Tenging við Evrópu skoðuð af alvöru

Ályktun aðalfundar Samorku, 21. febrúar 2014:

Tenging við raforkukerfi Evrópu verði skoðuð af alvöru
Tenging Íslands við raforkukerfi Evrópu hefur nú verið til skoðunar um nokkurra ára skeið. Í júní í fyrra skilaði ráðgjafarhópur iðnaðar- og viðskiptaráðherra skýrslu um raforkustreng til Evrópu þar sem kemur fram að „vísbendingar [séu] um að slík framkvæmd gæti reynst þjóðhagslega arðsöm að nokkrum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef tækist að semja við gagnaðila um hagstæð kjör á seldri orku með tiltölulega miklu öryggi og til nokkuð langs tíma.“ Ráðgjafarhópurinn lagði einróma til að könnunarviðræður verði hafnar við breska hagsmunaaðila til þess að skýra betur hvort hægt sé að ná samkomulagi um raforkusölu um sæstreng og í framhaldi af því meta þjóðhagsleg áhrif og áhættu verkefnisins.
 
Verkefnið yrði stærsta og flóknasta fjárfesting í sögu landsins og gæti haft mikil jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Fjölmörgum áleitnum spurningum er hins vegar enn ósvarað, t.d. hvaðan kæmi orkan, áhrif á raforkuverð á Íslandi og áhrif á starfsumhverfi orkufreks iðnaðar. Samorka hvetur til þess að málið verði skoðað af mikilli alvöru og forsendur verkefnisins treystar áður en ákvörðun er tekin um hvort ráðast eigi í það.

Raunhæfar kröfur til fráveiturekstrar
Dæmi eru um að hér séu kröfur til meðhöndlunar á fráveituvatni mun stífari en þekkjast í okkar samanburðarlöndum, en þó með afar takmarkað umhverfisverndargildi. Þannig eru dæmi um 250% stífari kröfur er varða hreinsun á fráveituvatni sem losa á í yfirborðsvatn, en gerðar eru til hreinleika baðvatns í Evrópusambandinu. Samorka leggur áherslu á mikilvægi þess að hér séu gerðar raunhæfar kröfur til þessa rekstrar, þannig að uppfyllt verði eðlileg skilyrði en ekki gerðar kröfur að nauðsynjalausu sem hafa í för með sér fjárfestingar umfram eðlilega fjárfestingargetu veitufyrirtækja og sveitarfélaga.

Loks ítrekar Samorka mikilvægi þess að sátt náist um rammaáætlun og um nauðsynlega uppbyggingu á flutningskerfi raforku.