Rammaáætlun afgreidd eftir níu ára bið
Þriðji áfangi áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða, rammaáætlun, var í dag afgreiddur á Alþingi. Níu ár eru liðin frá því að vinna verkefnisstjórnar hófst við þriðja áfanga, sem hefur ekki tekist að samþykkja fyrr en nú.
Alþingi afgreiddi áfangann með nokkrum breytingum frá upprunalegri tillögu verkefnisstjórnar. Alls voru sjö kostir færðir í biðflokk. Fjórir þeirra voru áður í verndarflokki rammaáætlunar og þrír í nýtingarflokki. Vindorkukosturinn Búrfellslundur færðist í nýtingarflokk, en hann var áður í biðflokki.
Þannig eru í fyrsta skipti vindorkukostir í nýtingarflokki gildandi rammaáætlunar. Um er að ræða Búrfellslund (120 MW) og Blöndulund (100 MW). Landsvirkjun er virkjunaraðili þeirra beggja.