Raforkukerfi í vanda

Fréttablaðsgrein Gústafs Adolfs Skúlasonar:

 

Raforkukerfi í vanda

Nú berast fregnir af fjölda áhugasamra fjárfesta sem margir munu þurfa á talsverðri raforku að halda, náist samningar um orkukaup. Ýmsir álitlegir virkjanakostir eru til staðar, þótt margir þeirra hafi ratað niður lista rammaáætlunar eftir að faglegri vinnu fyrri verkefnisstjórnar lauk. Dæmi eru um að öflug iðnfyrirtæki og fiskimjölsverksmiðjur óski eftir aukinni raforku hið fyrsta. Alla jafna er næg orka til í kerfinu til að mæta slíkum óskum, en þá þarf einnig að vera hægt að flytja orkuna. Hvað stærri viðskiptavini varðar þá er til lítils að reisa nýjar virkjanir ef ekki er hægt að flytja orkuna til kaupandans.

Hamlar þróun atvinnulífs
Nú er svo komið að flutningskerfi raforku annar víða ekki þeirri eftirspurn sem til staðar er og hamlar það þannig þróun atvinnulífs og byggðar. Framleiðslugeta sumra virkjana er vannýtt, heilir landshlutar búa við takmarkanir í flutningsgetu og ekki er hægt að flytja orku þaðan sem hún er næg yfir til annarra landshluta vegna veikleika í flutningskerfinu. Ekki verður flutningsfyrirtækið, Landsnet, sakað um skort á framkvæmdavilja. Skipulags- og leyfisferlin eru hins vegar afar tafsöm og margir aðilar sem geta komið í veg fyrir eða tafið framkvæmdir.
 
Þá hefur andstaða við háspennulínur farið vaxandi og víða eru gerðar kröfur um að flutningskerfið verði lagt í jörðu. Nú er reyndar svo komið að meginþorri dreifikerfis raforku, á lægri spennu, er þegar í jörðu hérlendis og nær öll endurnýjun sem fram fer á kerfinu er í formi jarðstrengja. Kostnaður við lagningu jarðstrengja á hárri spennu (220 kV) er hins vegar alla jafna margfalt hærri en við lagningu háspennulína. Raunar geta strengirnir haft mun meiri og óafturkræfari umhverfisáhrif en háspennulínur, svo sem ef grafa þarf margra metra breiða skurði gegnum hraun, en það er önnur umræða. Landsneti ber samkvæmt ákvæðum raforkulaga að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt og fyrirtækið því ekki í stöðu til þess að taka ákvarðanir um margfalt kostnaðarsamari fjárfestingar en ella, án stefnumörkunar þess efnis af hálfu stjórnvalda.
 
Staðan er því þannig að á meðan ekki er mörkuð skýr opinber stefna um jarðstrengi eða loftlínur og að óbreyttu skipulags- og leyfisferli mun flutningskerfi raforku áfram, og í vaxandi mæli, hamla þróun atvinnulífs og byggðar víða um land. Sem dæmi má nefna allan þorra Norður- og Austurlands.