Samið um lagningu jarðstrengs

Í dag var skrifað undir samning við Steypustöð Skagafjarðar um lagningu jarðstrengs á milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur með viðeigandi greftri, slóðagerð og frágangsvinnu, Grundarfjarðarlínu 2.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnet segir að með lagningu Grundarfjarðarlínu 2, 66 kV jarðstrengs milli Ólafsvíkur og Grundarfjarðar og byggingu nýrra tengivirkja aukist afhendingaröryggi raforku á svæðinu til muna.

Vinna við undirbúning, hönnun, útboð og jarðvinnuframkvæmdir vegna byggingar tengivirkis í Grundarfirði hófst árið 2015. Framkvæmdir við Grundarfjarðartengivirki hófust árið 2016, einnig vinna við hönnun nýs tengivirkis í Ólafsvík og gengið var frá innkaupum á jarðstreng. Vinna við strenginn hefst á næstu vikum og er stefnt að því að framkvæmdum verið að fullu lokið, með yfirborðsfrágangi sumarið 2018.

Skipað í stjórn Landsvirkjunar á aðalfundi

Á aðalfundi Landsvirkjunar, sem haldinn var miðvikudaginn 26. apríl 2017, skipaði fjármála- og efnahagsráðherra aðalmenn og varamenn í stjórn Landsvirkjunar samkvæmt lögum um fyrirtækið.

Aðalmenn í stjórn Landsvirkjunar eru:
• Jónas Þór Guðmundsson
• Ragnheiður Elín Árnadóttir
• Haraldur Flosi Tryggvason
• Álfheiður Ingadóttir
• Kristín Vala Ragnarsdóttir

Þetta er í fyrsta sinn í sögu Landsvirkjunar sem konur eru í meirihluta stjórnar.

Úr stjórn fóru Jón Björn Hákonarson, Helgi Jóhannesson og Þórunn Sveinbjarnardóttir en þau hafa setið í stjórn fyrirtækisins frá árinu 2014 og var þeim þakkað fyrir vel unnin störf.

Varamenn í stjórn Landsvirkjunar eru: Ásta Björg Pálmadóttir, Páley Borgþórsdóttir, Lárus Elíasson, Ragnar Óskarsson og Albert Svan Sigurðsson.

Aðalfundurinn staðfesti skýrslu fráfarandi stjórnar og samstæðureikning fyrir liðið reikningsár, sem má finna í rafrænni ársskýrslu á landsvirkjun.is. Jafnframt var Deloitte ehf. kosið endurskoðunarfyrirtæki Landsvirkjunar að fenginni tillögu Ríkisendurskoðunar.

Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar eftir aðalfund var Jónas Þór Guðmundsson endurkjörinn formaður stjórnar og Haraldur Flosi Tryggvason var kjörinn varaformaður.

Á aðalfundinum var jafnframt samþykkt tillaga stjórnar um arðgreiðslu til eigenda að fjárhæð 1,5 milljarðar króna fyrir árið 2016.

Sólarlampaverkefnið formlega sett í gang

Samstarfsverkefni Samorku og Givewatts í tilefni af degi rafmagnsins í janúar 2017 hefur nú formlega verið hleypt af stokkunum í Mwanza í Tansaníu.

Samorka fjármagnaði gerð 160 sólarorkulampa sem koma í stað steinolíulampa við dagleg störf hjá fjölskyldum í Mwanza. Þannig verður heilsuspillandi orkugjafa skipt út fyrir hreinan, endurnýjanlegan og ódýran orkugjafa, líkt og við búum við hér á Íslandi.

Hægt er að sjá allar nánari upplýsingar um verkefnið á sérstakri síðu þess hjá Givewatts og fylgjast með framvindu þess næstu tvö árin. Upphaflega áttu lamparnir að fara á annað svæði, en eftir nánari skoðun kom í ljós að þörfin var meiri á öðrum stað einmitt nú.

Með ódýrari og heilnæmari birtugjafa verður meðal annars hægt að gefa börnum betra tækifæri til þess að stunda nám heima við eftir að skóla lýkur á daginn, sem leiðir til hærra menntunarstigs. Sólarorkulampinn getur einnig hlaðið farsíma.

Að meðaltali nýta fimm manneskjur hvern lampa á hverju heimili. Þannig breytist líf 800 manns til hins betra með þessu verkefni.

Aðalfundur JHFÍ 2017

Aðalfundur Jarðhitafélags Íslands verður haldinn í Háskóla Íslands, HT-101 á Háskólatorgi, þriðjudaginn 25. apríl kl. 14.

 

Dagskrá: sbr. 5. gr. samþykkta félagsins:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara. Samþykkt dagskrár.
2. Skýrsla stjórnar um starfsemina á liðnu ári.
3. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
4. Tillögur til breytinga á samþykktum félagsins.
5. Lögð fram fjárhagsáætlun næsta árs til samþykktar. Ákvörðun félagsgjalda.
6. Kosning stjórnar. Ennfremur skulu kosnir tveir skoðunarmenn reikninga og einn til vara.
7. Upplýsingar um inngöngu nýrra félaga.
8. Önnur mál.

Framkvæmdaleyfi Kröflulínu 4 stendur

Mastur Kröflulínu 4

Framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4 í Skútustaðahreppi stendur – úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði í dag kröfu Landverndar og Fjöreggs um að leyfið yrði fellt úr gildi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsneti í dag.

Það var mat nefndarinnar að sveitarfélagið hafi staðið rétt að útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Kröflulínu 4.

Með þessari niðurstöðu er allri óvissu um framkvæmdaleyfi Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4 eytt og öll framkvæmdaleyfi á leiðinni í gildi.

Framkvæmdir við línurnar hefjast aftur eftir páska.

Úrskurðinn má finna á heimasíðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Rekstur Norðurorku í takt við áætlanir

Ársvelta Norðurorku samstæðunnar 2016 var 3,4 milljarðar króna. Hagnaður ársins var 409 milljónir króna eftir skatta og eigið fé 8,2 milljarðar króna. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins sem haldinn var í menningarhúsinu Hofi föstudaginn 31. mars.

Rekstur samstæðunnar var nokkuð í takt við áætlanir þrátt fyrir að kostnaður við borun heitavatnsholu að Botni hafi verið afskrifaður á árinu, alls 154 milljónir króna, þar sem borun varð árangurslaus.

Aðalfundur Norðurorku 2017 – forstjóri, stjórnarformaður og fulltrúar hluthafa ásamt ritara aðalfundarins.

Í stjórn Norðurorku voru kjörin Edward Hákon Huijbens, Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Ingibjörg Ólöf Isaksen og Gunnar Gíslason. Í varastjórn voru kjörin, Eva Hrund Einarsdóttir, Jóhann Jónsson, Óskar Ingi Sigurðsson, Margrét Kristín Helgadóttir og Matthías Rögnvaldsson.

 

 

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um reksturinn, ársskýrslu 2016 og verkefnin framundan hjá Norðurorku á heimasíðu fyrirtækisins.

Birna Ósk Einarsdóttir til Landsvirkjunar

Birna Ósk Einarsdóttir er nýr framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar.

Birna Ósk Einarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar.

Hlutverk sviðsins er að hámarka tekjur Landsvirkjunar til langs tíma. Í því felst þróun, kynning og sala á orkuvörum og þjónustu, samskipti við núverandi og væntanlega viðskiptavini vegna samninga og reksturs þeirra auk greiningar viðskiptatækifæra.

Framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs heyrir undir forstjóra Landsvirkjunar.

Birna Ósk hefur verið framkvæmdastjóri hjá Símanum frá árinu 2011, síðast yfir sölu- og þjónustusviði. Birna Ósk hefur starfað hjá Símanum frá árinu 2001, fyrst við almannatengsl og mannauðsráðgjöf. Hún var forstöðumaður verkefnastofu Símans á árunum 2006 til 2010 og stýrði samhliða markaðsmálum 2009-2010 þar til hún tók við stöðu framkvæmdastjóra.

Birna Ósk er viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík, með M.Sc. gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og hefur lokið AMP námi fyrir stjórnendur frá IESE Business School í Barcelona.

Landsvirkjun fær gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC í þriðja sinn

Þorkell Guðmundsson ráðgjafi hjá PwC afhendir fulltrúum Landsvirkjunar viðurkenningu fyrir Gullmerki PwC, sem Elín Pálsdóttir og Þórhildur A. Jónsdóttir, sérfræðingar á starfsmannasviði, og Sturla Jóhann Hreinsson, starfsmannastjóri, veittu viðtöku.

Landsvirkjun hefur hlotið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC fyrir árið 2017 og er þetta í þriðja skipti sem fyrirtækið fær þessa viðurkenningu. Einungis eitt annað fyrirtæki hefur farið þrisvar sinnum í úttektina og staðist í öll skiptin.

PwC hefur gert 65 jafnlaunaúttektir og aðeins einu sinni mælt jafnlítinn mun og nú mælist hjá Landsvirkjun: 0,4% fyrir heildarlaun.

Úttektin, sem gerð var í september, leiddi í ljós að grunnlaun karla innan fyrirtækisins væru 2,3% hærri en grunnlaun kvenna. Heildarlaun karla voru 0,4% hærri en heildarlaun kvenna. Sá launamunur sem er á grunn- og heildarlaunum er innan þeirra marka sem PwC hefur sett varðandi góðan árangur í jöfnum launum kynja.

Landsvirkjun vill stuðla að jafnrétti og vinnur eftir jafnréttisstefnu og aðgerðaráætlun jafnréttismála, samkvæmt lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla nr. 96/2000. Í jafnréttisstefnunni segir m.a. að karlar og konur skuli fá greidd sömu laun og sömu kjör fyrir sömu störf. Þá segir að stjórnendur og starfsfólk skuli vinna að því að útrýma kynbundnum störfum innan fyrirtækisins, þannig að engin störf skuli vera flokkuð sem karla- eða kvennastörf.

 

Sjá má jafnréttisstefnu Landsvirkjunar á heimasíðu fyrirtækisins.

Landsnet bakhjarl KíO

Við undirskrift bakhjarlssamningsins – Harpa Pétursdóttir formaður KíO og Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets sitja við borðið.

Landsnet og Konur í orkumálum skrifuðu nýlega undir samning sem kveður á um að Landsnet bætist í hóp bakhjarla félagsins til næstu tveggja ára.

„Fyrir okkur hjá Landsneti skiptir miklu máli að taka virkan þátt í að auka hlut kvenna í orkugeiranum. Hjá okkur starfar öflugur hópur kvenna með fjölbreytta menntun en í ákveðnum starfsgreinum vantar okkur konur til starfa. Hlutfallið hjá okkur er í dag 20/80 en þegar kemur að stjórnunarstöðum og stjórninni okkar er kynjahlutfallið jafnara. Félag eins og Konur í orkumálum skiptir miklu máli til að vinna með fyrirtækjum innan geirans að því að gera störfin sem við bjóðum upp á eftirsóknarverð og sýnileg fyrir jafnt konur sem karla. Við erum stolt af því að vera bakhjarl samtakanna„ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.

Félagið Konur í orkumálum var stofnað þann 11. mars 2016. Félagið er samstarfsvettvangur kvenna sem starfa í eða hafa áhuga á orkumálum á Íslandi og er tilgangur félagsins að efla þátt kvenna í orkumálum og styrkja tengsl þeirra á milli.

„Það er mjög gott að fá fyrirtæki eins og Landsnet með okkur í að vinna að markmiði félagsins og þá sérstaklega vegna þess hve stór hópur iðn- og tæknimenntaðra starfar þar, en við viljum einmitt stuðla að fjölgun kvenna í þeim hópi.“ segir Harpa Pétursdóttir, formaður Kvenna í orkumálum.

Vilja auka notkun endurnýjanlegrar orku í fiskimjölsiðnaði

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í dag í Marshall húsinu við Grandagarð í Reykjavík.

Landsvirkjun og Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) hafa tekið höndum saman um að stuðla að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði.

Fiskmjölsframleiðendur hafa á undanförnum árum notast bæði við olíu og rafmagn í framleiðslu sinni, en þeir hafa keypt skerðanlegt rafmagn af raforkusölum sem Landsvirkjun hefur selt á heildsölumarkaði. Takmarkað framboð á slíku rafmagni og sveiflukennd eftirspurn hjá fiskmjölsframleiðendum hefur gert að verkum að olía hefur verið nauðsynlegur varaaflgjafi í mjölvinnslunni og komið í stað rafmagns þegar á hefur þurft að halda.

Með viljayfirlýsingu sem Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar og Jón Már Jónsson, formaður FÍF, skrifuðu undir í dag er markmiðið að gera fiskmjölsframleiðslu enn umhverfisvænni með því ýta undir notkun rafmagns við vinnsluna, draga þar með úr losun koltvísýrings og styðja um leið við markmið Parísarsamkomulagsins og skuldbindingar Íslands samkvæmt því.

Landsvirkjun lýsir því yfir að fyrirtækið muni á næstu árum stuðla eins og hægt er að auknu framboði á skerðanlegu rafmagni á heildsölumarkaði. Um leið ætlar FÍF að stuðla að því að félagsmenn horfi til þess að gera mjölframleiðsluna enn umhverfisvænni og noti endurnýjanlega orkugjafa í stað annarra mengandi orkugjafa. Stefnir FÍF að því að félagsmenn noti skerðanlegt rafmagn eins mikið og framboð og flutningar á slíku rafmagni leyfa.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Landsvirkjunar.