Sólarlampaverkefnið formlega sett í gang

Samstarfsverkefni Samorku og Givewatts í tilefni af degi rafmagnsins í janúar 2017 hefur nú formlega verið hleypt af stokkunum í Mwanza í Tansaníu.

Samorka fjármagnaði gerð 160 sólarorkulampa sem koma í stað steinolíulampa við dagleg störf hjá fjölskyldum í Mwanza. Þannig verður heilsuspillandi orkugjafa skipt út fyrir hreinan, endurnýjanlegan og ódýran orkugjafa, líkt og við búum við hér á Íslandi.

Hægt er að sjá allar nánari upplýsingar um verkefnið á sérstakri síðu þess hjá Givewatts og fylgjast með framvindu þess næstu tvö árin. Upphaflega áttu lamparnir að fara á annað svæði, en eftir nánari skoðun kom í ljós að þörfin var meiri á öðrum stað einmitt nú.

Með ódýrari og heilnæmari birtugjafa verður meðal annars hægt að gefa börnum betra tækifæri til þess að stunda nám heima við eftir að skóla lýkur á daginn, sem leiðir til hærra menntunarstigs. Sólarorkulampinn getur einnig hlaðið farsíma.

Að meðaltali nýta fimm manneskjur hvern lampa á hverju heimili. Þannig breytist líf 800 manns til hins betra með þessu verkefni.