Landsvirkjun fær gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC í þriðja sinn

Þorkell Guðmundsson ráðgjafi hjá PwC afhendir fulltrúum Landsvirkjunar viðurkenningu fyrir Gullmerki PwC, sem Elín Pálsdóttir og Þórhildur A. Jónsdóttir, sérfræðingar á starfsmannasviði, og Sturla Jóhann Hreinsson, starfsmannastjóri, veittu viðtöku.

Landsvirkjun hefur hlotið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC fyrir árið 2017 og er þetta í þriðja skipti sem fyrirtækið fær þessa viðurkenningu. Einungis eitt annað fyrirtæki hefur farið þrisvar sinnum í úttektina og staðist í öll skiptin.

PwC hefur gert 65 jafnlaunaúttektir og aðeins einu sinni mælt jafnlítinn mun og nú mælist hjá Landsvirkjun: 0,4% fyrir heildarlaun.

Úttektin, sem gerð var í september, leiddi í ljós að grunnlaun karla innan fyrirtækisins væru 2,3% hærri en grunnlaun kvenna. Heildarlaun karla voru 0,4% hærri en heildarlaun kvenna. Sá launamunur sem er á grunn- og heildarlaunum er innan þeirra marka sem PwC hefur sett varðandi góðan árangur í jöfnum launum kynja.

Landsvirkjun vill stuðla að jafnrétti og vinnur eftir jafnréttisstefnu og aðgerðaráætlun jafnréttismála, samkvæmt lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla nr. 96/2000. Í jafnréttisstefnunni segir m.a. að karlar og konur skuli fá greidd sömu laun og sömu kjör fyrir sömu störf. Þá segir að stjórnendur og starfsfólk skuli vinna að því að útrýma kynbundnum störfum innan fyrirtækisins, þannig að engin störf skuli vera flokkuð sem karla- eða kvennastörf.

 

Sjá má jafnréttisstefnu Landsvirkjunar á heimasíðu fyrirtækisins.

Landsnet bakhjarl KíO

Við undirskrift bakhjarlssamningsins – Harpa Pétursdóttir formaður KíO og Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets sitja við borðið.

Landsnet og Konur í orkumálum skrifuðu nýlega undir samning sem kveður á um að Landsnet bætist í hóp bakhjarla félagsins til næstu tveggja ára.

„Fyrir okkur hjá Landsneti skiptir miklu máli að taka virkan þátt í að auka hlut kvenna í orkugeiranum. Hjá okkur starfar öflugur hópur kvenna með fjölbreytta menntun en í ákveðnum starfsgreinum vantar okkur konur til starfa. Hlutfallið hjá okkur er í dag 20/80 en þegar kemur að stjórnunarstöðum og stjórninni okkar er kynjahlutfallið jafnara. Félag eins og Konur í orkumálum skiptir miklu máli til að vinna með fyrirtækjum innan geirans að því að gera störfin sem við bjóðum upp á eftirsóknarverð og sýnileg fyrir jafnt konur sem karla. Við erum stolt af því að vera bakhjarl samtakanna„ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Félagið Konur í orkumálum var stofnað þann 11. mars 2016. Félagið er samstarfsvettvangur kvenna sem starfa í eða hafa áhuga á orkumálum á Íslandi og er tilgangur félagsins að efla þátt kvenna í orkumálum og styrkja tengsl þeirra á milli.

„Það er mjög gott að fá fyrirtæki eins og Landsnet með okkur í að vinna að markmiði félagsins og þá sérstaklega vegna þess hve stór hópur iðn- og tæknimenntaðra starfar þar, en við viljum einmitt stuðla að fjölgun kvenna í þeim hópi.“ segir Harpa Pétursdóttir, formaður Kvenna í orkumálum.

Vilja auka notkun endurnýjanlegrar orku í fiskimjölsiðnaði

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í dag í Marshall húsinu við Grandagarð í Reykjavík.

Landsvirkjun og Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) hafa tekið höndum saman um að stuðla að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði.

Fiskmjölsframleiðendur hafa á undanförnum árum notast bæði við olíu og rafmagn í framleiðslu sinni, en þeir hafa keypt skerðanlegt rafmagn af raforkusölum sem Landsvirkjun hefur selt á heildsölumarkaði. Takmarkað framboð á slíku rafmagni og sveiflukennd eftirspurn hjá fiskmjölsframleiðendum hefur gert að verkum að olía hefur verið nauðsynlegur varaaflgjafi í mjölvinnslunni og komið í stað rafmagns þegar á hefur þurft að halda.

Með viljayfirlýsingu sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Jón Már Jónsson, formaður FÍF, skrifuðu undir í dag er markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu enn umhverfisvænni með því ýta undir notkun rafmagns við vinnsluna, draga þar með úr losun koltvísýrings og styðja um leið við markmið Parísarsamkomulagsins og skuldbindingar Íslands samkvæmt því.

Landsvirkjun lýsir því yfir að fyrirtækið muni á næstu árum stuðla eins og hægt er að auknu framboði á skerðanlegu rafmagni á heildsölumarkaði. Um leið ætlar FÍF að stuðla að því að félagsmenn horfi til þess að gera mjölframleiðsluna enn umhverfisvænni og noti endurnýjanlega orkugjafa í stað annarra mengandi orkugjafa. Stefnir FÍF að því að félagsmenn noti skerðanlegt rafmagn eins mikið og framboð og flutningar á slíku rafmagni leyfa.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Landsvirkjunar.

Hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns

EIMUR, í samstarfi við Íslensk verðbréf og Vaðlaheiðargöng hf, efnir til hugmyndasamkeppni um nýtingu lághitavatns á Norðurlandi eystra með áherslu á nýtingu heita vatnsins í Vaðlaheiðargöngum.

Um er að ræða almenna hugmyndasamkeppni og hún er öllum opin. Engar skorður eru settar varðandi það hverskonar nýting er lögð til, því ætlunin er að fá fram fjölbreyttar hugmyndir um hvernig nýta má lághitavatn.

Veitt verða verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar, þar af nema fyrstu verðlaun ekki lægri upphæð en 1.500.000 kr.

 

Allar nánari upplýsingar um keppnina má finna á heimasíðu EIMS.

Aðdragandi keppninnar er sá að í febrúar árið 2014 komu bormenn verktaka Vaðlaheiðarganga inn á vatnsæð í göngunum sem er um 46°C heit. Nú hefur komið í ljós að hitastig og vatnsmagn virðist nokkuð stöðugt og ljóst að þarna er um töluverða auðlind að ræða sem í dag rennur ónýtt út i sjó. Sambærilegar ónýttar lághitaauðlindir liggja víðsvegar um svæðið og verður þess vegna einnig opið á að skila inn hugmyndum um nýtingu þeirra.

 

Verkefnastjóri á sviði rafmagns

Samorka óskar eftir að ráða drífandi einstakling sem býr yfir miklu frumkvæði, skipulögðum vinnubrögðum og getu til að sinna mikilvægum og spennandi verkefnum.

Samorka eru samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Aðildarfélög Samorku eru um 50 talsins og með starfsemi um allt land. Samtökin eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins og eru staðsett í Húsi atvinnulífsins að Borgartúni 35.

Hlutverk samtakanna er að starfrækja trúverðugan, fræðandi og jákvæðan vettvang um starfsemi orku- og veitufyrirtækja og styrkja þannig stöðu þeirra og rekstur.

Helstu verkefni:
• Móta starfsumhverfi orku- og veitugeirans.
• Umsjón með starfi fag- og málefnahópa sem starfa á vettvangi samtakanna.
• Skipulagning og umsjón með framkvæmd opinna funda um málefni orku- og veitugeirans.
• Skipulagning námskeiða og fræðslu fyrir aðildarfyrirtæki samtakanna og geirann í heild.
• Samstarf við ráðuneyti og opinberar stofnanir.
• Eftirfylgni með nýrri stefnu samtakanna.

Menntunar- og hæfniskröfur
• Verkfræði/tæknifræði eða önnur menntun sem nýtist í starfi.
• Frumkvæði, sjálfstæð og öguð vinnubrögð.
• Færni og lipurð í mannlegum samskiptum.
• Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti, bæði á íslensku og ensku.

Bæði konur og karlmenn eru hvött til að sækja um starfið.
Umsóknir skulu sendar til framkvæmdastjóra, Páls Erlands (pall@samorka.is), sem einnig veitir upplýsingar um starfið. Umsóknarfrestur er til 4. apríl.

Raforkunotkun dróst saman

Raforkunotkun almennings árið 2016 dróst saman um 4,3% miðað við árið á undan. Þá dróst raforkuvinnsla einnig saman um 1,3% og töp við flutning raforku til almenningsveitna og stórnotenda minnkuðu um 3,1%.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Orkuspárnefnd, sem er samstarfsvettvangur nokkurra helstu fyrirtækja, stofnana og samtaka í orkuiðnaði hér á landi auk Hagstofu Íslands, Fasteignamats ríkisins og fjármálaráðuneytisins.

Orkuspárnefnd hefur tekið saman þrjár mögulegar ástæður fyrir samdrættinum á milli ára. Í fyrsta lagi var veðurfar gott árið 2016, en lofthiti í Reykjavík var 1,5 gráðu hærri það ár en árið 2015. Í öðru lagi var loðnuafli mun minni árið 2016 en á árinu á undan, en loðnuvinnsla krefst mikillar raforkunotkunar. Loðnuaflinn var 100 þúsund tonn í fyrra en var 350 þúsund tonn árið 2015. Í þriðja lagi fluttist afhending raforku til gagnavera yfir á flutningskerfið ekki fyrr en um mitt árið 2016, en var áður í dreifikerfi raforku.

ON og N1 í samstarf um hleðslustöðvar

ON og N1 ætla að reisa hlöður við hringveginn

Orka náttúrunnar og N1 ætla í sameiningu að reisa hlöður fyrir rafbíla meðfram helstu þjóðvegum landsins. Stjórnendur fyrirtækjanna hafa skrifað undir samkomulag um að hlöður ON rísi á afgreiðslustöðvum N1 víðsvegar um land.

ON er í forystu um uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum og hefur þegar reist 13 hlöður í samstarfi við ýmsa aðila, þar á meðal N1. ON stefnir að því að opna allan hringveginn fyrir rafbílum á næstu misserum. ON hefur líka aukið mjög upplýsingagjöf til rafbílaeigenda með útgáfu smáforritsins ON Hleðsla fyrir Android og iPhone. ON Hleðsla veitir meðal annars upplýsingar um vegalengd í næstu hlöðu, hvar hún er, hvaða hleðslubúnaður er í henni og hvort hún er laus eða upptekin.

N1 rekur 95 stöðvar á Íslandi og þar með víðtækustu þjónustu hér landi fyrir bíla og bifreiðaeigendur. N1 var fyrsta fyrirtækið til að koma upp afgreiðslu á metani og færir með samkomulaginu enn út kvíarnar í umhverfisvænni orku í samgöngum.

Bæði fyrirtækin fengu styrk úr Orkusjóði í lok síðasta árs til að byggja upp innviði fyrir orkuskipti í samgöngum.

Nánar um samstarfið má lesa á heimasíðu ON.

„Planið“ gekk upp

Aðgerðaáætlunin sem Orkuveita Reykjavíkur hefur fylgt frá því snemma árs 2011 og nefnd er Planið gekk upp og vel það. Hún átti að skila liðlega 50 milljörðum króna í betri sjóðstöðu en niðurstaðan varð um 60 milljarðar. Þetta kemur fram í lokaskýrslu fyrirtækisins um Planið sem lauk um áramót.

Rekstrarafkoma er svipuð og síðustu ár en hátt gengi íslensku krónunnar skilar fyrirtækinu verulegum reiknuðum hagnaði. Hagnaðurinn nam 13,4 milljörðum króna á árinu. Arðsemi eigin fjár var 12,0%.

Frekari upplýsingar má sjá á heimasíðu OR.

 

Íslensk orka þjóðhagslega hagkvæm

Ávinningur þess að nota endurnýjanlega orkugjafa til raforkunotkunar og upphitunar heimila hleypur á tugum milljarða á hverju ári. Þrátt fyrir hvað mestu notkun rafmagns og vatns á Norðurlöndunum borga Íslendingar lægst hlutfall mánaðarlauna sinna fyrir.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, á ársfundi Samorku 2017. Mynd: Eva Björk

Þetta kom fram í erindi Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns efnahagssviðs SA, á ársfundi Samorku sem fram fór í Hörpu fimmtudaginn 2. mars. Fjallað var ítarlega um ávinning af notkun endurnýjanlegrar orku á Íslandi fyrir þjóðarbúið, heimili og umhverfið.

Sjá má erindi Ásdísar í heild sinni hér fyrir neðan.

Í OECD ríkjunum og á Norðurlöndum er mikið treyst á kol og olíu til raforkunotkunar og húshitunar fyrir almenning. Með því að nota innlenda, endurnýjanlega orkugjafa sparar íslenskt þjóðarbú sér árlegan viðbótarkostnað á bilinu 60-110 milljörðum króna, þar sem ekki þarf að flytja þá inn.

Íslendingar neyta langsamlega mest af vatni af íbúum Norðurlandanna, eru stórnotendur rafmagns og hita húsin sín vel. Þegar kostnaður heimila í Reykjavík vegna húshitunar, rafmagns, frá- og vatnsveitu er borinn saman við íbúa annarra höfuðborga á Norðurlöndum kemur þó í ljós að hann er bæði lægstur og minnsta hlutfall af árstekjum. Í Kaupmannahöfn þurfa hjón til dæmis að borga 730 þúsund krónur fyrir sama magn og hjón í Reykjavík sem borga 250 þúsund.

Í erindi Ásdísar kom einnig fram að losun koltvísýrings út í andrúmsloftið væri 13 sinnum meiri á Íslandi vegna raforku og húshitunar fyrir almenna notendur væri það framleitt með jafnháu hlutfalli óendurnýjanlegra orkugjafa og gert er að meðaltali á hinum Norðurlöndunum. Losunin væri enn meiri, eða 26 sinnum meiri en í dag, væri hlutfallið sambærilegt meðaltali ríkja OECD.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar – Ásdís Kristjánsdóttir from Samorka on Vimeo.

Mikilvægi orku- og veitugeirans áréttað

Á aðalfundi Samorku fimmtudaginn 2. mars, var ályktað um að árétta fjölþætt mikilvægi orku- og veitufyrirtækja fyrir íslenskt samfélag.

Starfsemi fyrirtækjanna er ein af grundvallarstoðum íslensks samfélags og frekari sjálfbærrar þróunar þess. Mikilvægt er að stjórnvöld gefi fyrirtækjunum svigrúm til að sinna áfram því mikilvæga og fjölþætta hlutverki að nýta auðlindir landsins á ábyrgan hátt til að standa undir framtíðarþörfum landsmanna.

Umhverfisábati grænnar orku og sjálfbærs veitureksturs er ómetanlegur, einkum nú þegar glímt er við hlýnun loftslags jarðar. Íslensk rafmagnsframleiðsla og húshitun skipar okkur í fremstu röð í heiminum í umhverfisvænni orkuframleiðslu og óvíst er að í nokkru öðru landi eigi jafn hátt hlutfall íbúa traustan aðgang að ómeðhöndluðu neysluvatni. Ennfremur hefur undanfarna áratugi verið lyft grettistaki í fráveitumálum landsmanna, en góð fráveita er eitt af stærstu umhverfismálum samtímans. Ekkert af þessu hefur komið af sjálfu sér, heldur hefur frumkvöðlastarf, markviss uppbygging, eldmóður og framsýni gert það að verkum að orku- og veitugeirinn hefur sinnt þörfum landsmanna um árabil.

Um þetta verður að standa vörð. Orku- og veitufyrirtækin eru meginstoð heimila og fyrirtækja í landinu og munu áfram spila stóran þátt í uppbyggingu samfélagsins. Nú blasir einnig við þjóðinni tækifæri til að taka stórt framfaraskref í umhverfis- og orkumálum; það er að rafvæða samgöngur að svo miklu leyti sem unnt er.

Fagmennska í starfi stjórnvalda skapar fyrirsjáanlegt starfsumhverfi sem er fyrirtækjunum nauðsynlegt til að sinna hlutverki sínu í þessu mikilvæga verkefni og öðrum sem þau inna af hendi í þágu heimila og fyrirtækja í landinu.