Nýtt vatnsból á Flúðum tekið í notkun

Í desember sl. var tekið í notkun nýtt vatnsból fyrir Vatnsveitu Flúða.  Vatnsveitan hefur stækkað mikið á undanförnum árum og þjónar nú nær allri sveitinni, gróðurhúsarækt, sveitabýlum og sumarhúsum, alls um 700 manns.

Farið var að bera á vatnsskorti á álagstímum. Búið var að bora 9 holur í nágrenni byggðarinnar til að leita að köldu vatni en það reyndist alltaf vera of heitt. Á kaldasta svæðinu var hitastigullinn 170°C/km.  Því var farið í að finna vatn lengra frá og virkja vatnslindir í um 11 km fjarlægð frá Flúðum í svonefndum Fagradal í landi Berghyls.  Grafið var niður á sprungu og yfir hana var sett rör og síðan steypt í kring og lokað vel.  Þessi lind gefur um 24 l/s og í næsta nágrenni er önnur lind sem áætlað er að gefi annað eins.  Hún verður virkjuð síðar. Vatnsbólin sem vatnsveita Flúða hefur notað síðustu ár, á Hrunavöllum, gáfu alls um 13 l/s í dælingu, þannig að þetta er góð viðbót.

Vatnsbólið er í 286 metra hæð og er sjálfrennandi með 15 kg þrýstingi þegar það kemur að vatnstankinum við Flúðir. Þar er vatnið 6°C sem er hæfilegt fyrir vatnsveitu.  Vatnið er leitt í 225 mm plaströrum frá Set ehf að Flúðum og í 450 tonna tank og þaðan niður að Langholti þar sem er annar tankur, 200 tonna sem þjónar byggðinni þar. Kostnaður við þessa framkvæmd var 35 Mkr en hún er fljót að borga sig þar sem bara dælukostnaðurinn sem sparast var 2 Mkr. á ári.

Öll framkvæmd við nýju vatnsveituna var í höndum heimamanna. Guðmundur Hjaltason tæknifræðingur frá Galtafelli sá um hönnun, verktakafyrirtækið Gröfutækni sá um jarðvegsframkvæmdir og Plast og Suða sá um útdrátt og samsuðu.