Orkuveita Reykjavíkur hlaut Menntasprotann 2023

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í dag fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Bláa lónið er Menntafyrirtæki ársins og Vaxtarsprotar OR hljóta Menntasprotann 2023. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA afhentu verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu í dag.

Vaxtasprotar OR hljóta Menntasprotann 2023

Fulltrúar OR taka við Menntasprotanum í Hörpu í dag.

Orkuveita Reykjavíkur hlaut í morgun Menntasprotann árið 2023 fyrir verkefnið „vaxtarsprotar“ – leiðtogaþjálfun. Verkefnið er nýtt hjá OR og öllum dótturfélögum fyrirtækisins með það að markmiði að þróa vinnustaðina og breytta menningu til þess að takast betur á við síbreytilegt umhverfi og auknar kröfur og væntingar viðskiptavina.

Dótturfyrirtæki OR eru afar fjölbreytt en eiga það sameiginlegt að vera innviðafyrirtæki með einum eða öðrum hætti. Þar er bæði verið að framleiða og selja orku, reka margar af mikilvægustu auðlindum landsins, byggju upp fjarskiptainnviði en einnig er lögð mikil áhersla á rannsóknir og nýsköpun á fjölbreyttum sviðum t.d. á sviði kolefnisföngunar og förgunar. Eitt af markmiðunum er að nýta leiðtoga þvert á verkefni og vinnustöðvar sem hluta af lærdómsferli leiðtogans en um leið kynna vaxtarsprotana úti í fyrirtækjunum.

„Í nútíma samfélagi þar sem sífelldar breytingar eru veruleikinn er mikilvægt að vinna að stöðugri nýsköpun og framþróun í þjónustu við viðskiptavini. Með verkefninu „vaxtarsprotar“ setti OR á dagskrá þjálfun starfsfólks í nýrri færni og vexti þar sem sveigjanleiki er aukinn og hraðar er hægt að bregðast við áskorunum, óvæntum uppákomum en síðast en ekki síst nýjum tækifærum.“ segir Ellen Ýr Aðalsteinsdóttir mannauðsstýra OR.

Skapar virði fyrir vinnustaðinn 

Með vaxtarsprotanum fær starfsfólk tækifæri til þess að fá þjálfun til að draga fram sterkan umbótavilja og verkfæri til að hjálpa öðrum að vaxa og takast á við breytingar þar sem samskiptatæknin er lykill að árangri. Mikil ásókn er hjá starfsfólki að komast í þessa þjálfun sem stendur samanlagt í níu mánuði. OR leggur áhersla á að þjálfunin sé tengd við raunveruleg verkefni (e. learn by doing) og hefur þetta þjálfunarprógram hitt í mark og umsækjendur skipta tugum.

„Ferðalagið var ótrúlegt og lærdómskúrfan mín rauk upp í veldisvexti. Bæði lærði ég mikið inn á sjálfa mig og hvernig er árangursríkast að vinna með mig og annað fólk í kringum mig en ekki síst hvernig ég get skapað meira virði fyrir vinnustaðinn minn“.

Svona lýsir einn leiðtoginn sínu ferðalagi og árangrinum af þessu skemmtilega og spennandi verkefni. Verkefni sem byggir á framsýni, forvitni og tileinkun nýrra aðferða og tækni.

Verðlaunin voru veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni á Menntadegi atvinnulífsins í Hörpu í dag. Dagurinn er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þvert á atvinnugreinar og var haldinn í tíunda sinn í ár. Menntaverðlaunin eru valin af dómnefnd úr fjölda tilnefninga og veitt þeim fyrirtækjum sem þykja skara fram úr á sviði fræðslu- og menntamála.

Yfirskrift menntadagsins að þessu sinni var Færniþörf á vinnumarkaði og hér má horfa á fundinn á upptöku.

Bláa lónið er Menntafyrirtæki ársins.