Olíukyndingar saknað?

Grein Gústafs Adolfs Skúlasonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samorku, í Morgunblaðinu:

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor gagnrýnir í Morgunblaðsgrein það sem hann kallar „offjárfestingu í hitaveitum og skyldum rekstri,“ sem og fleiri viðbrögð Íslendinga við olíukreppum áttunda áratugarins. Raunar gagnrýnir prófessorinn æði margt í til þess að gera stuttri grein og er ekki ætlunin að ræða öll þau atriði hér. Áratugum saman hefur hitaveituvæðingin sparað Íslendingum tugi milljarða króna á ári hverju sem ella hefðu getað farið í innflutning á olíu til húshitunar. Vissulega myndum við líklega fremur notast við rafkyndingu að mestu í stað olíu í dag, en sú lausn er mun dýrari en jarðhitaveitan og þá væri jafnframt minna framboð af raforku til annarra nota sem því næmi, til dæmis í iðnaði. Engu að síður er áhugavert að setja kostnaðardæmið upp sem olíu annars vegar og jarðhitaveitu hins vegar. Þetta dæmi var reiknað í sumar sem leið og niðurstaðan varð sú að mismunurinn næmi 417 milljónum evra á ári hverju, eða 54 milljörðum króna. Síðan þá hefur olían raunar lækkað talsvert í verði en krónan líka og spurning hvort hægt sé að velja raunhæft gengi til slíkra útreikninga í dag.

Hér er ekki ætlunin að fara út í ítarlegar vangaveltur um fjárfestingarstefnu og verðtryggingu á áttunda áratug síðustu aldar. Það hitaveituátak sem ráðist var í má hugsanlega gagnrýna út frá einhverjum hagfræðilegum nálgunum, þar sem væntanlega er þá horft til arðsemi á eitt hundrað mánaða tímabili eða svo. Ráðist var í þetta átak víða um land og með mismiklum stuðningi stjórnvalda. Olíukreppan skall hér á í kjölfar þeirra erfiðleika sem Vestmannaeyjagosið hafði í för með sér. Að sjálfsögðu lágu engar upplýsingar fyrir um hvernig olíuverð myndi þróast í framtíðinni. Niðurstaðan er hins vegar sú að í dag státum við af einhverju hagkvæmasta og mengunarsnauðasta orkukerfi sem um getur í víðri veröld og draga verður í efa að landsmenn sakni olíukyndingarinnar, sem enn var til dæmis við lýði í stórum hluta Vesturbæjar Reykjavíkur í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar.