4. júlí 2025 Þingið á lokametrum en flest orku- og veitutengd mál enn óafgreidd Þinglok nálgast og enn er margt óunnið í mikilvægum orku- og veitumálum. Þegar ný ríkisstjórn kynnti þingmálaskrá sína fyrir 156. löggjafarþing síðastliðið vor tók Samorka saman lista yfir tíu þingmál sem hafa beina snertingu við hagsmuni orku- og veitusviðsins. Sex þessara mála höfðu verið lögð fram af fyrri ráðherra, fjögur voru ný. Nú þegar líður að þinglokum hefur aðeins hluti þeirra hlotið fulla meðferð. Af tíu málum voru sjö lögð fram en þrjú sátu eftir, þar á meðal umfjöllun um fimm virkjunarkosti í fimmta áfanga rammaáætlunar. Þau þrjú sem ekki náðu fram eru því að öllum líkindum áfram í biðstöðu, þar til nýtt þing tekur við. Orku og veitutengd mál á þingmálalista yfirstandandi þings. Mál lituð bleikum hafa ekki verið lögð fram á yfirstandandi þingi. Tvö mál hafa verið samþykkt Af þeim sjö málum sem lögð voru fram hefur Alþingi samþykkt tvö. Annars vegar breytingar á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála sem veita Umhverfis- og Orkustofnun heimild til að leyfa breytingu á vatnshloti vegna framkvæmda í þágu almannahagsmuna. Þar með var brugðist við lagalegri óvissu sem skapaðist eftir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem ógilti virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar vegna skorts á lagaheimild. Hins vegar var samþykkt afhúðunarfrumvarp til breytinga á lögum um umhverfismat, sem færir íslenskt regluverk nær evróputilskipuninni sem lögin byggjast á. Fimm mál í nefnd eða biðstöðu Önnur mál eru ýmist í þingnefndum eða bíða umræðu. Þar á meðal eru tillögur um raforkuöryggi, einföldun leyfisveitinga og breytingar á viðskiptakerfi með raforku. Einnig bíða endurskoðun á þriðja áfanga rammaáætlunar og skýrari málsmeðferðarreglur fyrir áætlunarferlið frekari afgreiðslu. Samorka sendi inn umsagnir um þrjú mál í júní; um áform um endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga, um áform um endurskoðun sveitarstjórnarlaga og um drög að forgangslista vegna hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB. Hægt er að lesa allar umsagnir Samorku hér.