23. nóvember 2020 Stöðugur rekstur OR Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur hefur verið stöðugur fyrstu þrjá fjórðunga ársins 2020, fyrirtækið er vel í stakk búið til að flýta og auka þannig við fjárfestingar til að mæta afleiðingum heimsfaraldurs á íslenskt efnahagslíf. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 11,2 milljörðum króna en var 11,1 milljarður á sama tímabili í fyrra og framlegð rekstursins var 20,8 milljarðar eða 800 milljónum króna meiri en í uppgjöri eftir þriðja ársfjórðung 2019. Árshlutareikningur fyrstu níu mánaða ársins var samþykktur á fundi stjórnar OR í dag. Reikningurinn er uppgjör allrar samstæðunnar, sem auk móðurfélagsins telur Veitur, Orku náttúrunnar, Gagnaveitu Reykjavíkur og Carbfix. Miklar fjárfestingar – sterk sjóðstaða Í takti við uppbyggingu á helstu þjónustusvæðum fyrirtækisins og ákvörðun um viðspyrnufjárfestingar vegna kórónuveirunnar, voru fjárfestingar með mesta móti á fyrstu þremur fjórðungum ársins og námu 11,4 milljörðum króna. Helstu fjárfestingar tímabilsins tengjast uppbyggingu og viðhaldi veitukerfanna – vatnsveitu, fráveitu, hitaveitu og rafveitu – fjárfestingu í nýjum borholum á Hengilssvæðinu ásamt tengingu heimila í Árborg og Reykjanesbæ við ljósleiðara. Þá er mikill kraftur í viðskiptaþróun Carbfix. Sjá má fleiri lykiltölur fjármála á vef OR.