttri nýtingartími á auðlindinni hefur í för með sér hærri arðsemiskröfu og því væntanlega hærra orkuverð.

Þetta má setja upp í einfalt tilbúið dæmi, en í töflunni hér að neðan má sjá hvaða áhrif stytting nýtingartímans myndi væntanlega hafa á orkuverð ef viðkomandi virkjun ætti að geta borið sig. Við miðum hér við litla jarðvarmavirkjun með 10 megavatta (MW) uppsettu afli og gefum okkur að byggingarkostnaður sé um 2,2 milljónir dollara fyrir hvert MW, eða tæpar 260 milljónir króna á genginu 118. Nýtingarhlutfall virkjunarinnar er áætlað 63% (framleiðsla fyrir almennan markað), rekstrar- og viðhaldskostnaður er áætlaður 2% af fjárfestingunni, veginn fjármagnskostnaður er áætlaður 7,5% (sem um leið er þá lágmarksarðsemiskrafa) og loks er verðbólga á líftíma virkjunarinnar áætluð 2,5%. Til þess að hægt sé að afskrifa þessa virkjun á 65 ára tímabili þarf orkuverðið að vera að minnsta kosti 2,82 krónur á kílóvattstund (kWst). 

Dæmi um áhrif styttingar líftíma virkjunar á orkuverð
Orkuverð (heildsala, kr.) Líftími virkjunar, ár Hækkun frá 65 ára líftíma
2,82 65  
3,08 40   9,2%
3,39 30 20,2%

Ef við hins vegar styttum líftíma virkjunarinnar niður í 40 ár þá þarf þetta sama orkuverð, að öðrum forsendum óbreyttum, að vera að minnsta kosti 3,08 krónur per kWst, eða 9,2% hærra. Sé líftíminn enn styttur niður í 30 ár þarf orkuverðið að vera að minnsta kosti 3,39 krónur, 20,2% hærra en ef líftíminn væri 65 ár.

Njótum ódýrrar orku
Við Íslendingar njótum einhvers lægsta raforkuverðs sem þekkist á Vesturlöndum. Á dögunum kom þannig fram að eftir að boðaðar gjaldskrárhækkanir Orkuveitu Reykjavíkur taka gildi mun raforkukostnaður í öðrum höfuðborgum Norðurlandanna eftir sem áður verða frá 28% (í Helsinki) til 203% (í Kaupmannahöfn) hærri en hjá íbúum á veitusvæði Orkuveitunnar, miðað við sömu raforkunotkun. Ef borinn er saman húshitunarkostnaður milli þessara sömu höfuðborga er munurinn enn meiri, Íslendingum í hag. Þessi lági orkukostnaður er hins vegar ekki sjálfgefinn. Stytting leyfilegs samningstíma um aðgang að orkuauðlindum þýðir að sjálfsögðu hærri arðsemiskröfu og því væntanlega hærra orkuverð til heimila, fyrirtækja og stofnana.

Jarðhitanýting: Búnaður og þekking á leið úr landi

 

Ályktun stjórnar Samorku:

Jarðhitanýting: Búnaður og þekking á leið úr landi
framkvæmdir verða dýrari og flóknari,
viðhald og öryggismál sett í uppnám

Stjórn Samorku lýsir verulegum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin vegna tafa á verkefnum í jarðhitanýtingu hérlendis. Á örfáum misserum hefur orðið gríðarlegur tekjusamdráttur hjá lykilþjónustuaðilum orkufyrirtækja á borð við Jarðboranir, ÍSOR-Íslenskar orkurannsóknir og verkfræðistofurnar. Miklum fjölda sérhæfðs starfsfólks hefur verið sagt upp störfum eða það horfið til verkefna erlendis. Á sama hátt er verið að undirbúa flutning jarðhitabora úr landi. Þessar tafir geta aðeins leitt til þess að sérþekking í rannsóknum og orkunýtingu hérlendis glatast, sem hefur í för með sér að í framtíðinni verða framkvæmdir dýrari og flóknari en ella og verulega mun draga úr nauðsynlegum rannsóknum og þróun á jarðhitakerfum landsins. 

Þessi þróun mun ennfremur hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir almennt viðhald á jarðhitamannvirkjum í rekstri, og hefur ekki síður alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur og öryggismál þeirra virkjana og hitaveitna sem starfandi eru. Sérhæfðan búnað og starfsfólk hefur þurft og mun í framtíðinni þurfa að kalla til með stuttum fyrirvara til að lagfæra og eða hemja jarðhitaholur vegna bilana, útfellinga eða óvæntra atburða á borð við jarðskjálfta. Án teljandi verkefna á sviði nýframkvæmda er hins vegar erfitt ef ekki ómögulegt að halda hér úti slíkri viðbúnaðargetu.

Til að tryggja áfram aðgengi að þeirri sérhæfðu þjónustu sem jarðhitanýting þarf á að halda hvetur stjórn Samorku stjórnvöld og aðra hlutaðeigandi til að greiða götu þeirra arðbæru verkefna sem íslensk orkufyrirtæki hafa verið með í undirbúningi svo þau komist til framkvæmda sem fyrst.

Segulsvið á Íslandi svipað og í Svíþjóð

Geislavarnir ríkisins og Brunamálastofnun hafa gert rannsókn á segulsviði í rúmlega 130 íbúðum. Niðurstöður benda til að segulsviðið í íbúðum á Íslandi sé svipað og í Svíþjóð og frágangur raflagna á Íslandi og í Svíþjóð er sambærilegur. Niðurstöðurnar gefa ekki tilefni til umfangsmeiri rannsókna á segulsviði í íbúðarhúsnæði á Íslandi, að mati stofnanna. Sjá nánar á vefsíðu Brunamálastofnunar.

Þrír Íslendingar í stjórn Alþjóðajarðhitasambandsins (IGA)

Í sumar fóru fram rafrænar kosningar til stjórnar Alþjóðajarðhitasambandsins (IGA). Þrír Íslendingar voru í kjöri og allir fengu þeir margfalt atkvæðavægi Íslands og náðu glæsilegu kjöri til setu í 30 manna stjórn félagsins næstu þrjú árin. Þessi niðurstaða hlýtur að endurspegla virðingu fagmanna á jarðhitasviðinu gagnvart starfi íslenskra kollega og viðleitni okkar til að stuðla að frekari útbreyðslu jarðhitanýtingar í heiminum. Sjá nánar á vef Jarðhitafélags Íslands.

Magmahringekjan

Blaðagrein Franz Árnasonar, formanns Samorku:

Samorka, sem eru samtök orku-og veitufyrirtækja, hafa til þessa setið hjá í þeim dansi sem stiginn hefur verið á hinum pólitíska vettvangi að undanförnu varðandi kaup hins kanadíska fyrirtækis Magma á hlut í HS-orku, í gegnum sænskt dótturfélag. HS-orka, Orkuveita Reykjavíkur og önnur þau orkufyrirtæki sem eru aðilar að Magmaumræðunni eru öll aðilar að Samorku og því eðlilegt að Samorka láti sig málið varða. Starfsemi Samorku felst m.a. í því að tryggja,að félagar innan samtakanna starfi samkvæmt þeim lögum og reglum og því starfsumhverfi sem fyrirtækjunum er búið á hverjum tíma. Stjórnvöld og Samorka hafa átt farsælt samstarf í áranna rás varðandi umbætur á rekstrarumhverfi þessa mikilvæga málaflokks innan samfélags okkar. Því skal fullyrt að aðildarfélagar samtakanna hafa lagt metnað sinn í að starfa samkvæmt þeim lögum sem í gildi hafa verið á hverjum tíma og ekki stundað nokkur undanskot hvað það varðar.

Farið að lögum
Því er það mjög óþægilegt, svo ekki sé fastar kveðið að orði, að verða vitni að því hvernig rætt er um orkufyrirtækin sem koma að Magmamálinu og þeim núið um nasir lögbrotum og óeðlilegum starfsháttum. Innan samtakanna sjá menn ekki annað en að við sölu á hlutum í HS Orku hf. hafi verið farið eftir þeim lögum sem gilda um mál af þessu tagi. Ef lögin eru gölluð eða samrýmast ekki þjóðarvilja þá er það löggjafans að  breyta lögunum. Þó skal haft í huga að slíkar lagabreytingar má ekki gera eftir dagspöntunum þegar einstökum þegnum eða þingmönnum finnast lögin ósanngjörn og umræða um afturvirk lög á aldrei rétt á sér.

Í Magmamálinu hafa allar staðreyndir legið fyrir í marga mánuði og lagaramminn hefur verið fyrir hendi. Aðdragandinn er líka það langur og ferlið allt á þann veg að stjórnvöld hafa haft fulla vitneskju um málsatvik og því oft haft tækifæri til að koma þar að, annað hvort sem kaupendur eða með því að breyta lögum í tæka tíð. 

Auðlindin áfram í opinberri eigu
Margsinnis hefur komið fram að hér er ekki verið að selja auðlind. Hér er um að ræða að leigja aðgang til nýtingar á auðlind um ákveðin tíma. Auðlindin  verður áfram  í eigu opinberra aðila sem njóta munu afraksturs af þeirri eign auk þess sem nýtingin er undir ströngu eftirliti Orkustofnunar. Einu gildir í raun í þessu sambandi hvort orkuframleiðandinn er í opinberri eigu, innlendur eða erlendur. Ríkið setur lagarammann og ríkið stýrir nýtingunni í raun, t.d. í gegnum virkjunarleyfisskilmála hverju sinni.

Bent hefur verið á að æskilegt hefði verið að innlendir aðilar hefðu keypt fala hluti í HS-orku og hafa lífeyrissjóðir landsmanna verið nefndir. Víst er um að lífeyrissjóðirnir skoðuðu málið vandlega en féllu frá hugmyndinni. Við getum velt fyrir okkur ástæðunum, en skyldi ástæðan vera sú að arðurinn af rekstri orkufyrirtækja sé ekki slík auðsuppspretta sem stundum er látið í veðri vaka?

Eitt er víst að ef ætlunin er að nýta orkuauðlindirnar til framfara fyrir borgara þessa lands, þá þarf að virkja þær.  Orkulind skapar ekki arð og atvinnu nema hún sé virkjuð. Til að virkja orkuauðlindir þarf fjármagn sem tæpast er tiltækt hjá ríkissjóði eða öðrum innlendum aðilum og því er erlent fjármagn nauðsynlegt. Nú hefur erlendur aðili, sem sérhæfir sig á þessu sviði, gefið sig fram og er tilbúinn til að taka þátt í uppbyggingunni, samkvæmt íslenskum lögum, og taka áhættuna sem því fylgir. Þeim mun undarlegra er að þegar svo er komið skulu nokkrir alþingismenn og jafnvel ráðherrar gera  því skóna að æskilegt og jafnvel nauðsynlegt sé að stöðva þetta ferli.

Áhrif á orðspor Íslands
Það er ef til vill ekki í verkahring samtaka á borð við Samorku að segja stjórnvöldum fyrir verkum en með hliðsjón af því góða samstarfi sem ávallt hefur ríkt milli þessara aðila, þá er ekki óeðlilegt að samtökin vari við afleiðingunum þess að grípa til óyndisúrræða. Síkur gjörningur hefur ekki bara áhrif á þetta ákveðna kanadíska fyrirtæki, heldur mun þetta hafa áhrif á orðspor okkar sem ekki er of gott fyrir. Aðrir erlendir aðilar sem  kunna að vera tilbúnir til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi í framtíðinni munu hugsa sinn gang ef farið verður offari af hálfu stjórnvalda í þessu máli.  

Ráðherrann leiðréttur – aftur

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

Þegar umhverfisráðuneytið sendi frá sér frétt á dögunum í tilefni útgáfu reglugerðar um brennisteinsvetni í andrúmslofti leituðu tilteknir fjölmiðlar álits Samorku. Þá fannst okkur meðal annars nauðsynlegt að leiðrétta meinlegan misskilning ráðuneytisins í fréttinni, sem við gerðum einnig beint við ráðuneytið. Því miður birtist síðan sama villan í grein umhverfisráðherrans í grein hér í blaðinu nokkrum dögum síðar og því er rétt að halda leiðréttingunni áfram til haga.

Í greininni heldur ráðherrann því fram að viðmiðunarmörk Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) um magn brennisteinsvetnis í lofti miðist við bráðaáhrif. Það er rangt, í besta falli afar villandi framsetning. Mörk WHO eru þannig einn hundraðasti af því sem möguleg bráðaáhrif eru skilgreind við. Viðmiðunarmörk WHO eru 150 míkrógrömm í hverjum rúmmetra lofts að meðaltali á sólarhring. Bráðamörkin eru 15.000 míkrógrömm að meðaltali yfir 8 klukkustundir. WHO lætur einmitt almenning njóta vafans með því að setja sín viðmiðunarmörk við 1% af skilgreindum bráðamörkum.

Hellisheiðarvirkjun, sem ráðherra hefur vísað til í þessu sambandi, var tekin í notkun haustið 2006. Á þeim 1.400 dögum sem liðnir eru síðan hefur brennisteinsvetni í byggð aðeins einu sinni farið yfir mörk WHO. Aðrar virkjanir, margar mun minni og fjær allri byggð, munu þurfa að sæta þessum sömu reglum með miklum tilkostnaði.

Í grein sinni, um að verið sé að draga úr mengun jarðvarmavirkjana, tínir ráðherrann til að mörkin séu ennþá strangari í Finnlandi. Hjá Samorku er okkur ekki kunnugt um að Finnar státi af jarðvarmavirkjunum. Þeir gætu því eins skilgreint þessi mörk við núll. Við gætum að sama skapi án nokkurra vandamála skákað Finnum og sett hér mun strangari reglur en þeir hafa gert um rekstur kjarnorkuvera.

Ekki góð stjórnsýsla
Nú er í gildi hér á landi almenn reglugerð sem setur mörk um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu. Í stað þess að bæta brennisteinsvetni við upptalninguna í þeirri reglugerð kaus ráðherrann að setja sérstaka reglugerð um brennisteinsvetni, sem er samhljóða hinni í nær öllum atriðum. Þetta mun seint teljast góð stjórnsýsla.

Hvað brennisteinsvetnið varðar kýs ráðherrann að draga mörkin við einn þriðja af WHO mörkunum, en engin fagleg rök fylgja þeirri ákvörðun. Athyglisvert er að eldri reglugerðin skilgreinir mörk brennisteinsdíoxíðs – sem gjarnan tengist bílaumferð – í lofti hér á landi liðlega sexfalt hærri en WHO mælir með.

Landsvirkjun undirritar nýjan samning um orkusölu við Alcan á Íslandi

Landsvirkjun og Alcan á Íslandi hafa samið um orkusölu til álversins í Straumsvík. Samningurinn er undirritaður með hefðbundnum fyrirvörum, meðal annars samþykki stjórna beggja félaganna. Annars vegar er endursamið um verð á núverandi orkusölu til álversins (2.932 GWst) og hins vegar er samið um afhendingu viðbótar orku (658 GWst) vegna áætlaðrar framleiðsluaukningar álversins.

Nýtt raforkuverð tekur gildi 1. október 2010. Það er í bandaríkjadölum, verðbætt miðað við bandaríska neysluvísitölu og er álverðstenging afnumin. Til að mæta aukinni orkusölu mun Landsvirkjun ráðast í byggingu Búðarhálsvirkjunar og verða útboð auglýst á næstu vikum. Gert er ráð fyrir að afhending orku frá virkjuninni hefjist árið 2013.

Sjá nánar á vef Landsvirkjunar.