Uppspretta verðmæta, þekkingar og lífsgæða

Inngangsávarp Franz Árnasonar, formanns Samorku, í blaðinu Íslensk orka sem gefið er út af fyrirtækinu Landi og sögu ehf. og dreift er með Morgunblaðinu:

Orkumálin eru ofarlega á dagskrá ríkisstjórna og ríkjabandalaga um heim allan, ekki síst í samhengi við baráttuna gegn hlýnun lofthjúpsins. Vandinn sem þar er við að etja er ekki síst til kominn vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti – kolum, olíu og gasi – og þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem slíkri brennslu fylgir. Þá eru víða uppi vaxandi áhyggjur af ótryggu framboði á mikilvægum orkugjöfum, til dæmis gasi. Við Íslendingar erum hins vegar svo lánsöm að búa að ríkulegum endurnýjanlegum orkulindum.

Hrein orka á Íslandi
Á Íslandi er hlutfall endurnýjanlegra innlendra orkugjafa í heildar orkunotkun 72%, en um 7% innan Evrópusambandsins og um 13% á heimsvísu. Vegna losunar gróðurhúsalofttegunda við brennslu á jarðefnaeldsneyti er nú á alþjóðavettvangi lögð mikil áhersla á aukinn hlut endurnýjanlega orkugjafa, sem losa engar eða hverfandi litlar gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Þarna er Ísland í einstakri stöðu á heimsvísu. Íslensk orkufyrirtæki leggja jafnframt áherslu á að umgangast landið með virðingu og að tekið sé tillit til náttúru og umhverfis í allri starfseminni.

Þekkingariðnaður í útrás
Mikil þekking hefur byggst upp hérlendis á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og sem dæmi má nefna að á liðnu ári voru unnin 500 ársverk verk- og tæknifræðinga á vegum íslenskra orku- og veitufyrirtækja. Afar ánægjulegt hefur verið að fylgjast með því að undanförnu hvernig íslensk orkufyrirtæki, fjármálafyrirtæki og verkfræðifyrirtæki hafa verið að sækja í sig veðrið í útrás á grundvelli þessarar þekkingar. Þá hefur íslenska háskólasamfélagið heldur betur tekið við sér varðandi möguleika á þessu sviði í samstarfi við íslensk orkufyrirtæki og virta erlenda háskóla. Tækifærin eru ótvíræð enda fer eftirspurnin eftir endurnýjanlegum orkugjöfum sífellt vaxandi.

Náttúruvernd og nýting orkulinda
Mikil umræða hefur farið fram hérlendis undanfarin ár um jafnvægi milli nýtingar á orkulindum annars vegar og náttúruverndar hins vegar. Flestir ef ekki allir munu sammála um mikilvægi verndunar. Jafnframt viljum við halda áfram að nýta okkar ríku auðlindir. Verði það ekki gert náum við ekki að viðhalda og þróa áfram þá miklu þekkingu sem við búum yfir á sviði nýtingar endurnýjanlegra orkulinda og halda þannig áfram að bæta lífskjör í landinu.

Lágt raforkuverð
Vel hefur tekist til með uppbyggingu raforkukerfis í okkar dreifbýla landi. Á Íslandi er verð á raforku til almennings með því lægsta sem gerist á Vesturlöndum, en raforkuverð til stóriðju er hér í meðallagi á heimsvísu. Stórir samningar um sölu á raforku til stóriðju hafa gert íslenskum orkufyrirtækjum kleift að virkja með hagkvæmari hætti sem aftur þýðir að þau geta selt almennum neytendum raforku á lægra verði en ella og veitt betri þjónustu vegna öflugra raforkukerfis. Þá er ljóst að kynding með jarðhita hefur um áratugaskeið sparað Íslendingum fleiri milljarða króna á ári sem annars færu í innflutning á olíu til kyndingar, með tilheyrandi mengun. Endurnýjanlegir orkugjafar eru uppspretta mikilla verðmæta hér á landi auk almennra lífsgæða og þeir menga ekki andrúmsloftið eins og gildir því miður um orkugjafa í flestum öðrum löndum.