27. september 2001 Orkuþing á fimm ára fresti Orkuþing er nú nýafstaðið og var það stærsta Orkuþing sem haldið hefur verið. Um 440 manns sóttu þingið og er það helmingi fleiri en tóku þátt á þinginu fyrir tíu árum. Mun fleiri aðilar stóðu að þinginu nú en áður. Einnig var nýmæli að á laugardeginum eftir var haldinn Orkudagur fyrir almenning. Þar voru fluttir fyrirlestrar um orkumál og orkusparnað. Alls voru fluttir yfir eitthundrað fyrirlestrar og var það mál manna að þeir hefður verðið vandaðir og mikið hefði verið af áhugaverðu efni. Gefin var út vegleg bók með efni fyrirlestranna og eru þeir nú komnir á vefsíðu Samorku. Málþing skólanema í grunnskólum var haldið þar sem nemendur komu og tjáðu sig um orkumál framtíðarinnar. Samkeppni var í skólum um orkuverk og voru átta skólar valdir til að taka þátt í henni. Það var síðan Klébergsskóli á Kjalarnesi sem fékk verðlaun fyrir besta orkuverkið. Verkefni skólans fjallaði um orkugjafana, bæði hefðbundna og framtíðar. Það var bæði í formi myndverka og sem líkön. Einnig var á Orkuþingi samkeppni um orkumannvirki sem fellur best að umhverfinu. Verðlaun voru veitt í þremur flokkum. í fyrsta flokknum voru bensínstöðvar og þar fékk Olíuverslun Íslands verðlaun fyrir ÓB Bæjarlind. Í flokki smárra orkuveitna fékk Orkustöðin á Húsavík verðlaun og í þriðja flokknum voru orkumannvirki Landsvirkjunar og þar fékk tengivirki við Búrfell sem áhugavert dæmi um tækniumbætur til bóta fyrir umhverfið. Vegna almennrar ánægju og mikillar þátttöku í Orkuþingi var rætt um hvort ekki ætti að stefna að Orkuþingi á fimm ára fresti í stað tíu. Það er einnig í ljósi þess að mikið er að gerast í orkumálum og mikilla breytinga að vænta á næstu fimm árum.