OR aðili að Nasdaq Sustainable Bond Network

Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið veitt aðild að hinu alþjóðlega Nasdaq Sustainable Bond Network (NSBN), sem er sameiginlegur vettvangur útgefenda grænna og samfélagslega ábyrgra skuldabréfa á Nasdaq verðbréfamörkuðunum víða um heim.

OR er fyrst íslenskra útgefenda til að fá slíka aðild.

Markmið NSBN er að veita fjárfestum greiðan aðgang að upplýsingum um útgefendur grænna og á annan hátt samfélaglega ábyrgra skuldabréfa þannig að þeir geti sannreynt að um slíka útgáfu sé að ræða. Eftirspurn eftir slíkum skuldabréfum fer ört vaxandi og því mikilvægt að fjárfestar geti borið saman hina ýmsu útgefendur slíkra bréfa, hverjir hafi vottað útgáfuna, þau verkefni sem skuldabréfaútgáfan fjármagnar og framgang þeirra verkefna.

Markmið OR með aðildinni er að gera græn skuldabréf fyrirtækisins aðgengilegri fyrir erlenda fjárfesta, breikka þannig kaupendahópinn og á endanum fá betri lánakjör. Svo gæti farið svo að Orkuveita Reykjavíkur myndi eingöngu gefa út græn skuldabréf í framtíðinni, enda teljast nánast öll fjárfestingarverkefni OR og dótturfyrirtækjanna umhverfisvæn.