5. apríl 2008 Sýning á vinningstillögu úr samkeppni um útilistaverk Laugardaginn 5. apríl var opnuð sýning í Bókasafni Mosfellsbæjar á vinningstillögu úr samkeppni um útilistaverk sem Samorka og Mosfellsbær munu reisa á nýju torgi við Þverholt. Tilefni samkeppninnar eru 100 ára afmæli hitaveitu á Íslandi, sem miðast við frumkvöðulsstarf Stefáns B. Jónssonar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit árið 1908, og 20 ára afmæli Mosfellsbæjar árið 2007. Ennfremur eru til sýnis tillögur þeirra tveggja annarra listamanna sem forvalsdómnefnd samkeppninnar valdi úr hópi 16 tillagna til frekari þróunar í lokaðri samkeppni, auk annarrar tillögu Kristins, en hverjum þátttakenda var heimilt að skila inn tveimur tillögum. Vinningstillagan er verkið Hundraðþúsundmiljón tonn af sjóðheitu vatni, eftir Kristin E. Hrafnsson myndlistarmann. Er þar í titlinum vísað til orða Halldórs Kiljan Laxness í bókinni Innansveitarkróniku. Í niðurstöðu dómnefndar um verkið segir: Framsetning tillögunnar er mjög góð. Mjög auðvelt er að átta sig á hugmyndinni og öll útfærsla tillögunnar er vel unnin. Hugmyndafræðilegur bakgrunnur nær á skemmtilegan hátt að samtvinna sögu Mosfellsbæjar og sögu hitaveitunnar. Góð tenging er því bæði við söguna, umhverfið og heita vatnið. Ennfremur tekur tillagan fallega tillit til umhverfisins og tengir það vel inn í verk sitt. Verkið er látlaust og jarðbundið. Kostnaðaráætlun er vel innan marka sem forsögn í keppnisreglum kveða á um. Kristinn er fæddur á Ólafsfirði árið 1960 og lagði hann stund á myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík og í München í Þýskalandi. Hann hefur unnið að myndlist frá námslokum árið 1990 og sýnt víða heima og erlendis. Verk eftir Kristin er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins og í mörgum stofnunum og sveitarfélögum á landinu. Einnig eru sem fyrr segir til sýnis önnur tillaga Kristins sem ber sama heiti sem og tillögurnar Rauði þráðurinn eftir Magnús Rannver Rafnsson og Vatn eflir okkar innri kjarna eftir Gunnar Eiríksson. Bókasafn Mosfellsbæjar er til húsa í Kjarna, Þverholti 2, Mosfellsbæ.