12. október 2017 Landsnet framtak ársins á Umhverfisdegi atvinnulífsins Sigrún Björk, stjórnarformaður Landsnets, tekur við verðlaununum frá Rögnu Söru Jónsdóttur formanni dómnefndar. Landsnet hreppti í dag verðlaun fyrir Framtak ársins á Umhverfisdegi atvinnulífsins, sem haldinn var hátíðlegur á Hilton Reykjavík Nordica. Fyrirtækið hlaut verðlaunin fyrir Snjallnet á Austurlandi og veitti Sigrún Björk Jakobsdóttir, stjórnarformaður fyrirtækisins verðlaunum móttöku. Verkefni Landsnets felur í sér þróun á sjálfvirkri stýringu á raforkuafhendingu fyrir sex fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi ásamt álagsstýringum í álverum, kallað Snjallnet. Þróuð var ný aðferðafræði sem hægt er að beita innan staðbundinna raforkukerfa sem glíma við flutningstakmarkanir. Markmiðið var að geta flutt meiri orku í gegnum flöskuhálsa án þess að minnka rekstaröryggi svæðanna. Með þessum hætti er hægt að nýta betur núverandi raforkukerfi og gefa verksmiðjum færi á að skipta hráolíu út fyrir rafmagn sem framleitt er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Með innleiðingu Snjallnetsins á Austurlandi náðist verulegur árangur. Þar má nefnda aukna flutningsgetu upp á 350 GWh á ári en það er á við árlega heimilisnotkun um 85 þúsund heimila eða 170 þúsund rafbíla. Einnig er sparnaður neikvæðra umhverfisáhrifa upp á 90.000 tonn af kolefnislosun árlega sem er ígildi losunar frá rúmlega 50.000 bifreiðum. Ragna Sara Jónsdóttir formaður dómnefndar afhendir Magneu Þóreyju Hjálmarsdóttur frkvstj. Icelandair hótela Umhverfisverðlaun atvinnulífsins Icelandair Hotels var valið Umhverfisfyrirtæki ársins. Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að Icelandair Hotels hefur innleitt umhverfisstjórnkerfi, sett sér metnaðarfull markmið á sviði umhverfismála og gert sjálfbærni að markmiði í rekstrinum. Það hafi náð verulegum árangri í að auka nýtingu auðlinda og draga úr sóun. Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnefndar verðlaunanna gerði grein fyrir valinu sem hún sagði hafa verið erfitt þar sem mörg frambærileg fyrirtæki komu til greina. Í dómnefnd auk hennar sátu Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík. Að Umhverfisdegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.
30. september 2017 Halarófa rafbíla við upphaf hringferðar Bílar frá Samorku og aðildarfélögum tóku þátt í halarófu rafbíla sem fylgdi tveimur Englendingum úr hlaði við upphaf hringferðar um Ísland í dag. Bíll Samorku Englendingarnir tveir, Mark og Stewart ásamt móður annars þeirra á níræðisaldri, keyra hringinn á óbreyttum rafbílum og engar vararafhlöður verða með í för. Þannig vilja þeir sýna fram á að rafbílar eru raunhæfur valkostur og óþarfi sé að óttast það að komast ekki á leiðarenda, sem er talin ein helsta fyrirstaða þess að fólk kaupi sér rafbíl. Mark og Stewart hafa áður keyrt hringinn um Bretland á rafbíl og ætla sér næst um miðbaug. Hringferðin er hluti af CHARGE energy branding ráðstefnunni sem fram fer í Reykjavík dagana 9. og 10. október.
29. september 2017 Orka náttúrunnar tilnefnd sem besta græna vörumerkið Orka náttúrunnar er tilnefnd til alþjóðlegu CHARGE vörumerkjaverðlaunanna sem besta vörumerkið í flokki grænnar orku. ON er eina íslenska fyrirtækið sem tilnefnt er í flokknum og keppir þar við fjögur erlend vörumerki. Besta vörumerkið að mati fjölmennrar alþjóðlegrar dómnefndar verður útnefnt 10. október næstkomandi. Orka náttúrunnar hefur vakið athygli fyrir uppbyggingu innviða fyrir rafbíla og hefur fjöldi þeirra margfaldast eftir að fyrirtækið setti á laggirnar hraðhleðslustöðvar víðs vegar um Reykjavík og landið allt. Áslaug Thelma Einarsdóttir, forstöðumaður einstaklingsmarkaðar ON, segir alla afar stolta af tilnefningunni. „Þarna eru margir kallaðir en fáir útvaldir og það er frábært að fá hvatningu af þessu tagi í þeim mikilvægu verkefnum sem ON vinnur að. Við höfum hvatt eindregið til rafbílavæðingar hér á landi – bæði í orði og í verki – og vörumerki ON er orðið óaðskiljanlegt þeirri þróun. Rafbílabyltingin getur orðið eftirmynd hitaveitubyltingarinnar sem var góð fyrir umhverfið, góð fyrir veskið og góð fyrir orkusjálfstæði þjóðarinnar. Fyrir það vill ON standa og tilnefningin gefur til kynna að við séum á réttri braut“, segir Áslaug Thelma í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Vörumerkjaverðlaun CHARGE verða afhent á samnefndri ráðstefnu sem fram fer í Reykjavík dagana 9. og 10. október. Orka náttúrunnar varð til í ársbyrjun 2014 eftir lögbundna aðgreiningu sérleyfis- og samkeppnisþátta í rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. ON rekur þrjár virkjanir, selur rafmagn til um helmings landsmanna og aflar um helmings heita vatnsins í hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu.
19. september 2017 Berglind stýrir fyrirtækjamarkaði ON Berglind Rán Ólafsdóttir hefur tekið til starfa sem forstöðumaður fyrirtækjamarkaðar Orku náttúrunnar. Berglind tekur við nýrri einingu í skipuriti ON. Sala raforku og þjónusta við þau fjölmörgu fyrirtæki um land allt sem eru í viðskiptum við ON eru hluti af starfsemi fyrirtækjamarkaðar. Á verksviði fyrirtækjamarkaðar er einnig viðskiptaþróun tengd auðlindanýtingu ON á háhitasvæðum en fyrirtækið er hið stærsta á því sviði hér á landi. Við Hellisheiðarvirkjun er í þróun jarðhitagarður þar sem nokkur fyrirtæki eru að hasla sér völl við fjölþætta nýtingu jarðhitans, svo sem til þörungaræktar, vísindastarfs og baða auk hefðbundnari orkunotkunar. Þá er raforkumiðlun á starfssviði Berglindar en sá þáttur í starfi raforkufyrirtækja hefur vaxið að mikilvægi á síðustu árum. Berglind hefur meira en tíu ára reynslu af viðskiptaþróun á fyrirtækjamörkuðum og kom til ON frá Landsvirkjun þar sem hún hafði starfað frá árinu 2012. Þar áður vann hún að viðskiptaþróun hjá Medis, dótturfélagi Actavis, og Íslenskri erfðagreiningu þar sem hún vann við vísindarannsóknir. Berglind er með M.Sc. gráðu í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands og MBA frá IESE í Barcelona.
16. september 2017 Útboð – rafmagnsstrengir Samorka óskar eftir tilboðum í jarðstrengi fyrir neðangreindar dreifiveitur. Útboðsgögnin eru afhent rafrænt. Hafa skal samband í tölvupósti í netfangið baldur@samorka.is, en einnig er hægt að nálgast gögnin á heimasíðu SAMORKU – www.samorka.is. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) (http://ted.europa.eu). Meginatriði útboðs Samorku á jarðstrengjum Um er að ræða útboð á eftirfarandi rafmagns jarðstrengjum (Underground Power Cables): 1 kV, 12 kV og 24 kV jarðstrengir fyrir RARIK ohf., HS veitur hf., Norðurorku hf., Orkubú Vestfjarða ohf. og Orkuveitu Reykjavíkur. Um nánari lýsingu er vísað til útboðsgagna. Samningstíminn er þrjú ár, þ.e. til ársloka 2021 með möguleika á framlengingu. Útboðsgögn eru afhent rafrænt frá og með 18. september 2017. Tilboð verða opnuð þriðjudaginn 24. október, kl. 14:00 á skrifstofu Samorku, Borgartúni 35, 3. hæð að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska. Útboðsgögnin má nálgast hér.
12. september 2017 Grettistaki lyft í fráveitumálum síðustu áratugi Undanfarna áratugi hefur verið lyft grettistaki í fráveitumálum hér á landi. Fyrir 25 árum, árið 1992, voru eingöngu 6% landsmanna tengd skólphreinsistöð en á því næsta verður hlutfallið 84%, miðað við áætlanir. Upplýsingarnar sem fram koma í úttekt Umhverfisstofnunar um ástand skólphreinsimála og fjallað var um í hádegisfréttum RÚV 11. september 2017 sýna vissulega að betur hefði mátt standa að þessum málum á árunum 2010-2014. En um leið vill Samorka benda á að umrætt tímabil er óheppilegt til sérstakrar úttektar. Þessi ár voru sveitarfélögum erfið í kjölfar efnahagshrunsins og ekki mikið svigrúm til framkvæmda. Stuðningur frá ríkinu, sem samþykkt hafði verið að veita í þessar framkvæmdir, féllu niður og hafa ekki verið settir aftur á. Frá 2014 hafa framkvæmdir farið aftur af stað sem munu breyta skólphreinsimálum til hins betra. Má þar nefna hönnun og útboð nýrrar hreinsistöðvar á Akureyri og framundan eru stórar framkvæmdir í pípunum, sem mun hækka hlutfall landsmanna sem tengdir eru við skólphreinsistöð allverulega. Á Íslandi gilda ströngustu kröfur í Evrópu um losun skólps í sjó og hafa ítarlegar rannsóknir á viðtaka fyrir fráveitu í Reykjavík sýnt að losun hefur hverfandi áhrif á lífríkið. Fráveitumál eru eitt stærsta umhverfismál samtímans og er verkefninu ekki lokið þó að því miði vel áfram. Til að uppbygging skólphreinsikerfis geti haldið áfram eins og áætlað er, er mikilvægt að lög og reglugerðir fyrir fráveitu verði ekki íþyngjandi fyrir sveitarfélögin í landinu. Samorka tekur undir með Umhverfisstofnun að hreint vatn er ein mikilvægasta auðlind Íslendinga og fagnar allri umræðu um að bera skuli virðingu fyrir henni. Allir þurfa að ganga vel um fráveitukerfin og muna að klósettið er ekki ruslafata – ýtum ekki undir kostnaðarsamar og óþarfa aðgerðir í skólphreinsun.
11. september 2017 Risastyrkir til loftslagsverkefna Orkuveita Reykjavíkur í samstarfi við Háskóla Íslands og erlendar vísindastofnanir hafa fengið tvo styrki samtals að fjárhæð 12,2 milljóna evra frá Evrópusambandinu til þróa áfram bindingu koltvíoxíðs sem grjót. Fjárhæðin sem samstarfsaðilarnir hljóta til verkefnanna svarar til liðlega eins og hálfs milljarðs króna. Nýsköpunarverkefnin, sem hófust árið 2007, hafa þegar leitt til verulegs samdráttar í losun jarðhitalofts frá Hellisheiðarvirkjun og framundan er meðal annars að þróa bindingu koltvíoxíðs á sjávarbotni. Dr. Edda Sif Pind Aradóttir verkefnisstjóri segir styrkina, sem dreifast á fjölda samstarfsaðila, vera mikla viðurkenningu og auka vægi verkefnanna í baráttunni við loftslagsvandann. Nánar má lesa um verkefnin Gas í grjót á heimasíðu OR.
7. september 2017 Þjóðhagslegur ávinningur af rafbílavæðingu greindur Frá undirritun samningsins í húsakynnum Samorku í dag. Frá vinstri: Erla Sigríður Gestsdóttir frá ANR, Páll Erland framkvæmdastjóri Samorku, Brynhildur Davíðsdóttir frá HÍ, Eyjólfur Ingi Ásgeirsson frá HR, og Jón Björn Skúlason frá Íslenskri NýOrku og Grænu Orkunni. Á myndina vantar Sigurð Inga Friðleifsson frá Orkusetri. Samorka, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Græna Orkan, Íslensk NýOrka og Orkusetur hafa gengið til samstarfs við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík um gerð skýrslu um þjóðhagslegan ávinning af rafbílavæðingu á Íslandi. Samningurinn var undirritaður í húsakynnum Samorku í dag. Markmiðið með skýrslunni er að fá góða yfirsýn yfir þann margþætta ávinning sem rafbílavæðing í samgöngum hefur fyrir íslenskt samfélag og gera niðurstöðurnar aðgengilegar svo þær nýtist sem flestum í þeim tilgangi að hafa jákvæð áhrif á þróun orkuskipta í samgöngum á Íslandi. Markmiðið er einnig að niðurstöðurnar verði mikilvægt innlegg í umræðu um loftslagsmál á Íslandi og því brýna verkefni að nýta innlenda, umhverfisvæna orkugjafa í samgöngum innanlands. Vinna við skýrsluna hefst á næstu dögum. Lokaniðurstöðum skal skilað eigi en 15. febrúar og verða þær kynntar í framhaldinu. Samorka gat komið að fjármögnun skýrslunnar með myndarlegri aðkomu HS Orku, Landsvirkjunar, Orku náttúrunnar, Orkusölunnar og Veitna. Fulltrúar frá aðildarfyrirtækjum Samorku ásamt þeim sem standa að skýrslunni. Á myndina vantar fulltrúa frá ON og Veitum.
16. ágúst 2017 Baldur Dýrfjörð til Samorku Baldur Dýrfjörð, lögfræðingur. Ljósmynd: Auðunn Níelsson. Baldur Dýrfjörð, lögfræðingur, hefur verið ráðinn til Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja. Baldur starfaði áður hjá Norðurorku hf. sem er veitufyrirtæki í eigu sex sveitarfélaga við Eyjafjörð. Þar áður starfaði Baldur sem starfsmannastjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, sem bæjarlögmaður hjá Akureyrarbæ og lögfræðingur Íslandsbanka. Baldur hefur, sem fulltrúi Norðurorku hf., starfað í ýmsum nefndum og ráðum hjá Samorku í gegnum tíðina. Hann þekkir því vel til samtakanna, þjónustu þeirra við aðildarfyrirtækin og hlutverks þeirra sem málsvara orku- og veitufyrirtækja.
15. ágúst 2017 Sylvía Kristín Ólafsdóttir ráðin deildarstjóri jarðvarmadeildar Landsvirkjunar Sylvía Kristín Ólafsdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri jarðvarmadeildar á orkusviði Landsvirkjunar. Hlutverk jarðvarmadeildar á orkusviði er að annast aflstöðvar Landsvirkjunar á sviði jarðvarma og vindorku þannig að þær skili tilgreindu hlutverki sínu. Deildin ber ábyrgð á rekstri, eftirliti og viðhaldi þessara orkuvirkja og leggur áherslu á öryggi og hagkvæmni, umhverfismál og samstarf við nærsamfélag. Sylvía hefur starfað hjá Landsvirkjun frá árinu 2015 sem forstöðumaður tekjustýringar á markaðs- og viðskiptaþróunarsviði. Áður starfaði hún hjá höfuðstöðvum Amazon í Evrópu fyrst við rekstur og áætlanagerð um innviði vöruhúsa víðs vegar um Evrópu. Þaðan fór Sylvía í Kindle deild fyrirtækisins og sá um viðskiptagreind og vöruþróun fyrir vefbækur auk þess að leiða greiningar- og stefnumótunarvinnu fyrir samningagerð við bókaútgefendur. Áður starfaði Sylvía m.a sem forstöðumaður á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands og hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Sylvía er með M.Sc. próf í Operational Research frá London School of Economics og B.Sc. próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur sinnt stundakennslu við verkfræðideild HÍ í rekstrarfræði, kvikum kerfislíkönum og verkefnastjórnun (MPM). Sylvía situr í stjórn Ölgerðarinnar og Orkufjarskipta. Sylvía er gift Kjartani Björgvinssyni og eiga þau tvö börn.