Upplýsingafundur um ríkisstuðning vegna fráveituframkvæmda

Átak í fráveitumálum

Samband íslenskra sveitarfélaga og Samorka boða til sameiginlegs fundar um stuðning ríkisins við sveitarfélög vegna fráveituframkvæmda.
Reglugerð um úthlutun styrkja til fráveitna sveitarfélaga var birt í Stjórnartíðindum þann 30. desember 2020. Á fundinum verður fjallað um aðdraganda og mikilvægi slíks styrkjakerfis, auk þess sem fulltrúi frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu mun kynna nýja reglugerð og fyrirkomulag við úthlutun styrkja. Einnig mun gefast tækifæri til spurninga og umræðna.

Skráning á fundinn fer fram á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga og verður skráðum fundargestum sendur hlekkur á fundinn.

Dagskrá fundarins:
Fundarstjóri: Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar.

1. Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku opnar fundinn.
2. Fulltrúi umhverfis- og auðlindaráðuneytis kynnir nýja reglugerð og fyrirkomulag um úthlutun styrkja til fráveitna sveitarfélaga.
3. Spurningar og umræður.

Fagsviðsstjóri óskast til Samorku

Fagsviðsstjóri

Hefur þú áhuga á:
Orkuskiptum?
Umhverfismálum?
Traustum innviðum?
Snjallvæðingu?

Samorka óskar eftir að ráða drífandi einstakling sem býr yfir miklu frumkvæði, skipulögðum vinnubrögðum og getu til að sinna mikilvægum og spennandi verkefnum í heimi orku- og veitumála. Um er að ræða skemmtilegt starf fyrir einstakling sem hefur áhuga á að leiða faglegt starf samtakanna, sinna þekkingarmiðlun og samskiptum við stjórnvöld.

Samorka eru samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Aðildarfélög Samorku eru um 50 talsins og með starfsemi um land allt. Hlutverk samtakanna er að starfrækja trúverðugan, fræðandi og jákvæðan vettvang um starfsemi orku- og veitufyrirtækja og styrkja þannig stöðu þeirra og rekstur.

Samorka er aðili að Samtökum atvinnulífsins og er staðsett í Húsi atvinnulífsins að Borgartúni 35. Í starfinu felst tækifæri til að vinna náið með ýmsum sérfræðingum aðildarfyrirtækja Samorku auk sérfræðinga annarra samtaka í Húsi atvinnulífsins

Helstu verkefni:

  • Móta starfsumhverfi orku- og veitugeirans
  • Umsjón með starfi fag- og málefnahópa sem starfa á vettvangi samtakanna
  • Samstarf við ráðuneyti og opinberar stofnanir
  • Umsjón með ráðstefnum um málefni orku- og veitugeirans
  • Skipulagning námskeiða og fræðslu fyrir aðildarfyrirtæki
  • Faglegur stuðningur við ýmis verkefni innan orku- og veitugeirans
  • Eftirfylgni með nýrri stefnu samtakanna

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun á sviði verkfræði/tæknifræði eða önnur menntun sem nýtist í starfi
  • Þekking á orku- og veitugeiranum er kostur
  • Frumkvæði, sjálfstæð og öguð vinnubrögð
  • Færni í markvissri framsetningu upplýsinga
  • Færni og lipurð í mannlegum samskiptum
  • Góð hæfni til að tjá sig í ræðu og riti, bæði á íslensku og ensku

Nánari upplýsingar um starfið veitir Thelma Krístín Kvaran (thelma@intellecta.is) í síma 511-1225 og Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku (pall@samorka.is).
Umsókn óskast fyllt út á www.intellecta.is og þarf henni að fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf.
Umsóknarfrestur er til og með 18. janúar 2021. Farið er með allar umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál.

https://intellecta.is/storf/

Orkuskiptin minnka kolefnisspor Íslendinga

Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, umhverfisverkfræðingur hjá Samorku skrifar:

Þriðjungur af losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda árið 2018 var frá vegasamgöngum og er því stærsti einstaki losunarflokkurinn. Góður árangur í orkuskiptum í vegasamgöngum er því lykilatriði til að við stöndumst þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undir gengist.

Ávinningur orkuskiptanna einskorðast þó ekki við loftslagsmálin. Á ársfundi Samorku í september kom fram að miðað við að við uppfyllum markmið stjórnvalda um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 fela þau einnig í sér gjaldeyrissparnað upp á 20-30 milljarða. Óhætt er að fullyrða að ný og metnaðarfyllri markmið sem nú hafa verið kynnt auka þennan sparnað umtalsvert. Enn fremur er sparnaður heimilis við að aka á rafmagni í stað bensíns er um 400.000 kr. á ári sé tekið mið af kostnaði vegna orkunotkunar og viðhalds. Orkuskiptin hafa í för með sér minni staðbundna mengun frá útblæstri og minni losun sótagna, sem eru hættuleg umhverfinu og heilsu manna og dýra, auk þess sem neysludrifið kolefnisspor minnkar.

En hvað er neysludrifið kolefnisspor einstaklinga og af hverju skiptir máli að minnka það?

Til að útskýra málið frekar má taka sem dæmi brauðrist. Raforkunotkunin við að rista sér brauð, sem og förgun umbúða og brauðristarinnar sjálfrar í lok líftíma hennar, er það sem telur í kolefnisfótspori hennar ef við teljum á samsvarandi hátt og gert er í loftslagsbókhaldi Íslands. Semsagt, eingöngu það kolefnisfótspor sem hún veldur innan landamæra Íslands. Neysludrifið kolefnisfótspor er hins vegar heildarfótsporið; frá öflun hráefna og framleiðslu brauðristarinnar, hvar sem hún á sér stað í heiminum, auk flutninga hennar til landsins sem og notkun hennar hérlendis. Því er neysludrifna kolefnissporið oft á tíðum töluvert hærra en þegar aðeins er talið það sem gerist innan landamæranna.

Komið hefur fram að neysludrifið kolefnisspor meðal Íslendings er hátt, en hver einstaklingur er valdur að losun á rúmlega 10 tonnum af gróðurhúsaloftegundum árlega. Meirihluta þessarar losunar frá íslenskum heimilum má rekja til innfluttrar neysluvöru og spila innkaup og bruni jarðefnaeldsneytis þar stórt hlutverk. Orkuskiptin, ásamt breyttum ferðavenjum, eru tækifæri til að minnka neysludrifið kolefnisspor Íslendinga um allt að þriðjung og verða með því lægsta sem gerist í iðnríkjum . Það er vegna þess að umhverfisáhrif þeirrar orku sem nýtt er til að knýja ökutæki minnka verulega þegar framleiðsla orkunnar er með endurnýjanlegum hætti eins og á Íslandi. Með orkuskiptunum er því komið í veg fyrir mengun vegna framleiðslu jarðefnaeldsneytis erlendis sem og útblásturs við bruna þess í ökutækjum hérlendis. Þá er vert að draga það fram, að rannsóknir hafa leitt í ljós að notkun rafbíla hérlendis dregur verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda samanborið við notkun bensín- og dísilbíla vegna innlendu grænu orkunnar okkar, þrátt fyrir að framleiðsla ökutækjanna sé tekin með inn í jöfnuna .

Loftslagsbreytingar eru hnattrænn vandi og því skiptir máli að allir kappkosti við að leggja sitt af mörkum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hvar sem sú losun á sér stað.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. desember 2020. 

 

[1] Jack Clarke, Jukka Heinonen, Juudit Ottelin. 2017. Emissions in a decarbonised economy? Global lessons from a carbon footprint analysis of Iceland. Journal of Cleaner Production Volume 166, 10 November 2017, Pages 1175-1186

[1] Jack Challis Clarke. 2017. The carbon footprint of an Icelander: A consumption based assessment using the Eora MRIO database. Master’s thesis, Faculty of Civil and Environmental Engineering, University of Iceland, pp. 112

[1] Kevin Joseph Dillman, Áróra Árnadóttir, Jukka Heinonen, Michał Czepkiewicz and Brynhildur Davíðsdóttir. 2020. Review and Meta-Analysis of EVs: Embodied Emissions and Environmental Breakeven. Sustainability, 12(22), 9390.

Óskað eftir tilnefningum til Menntaverðlauna atvinnulífsins

Menntaverðlaun atvinnulífsins verða afhent í Hörpu fimmtudaginn 4. febrúar 2020. Óskað er eftir tilnefningum um fyrirtæki sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Fyrirtækjum er velkomið að tilnefna sig sjálf.

Tilnefningar sendist í tölvupósti til Samtaka atvinnulífsins á verdlaun@sa.is, eigi síðar en mánudaginn 21. desember.

erðlaun eru sem fyrr veitt í tveimur flokkum. Menntafyrirtæki ársins er valið og menntasproti ársins útnefndur, en fyrirtæki sem tilnefnd eru verða að uppfylla ákveðin viðmið.

Helstu viðmið fyrir menntafyrirtæki ársins eru:

  • að skipulögð og markviss fræðsla sé innan fyrirtækisins
  • að sem flest starfsfólk taki virkan þátt
  • að haldið sé utan um mælikvarða í fræðslumálum
  • að hvatning sé til staðar til frekari þekkingaröflun

Helstu viðmið vegna menntasprota ársins eru:

  • að lögð sé stund á nýsköpun í menntun og fræðslu, innan fyrirtækis og/eða í samstarfi fyrirtækja,
    samstarf fyrirtækja og samfélags um eflingu fræðslu, innan sem utan fyrirtækja.

Skýr og skipulögð gögn hjálpa dómnefnd að meta tilnefningar. Vinsamlega skilið greinargerð, að hámarki þrjár A4 blaðsíður þar sem rökstutt er hvers vegna viðkomandi fyrirtæki er tilnefnt og hvernig það uppfyllir viðmiðin sem liggja til grundvallar.

Verðlaunin verða veitt á Menntadegi atvinnulífsins 4. febrúar 2021 en þetta er í áttunda sinn sem dagurinn er haldinn. Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Það verður forvitnilegt að sjá hvaða fyrirtæki bætast í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa hlotið verðlaunin til þessa. Orkuveita Reykjavíkur er menntafyrirtæki ársins 2020 og Samkaup menntasproti ársins 2020. Opnað verður fyrir skráningu á Menntadag atvinnulífsins á nýju ári.

Horfa má á glefsur frá Menntadegi atvinnulífsins 2020 hér:

Menntadagur atvinnulífsins 2020 – glefsur from Samtök atvinnulífsins on Vimeo.

Rafræn gátt einfaldar ferli leyfisveitinga og mat á umhverfisáhrifum

Rafræn gátt myndi einfalda leyfisveitingar framkvæmda og mat á umhverfisáhrifum til að spara tíma, tryggja betra aðgengi gagna og almennings og auka skilvirkni og aðhald í vinnubrögðum. Þetta er niðurstaða skýrslu sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir Samorku, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins um ávinning rafrænnar þjónustu í leyfisveitingaferli. Skýrsluna má finna hér: Málsmeðferð_FRV_20_10_21

Í skýrslunni kemur fram að leyfisveitingaferli sé í dag flókið ferli sem sé bæði tímafrekt og óskilvirkt. Sömu gögn eru ítrekað lögð fram og dæmi eru um að framkvæmd fari 17 sinnum í umsagnarferli og að hver stofnun fjalli 10 sinnum um málið. Niðurstaða skýrslunnar er sú að hér á landi sé mat á umhverfisáhrifum óþarflega flókið miðað við löggjöf í nágrannalöndum. Með rafrænni gátt og breyttu verklagi væri hægt að einfalda matið verulega, án þess að skerða aðgengi almennings og hagsmunaaðila eða ganga gegn Evróputilskipunum.

Það er mat Samorku, Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins að tækifæri til einföldunar séu til staðar, tæknin sem þarf er að ryðja sér til rúms og yfirlýstur vilji stjórnvalda er að koma á slíkum umbreytingum. Ávinningurinn er augljós og því hvetja samtökin stjórnvöld til að stuðla að slíkum umbreytingum í takt við breytta tíma og bætta tækni.

Í myndbandinu hér fyrir neðan fer Bryndís Skúladóttir hjá VSÓ ráðgjöf yfir ávinning rafrænnar þjónustu.

Rafræn gátt einfaldar ferli leyfisveitinga from Samorka on Vimeo.

Látum jólin ganga

Látum jólin ganga er jóla-, skemmti-, tónlistar- og viðtalsþáttur í tengslum við átakið Íslenskt – láttu það ganga sem verður í beinni útsendingu í kvöld kl. 19.35 á Stöð 2 og Vísi. Þáttastjórnendurnir Logi Bergmann Eiðsson og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir verða á stóra sviði Borgarleikhússins og fá til sín fjölmarga gesti.

Markmiðið með þættinum er að stappa stálinu í þjóðarsálina, hvetja landann til að kaupa íslenska framleiðslu, íslenska hönnun, innlendar vörur og þjónustu og þá af innlendum vefverslunum frekar en erlendum keppinautum. Þeir Fannar Sveinsson og Benedikt Valsson verða einnig á vettvangi og gera sitt allra besta til að láta hjól atvinnulífsins snúast. „Við ætlum að vera jákvæð, skemmtileg, í jólaskapi og hvetja hvert annað til að hafa keðjuverkandi áhrif og halda atvinnustarfsemi gangandi, þrátt fyrir ýmis högg á þessu ári. Maður verður nefnilega að vera léttur,” segir Logi.

Þátturinn, sem Skot Productions framleiðir, er styrktur af Samtökum atvinnulífsins og aðildarfélögum sem og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Á Facebook er hægt að nálgast viðburðinn: https://www.facebook.com/events/3436548136414850

Desemberfundur 2020

Desemberfundur Samorku fjallar í ár um stóru orku- og veitumálin sem nú liggja fyrir þinginu. Starfsfólk Samorku mun fara yfir hvernig þau blasa við orku- og veitufyrirtækjunum og boðið verður upp á spurningar.

Fundurinn verður haldinn rafrænt á Teams Live Event og er eingöngu ætlaður starfsfólki aðildarfyrirtækja Samorku. Þeir sem áhuga hafa á að fá hlekk á fundinn geta haft samband við Lovísu Árnadóttur, upplýsingafulltrúa Samorku, í netfangið lovisa@samorka.is.

Frændur vorir og Fraunhofer

Frændur vorir og Fraunhofer er opinn fundur Landsvirkjunar um raforkukostnað stórnotenda á Íslandi.

Viðskiptagreining landsvirkjunar mun leitast við að svara eftirfarandi spurningum:

Er það satt að stórnotendum rafmagns bjóðist betri kjör í Noregi en á Íslandi?
Hverjar voru helstu niðurstöður í úttekt þýska rannsóknafyrirtækisins Fraunhofer á raforkukostnaði stórnotenda á Íslandi?
Hverjar eru horfur á norrænum raforkumarkaði, Nord Pool, í bráð og til lengri tíma?

Sérfræðingar viðskiptagreiningar, Dagný Ósk Ragnarsdóttir, Úlfar Linnet og Sveinbjörn Finnsson fjalla um niðurstöður úttektar Fraunhofer og stöðu og horfur á norrænum raforkumarkaði.
Valur Ægisson, forstöðumaður viðskiptagreiningar, stýrir fundinum.

Fundurinn hefst kl. 9 og er streymt á Facebook síðu Landsvirkjunar.

Línurnar lagðar fyrir framtíðina á rafrænum fundi Landsnets

Í dag, miðvikudaginn 9. desember fór rafrænn fundur Landsnets um framtíð flutningskerfisins í loftið á www.landsnet.is/leggjumlinurnar . Þar hafa verið tekin saman fróðleg erindi og umræður um áskoranir í uppbyggingu flutningskerfis raforku og viðbrögð og eftirmála óveðursins sem skall á í desember í fyrra.

Í einu myndbandinu er farið yfir þá viðbragðsáætlun sem fer í gang hjá Landsneti þegar vitað er að óveður mun skella á. Þar má sjá áhrifin af því þegar kerfi af þessari stærðargráðu verða fyrir verulegum áföllum.

Í hringborðsumræðum um orkuöryggi og græna framtíð kom fram sú skoðun Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, að óveðrið sýndi að veruleg þörf er á að hraða uppbyggingu orkukerfisins. Nú liggi fyrir hundruð tillagna um brýn verkefni sem ráðast þarf í. Þá skipti þessi uppbygging einnig máli hvað varðar markmið um kolefnishlutleysi og græna framtíð í orkumálum. Með forsætisráðherra í umræðunum eru Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og Sigrún Jakobsdóttir, stjórnarformaður Landsnets.

Í hinni hringborðsumræðunni er fjallað um uppbyggingu flutningskerfis og innviðauppbyggingu. Þar áréttar Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, að ólíðandi sé að brýnar framkvæmdir sem lúti að almannahagsmunum skuli stranda á skipulagsmálum. Ástandið sem skapaðist í óveðrinu sýni að átak sé nauðsynlegt. Ásamt Aldísi í umræðunni eru þátttakendur þau Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets. Þar ræðir ráðherra um að stór og mikilvæg verkefni hafi tekið of langan tíma í uppbyggingu, verið sé að skýra verkferla og flýta sumum þeirra og augljóst sé að fjárfestingarþörfin er mikil.

Á heimasíðu fundarins má sjá að auki ýmsa fróðleiksmola um flutningskerfi rafmagns.

Fólk fari sparlega með heitt vatn

Í ljósi þess að næstu daga stefnir í eitt mesta kuldakast á suðvesturhorni landsins síðan árið 2013 hafa Veitur virkjað viðbragðsáætlun í rekstri hitaveitunnar. Sú áætlun gengur meðal annars út á að hvetja fólk til þess að fara sparlega með heita vatnið svo öll hafi nægt vatn til húshitunar.
Sé tekið mið af spálíkönum, sem nýta veðurspár til að áætla notkun, er útlit fyrir að hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu fari að þolmörkum á föstudag og fram yfir helgi.
Um 90% af hitaveituvatni er notað til húshitunar og því skiptir afar miklu máli að fólk sé meðvitað um hvernig nýta á það sem best.

Fólk er hvatt til að gera eftirfarandi:
• Hafa glugga lokaða
• Hafa útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur
• Láta ekki renna í heita potta
• Stilla ofna svo þeir séu heitir að ofan en kaldir að neðan
• Varast að byrgja ofna, t.d. með síðum gluggatjöldum eða húsgögnum
• Minnka þrýsting á snjóbræðslukerfum
Fleiri hollráð um betri nýtingu heita vatnsins.
Mikilvægt er að hafa í huga að þeir köldu dagar sem við höfum upplifað undanfarið hafa verið í hæglátu veðri. Nú er hins vegar útlit fyrir töluverðan vind sem veldur mikilli kælingu ofan á það frost sem er í kortunum.
Mikil aukning á notkun

Kerfi hitaveitunnar er stórt og umfangsmikið og er í sífelldri uppbyggingu sem miðuð er að spám um fólksfjölgun og byggingamagn. Það sem ekki var fyrirséð í langtímaspám var sú aukning sem verið hefur í notkun á hvern íbúa sl. ár. Til samanburðar hefur söguleg aukning i hitaveitunni verið 1,5% – 4% milli ára en heildarnotkunin í ár er 11% meiri en á síðasta ári.

Mikið hefur verið framkvæmt í hitaveitunni undanfarin ár til að mæta aukinni eftirspurn, m.a. hefur varmastöð í Hellisheiðarvirkjun, sem framleiðir heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið, verið stækkuð, dælugeta kerfisins aukin og borholur á lághitasvæðum verið hvíldar yfir sumartímann til að auka aðgengilegan forða yfir vetrartímann.

Til að bregðast við kuldakastinu sem nú er í kortunum eru Veitur að hækka hitastig vatnsins sem notendur fá frá virkjunum og borholum á lághitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ, kerfið hefur verið fínstillt svo það anni sem allra mestu og unnið er að lagfæringum á nýjum dælum er keyptar voru í haust og auka áttu dælugetu kerfisins. Kallaðir hafa verið til erlendir sérfræðingar til verksins.

Heita vatnið er sameiginleg auðlind okkar allra og með samstilltu átaki viðskiptavina má minnka notkun þannig að hitaveitan standist álagið sem kuldakastið veldur.