20. apríl 2018 Skráning hafin á norrænu vatnsveituráðstefnuna 2018 Norræna vatnsveituráðstefnan 2018 verður haldin 11.-13. júní í Osló, Noregi. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og þar koma saman sérfræðingar Norðurlandanna í vatnstengdum fræðum og fjalla um hinar ýmsu hliðar á vatnsveitum og drykkjarvatni. Metnaðarfull dagskrá verður í boði og fjallað um ýmist dreifikerfi vatns, rekstur vatnsveitna, fræðslu, gæði og meðhöndlun drykkjarvatns, vatnsvernd og fleira. Skráning á ráðstefnuna er hafin.
10. apríl 2018 Skipað í stjórn Landsvirkjunar í dag Á aðalfundi Landsvirkjunar, sem haldinn var í dag, skipaði fjármála- og efnahagsráðherra aðalmenn og varamenn í stjórn Landsvirkjunar samkvæmt lögum um fyrirtækið. Aðalmenn í stjórn Landsvirkjunar eru: Jónas Þór Guðmundsson, Álfheiður Ingadóttir, Jón Björn Hákonarson, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir og Gunnar Tryggvason. Úr stjórn fóru Haraldur Flosi Tryggvason, Kristín Vala Ragnarsdóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir en þau hafa setið í stjórn fyrirtækisins frá árinu 2017 og var þeim þakkað fyrir vel unnin störf. Varamenn í stjórn Landsvirkjunar eru: Jens Garðar Helgason, Ragnar Óskarsson, Ásta Pálmadóttir, Hákon Hákonarson og Arna Ír Gunnarsdóttir. Aðalfundurinn staðfesti skýrslu fráfarandi stjórnar og samstæðureikning fyrir liðið reikningsár, sem má finna í rafrænni ársskýrslu á landsvirkjun.is: arsskyrsla2017.landsvirkjun.is
4. apríl 2018 Eiríkur Bogason jarðsunginn á morgun Eiríkur Bogason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samorku, lést föstudaginn 23. mars síðastliðinn, 71 árs að aldri. Eiríkur lætur eftir sig eiginkonu, Guðbjörgu Ólafsdóttur, og tvö uppkomin börn. Eiríkur verður jarðsunginn fimmtudaginn 5. apríl kl. 13 frá Fossvogskirkju. Eiríkur fæddist í Vestmannaeyjum þann 24. janúar árið 1947. Hann lauk sveinsprófi í rafvirkjun 1967 og síðar námi í rafmagnstæknifræði frá Árósaháskóla í Danmörku árið 1984. Eiríkur starfaði sem veitustjóri Bæjarveitna Vestmannaeyja á árunum 1985 til 1995 og leiddi þar sameiningu vatns-, hita- og rafveitu bæjarins. Hóf hann síðan störf sem framkvæmdastjóri Samorku við stofnun samtakanna og starfaði þar uns hann lét af störfum sökum veikinda árið 2013. Samhliða störfum sínum gegndi Eiríkur ýmsum félags- og stjórnunarstöðum og sat í nefndum og ráðum á sviði orkumála og menntunar í tæknigreinum. Börn Eiríks eru þau Soffía Eiríksdóttir, sérfræðingur hjá Virk starfsendurhæfingarsjóði, og Karl Eiríksson, viðskiptastjóri hjá Samskipum.
27. mars 2018 Rafbílaeigendur komast hringinn Hópur við opnun hlöðunnar. Starfsfólk ON, Fosshótels, Skútustaðahrepps og Friðrik rafbíleigandi. Hraðhleðslustöð fyrir rafbíla hefur verið tekin í notkun við Mývatn. Þessi nýja viðbót ON í hraðhleðslustöðvum markar tímamót, því nú geta rafbílaeigendur ekið allan hringveginn og treyst því að hvergi séu meira en 100 kílómetrar á milli hleðslustöðva. Hlaðan stendur við Fosshótel í Reykjahlíð og auk hraðhleðslunnar er þar líka hefðbundin hleðsla (AC). Á milli Mývatns og Egilsstaða eru 165 kílómetrar og þar á milli er hlaða ON á Skjöldólfsstöðum í Jökuldal. Hún er nú búin AC hleðslu sem verður uppfærð fyrir sumarið. Friðrik Jakobsson sem starfar við ferðaþjónustu í Mývatnssveit fékk sér fyrstu hleðsluna að viðstöddum Þorsteini Gunnarssyni sveitarstjóra og Bjarna Má Júlíussyni, framkvæmdastjóra ON. Vorið 2017 – fyrir innan við ári – opnaði ON leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur og hefur ekki látið deigan síga síðan. Hlöður ON eru nú 31 talsins og á næstu vikum og mánuðum bætast um 20 við, á höfuðborgarsvæðinu og í öllum öðrum landshlutum. „Við hjá ON erum hvergi nærri hætt okkar uppbyggingu á innviðum fyrir orkuskipti í samgöngum. Nú fögnum við mikilvægum áfanga.“ sagði Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON við þetta tilefni. „Nýlegar kannanir sýna að Íslendingar eru tilbúnari en flestar aðrar þjóðir til að skipta yfir í rafbíl og til í að gera það fyrr. Við munum halda áfram að gera okkar besta til að auðvelda þeim slíka ákvörðun.“
14. mars 2018 Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála er stórt, hvort sem litið er til fortíðar eða framtíðar. Um þetta var fjallað á opnum ársfundi Samorku, sem fram fór 6. mars 2018 á Hilton Nordica. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, ávarpaði ársfundinn í upphafi hans. Ávarp – Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir from Samorka on Vimeo. Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, og Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri auðlinda HS Orku, skoðuðu hlutverk orku- og veitufyrirtækja í þeim orkuskiptum sem þegar hafa átt sér stað á Íslandi og hverju það hefur skilað í efnahags- og umhverfislegum skilningi. Einnig var litið til framtíðar og skoðað hvaða hlutverk orku- og veitustarfsemi getur leikið í alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála – Inga Dóra Hrólfsdóttir og Kristín Vala Matthíasdóttir from Samorka on Vimeo. Á fundinum var sameiginleg yfirlýsing orku- og veitufyrirtækja um kolefnishlutlausa starfsemi fyrir árið 2040 afhent þeim Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Þórdísi Kolbrúnu. Af því tilefni sagði Guðmundur Ingi nokkur orð og óskaði orku- og veitugeiranum meðal annars til hamingju með þetta markmið. Ávarp – Guðmundur Ingi Guðbrandsson from Samorka on Vimeo. Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, fjallaði í erindi sínu um verkefnið sem framundan er fyrir Ísland og heiminn allan í loftslagsmálum og lagði áherslu á að þetta er verkefni okkar allra. Stóra verkefnið – Sigurður Ingi Friðleifsson from Samorka on Vimeo. Finn Mortensen, framkvæmdastjóri State of Green í Danmörku, kynnti samtökin og hvernig Danir hafa markvisst markaðsett grænar lausnir og fleira sem tengst hefur þeirra orkuskiptum og þannig aukið útflutning og verðmæti fyrir orku- og veitugeirann mikið. State of Green: Nation Branding and Storytelling – Finn Mortensen from Samorka on Vimeo. Fundinn í heild sinni má sjá hér: Ársfundur Samorku 2018: Framlag orku- og veitufyrirtækja til loftslagsmála from Samorka on Vimeo. Yfirlýsing um kolefnishlutlausa orku- og veitustarfsemi afhent ráðherrum á ársfundi Samorku 2018
6. mars 2018 Kolefnishlutlaus orku- og veitustarfsemi fyrir árið 2040 Sameiginleg loftslagsyfirlýsing orku- og veitufyrirtækja afhent ráðherrum á ársfundi Samorku í dag. Orku- og veitustarfsemi ætlar að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040. Yfirlýsing þess efnis var afhent Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra og Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindamála á ársfundi Samorku í dag. Í yfirlýsingunni kemur fram að orku- og veitufyrirtæki ætli sér að ná þessu markmiði með því að vera leiðandi í minnka kolefnisspor orku- og veitustarfsemi á Íslandi á sjálfbæran hátt, snjöllum og orkusparandi orku- og veituinnviðum til að stuðla að sjálfbæru samfélagi, virku og samkeppnishæfu markaðsumhverfi sem byggir á öruggri afhendingu endurnýjanlegrar orku og miðlun þekkingar til viðskiptavina, almennings og stjórnvalda í góðu samstarfi við hagaðila. Í yfirlýsingunni segir jafnframt að orku- og veitustarfsemi á Íslandi geri miklar kröfur um gæði, afhendingaröryggi og hagkvæmni og áhersla sé lögð á rannsóknir og nýsköpun til að geta nýtt bestu mögulegu lausnir í þeim tilgangi. Rekstur orku og veitustarfsemi byggi á öguðum vinnubrögðum. Orku- og veitustarfsemi ætli að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum og byggja upp hæfni starfsfólks í þeim efnum.
6. mars 2018 Konur meirihluti stjórnar Samorku Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri, var í dag kjörin fulltrúi Landsvirkjunar í stjórn Samorku á aðalfundi samtakanna. Þá voru einnig endurkjörin í stjórn þau Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, og Jóhanna B. Hansen, bæjarverkfræðingur Mosfellsbæjar. Í stjórn sitja jafnframt áfram þau Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku og Guðrún Erla Jónsdóttir, stefnustjóri Orkuveitu Reykjavíkur og Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku og formaður stjórnar. Þá verður Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna, áfram fulltrui fyrirtækisins í stjórn Samorku. Hörður Arnarson, forstjóri, tekur sæti varafulltrúa Landsvirkjunar í stjórn Samorku. Ásdís Kristinsdóttir, forstöðumaður, verður áfram varafulltrúi Veitna og þá sitja áfram þau Guðbjörg Marteinsdóttir, RARIK, Jón Tryggvi Guðmundsson, Selfossveitum og Elías Jónatansson, Orkubúi Vestfjarða, sem varamenn í stjórn Samorku. Konur skipa nú í fyrsta sinn meirihluta aðalmanna stjórnar Samorku. Að varamönnum meðtöldum er jafnt hlutfall kynja. Stjórn Samorku, að loknum aðalfundi 2018, skipa: Aðalmenn: Ásgeir Margeirsson, HS Orku Guðmundur Ingi Ásmundsson, Landsneti Guðrún Erla Jónsdóttir, Orkuveitu Reykjavíkur Helgi Jóhannesson, Norðurorku, formaður stjórnar Inga Dóra Hrólfsdóttir, Veitum Jóhanna B. Hansen, Mosfellsbæ Ragna Árnadóttir, Landsvirkjun Varamenn: Ásdís Kristinsdóttir, Veitum Elías Jónatansson, Orkubúi Vestfjarða Guðbjörg Marteinsdóttir, RARIK Hörður Arnarson, Landsvirkjun Jón Tryggvi Guðmundsson, Selfossveitum
15. febrúar 2018 Landsnet Menntasproti ársins Við afhendingu Menntasprotans í dag Landsnet er menntasproti ársins 2018. Allan sólarhringinn vinna starfsmenn í stjórnstöð fyrirtækisins við að stýra raforkukerfi Íslands sem er flóknasta kerfi landsins. Landsnet ber einnig ábyrgð á því að sinna viðhaldi þess og rekstri þannig að það virki, að tryggja að landsmenn geti haft ljósin kveikt þegar þeim hentar og að hjól atvinnulífsins snúist. „ Við erum stolt af því að hafa fengið þessa viðurkenningu og lítum á hana sem hvatningu til að gera enn betur. Hjá okkar starfar frábær hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn sem vinnur að flóknum og áhugaverðum verkefnum sem lúta að þróun, uppbyggingu og rekstri raforkukerfisins. Við flytjum rafmagn alla daga og vinnum stundum við hættulegar aðstæður. Í því samhengi skiptir menntun og þjálfun miklu máli – með góðum vinnustað náum við þeim markmiðum sem við höfum sett okkur en það er tryggja okkur öllum rafmagnaða framtíð,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets. Hjá Landsneti vinna um 120 starfsmenn og fyrirtækið er með starfsstöðvar í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Landsnet vinnur með Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Rafiðnaðarskólanum og nemendum býðst að vinna hagnýt lokaverkefni sem nýtast samfélaginu. Fyrirtækið tekur einnig þátt í mikilvægum erlendum rannsóknarverkefnum. Til dæmis stærsta rannsóknarverkefni sinnar tegundar í heiminum sem kostar um 14 milljónir evra og miðar að því að auka áreiðanleika flutningskerfa á sama tíma og kostnaði samfélagsins er haldið í lágmarki. Menntasproti ársins 2018 from Samtök atvinnulífsins on Vimeo. Þá var Iceland Travel valið menntafyrirtæki ársins. Í dómnefnd sátu Guðný B. Hauksdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli sem var menntafyrirtæki ársins 2017, Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels sem var Menntafyrirtæki ársins 2016, Sigurður Steinn Einarsson aðstoðarmaður forstjóra hjá Síldarvinnslunni á Neskaupstað sem var Menntasproti ársins 2015 og Ragnheiður H. Magnúsdóttir viðskiptastjóri hjá Marel sem var menntafyrirtæki ársins 2014. Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna starfar um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði, rúmlega 100 þúsund manns
14. febrúar 2018 Hvað verður um starfið þitt? Hvað verður um starfið þitt? er yfirskrift Menntadags atvinnulífsins sem verður haldinn í Hörpu fimmtudaginn 15. febrúar kl. 8.30-12. Dagurinn, sem nú er haldinn í fimmta sinn, er að þessu sinni tileinkaður hlutverki skólakerfis og atvinnulífs við að búa fólk undir þær tæknibreytingar sem standa yfir. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa hvatt fyrirtæki til dáða til að mennta starfsfólk sitt, til dæmis með árlegu vali á menntafyrirtæki ársins. Fjölmörg íslensk fyrirtæki eru til fyrirmyndar þegar kemur að menntun starfsmanna sinna. Menntafyrirtæki síðustu ára – Samskip, Marel, Icelandair hótel og Alcoa fjarðaál – eru þar fremst meðal jafningja. Þann 15. febrúar mun síðan enn eitt fyrirtækið bætast í hóp þessara fyrirmynda í atvinnulífinu. Enn eru nokkur sæti laus. Hægt er að sjá dagskrá Menntadagsins og skrá sig á síðu SA. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.
13. febrúar 2018 Ásmundur nýr forstöðumaður upplýsingatækni Landsnets Ásmundur Bjarnason er nýráðinn forstöðumaður upplýsingatækni hjá Landsneti. Landsnet hefur ráðið Ásmund Bjarnason í starf forstöðumanns upplýsingatækni þar sem hann mun stýra uppbyggingu og þróun á upplýsingakerfum Landsnets. Ásmundur er menntaður rekstrarverkfræðingur M.Sc. frá Álaborgarháskóla og tölvunarverkfræðingur frá HÍ. Hann hefur undanfarið ár starfað við upplýsingatækniráðgjöf hjá KPMG á Íslandi og þar á undan var hann forstöðumaður upplýsingatækni hjá Sjóvá.