Óboðlegt starfsumhverfi – Samorka mótmælir úrskurði umhverfisráðherra

Stjórn Samorku mótmælir harðlega úrskurði umhverfisráðherra um að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar, um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar Suðvesturlínur, styrkingu raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi og öðrum framkvæmdum sem tengjast álveri í Helguvík. Skorar stjórn samtakanna á ráðherra að draga úrskurðinn til baka nú þegar, en ella mun hann tefja framkvæmdir um ófyrirséðan tíma auk þess að valda ómældum viðbótarkostnaði. Fram hefur komið að úrskurður ráðherra hefur að engu lögbundin tímamörk og gengur að auki gegn fyrri úrskurði umhverfisráðherra frá apríl 2008. Úrskurðurinn nú er því dæmi um afleita stjórnsýslu og algert virðingarleysi við lög í landinu. Slíkt starfsumhverfi er engum fyrirtækjum boðlegt.

Minnt er á að allar umræddar framkvæmdir fara að sjálfsögðu í umhverfismat en hugsanleg ákvörðun um sameiginlegt umhverfismat byggir á heimildarákvæði í lögum og slíka ákvörðun ber að taka að höfðu samráði við framkvæmdaraðila. Ekkert slíkt samráð hefur átt sér stað. Engin leið er að úrskurða heildstætt um hvaða framkvæmdir tengjast með þessum hætti en þær sem vísað er til eru mjög mislangt á veg komnar. Bent er á að umræddar flutningslínur munu geta flutt raforku til hvers kyns nýrrar iðnaðarstarfsemi á Suðurnesjum og frá hvaða virkjun sem er í landinu, þar með taldar nýjar virkjanir sem reistar kunna að verða í framtíðinni, þess vegna hinum megin á landinu. Vandséð er hvernig á að vera hægt að framkvæma sameiginlegt umhverfismat þar sem hugsað er fyrir öllum slíkum tengingum.

Fjórðungs hækkun orkuverðs?
Ennfremur lýsir stjórn Samorku verulegum áhyggjum af boðuðum umhverfis-, auðlinda- og orkusköttum, sem skila eiga ríkissjóði 16 milljarða tekjum á næsta ári. Skattheimtan hefur ekki verið útfærð ennþá en færi slík skattheimta beint út í verðlagið myndi það þýða 20-25% hækkun orkuverðs (á rafmagni og heitu vatni), að jafnaði, til heimila og fyrirtækja. Íslendingar hafa lengi búið að grænustu orku í veröldinni en jafnframt einhverri ódýrustu orku á Vesturlöndum. Nú stefnir í að hún verði eingöngu áfram sú grænasta. Slíkar skattahækkanir munu skerða samkeppnishæfni íslenskra orkufyrirtækja og draga úr ágæti Íslands sem fjárfestingarkosts fyrir hvers kyns framleiðslustarfsemi.