Hreint vatn er forsenda allrar matvælaframleiðslu

Vatn er undistaða alls lífs og hreint vatn er forsenda allrar matvælaframleiðslu, sagði Eðvald Sveinn Valgarðsson, gæðastjóri Kjarnafæðis, í erindi sínu í málstofu Samorku á umhverfisdegi atvinnulífsins.

Eðvald fjallaði m.a. um hringrás vatnsins, fjölbreytta vatnsnotkun í matvælaframleiðslu, gæðavottanir, örverumælingar, afhendingaröryggi, góð samskipti við vatnsveitu og mikilvægi áreiðanlegra vatnsgæða í öllu ferlinu. Alls liggur notkun á 70 þúsund tonnum af vatni að baki framleiðslu fyrirtækisins á þremur þúsundum tonna af kjötvöru.

Þá fjallaði Eðvald m.a. um ISO 9001 gæðastaðalinn, sem felur í sér eftirlit og keðju vöktunar frá fyrsta frumframleiðanda til afhendingar vörunnar til viðskiptavinar. Allt framleiðsluferlið er vaktað og þar er hreinleikinn lykilatriði.

Erindi Eðvalds: Veituþjónusta og matvælaframleiðsla (PDF 797 KB)

ON hlaut umhverfisverðlaun atvinnulífsins

Orka náttúrunnar hlaut umhverfisverðlaun atvinnulífsins fyrir umhverfisframtak ársins, á umhverfisdegi atvinnulífsins sem SA, Samorka og önnur aðildarfélög SA stóðu að.

Verðlaunin hlaut fyrirtækið fyrir uppbyggingu á neti hraðhleðslustöðva og áform um frekari uppbyggingu þeirra, en í rökstuðningi dómnefndar segir að rafvæðing samgangna sé ein besta leiðin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Sjá nánar hér á vef ON.

Gagnrýni á veikum grunni

Morgunblaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samorku:

Í Morgunblaðsgrein laugardaginn 19. september fer formaður Landverndar mikinn í gagnrýni sinni á bæði forstjóra og kerfisáætlun Landsnets, í kjölfar viðtals við forstjórann í sama blaði. Ekki verður brugðist við öllum þeim ummælum hér. Rétt er þó að minna á að skv. 9. grein raforkulaga nr. 65/2003 er það skylda Landsnets að byggja flutningskerfi raforku upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni og áreiðanleika afhendingar. Núverandi staða flutningskerfis raforku torveldar uppbyggingu atvinnulífs víða um land og þörf uppbyggingar og eflingar kerfisins er orðin knýjandi. Óskandi er að farsæl afgreiðsla kerfisáætlunar Landsnets geti markað upphaf þessarar nauðsynlegu uppbyggingar, sem til dæmis ýmis iðnfyrirtæki á Norðurlandi og fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi hafa ítrekað kallað eftir.

Formaður Landverndar rifjar í grein sinni upp skýrslu sem kanadíska fyrirtækið Metsco vann fyrir Landvernd, um jarðstrengi og loftlínur til raforkuflutnings. Fjallar hann um niðurstöður skýrslu Metsco þess efnis að líftímakostnaður við 132 kV jarðstrengi sé sá sami og við 132 kV loftlínur og einungis 25% hærri við 220 kV strengi en við sambærilegar loftlínur.

Úttekt EFLU á skýrslu Metsco
Í kjölfar útgáfu umræddrar skýrslu Metsco tók EFLA verkfræðistofa saman all ítarlega greinargerð, í samstarfi við Friðrik Má Baldursson prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, þar sem skoðaðar voru forsendur og útreikningar skýrslunnar. Meðal annars er þar bent á mikilvægi þess að meta á raunhæfan hátt kostnað við raforkutöp í flutningskerfinu og kostnað við rekstur og viðhald flutningsmannvirkja. Þá er sagt afar mikilvægt að skoða hvert tilvik fyrir sig út frá aðstæðum á lagnaleið og því erfitt að draga ályktanir út frá einu dæmi. Munur út frá forsendum Metsco reyndist við útreikninga EFLU ýmist meiri eða minni en fram kemur í skýrslu Metsco. Loks skal hér nefnt úr greinargerð EFLU að aðstæður til strenglagningar eru nokkuð aðrar hér en í nágrannalöndum, varmaleiðni jarðvegs er minni hér og aðstæður víða erfiðar fyrir strenglagnir svo sem á hraunasvæðum.

Þessar niðurstöður EFLU fengu meðal annars kynningu á málþingi Verkfræðingafélags Íslands um loftlínur og jarðstrengi. Það kemur á óvart að formaður Landverndar skuli, í kjölfar greinargerðar EFLU, styðjast við umrædda skýrslu Metsco þegar hann gagnrýnir kerfisáætlun Landsnets og forstjórann sömuleiðis.

Umhverfisdagur atvinnulífsins og málstofa Samorku 30. september

Samtök atvinnulífsins, Samorka og önnur aðildarfélög SA standa fyrir umhverfisdegi atvinnulífsins á Hilton Nordica miðvikudaginn 30. september. Í sameiginlegri dagskrá verður m.a. fjallað um ábyrga nýtingu auðlinda og um Auðlindagarðinn á Suðurnesjum, auk þess sem veitt verða umhverfisverðlaun atvinnulífsins.

Í málstofu Samorku fjallar Guðni Elísson prófessor um umhverfissýn á tímum loftslagsbreytinga, Eðvald Sveinn Valgarðsson gæðastjóri Kjarnafæðis um veituþjónustu og matvælaframleiðslu og Raghneiður Ólafsdóttir umhverfisstjóri Landsvirkjunar um mat á sjálfbærni.

Sjá nánar um dagskrá á vef Samtaka atvinnulífsins.

113 þúsund heimsóttu virkjanir 2014

Nokkur orkufyrirtæki hafa byggt upp gestastofur til að taka á móti ferðamönnum. Árið 2014 var gestafjöldi í nokkrum af helstu gestastofunum um 113 þúsund gestir. Þar af voru um 94 þúsund sem heimsóttu jarðhitasýninguna við Hellisheiðarvirkjun. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var af fræðimönnum við land- og ferðamálafræðideild Háskóla Íslands, en þar segir að hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hérlendis veki athygli ferðamanna. Um 12.500 heimsóttu gestastofur Landsvirkjunar við Búrfellsvirkjun og Kröfluvirkjun, tæplega 5.800 heimsóttu orkuverið á Reykjanesi og sýninguna Orkuverið Jörð og um 700 tóku þátt í skipulögðum gönguferðum um Reykjanes sem styrktar eru af Bláa lóninu, HS Orku og HS Veitum.

Rannsóknin fjallar um áhrif vindmylla í Búrfellslundi á ferðaþjónustu og íbúa og var unnin í samstarfi við Landsvirkjun. Rannsókninni stýrðu Rannveig Ólafsdóttir, prófessor við land- og ferðamálafræðideild Háskóla Íslands, og Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent í ferðamálafræði við sama skóla. Ofangreindar upplýsingar um heimsóknir í gestastofur orkufyrirtækja má nálgast í skjalinu hér á vef Landsvirkjunar (sjá kafla 2.2, bls. 17 (22 í rafrænu skjali).

Vísindaferð VAFRÍ 8. október – Vatns- og fráveitumál á Þingvöllum

Haustviðburður VAFRÍ – Vatns- og fráveitufélags Íslands verður haldinn fimmtudaginn 8. október næstkomandi. Í ár verða Þingvellir heimsóttir og verður boðið upp á fræðslu um aðgerðir og áskoranir sem tengjast vatns- og fráveitum á svæðinu. Nánari upplýsingar um dagskrá ferðarinnar og skráningu má sjá hér að neðan:

Drög að dagskrá:

  • 12:30 – Rúta leggur af stað frá bílaplani Orkuveitu Reykjavíkur
  • 13:30-15:00 – Einar Sæmundsen, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins á Þingvöllum, kynnir vatns- og fráveitur innan þjóðgarðsins og sumarbústaðasvæðisins í landi Kárastaða
  • Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri OR, segir frá vatnsverndarmálum við Nesjavelli
  • Stefnt er á að skoða fráveitumál við ION hótel
  • Stefnt er að því að vera komin til baka á bílaplan Orkuveitu Reykjavíkur fyrir kl. 18

Skráning er í ferðina á vefslóðinni https://ugla.hi.is/K2/eydublad.php?sid=135&fid=7348 

Jarðhitafélag Íslands styrkir háskólanema

Líkt og undanfarin ár styrkir Jarðhitafélag Íslands háskólanema í jarðhitatengdu námi til að sækja fjölþjóðlega jarðhitaráðstefnu, að þessu sinni 2 styrki um allt að kr. 300 þúsund hvor styrkur.

Niðurstaða stjórnar JHFÍ var sú að styrkina hlytu Elvar Bjarkason, doktorsnemi í jarðhitaverkefni við University of Auckland í Nýja Sjálandi og Sigrún Brá Sverrisdóttir, meistaranemi í orkuverkfræði við Háskólann í Reykjavík.

 

Er ávinningur af raforkustreng til Bretlands? – Fundur 22. september

Þriðjudaginn 22. september býður bresk-íslenska viðskiptaráðið til opins fundar um lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands undir yfirskriftinni Interconnecting Interests. Fundurinn verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica og hann munu m.a. ávarpa Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og fulltrúar Greenpeace í Bretlandi og orkufyrirtækjanna PowerBridge og National Grid.

Sjá nánar um fundinn og skráningu hér.

Dalvíkurbyggð hefur látið gera skýrslu um smávirkjanir

Að frumkvæði sveitarfélagsins hefur Mannvit gert úttekt og lagt fram skýrslu um helstu virkjunarkosti í byggðarlaginu. Efni fundarins var fyrst og fremst kynning á skýrslunni, sem höfundar hennar önnuðust. Þá voru einnig flutt erindi um raforkuöryggi í Eyjafirði, raforkuflutning, raforkumarkaðinn, tækifæri fyrir smávirkjanir, beislun vindorkunnar og tengingar smávirkjana við orkukerfið.

Dagskrá fundarins og skýrslu Mannvits er að finna á heimasíðu Dalvíkurbyggðar: Smellið hér

Fundurinn var fjölsóttur og fram kom mikill áhugi fundarmanna um beislun orkunnar í héraði, en einnig voru skiptar skoðanir á flutningi raforku milli landshluta.

Samorka þakkar Dalvíkurbyggð fyrir það frumkvæði sem sveitarfélagið sýnir með gerð og kynningu þessa verkefnis.