Ráðherra setur vindorkukost í nýtingarflokk

Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis, orku- og loftslagsráðherra hefur lagt til að færa fyrirhugaða vindorkuvirkjun í Garpsdal í Reykhólahreppi yfir í nýtingarflokk rammaáætlunar úr biðflokki. Þar með breytir hann tillögu verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar sem lagði til við ráðherra í maí s.l. að allir 10 vindorkukostirnir í 5. áfanga rammaáætlunar færu í biðflokk.

Ráðherra rökstyður ákvörðun sína með því að virkjanakosturinn í Garpsdal hafi fengið jákvæðari umsögn frá faghópum rammaáætlunarinnar en aðrir kostir, bæði hvað varðar áhrif á náttúru og samfélag. Meiri sátt virðist ríkja um Garpsdalinn í nærsamfélaginu en um aðra vindorkukosti að því fram kemur í fréttatilkynningu ráðuneytisins.

Ásýnd á vindorkugarðinn, séð frá Saurbæ

„Við tökum eitt skref í einu í vindorkunni og gefum ekki grænt ljós á frekari framkvæmdir fyrr en skýr rammi og lagaumgjörð liggur fyrir. Þar verður lögð áhersla á að verja náttúruverðmætin sem við eigum hérna saman og tryggja sátt og samstöðu í nærsamfélaginu,“ segir Jóhann Páll í fréttatilkynningunni.

Ráðherrann  stefnir á að leggja fram þingsályktunartillögu um breytta flokkun Garpsdals samhliða kynningu á vindorkustefnu og breyttri lagaumgjörð um vindorkunýtingu á næsta löggjafarþingi. Aðrir vindorkukostir í tillögum verkefnisstjórnarinnar muni fá áframhaldandi umfjöllun hjá nýrri verkefnisstjórn rammaáætlunar sem skipuð var 12. júní sl.

Vindorkulundurinn sem áformaður er í Garpsdal er í þróun af EM Orku og var það af þeim sem óskað var eftir mati á virkjunarkostinum. Gert er ráð fyrir 21 4,2 MW vindmyllum með 88MW heildarafl. Svæðið sem rannsakað var eru 3,67km2 og af því er búist við að 0.12km2 muni raksast vegna framkvæmdanna. Hljóti tillaga ráðherra brautargengi á alþingi er þetta þriðji vindorkukosturinn í nýtingarflokki rammaáætlunar en fyrir eru Búrfellslundur, nú nefndur Vaðölduver, og Blöndulundur.

Vaðölduver verður fyrsta stóra vindorkuverið hér á landi. Reisa á 28 vindmyllur með uppsettu afli upp á 120 MW. Helmingur þeirra verður gangsettur haustið 2026 og reiknað er með að Vaðölduver verði komið í fullan rekstur fyrir lok árs 2027.

Hröð þróun til rafvæðingar

Helmingur allrar raforku í heiminum verður framleidd úr vind- og sólarorku árið 2040 og hækkar upp í 70% árið 2050. Raforkuþörf heimsins tvöfaldast til ársins 2050 og raforka verður að langstærstum hluta kolefnishlutlaus sama ár.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu DNV, Energy Transition Outlook: New Power Systems.

Í skýrslunni kemur fram að flutningskerfi raforku leiki algjört lykilhlutverk svo þetta geti orðið að veruleika. Flutningsgeta þeirra þurfi að tvöfaldast og innleiða þurfi nýjar lausnir til snjallvæðingar. Þá er einnig lögð áhersla á rafeldsneyti og orkugeymslur auk þess að endurskoða þurfi orkumarkaði svo þeir séu nægilega sveigjanlegir.

DNV telur að samkeppnishæfni þjóða komi til með að ráðast af getuþeirra til að aðlagast þessum breyttu orkukerfum og aukinni raforkuþörf hratt og vel.

Lesa má skýrslu DNV hér.

113 þúsund heimsóttu virkjanir 2014

Nokkur orkufyrirtæki hafa byggt upp gestastofur til að taka á móti ferðamönnum. Árið 2014 var gestafjöldi í nokkrum af helstu gestastofunum um 113 þúsund gestir. Þar af voru um 94 þúsund sem heimsóttu jarðhitasýninguna við Hellisheiðarvirkjun. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var af fræðimönnum við land- og ferðamálafræðideild Háskóla Íslands, en þar segir að hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hérlendis veki athygli ferðamanna. Um 12.500 heimsóttu gestastofur Landsvirkjunar við Búrfellsvirkjun og Kröfluvirkjun, tæplega 5.800 heimsóttu orkuverið á Reykjanesi og sýninguna Orkuverið Jörð og um 700 tóku þátt í skipulögðum gönguferðum um Reykjanes sem styrktar eru af Bláa lóninu, HS Orku og HS Veitum.

Rannsóknin fjallar um áhrif vindmylla í Búrfellslundi á ferðaþjónustu og íbúa og var unnin í samstarfi við Landsvirkjun. Rannsókninni stýrðu Rannveig Ólafsdóttir, prófessor við land- og ferðamálafræðideild Háskóla Íslands, og Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent í ferðamálafræði við sama skóla. Ofangreindar upplýsingar um heimsóknir í gestastofur orkufyrirtækja má nálgast í skjalinu hér á vef Landsvirkjunar (sjá kafla 2.2, bls. 17 (22 í rafrænu skjali).

Dalvíkurbyggð hefur látið gera skýrslu um smávirkjanir

Að frumkvæði sveitarfélagsins hefur Mannvit gert úttekt og lagt fram skýrslu um helstu virkjunarkosti í byggðarlaginu. Efni fundarins var fyrst og fremst kynning á skýrslunni, sem höfundar hennar önnuðust. Þá voru einnig flutt erindi um raforkuöryggi í Eyjafirði, raforkuflutning, raforkumarkaðinn, tækifæri fyrir smávirkjanir, beislun vindorkunnar og tengingar smávirkjana við orkukerfið.

Dagskrá fundarins og skýrslu Mannvits er að finna á heimasíðu Dalvíkurbyggðar: Smellið hér

Fundurinn var fjölsóttur og fram kom mikill áhugi fundarmanna um beislun orkunnar í héraði, en einnig voru skiptar skoðanir á flutningi raforku milli landshluta.

Samorka þakkar Dalvíkurbyggð fyrir það frumkvæði sem sveitarfélagið sýnir með gerð og kynningu þessa verkefnis.