1. febrúar 2017 Landsnet og Landsvirkjun gera nýjan samning um reiðuafl Landsnet og Landsvirkjun hafa gert samning um kaup og sölu á reiðuafli. Um er að ræða 40 MW af alls 100 MW reiðuafli sem Landsvirkjun hefur selt Landsneti á undanförnum árum. Nýi samningurinn tekur við af eldri samningi sem gerður var árið 2005. Reiðuafl er afl sem notað er til þess að stýra tíðni flutningskerfisins með því að bregðast á fljótvirkan og sjálfvirkan hátt við sveiflum í notkun og framleiðslu raforku, en ómögulegt er að sjá nákvæmlega fyrir slíkar sveiflur. Reiðuaflssamningar milli fyrirtækjanna eru þrír. Sá sem nú er endurnýjaður felur í sér 30 MW afl frá stöðvum á Þjórsársvæði og 10 MW afl frá Blöndustöð. Hinir samningarnir eru 30 MW hvor, frá Fljótsdalsstöð og Þjórsársvæði. Tilgangur samningsins er að tryggja þennan lögboðna hluta kerfisþjónustu Landsnets sem er nauðsynlegur til þess að halda uppi gæðum rafmagns um land allt. Breyttar aðstæður og þrengri aflstaða Nýting íslenska raforkuvinnslukerfisins eykst stöðugt og eftirspurn eftir orku er meiri en framboð. Verð í hinum nýja samningi tekur mið af nýgerðum samningum Landsvirkjunar við sölufyrirtæki raforku og byggir m.a. á áætluðum kostnaði við fjárfestingu í auknu afli í raforkukerfinu við núverandi aðstæður. Landsnet mun birta reiðuaflssamninginn á heimasíðu sinni.