Tveir nýir framkvæmdastjórar hjá Landsvirkjun

Landsvirkjun hefur ráðið þau Tinnu Traustadóttur og Ríkarð S. Ríkarðsson í stöðu framkvæmdastjóra Orkusölusviðs og Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs. Á sama tíma er svið Markaðs- og viðskiptaþróunar lagt niður.

Nýtt Orkusölusvið mun annast samningsgerð og rekstur orkusölusamninga við núverandi viðskiptavini Landsvirkjunar, með áherslu á að vinna náið með þeim viðskiptavinum, til að tryggja samkeppnishæfni þeirra. Þá eru fyrirsjáanlegar miklar breytingar á heildsölumarkaði fyrir raforku og markað fyrir kerfisþjónustu.

Tinna Traustadóttir er framkvæmdastjóri Orkusölusviðs. Tinna útskrifaðist frá Háskólanum í Reykjavík árið 2017 með meistaragráðu í stjórnun og viðskiptum (MBA) og er einnig með MSc. í lyfjafræði frá Háskóla Íslands. Í tæplega 14 ár starfaði hún hjá Actavis og hlaut þar víðtæka reynslu af viðskiptaþróun og samningagerð í alþjóðlegu umhverfi. Á árunum 2005-2014 starfaði Tinna hjá Actavis í Bandaríkjunum, sem er stærsti lyfjamarkaður í heimi.

Tinna hóf störf hjá Landsvirkjun haustið 2017 í viðskiptaþróun og starfaði þar m.a. að fjölnýtingu og nýsköpun. Árið 2018 fluttist hún yfir í viðskiptastýringu, en frá maí á síðasta ári hefur hún verið forstöðumaður viðskiptastýringar.

 

Hlutverk Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs er að þróa ný viðskiptatækifæri og stýra þátttöku Landsvirkjunar í orkutengdri nýsköpun. Á sviðið flytjast einnig þau verkefni Þróunarsviðs sem snúa að nýsköpun og fjölnýtingu. Þau viðskiptatækifæri sem fram undan eru krefjast víðtæks samráðs við fjölbreytta hagsmunaaðila, sem og frumkvæðis og drifkrafts Landsvirkjunar, til að verkefnin njóti brautargengis og árangur náist.

Ríkarður S. Ríkarðsson er framkvæmdastjóri Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs. Ríkarður útskrifaðist með BSc. gráðu í rafmagns- og tölvuverkfræði frá University of Denver árið 2000 og MSc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá Stanford University árið 2002. Þá lauk hann námi í stjórnunarfræðum við IMD Business School árið 2017.

Að loknu námi í Stanford starfaði Ríkarður í nokkur ár hjá fjármálafyrirtækjum á Íslandi og um tveggja ára skeið hjá McKinsey & Co. í Kaupmannahöfn. Hann hóf störf hjá Landsvirkjun við markaðs- og viðskiptaþróun árið 2011. Frá júlí 2017 hefur Ríkarður verið framkvæmdastjóri dótturfyrirtækis Landsvirkjunar, Landsvirkjun Power, en hlutverk fyrirtækisins er að veita ráðgjöf og taka þátt í þróun endurnýjanlegrar orkuvinnslu erlendis. Ríkarður mun gegna því starfi áfram, samhliða framkvæmdastjórastöðu Viðskiptaþróunar- og nýsköpunarsviðs.

Nánar á landsvirkjun.is.