Vöxtur  í nýtingu jarðhita í Evrópu

Vöxtur er í nýtingu og leit að jarðhita í Evrópu samkvæmt nýrri skýrslu sem European Geothermal Energy Council (EGEC), samtök evrópska jarðhitageirans, kynntu þann 11. júlí. Forysta EGEC bindur miklar vonir við væntanlega aðgerðaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í jarðhita.

Í skýrslu EGEC kemur m.a. fram að alls voru 147 jarðhitavirkjanir í rekstri í Evrópu í lok 2024 og um 50 til viðbótar eru í undirbúningi  á mismunandi þróunarstigum. Hitaveitur í Evrópu (Geothermal District Heating and Cooling) eru nú rúmlega 400 talsins og áætlanir eru uppi um að bæta um 500 við, sem nemur þá meira en tvöföldun á fjöldanum.

Jarðhitaholur í Póllandi

Sala á jarðvarmadælum dróst saman á árinu 2024 en vonir standa til að hún aukist aftur, m.a. með aðgerðaáætlun ESB í jarðhita (Geothermal Action Plan) sem framkvæmdastjórn ESB hyggst kynna snemma á næsta ári. Leit að jarðhita og tengdar rannsóknir eru í miklu vexti, samkvæmt skýrslunni.  Þar á meðal er ætlunin að bora fjölmargar holur í tengslum við þær nýju jarðhitavirkjanir sem eru á teikniborðinu eða eru lengra komnar í undirbúningi.

„Leiðin liggur upp á við í jarðhitageiranum, með nýjum borverkefnum, virkjunum og hitaveitum,“ er haft eftir Miklos Antics forseta EGEC í fréttatilkynningu frá samtökunum sem Samorka er aðili að.  Antics leggur einnig áherslu á mikilvægi aðgerðaáætlunar ESB til að jarðhiti fái m.a. viðurkenningu sem einn hornsteina orkuskipta.  Philippe Dumas, framkvæmdastjóri EGEC telur að aðgerðaáætlunin geti t.d. verið í lykilhlutverki í að einfalda leyfisveitingar fyrir ný jarðhitaverkefni. Það ætti um leið að ýta undir áhuga fjárfesta.

Jarðhitavirkjun í Rúmeníu